Fimmtudagur 27.10.2016 - 10:51 - Lokað fyrir ummæli

Ríkið leiðir í hálaunastörfum

Ísland er komið í þann vafasama hóp ríkja þar sem meðallaun ríkisstarfsmanna eru hærri en á almennum markaði. Í nýlegum tölum frá Hagstofunni eru 23% ríkisstarfsmanna með heildarlaun yfir 800,000 kr á mánuði en aðeins 19% launamanna á almennum markaði ná þessu marki. Þá er ótrúlegur fjöldi ríkisstarfsmann sem eru með laun yfir 1.300,000 kr á mánuði og hlutfallslega næstum því eins margir og á almennum markaði.

Þegar vinstri flokkarnir tala um jöfnuð þá er ljóst að nýr hálaunaskattur þeirra mun leggjast harðast á ríkisstarfsmenn. Kannski er þetta þáttur í falli Samfylkingarinnar?

Mun heppilegra er að berjast fyrir aukningu á hálaunastörfum á almennum markaði. Það er “win-win” fyrir bæði launþega og ríkið. En þessi leið er ekki á stefnuskrá vinstri flokkanna. Aðeins einn flokkur hefur trúverðuga stefnu í þessu máli og það er Viðreisn.

Tölur Hagstofunnar tala sínu máli. Undanfarin ár hefur verið stöðugur brottflutningur á menntuðum Íslendingum til útlanda en aðflutningur af erlendu starfsfólki í störf sem fæst krefjast háskólamenntunar. Þetta á sinn þátt í að draga launameðaltalið á almennum markaði niður. Fátt bendir til að þessi staða breytist næstu árin eða áratugina! Erum við á leið til fortíðar þar sem embættismannaaðall og auðlindakóngar drottnar yfir launafólki sem vinnur í láglaunastörfum í auðlindageiranum?

Að skattleggja ríkisstarfsmenn til að ná “jöfnuði” er skrýtin efnahagsstefna, sem kjósendur eru ekki að kaupa!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur