Þriðjudagur 07.03.2017 - 12:11 - Lokað fyrir ummæli

Lífeyrissjóðir hækka fasteignaverð

Þegar vextir lækka getur fasteignaverð rokið upp, þ.e. vaxtalækkunin getur öll lent í vasa eigenda fasteigna. Þetta gerist þegar eftirspurn eftir fasteignum er meiri en framboð.

Það er alveg ljóst að ef raunvextir myndu lækka í dag færi öll sú lækkun til seljandans í formi hærra verðs. Þar með myndi útborgunarkrafan hækka og enn erfiðara yrði fyrir ungt fólk að komast inn á markaðinn. En þetta hefur einmitt verið að gerast frá hruni og á sinn þátt í hækkuðu fasteignaverði.

Ef litið er á tímabilið frá 2009 til 2016 sést að verðtryggðir vextir á húsnæðislánum voru nálægt 5% í byrjun kreppunnar en hafa síðan lækkað niður í 3.5% eftir því sem hagvöxtur hefur aukist. Þetta er vaxtarstig sem Seðlabankinn ræður illa við. Það eru í raun bankarnir og síðan lífeyrissjóðirnir sem hafa leitt þessa raunvaxtalækkun, sem á sér rætur í markaðsaðstæðum innan gjaldeyrishafta, á sama tíma og hagvöxtur hefur rokið upp og mikill ójöfnuður er á framboði og eftirspurn húsnæðis. Afleiðingin er mikil hækkun fasteignaverðs. Það sem vill stundum gleymast í umræðunni um fasteignaverð er hlutverk verðtryggðra lána og hvernig þau styðja við hækkun á eignaverði.

Lífeyrissjóðirnir eiga stóran hlut í hækkun fasteignaverðs síðan 2015, þegar þeir fóru að bjóða upp á enn hagstæðari lán en bankakerfið. En áhrif lífeyrissjóðanna á fasteignaverð eru líklega enn meiri en nemur lækkun vaxta og auðveldara aðgengi að lánum, því þeir eiga hluti í fasteignafélögum sem ryksuga upp eignir og draga því úr framboði eigna á hinum almenna markaði. Eldri meðlimir lífeyrissjóðanna, sem eru fasteignaeigendur, hafa tvímælalaust grætt á þessum inngripum sjóðanna. Einhver myndi hins vegar segja að lífeyrissjóðirnir hafi gert yngstu meðlimum sínum bjarnargreiða.

Það er orðið löngu tímabært að yfirhala lög um lífeyrissjóði. Sérstaklega þarf að huga að fjárfestingum lífeyrissjóðanna sem snerta húsnæðismarkaðinn. Það er t.d. umhugsunarvert hvort lífeyrissjóðir eigi að geta fjárfest í leigufélögum, sem kaupa íbúðir á endursölumarkaði, og leigja síðan út til félagsmanna sömu lífeyrissjóða? Ef lífeyrissjóðirnir vilja hjálpa meðlimum sínum sem leigja, er það best gert með því að stækka markaðinn og fjárfesta í nýbyggingum.

En lífeyrissjóðirnir þurfa líka að hjálpa þeim sem vilja eignast eigið húsnæði. T.d væri hægt að láta hluta af iðgjöldum í lífeyrissjóði renna inn í séreignarsjóð sem félagsmenn geta síðan ráðstafað upp í útborgun á fyrstu íbúð. Þegar íbúðin er síðan seld rennur útborgunarhlutinn ásamt hlutfallslegum ávinningi aftur inn í séreignasjóðinn. Þannig verður íbúðin hluti af lífeyrissparnaði fólks. Það þarf að hjálpa fólki með útborgunina. Allar aðgerðir sem miða að því að „niðurgreiða“ markaðsvexti fara strax út í verðlagið.

Og það er hlutverk lífeyrissjóðanna að hjálpa næstu kynslóð til að eignast þak yfir höfuðið, því þar liggur fjármagnið. Allt sem vantar er ný uppfærsla á lífeyriskerfinu, sem lagar það að raunveruleika 21. aldarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur