Það er skrýtið eftir viðburði vetrarins en svona er það: Þessar kosningar markast af því að einn flokkur leggur fram skýra leið út úr vandanum. Það er ekki gefið að okkur heppnist hún – en ekkert framboð hefur lagt fram aðra betri og sumir láta sér nægja eintóm töfrabrögð.
Þetta er umsókn um aðild að Evrópusambandinu með evruna að helsta keppikefli – og í samningaviðræðunum yrði efst á dagskrá hvernig krónan kemst sem fyrst í skjól evrunnar þannig að traust aukist á gjaldmiðlinum og hagkerfinu.
Umsóknin er grundvöllur þeirrar stefnu um vinnu og velferð sem Samfylkingin hefur líka lagt fram – því það bara verður engin vinna og engin velferð ef Ísland lendir í öðru áfalli – fer aftur á hausinn, einsog Benedikt Jóhannesson hjá Heimi hefur skrifað um í bestu grein kosningabaráttunnar (http://heimur.is/heimur/Search/news/Default.asp?ew_0_a_id=322873).
Aðild að Evrópusambandinu er mikið skref fyrir fámenna þjóð sem vill halda fast um sjálfstæði sitt. Munum samt að við erum nú þegar aðilar að ESB uppá 70–80% – höfum þó engin formleg áhrif – og munum líka að innan sambandsins una hag sínum margar stoltar þjóðir sem teljast smáar á heimsvísu: Danir, Svíar, Finnar, Írar … Allar líkur benda til að við getum samið okkur til óbreyttra raunverulegra yfirráða á gjörvöllum fiskimiðum okkar. Allar auðlindir okkar haldast í íslenskum höndum – ef við raunverulega viljum. Landbúnaðurinn verður erfitt samningsmál – en þar getum við líka náð viðunandi samningum ef að líkum lætur miðað við samninga Svía og Finna – þótt tollvernd verði létt af rándýru „íslensku“ kjúklinga- og svínakjöti.
Stóra málið er auðvitað evran. Strax og ríkisstjórnin sendir af stað póstkortið um að við viljum semja breytist afstaðan til íslensku krónunnar. Hún verður ekki lengur efniviður í næstu eða þarnæstu áramótabrennu heldur vita menn hér og heima að hún breytist að lokum í evrur, og verður innan skamms varin með vikmörkum í samflotskerfi við gjaldmiðil Evrópusambandsins.
Það er satt að segja undarleg staða að Samfylkingin skuli vera eina framboðið sem segir þetta skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn meldar pass til að forðast klofning. VG segir nei (en hvíslar svo kannski, kannski, kannski). Frjálslyndir segja nei (aldrei, aldrei, aldrei). Og Framsókn, sem lengi hefur þó gert sér grein fyrir kostum aðildar og evru, velur sér enn einu sinni töfralausnirnar umfram ábyrga afstöðu.
Hvert vilja þeir?
Eða hvert vilja þeir? Hver er framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og svo framvegis án evru og Evrópusambandsaðildar? Hefur einhver heyrt um það talað?
Staðan er einfaldlega þessi: Bara Samfylkingin er með sitt á hreinu. Auðvitað er Samfylkingin ekki upphaf og endir allrar pólitíkur. Það er rétt: Hún stóð sig alls ekki nógu vel í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum, og það er líka rétt: Meðal forystumanna í Samfylkingunni eru því miður beggja handa járn í umhverfismálum. Hún er með góðu og illu breiður flokkur fólks sem er ólíkrar skoðunar um margt en hefur samt sameinast um grunngildi jafnaðarstefnunnar. Og kosið sér að formanni Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nýtur óskoraðs álits almennings sem réttsýnn, heiðarlegur og duglegur stjórnmálamaður.
Núna skiptir mestu máli – og er kannski það eina sem skiptir máli – að þessi flokkur er með færa leið úr vandanum. Þessvegna er mikilvægt að Samfylkingin og Jóhanna fái mikið fylgi á laugardaginn.
Það eru margir sem mundi vilja sjá Ísland í ESB þegar til lengri tíma er litið en það að stilla meirihluta þjóðarinnar sem ekki er enn sannfærður um að ganga í ESB upp við vegg, miða að henni fallbyssu og segja: „ESB eða lífið“ er ekki rétt aðferð.
Það tekur mörg ár að ganga í ESB, og ár eða jafnvel áratug að fá Evru svo það verður að finna alvöru lausnir til að brúa bilið…
Að kljúfa þjóðina í herðar niður útaf þessu máli núna þegar við þurfum sem mest að standa öll saman er líka mjög neikvætt. Persónulega finnst mér að í stóru máli eins og ESB þar sem hluta af fullveldi er framselt ættu 2/3 þjóðarinnar að þurfa að samþykkja til að framtíðarsátt náist í þjóðfélaginu…
Þetta er alrangt hjá þér, RB. Samfylkingin er ekki að stilla mönnum upp við vegg og bjóða „ESB eða lífið“.
Hinsvegar hefur Samfylkingin ein flokka viljað fara í aðildarviðræður sem fyrst til að fá skorið úr um hvað fælist í aðildarsamningi, og leggja síðan þann aðildarsamning í dóm þjóðarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn gerði tilraun á landsfundi sínum að hafna alfarið aðild að ESB en breytingartillaga var samþykkt um að fara í tvöfalda atkvæðagreiðslu til að eyðileggja málið. Framsókn er fylgjandi aðild en mætir til leiks með svo stíf skilyrði að menn ganga örugglega frá borði með engan samning. VG er á móti aðild að ESB skv landsfundarsamþykkt en hefur ekki hafnað viðræðum. Samkvæmt landsfundarsamþykkt mun VG væntalega hinsvegar hafna öllum samningum.
Samfylkingin er eini kosturinn fyrir þá sem vilja láta reyna í alvöru á aðildarviðræður við ESB með það að markmiði að öðlast aðild og taka upp Evru. Ég hvet þig til að lesa grein Benedikts Jóhannessonar sem Mörður vísar til. Eins og Benedikt hef ég kosið Sjálfstæðisflokkinn til þessa en ætla að kjósa Samfylkinguna nú. Ég er reyndar hissa á að Benedikt og aðrir innan Sjálfstæðisflokksins sem eru sama sinnis í ESB málum ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn áfram á þessum tímamótum, einmitt þegar Styrmir Gunnarsson og hinn sterki armur íhalds- og heimastjórnarstefnu hefur lýst yfir fullnaðarsigri innan flokksins gegn ESB umræðu. Þessum atkvæðum er kastað á glæ. Að greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði í dag er að greiða atkvæði gegn umræðu um Evrópumálin næstu árin.
Hvert vilja hinir!! Haaaaa? Það eru ESB sinnar sem vilja annað. Við hin erum bara hér, í staðinn fyrir að halda að grasið sé alltaf grænna annarsstaðar. En jæja, það er það hugsanlega í bókstaflegri og lífrænni merkingu, en svo sannarlega ekki lífvænni. Ég þekki marga sem búa innan ESB múranna. Sumir hafa verið þar lengur, en aðrir skemur. Þeir virðast þó sammælast um tvennt. Atvinnumöguleikum hefur fækkað og matvælaverð rokið upp, eftir inngöngu þjóðanna. Semsagt; nauðsynlegustu þátta til lífsafkomu íbúa hefur hrakað. Nýbúar innan sambandsins horfa nú á óeirðir á götum í mótmælaskyni vegna bágrar stöðu, en fá enga hjálp. Búsáhaldabyltingin hér var eins og kvenfélagsfundur í samanburði. Flestir Bretar sem ég þekki, ganga skrefinu lengra, og tala um ESB sem staðnað skrifræðisbákn sem ætti best heima í sirkus. ESB er nánast algjörlega háð innflutningi á orku. Það eru litlir gradíantar í gangi, hvort heldur er í frumkvöðlastarfsemi, eða annarri. Eftir örfá ár munu lífeyrisskuldbindingar sliga ríkin, og ekki víst að nógu margir náist í vinnu til að semja fleiri reglugerðir. En það er kannski bara jákvæður punktur. Svona mætti áfram lengi telja, en ég vil biðja ykkur ESBusinnnana um eitt. Flytjiði bara þarna út og leyfið okkur hinum að byggja aftur upp landið okkar, Ísland. Eftir tíu ár eða svo, þá kannski leyfum við ykkur að flytja aftur heim í hlýtt húsnæði í þessu fallega landi.
Bon voyage.
Mörður – ætlar SF sem sagt að koma Íslandi í ESB hvað sem það kostar?
Er SF svo örugg með sjálfa sig að þið fáið góðan samning við ESB?
SF stóð sig einmitt svo vel í stjórn með sjálfstæðisflokknum – góð meðmæli og eykur trú fólks að Ísland undir stjórn SF sé í stakk búið að ná góðum samningi. Hvað vitum við síðan um samningsvilja ESB?
Er SF sammála að einu leyti – förum í aðildarviðræður – þjóðin hafnar aðild ef þetta er léglegur samningur.
Hef bara litla trú á samningsvilja ESB og enn minni trú á samningsgetu þeirra sem koma til með að stjórna landinu eftir kosningar.
Jóhannes – Grein Benedikts, sem harðir ESB-sinnar vitna í endalaust, er einmitt mjög gott dæmi þar sem greinilega verið að stilla þjóðinni upp við vegg:
„Síðustu forvöð – Það er ekki bara fyrirsjáanlegt „seinna hrun“ sem gerir það að verkum að brýnt er að sækja um aðild að ES… – 1. Stórfyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi – 2. Útlendingar þora ekki að fjárfesta á Íslandi – 3. Fáir vilja lána Íslendingum peninga – 4. Þeir sem vilja lána þjóðinni gera það gegn okurvöxtum – 5. Atvinnuleysi, vaxtaokur og gjaldþrot verða viðvarandi – 6. Þjóðin missir af Evrópulestinni næstu tíu ár – 7. Íslendingar verða áfram fátæk þjóð í hafti “
Við þurfum hreinskilnar umræður um kosti og galla, ekki endalausan hræðsluáróður á báða bóga…
Það væri svolítið forvitnilegt að sjá hvernig VG + D + B myndi farnast við að stjórna eftir kosningar án ESB umsóknar auðvitað!
RB
Ég held að Benedikt hafi því miður rétt fyrir sér og ég er langt í frá einn um þá skoðun. Og því miður mun reynslan skera úr um hvort dökk spá hans rætist þar sem ég tel að ESB andstæðingar munu hafa sitt fram og koma í veg fyrir aðildarviðræður um langa hríð.
Dísa
Þú þekkir greinilega bara neikvætt fólk í Evrópu. Það vill svo til að ég þekki töluvert af fólki innan Evrópu og hef reynslu af rekstri innan ESB og hef allt aðra sögu að segja. ESB er engin paradís á jörðu en gefur tækifæri á stöðugleika fyrir efnahagslífið ef stjórnvöld viðkomandi ríkja haga sér almennilega í eigin efnahagsstjórn. Þær þjóðir sem eru að fara verst út úr kreppunni, s.s. Írland kom sér sjálft í þá stöðu eins og Ísland, þ.e. ofvaxið bankakerfi, óráðsía og græðgi. Óstjórnleg þensla á byggingamarkaði var fjármögnuð af bankakerfinu. Írar voru með mun hærra jafnaðaratvinnuleysi en við þannig að breytingin er Íslandi enn í óhag. Okkur er nær að líta til annarra Norðurlandaþjóða, s.s. Svía, Finna og Dana sem hafa svipaða samfélagsgerð og við, þau lönd eru að verða fyrir áhrifum heimskreppunnar en fara að öllum líkindum miklu betur út úr henni en við.
Stefán
Ef þetta á að vera stjórnarmynstrið og nota á íslenska krónu um langa framtíð, væri ekki eðlilegt að fá stefnu D og VG í gjaldmiðlils- og peningamálum? (Tek ekki þennan aulabrandara Bjarna um einhliða Evruupptöku með aðstoð AGS með).
Staðreyndir og einfaldleiki.
EU tekur 1-4 ár að komast í gegn og breytir engu um ástandið næstu mánuði, trúverðuleiki eykst smá saman en hefur trúlega ekki áhrif að ráði fyrr en síðla nasta árs.
Og við getum ekki beðið með aðgerðir þangað til.
Evran væri góður kostur eins og ástatt er, en það tekur langan tíma að fá Evru með inngöngu í EU allt að 10 ár ef hagstjórn hér á landi væri frábær.
Hvað ætlar Samfylkingin að gera strax, ekki þetta hálfkák sem hefur verið í gangi.
Fullyrðing að heimili og atvinnulíf geta ekki borgað þessa háu vexti.
Vextir lækka, og þá á að setja hærri skatta , getur sá er ekki getuð borgað vexti getur hann borgað skatta.
Hærri fjármagnstekjuskattur (sem ég væri undir venjulegum kringumstæðum hlyntur) þýðir einfaldlega hærri vexti.
Getur heimili sem hefur farið varlega og á sína húseign skuldlitla en báðar fyrirvinnur atvinnulausar borgað hærri skatta hvort sem er tekjuskatta eða eignaskatta. Og til að bæta gráu ofan á svart borga eignaskatt af fasteignaverðmati sem er úti í hött. Því samkvæmt lögum verður því ekki breytt til lækkunar á næstunni.
Ef fólk kýs ekki eða skilar auðu þá er það ekki að taka afstöðu til þessara mála.
Gott mál að sækja um og reyna að ná samningi sem þjóðin samþykkir, en munið Norðmenn eru búnir að fella tvisvar, komið með lélegan samning og Ísland fer ekki í EU næstu 50 árin.
Langloka, getur þú svarað því Mörður, ef tekin yrði upp evra um áramótin, á hvaða gengi væru íslensku krónurnar þá keyptar á í staðin fyrir evrur? Núna er gengið í ca 170 kalli. Þeir sem eru með erlend lán eru að sligast, þeir sem eru með íslensk lán eru ekki jafn illa settir. Ef allir fengju erlend lán, þá væru allir að sligast. Er það gott?
Svona lykilmál hafa ekkert verið rædd. Samfylking hefur bara talað í einhverjum frösum og upphrópunum um að þetta „verði að gera“ og að „enginn nema SF viti hvað þeir gjöra“. Venjulegt fólk nennir ekkert að hlusta á svona gapuxa tal. Spilin á borðið kallinn minn. Hvað gæti íslensk alþýða þurft að selja lífeyrissparnaðinn til að komast inn í þennan klúbb? Er Gylfi Arnbjörnsson að selja lífeyrissparnað umbjóðenda sinna fyrir slikk?
Koma svo Mörður minn, ekki tala í frösum eða upphrópunum. Segðu okkur nú bara í tölum hverju við megum búast við að ná?
Jóhannes – Auðvitað verða næstu ár erfið en Ísland á mikinn auð í velmenntuðu fólki og öðrum auðlindum. Það eru að mínu mati stór mistök hjá Samfylkingu og öðrum hörðum ESB-sinnum að tala stanslaust niður vonir okkar þjóðar og segja að við séum glötuð án ESB. Þó að margir væru til í að fara í ESB, af ýmsum ástæðum, eru mikið færri sem vilja fara þar inn í örvæntingu og á hnjánum…
ESB er fyrir ræfla sem hvorki kunna né treysta sér til stjórna sínum eigin málum. ESB er fyrir fólk sem vill forræðishyggju þar sem allt er ákveðið af miðstýrðu valdi.
Hvað á Ísland t.d. sameiginlegt með Grikklandi eða Króatíu? – og eigum við að lúta sömu lögum og efnahagsstefnu og þessi lönd sem búa við allt annað efnahagslegt mynstur.
Það er verið að hræða fólk með því að við séum dauðadæmd ef við gögnum ekki ESB. Þvílíkt lýðskrum og hræðsluáróður.
Það hrynur einungis allt hér ef við viljum það sjálf. Mér sýnist að þessi vesæla ríkisstjórn sé að stuðla að því til þess að þvinga fólk til að játast ESB.
Og á hvaða gengi á að taka krónuna upp í Evru? Núverandi gengi? Jahá. Þá yrðum við láglaunaland innan ESB og það að eilífu. Það yrði ekki aftur snúið frá því. Þetta myndi án efa gleðja SA, en hvað með aðildarfélaga ASÍ?
Það yrði nú ekki ónýtt að fá 350.000 króna mánaðurlaun umbreyttumí 2.200 EUR á mánuði miðað við núverandi gengi, þegar meðalmánaðarlaun í ESB-löndunum eru ca. 4.500 EUR.
Svo er sagt að vextir séu lægri í ESB-löndum sem er rétt, en þar borgar fólk líka mun hærri þjónustugjöld í bönkum en við gerum hér.
RB
Mín meginrök fyrir því að ganga í ESB, tengjast sem fyrst Evru gegnum ERM II og taka svo upp Evru eru þau að endanlegur dómur er fallinn yfir íslensku krónunni sem ónýtri mynt sem mun kosta íslensk fyrirtæki og einstaklinga gríðarlegan kostnað og óþægindi að halda úti.
Ég hef tengst atvinnurekstri á Íslandi og erlendis í allmörg ár sem nær alveg aftur til þess tíma er Gjaldeyriseftirlitið hið fyrra skammtaði fyrirtækjum og námsmönnum úr lófa, ég vann í rekstraumhverfi óðaverðbólgu og gengisfellinga sem var öllum atvinnurekstri oft gríðarlega erfitt. Ég batt vonir við að tilraunin með að fleyta krónunni með verðbólgumarkmiðum Seðlabankans myndi bera árangur (fastgengisstefnan var gengin sér til húðar eins og hún var framkvæmd) en nú hefur sú stefna beðið hrikalegt gjaldþrot. Þau tímabil sem gáfu mönnum vonir um að stöðugleiki væri að nást voru mýrarljós. Afleiðingin af peningastefnunni er m.a. gríðarlegur vandi vegna krónueignar erlendra fjárfesta (sem fór hæst í 8-900 milljarða en var áætluð 400 milljarðar í nóvember sl.) og heldur krónunni í þvílíkum gjaldeyrishöftum að nánast er bannað að eiga viðskipti með hana. Þetta mál er stórhættuleg snjóhengja yfir íslensku efnahagslífi og er enn óleyst. Líklega munum við búa við gjaldeyrishöft um töluverðan tíma og enn gæti þrýstingur vegna krónubréfanna leitt til verulegs falls gengis krónunnar með skelfilegum afleiðingum. En á sama tíma og spákaupmenn voru að byggja upp krónustöður vegna vaxtamunaviðskipta (NB hinir háu vextir voru afleiðing peningamálastefnunnar) fóru aðrir, sem töldu að nú væri misvægi í hagkerfinu að snúast við, og tóku stöðu gegn krónunni. Afleiðingin varð sú að gengisfallið varð miklu hraðara en menn væntu og markaðsaðstæður gáfu tilefni til, og endaði síðan í hruni krónunnar. Þetta einfalda dæmi um áhrif spákaupmennsku fárra aðila sem spila á misvægi sem alltaf kemur upp í hagkerfinu, sýnir glögglega hversu nakin íslenska krónan er fyrir svona árásum. Fleiri dæmi mætti nefna. Afleiðingin er m.a. sú að íslenskt fyrirtæki sem ég er aðili að og var með sterka eiginfjárstöðu 2007 og stóð fremur litlum fjárfestingum það ár, er nánast tæknilega gjaldþrota í dag. Þetta er rekstrarumhverfi íslensku krónunnar og hefur reyndar verið í áratugi.
Mjög margir hafa slæma reynslu af íslensku krónunni í dag og telja hana ekki góða framtíðarlausn. íslenska krónan er ávísun á gengissveiflur, verðbólgu, háa vexti, áframhaldandi verðtryggingu og auknar árásir spákaupmanna sem eru betur vopnaðir þekkingu nú en áður.
Ekki virðist raunhæft að taka upp aðra mynt en Evru, ef myntin á að hafa bakstuðning í öflugum seðlabanka. Evrumhverfið býður upp á miklu meiri stöðugleika, lægri vexti, lægri verðbólgu og trúverðugleika (nokkuð sem krónan og hagkerfi Íslands með krónu er búið að missa). Auk þess fylgja ýmsir kostir því að ganga í ESB – eins og gallar. Ég hef einnig áralanga reynslu af rekstri innan ESB og það er engum blöðum um það að fletta að rekstrarumhverfið er allt miklu stöðugra og á flestan hátt betra. Haldið hefur verið uppi rökum fyrir að fyrirtæki flytji höfuðstöðvar úr landi. Ekki er tekið tillit til þess hve mörg fyrirtæki hafi verið stofnu erlendis vegna rekstrarumhverfisins, eins og var í mínu tilfelli. Það er rekstur sem upphaflega átti að stofna á Íslandi.
Af þessum ástæðum tel ég nauðsynlegt að sækja um ESB aðild og láta þjóðina kjósa um saminginn. Verði aðild ekki samþykkt er það lýðræðisleg niðurstaða. Þeir sem ekki sætta sig við hana geta greitt atkvæði með fótunum. Það er auðveldar en margur heldur.
Það er alltaf talað um kostina við að ganga í ESB og taka upp Evruna.
Svo er á móti alltaf talað um kostnaðinn við að halda í krónuna.
En hefur einhver reiknað út kostnaðinn við að vera með Evruna??
Það er nú ekki bara sól og sæla að vera með Evru eins og Samfylkingar-ESB-trúboðið heldur fram?
Eins og ESB setja dæmið upp, þá eru bara kostir við það að vera í ESB og vera með Evru, engir lestir.
Ergó, við að gangast ESB á hönd mun ríkja hér eilíf efnahagsleg alsæla og aldrei koma hér kreppur. Alsælulyfið hér er E-taflan; EVRA, segja ESB-sinar.
Hvað eru t.d. Spánverjar, Grikkir, Portúgalar og Ítalir að greiða fyrir það að vera með Evruna, bæði beint og óbeint?
Og er ekki stöðugt og langvarandi atvinnuleysi í ESB-löndunum einmitt einn af kostnaðinum við að vera með Evru?
Það væri gaman að fá einhverja af okkar mörgu hagfræðingum til að gera úttekt á þessu? Fyrr væri ekki hægt að fá raunhæfa mynd af ESB.
Samfylkingin ætti að auglýsa svona:
Við ísl. stjórnmálamenn gátum ekki gripið til neinna aðgerða í aðdraganda Bankahrunsins af því að þá hefðum við farið gegn hagsmunum þeirra sem voru nýbúnir að veita flokkunum milljónastyrki.
Til þess að forðast annað hrun er því best að leita skjós innan EU.
Jóhannes er með Stockholm Syndrome. Hann talar um að erlendir aðilar hafi tekið stöðu á móti krónunni sem hafi ollið hruni ,og því verðum við að treysta hinum sömu til að hugsa um okkur. Er ekki allt í lagi Jóhannes?
Dísa – þú gerir ráð fyrir að þessir erlendu aðilar séu Evrópusambandið? Eða eru allir „erlendir aðilar“ eitthvað slæmt í þínum huga?