Miðvikudagur 15.02.2017 - 01:07 - Lokað fyrir ummæli

Icelandair og SAS í eina sæng?

Á sama tíma og hlutabréf Icelandair féllu um 60% lækkuðu bréf SAS um 50%. Bæði félögin eiga við sama vanda að stríða – kostnaðarstrúktúr sem ekki er samkeppnisfær. Þá eru félögin gamaldags og hafa stofnanalegan blæ yfir sér.

Þessi vandi er ekki nýr en virðist hafa komið Icelandair á óvart. Félagið er illa undirbúið undir nýjan markaðsraunveruleika. Fyrstu viðbrögð eru að benda á nýjar flugvélar og sveigjanlegri fargjaldastrúktúr sem lausn. En þetta mun ekki leysa vandann eins og SAS þekkir mæta vel. Lággjaldaflugfélögin eru nefnilega með nýjustu og hagkvæmustu flugvélarnar og leiðandi í bókunartækni.

Nýjar vélar Icelandair, 737 MAX hafa að mestu leyti verið pantaðar af lággjaldaflugfélögum og bandarískum flugfélögum til innanlandsflugs. Þetta eru þrengri vélar en t.d. Airbus 320/321 og því er hætta á að 737 vélarnar verði samnefnari fyrir lággjaldaþjónustu. Fáir farþegar eru tilbúnir til að borga extra fyrir að ferðast með 737 yfir hafið.

Stefna sem byggir á nýjum lággjalda 737, gömlum 757/767 og norrænum kostnaðarstrúktúr er vægast sagt áhættusöm í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á mörkuðum Icelandair. Icelandair er ekki lengur í þeirri stöðu að geta skilgreint sig sem „Boeing félag“ og þar með lokað á möguleika sem gæti fært þeim samkeppnishæfari flugvélar, eins og t.d. Airbus 321neo. Hagsmunir Boeing og Icelandair fara ekki endilega saman.

Ný félagsstjórn Icelandair verður að hafa þekkingu, reynslu og kjark til að setja félaginu samkeppnishæfa stefnu sem tryggir Icelandair áframhaldandi leiðandi stöðu meðal flugfélaga sem fljúga til og frá landinu. Það verður hvorki auðvelt né sársaukalaust verk eins og reynslan frá SAS sýnir. Það er ekki ósennilegt að á endanum muni samkeppnisþrýstingur frá Wow – Norwegian samfara endalokum 757 vélanna koma Icelandair og SAS í eina sæng.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur