Mánudagur 24.10.2016 - 09:28 - Lokað fyrir ummæli

Einsleitur hópur frambjóðenda

Þegar litið er yfir aldur, reynslu og menntun þeirra sem eru í kjöri til alþingiskosninga er sláandi hversu einsleitur hópur þetta er.

Algengustu starfsheitin eru kennari, lögfræðingur, stjórnmálamaður og nemi. Tengingar við stóra hópa í þjóðfélaginu eru veikar eða vantar. Fólk á besta aldri er vart að finna í efstu sætum sumra flokka og hjá flokkunum 4 vinstra megin við miðju – borgarstjórnarflokkunum – er mengi vinnuveitenda tómt. Þá er athyglisvert að þó flestir flokkar setji heilbrigðismálin efst á blað er leitandi með ljósi af frambjóðendum með menntun og reynslu úr heilbrigðisgeiranum. Sá tími þegar læknar og annað heilbrigðisfólk með reynslu af aðhlynningu sjúkra sátu á Alþingi virðist liðinn.

Það er stundum sagt að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina og vissulega hefur mikill árangur náðst í að bæta kynjahallann en á móti er sá hluti Alþingismanna sem kemur úr heimi raunvísinda og fjármála nánast að hverfa. Mikilvægi raunvísindagreina er hins vegar alltaf að aukast þegar kemur að verðmætasköpun sem er grundvöllur velferðar, og því er áhættusamt að þurrka þessar greinar út af þingi. Líkur á rangri ákvarðanatöku aukast og trúverðugleiki og sjálfstæði þingsins skaðast þar sem þingmenn þurfa í auknum mæli að reiða sig á utanaðkomandi sérfræðinga og embættismenn til að meta forsendur við ákvörðunartöku og lagasetningu í mikilvægum málum.

Það verður athyglisvert að sjá hver verður hin endanlega samsetning Alþings eftir kosningar, en ljóst að nýliðunin verður mikil og einsleitur hópur þingmanna með þrönga aldursdreifingu og litla reynslu sem setur markið á að “endurræsa Ísland” má vanda sig vel ef ekki á illa að fara.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur