Miðvikudagur 22.04.2009 - 12:00 - 16 ummæli

Ekki gera ekki neitt

Kannanir segja að margir ætli að skila auðu á laugardaginn – og auðvitað er það afstaða í sjálfu sér, svona einsog að sýna puttann. En þegar það er búið gerist ekkert meira. Sá sem skilar auðu ákveður að láta aðra ákveða. Hann gerir ekki neitt.

Ýmsir segjast líka ætla að kjósa Borgaraheyfinguna eða Ástþór – nú eða hinn fallandi Frjálslynda flokk. Enn er líklegast að ekkert þessara framboða nái inn manni – og þótt eitthvert þeirra kæmist yfir 5% og færi á þing með 2, 3 eða 4 hefði slíkur þingflokkur lítil áhrif. Þessi kjósendur eru ekki að gera neitt.

Flokkar sem bjóða töfralausnir, 20% eða 50%, evru bakdyramegin eða nei-umsókn, þeir leysa ekki vandann sem fólk er í núna – og bjóða enga sýn til framtíðar. Sá sem kýs Framsókn er ekki að kjósa neitt – og sá sem kýs Sjálfstæðisflokk er að kjósa meira af því sama. Og sá sem kýs VG tekur enga afstöðu í meginmáli kosninganna, um ESB og evru.

Þetta er einsog í rukkaraauglýsingunni: Ekki gera ekki neitt. Sá sem gerir það þarf alltaf að borga meira seinna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Blandarinn

    Ég neita að ganga til kosninga þar semég fæ ekki að vita hvort ég er að kjósa til Alþingis eða á Litla-Hraun.

  • Nákvæmlega. Það er verst af öllu að kjósa ekki.

    Þeir sem eru í vandræðum eiga einfaldlega að nota útilokunaraðferðina:

    Aðeins einn flokkur hefur það að markmiði að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er heillavænlegasta og heilbrigðasta skref sem Ísland getur stigið inní framtíðina.

    Nú er nefnilega kosið um framtíð eða fortíð.

    Kjósum Samfylkinguna! – þó ekki væri nema bara vegna Evrópumálanna.

  • Þessi færsla minnir helst á gamla skopmynd sem sýnir Þrjár kýr standa uppréttar á afturlöppunum, berandi kröfuspjöld um hálsinn með orðunum: „EAT MORE CHICKEN.“ (Setti til gamans link á myndina í nafnið mitt.)

    Boðskapur færslunnar er: Allir hinir eru vonlausir, þess vegna er best að kjósa okkur.

    Ég kaus Samfylkinguna síðast og líka 2003. Hef bara ekki áhuga á velferðarbrú til Brussel og kýs annað núna.

  • Hvað með þinn flokk Mörður? Á ég að kjósa siðspillta stjórnmálamenn sem allt bendir til að hafi verið mútað af fyrrum bankmönnum þessara þjóðar?

    Á ég að kjósa þig og þinn flokk á þing sem hefur sofið á verðinum og voruð á fullu að kynna velheppnaða útrás hjá útrársvíkingunum s.b.r. Össur í Dubai með Rei liðinu. Ingibjörg Sólrún í Kaupmannahöfn með Sigurði Einarssyni og Jóni Ásgeir.

    Þetta segi ég við þig af því þú ert að gera lítið úr litlu framboðunum. Hvað hef ég í hendi að þið í Samfylkingunni bakkið ekki út úr loforðinu um að ganga inní EB eftir kosningar? Mér sýnist bandalag ykkar og VG standa á brauðfótum og sé í raun sprungið.

    Að endingu þetta Mörður. Þið í Samfylkingunni eruð eins og lítil börn öll komin undir pilsfaldinn hjá mömmu (Jóhönnu) eftir að hafa verið óþekk og nú á mamma að bjarga öllu. Jóhönnu er vorkunn að vera svona vinsæl og virtur stjórnmálaforingi, en hennar vandi er sá að þurfa vera burðast með handónýtt lið með sér á erfiðri vegaferð.

  • Gunnar Jóhannsson

    Samfylkkingin er með stærstu töfralausnina þ.e. að sækja um aðild að ESB. Samfylkingin getur hins vegar ekki sagt kjósendum hvaða markmiðum við þurfum að ná í aðildarviðræðum. Það er furðulegt að stjórnmálaflokkur sem hefur haft þetta evrópumál sem sitt aðalbaráttumál svo árum skiptir geti ekki lagt á borðið útfærðar hugmyndir um samningsmarkmið. Samfylkingin ætlar semsagt ganga í ESB sama hvað það kostar og það hræðir mig.

    Þú ættir að vita það best sjálfur að þjóðin á það til að kjósa yfir sig tóma vitleysu enda hefur þú oftar verið í minnihluta en ekki. Þannig óttast ég að Samfylkingin beri á borð fyrir þjóðina handónýtan samning sem svo slysalega vildi til að hún samþykkti.

    Annars dáist ég að hógværð þinni í garð annarra stjórnmálaflokka og þeirra hugmynda. Þetta er dyggð sem prýðir góðan stjórnmálamann.

  • Ibba Sig.

    Rök þín gegn Borgarahreyfingunni eru í besta falli kjánaleg. Hvar liggja annars mörkin? Eiga kjósendur bara að velja flokka sem líklegt er að nái inn 10 mönnum eða fleiri?

    Eyddu frekar kröftunum í að segja okkur hvað Samfylkingin ætlar að gera eða færa okkur mótrök gegn því sem aðrir flokkar eru með á stefnuskrá sinni. Við kjósendur metum svo þann málflutning og veljum eftir því.

    Ég á eftir að velja á milli Samfylkingar (minn flokkur frá stofnun hans) og Borgarahreyfingar en því fer fjarri að ég láti svona málflutning ráða því hvar atkvæði mitt lendir. Og ég held að svo sé um fleiri.

  • Það að kjósa VG felur í sér afstöðu til ESB. Þá afstöðu að vilja ekki sækja um aðild. Ef allir kysu á þeim forsendum sem þú gefur þér, væru flestir flokkar ekki til. Þeir byrja nefnilega yfirleitt með lítið fylgi. Hvað heldur þú til dæmis að VG hafi mælst með mikið fylgi fyrir tíu árum? Ég er samt sammála því að helst væri betra að skila ekki auðu. En kannski geta sumir alls ekki sætt sig við neinn þeirra flokka sem eru í framboði. Persónukjör er framtíðin! Þeir einstaklingar sem fá hæstu atkvæðin fá ráðherrastólana. Síðan fer fram lýðræðislegt kjör meðal þeirra um hvern þeir vilja helst skipa í hvaða embætti. Nafnlaus kosning sem tæki innan við dagsverk. Þá er raunverulega kosið um mann og málefni.

  • Tek undir með Ibbu. Það er mjög eðlilegt fyrir þá sem eru óánægðir með 4-flokkinn og aðgerðarleysið og spillingarfnykinn af Samfylkingunni að kjósa Borgarahreyfinguna. Atkvæðið ónýtist ekki líkt og ef skilað er auðu eða setið heima.
    En ég veg þetta og met fram á kjördag, kannski fær Samfylkingin mitt atkvæði fyrir rest, enda horfi ég til Evrópu með ósk um stöðugleika og lága vexti.

  • Hörður Tómasson

    Mörður Árnason og Hannes Hólmsteinn Gissurarson eru í raun sami maðurinn.
    Þeir eru eins og sitt hvor hliðin á sama peningnum. Báðir eru þeir öfga og ofsatrúarmenn. Báðir eru þeir algjörlega ófærir um að sjá nokkuð annað en flokkslínuna. Þetta eru ekki menn sem takandi er mark á.
    Báðir tveir eru þeir lélegar afsakanir fyrir sjálfstætt þenkjandi menn.

  • Pétur Henry Petersen

    Tja… sitjandi þingmenn eru búnir að koma því þannig að það þurfi 5% til að koma inn manni og svo er það notað sem rök, ekki kjósa þá því þeir koma ekki inn manni. Írónískt.

    Ég hef fulla trú á því að þingmenn borgarahreyfingarinnar þó þeir verði kannski fáir, geri meira gagn til að bæta það sem þarf að bæta í lýðræði þessa lands heldur en þeir sem hafa haft tækifærið en hafa einmitt ekki gert neitt 😉

  • Ég hef verið nokkuð sáttur við Samfylkinguna hingað til en djöfull er þetta skítkast á Borgarahreyfinguna lélegt hjá þér.

    Í kosningunum 2003 fengu VG fimm menn á lista. Voru þeirra kjósendur að gera „ekki neitt“? Má s.s. enginn nýr flokkur verða til, af því hann er svo áhrifalítill á meðan hann slítur barnsskónum? Mér finnst þú alveg hreint ömurlegur að leggjast svona lágt.

    Þessi pathetic hræðsluáróður á ekki heima hjá Samfylkingunni. Frekar kýs ég þá VG.

  • Það er aumt að láta eins og það að vera ósammála skoðun mans sé að taka ekki afstöðu. VG hefur tekið afstöðu í ESB málinu og mun ekki styðja umsókn um aðild að ESB. Að sömu niðurstöðu kemst 55% af þjóðinni. Að telja svo ekki Borgarahreyfinguna eða Framsóknarflokkinn þegar kemur því að ná í gegn aðildarviðræðum er síðan ekki bara aumt heldur líka léleg taktík. Staðan er sú að það er engin von til að aðildarumsóknarsinnar fái meirihluta á þingi nema Borgarahreyfingin komist á þing. Verði ekki meirihluti fyrir því á Alþingi má athuga hvort það sé meirihluti fyrir því að leggja málið í dóm kjósenda beint en fyrir því væri væntanlega meirihluti þó Samfylkingin hafi talað mikið gegn þeim möguleika.

    Hvað varðar myntina að þá getum við ekki tekið upp Evru eða ERM II samstarf á næstunni og er þá alveg sama hvort við göngum í ESB eður ei. Væri það reynt myndi það valda áhlaupi á bankakerfið og tæma gjaldeyrisforða okkar á örskot stundu, í kjölfarið yrðum við að leggja af samstarfið og stæðum þá í enn verri stöðu án gjaldeyrisforða eða greiðslukerfis þurfandi að byrja alveg á byrjun á því að endurskipuleggja fjármálakerfið.

    Ég veit raunveruleikinn er bitur þessa dagana en við verðum að hætta að láta eins og efnahagsvandi okkar sé bara trúverðugleikavandi sem hægt sé að redda með PR-stönti og ESB-aðild. Við endurheimtum aðeins trúverðugleika með því að það sé eitthvað á að trúa og það verður aðeins við að við endurskipuleggjum efnahagskerfið okkar í kringum framleiðslu og sköpun. Við þurfum að stórminnka innflutning, efla útfluttningsgreinarnar og semja um niðurfellingu erlendra lána. Þegar svo sést að við erum að ráða við að greiða niður þau lán sem við tökum á okkur förum við að fá verðskuldaðan trúverðugleika.

    Það má vel skoða aðild að ESB fyrir mér en ég myndi þó vilja að meirihluti þjóðarinnar væri fylgjandi því að sækja um aðild áður en það væri gert. Hér og nú er það hinsvegar aðrir hlutir sem liggja fyrir að þurfa að komast beint í framkvæmd. Akútt er að koma í veg fyrir að innflutningur á matvælum, eldsneyti og lyfjum lokist ekki til landsins. Það verður að gera í blandaðri leið samninga við lánadrottna, virkjun atvinnulausra og sparnaðar á innflutningi hluta sem við þurfum ekki nauðsinlega á að halda. Skoða þarf fjármögnun velferðarkerfisins í þessu samhengi og reyna að forgangsraða frekar sparnað á innflutningi en á því sem lítil áhrif hefur á greiðslugetu þjóðarbúsins á skuldum sínum.

    Þegar það hefur verið tryggt þarf að fara í samninga við lánadrottna um langtímaramma sem við getum búið við og komist út úr. Samtímis þarf að leita sátta milli innlendra fjármagnseigenda og skuldara um afskriftir svo lán séu ekki yfir verðgildi veða.

    Reynið að svara efnahagsvanda dagsins í dag í stað þess að grafa bara upp gamla uppvakninga úr Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu til að mynda efnahagsstefnu ykkar einu sinni enn (les. Jón Sigurðsson). Eru engir vinstrisinnaðir hagfræðingar í ykkar röðum?

  • Skítlegt eðli

    FRESTA KOSNINGUM!!!

    Eftirlitsmenn SÞ þyrftu krefjast frestunar á þessum kosningum þangað til í ljós er komið hve margir frambjóðendur eru á mála hjá verðandi tugthúslimum.
    Annars er við búið að þeir sleppi við handtöku fyrir tilstilli styrkþeganna.

  • Uni Gíslason

    Nú er það þannig að þeir sem kjósa Framsóknarflokkinn eru að kjósa:

    1. Rauhæfar og afgerandi aðgerðir til varnar heimilum og efnahagi Íslands.

    2. Stjórnlagaþing til lýðræðislegrar endurskoðunar á Stjórnarskrá Íslands, enda augljóst að þingmenn eru vanhæfir til þess.

    3. Aðildarumsókn í ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla um málið, enda liggur fyrir hendi ásættanlegur samningur fyrir Ísland.

  • Ég held að það geti bara verið rétt að krefjast þess
    að kosningum verði frestað,þótt það verði ekki gert.
    Það kann að vera rétt bara til að leggja áherslu á
    að flórinn sé mokaður. Kjósendur eiga rétt á að
    fá styrkjapakkan upp á borðið. Hvar eru þessi heilindi
    gegnsæi og allt það sem Samfylkingin hefur verið að gaspra
    með. Það er ef til vill (held þó varla) stigs munur en ekki eðli
    á henni og Sjálfstæðisflokknum hvað þetta varðar

  • Sigurbjörn

    „Kannanir segja að margir ætli að skila auðu á laugardaginn – og auðvitað er það afstaða í sjálfu sér, svona einsog að sýna puttann. En þegar það er búið gerist ekkert meira.“

    Það hefur nú komið fyrir að menn hafi treyst loforðum stjórnmála manna, í framhaldi af því kosið, og svo… jah… gerist ekkert meir.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur