Miðvikudagur 22.03.2017 - 09:39 - Lokað fyrir ummæli

Áhættufjármagn ríkisins

Hátt í 500 ma kr. í eigu ríkisins liggja sem áhættufjármagn á bókum íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta er fjármagn í fyrstu víglínu og mun tapast fyrst lendi bankar í erfiðleikum eða taprekstri. Þetta er þvert á alþjóðlegar aðgerðir, sem frá 2008 hafa miðað að því að velta áhættunni í bankarekstri af ríki yfir til einkaaðila, enda gera þær reglur ekki ráð fyrir að skattgreiðendur séu t.d. aðaleigendur að fjárfestingabankastarfsemi, sem stundum er kölluð spilavíti bankageirans.

Menn segja stundum að íslenskir bankar séu með öruggustu bönkum heims því eiginfjárhlutfallið sé svo hátt. En öruggir fyrir hvern? Ekki íslenska skattgreiðendur heldur erlenda fjárfesta sem kaupa skuldabréf. Skuldabréfaeigendur vita að áður en kemur að þeim að taka á sig tap er íslenska ríkið í fyrstu röð með milljarða stuðpúða til varnar einkageiranum. Þá reyna yfirfjármagnaðir bankar lítið á stjórnendur og geta skapað falskt öryggi.

Á meðan vantar peninga í samgöngumál, heilbrigðismál osfrv. Þetta er nú frekar öfugsnúin forgangsröðun, sem þarf að taka á. Og viðvörunarljósin eru farin að blikka. Stærsti banki ríkisins, Landsbankinn, tilkynnti að arðsemin á síðasta ári hefði verið 6.6% í 7.2% hagvexti. Sumir fjárfestar eru farnir að íhuga hvert stefni hjá þessari stofnun þegar hagvöxtur fer að minnka, vanskil að aukast og vextir að lækka. Kannski ætti Bankasýslan að byrja á því selja fjárfestingabankastarfsemi Landsbankans og þar með einfalda reksturinn og minnka áhættugrunninn. Slík sala gæti líka hjálpað stjórn bankans að finna loksins hagkvæma lausn á áratuga húsnæðisvandamáli, enda er ekki forsvaranlegt að ríkisstofnun kaupi dýrustu lóð landsins og láti standa ónotaða árum saman, engum til gagns. Slíkt ber ekki merki um góða stjórnarhætti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur