Laugardagur 25.02.2017 - 07:10 - Lokað fyrir ummæli

Neyðarástand hjá Icelandair

Á fimmtudaginn varð vél Icelandair til Manchester að lýsa yfir neyðarástandi vegna eldsneytisskorts. Þetta verða vélar að gera í breskri lofthelgi þegar þær eiga ekki meira eldsneyti en í 30 mín flug. Hvers vegna var vél Icelandair ekki með meira eldsneyti? Það er spurning sem vert er að velta fyrir sér.

Breska veðurstofan hafði gefið út viðvörun um mikla lægð sem gengi yfir Bretland þennan dag og gæti raskað flugi. Verst yrði veðrið um miðjan dag á norður Englandi í kringum Manchester og Liverpool. Það var því vitað að þetta yrði ekki venjulegur lendingardagur fyrir flugvélar á þessu svæði.

Vél Icelandair varð að hætta við fyrstu tilraun til lendingar í Manchester, tekur þá stefnu á Liverpool sem er næsti flugvöllur í 40 km fjarlægð en þar er ástandið ekki betra. Í þessari stöðu hefði einhver flugmaður sagt, við förum til Amsterdam og lendum þar. En vél Icelandair var ekki með nóg eldsneyti á þessum tímapunkti til að reyna annað en lendingu á Manchester flugvelli í aftakaveðri. Var Liverpool skráður neyðarflugvöllur í þessu flugi? Ef svo var, má spyrja hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá flugfélaginu miðað við aðvaranir bresku veðurstofunnar?

Oft þegar svona atvik koma upp á Bretlandi eiga í hlut lággjaldaflugfélög sem eru að reyna að gera vélarnar eins léttar og hugsast getur í sparnaðarskyni, og hafa oft ekki nóg eldsneyti í hringsól og biðflug. Hefur Icelandair lent í svona atviki áður, þ.e. að þurfa að lýsa yfir neyðarástandi vegna eldsneytisskorts? Hversu algengt er það?

Það er ljóst að ný félagsstjórn Icelandair sem tekur við í næsta mánuði fær næg verkefni. Hvernig ætlar sú stjórn að tryggja hámarks öryggi farþega og bætta arðsemi til fjárfesta? Eitt er víst, gamlar flugvélar sem fljúga eldsneytislitlar er engin lausn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur