Vilhjálmur Egilsson var einsog fulli frændinn í fermingarveislunni á umhverfisþinginu í morgun. Það hafði í sjálfu sér ákveðið skemmtigildi vegna þess að á þessum þingum er sífellt kappkostað að ræða alls ekki hugsanleg ágreiningsmál og verður þessvegna minna úr samkomunni en eðlilegt væri.
Fýlan í Vilhjálmi stafaði af úrskurði umhverfisráðherra um línulagnirnar á Reykjanesi – sem hann sagði að væri að koma vinnumarkaðnum í uppnám, og þar að auki kolólöglegur.
Svo kom enn sérkennilegri kafli þar sem Vilhjálmur sagði að „eitthvað annað“ en stóriðja og álver endaði alltaf með „ekki neinu“ sem kostaði gríðarlegt fé í atvinnuleysisbætur. Lá í loftinu að það væri líka ráðherranum að kenna – eða allavega umhverfissinnum og náttúruverndarfólki.
Við þennan málflutning er það að athuga …
… að sú stóriðja sem Vilhjálmur streðar við að koma hér upp tefst einkum vegna fjármagnsskorts og orkuóvissu en ekki úrskurða í umhverfisráðuneytinu (sjá merka grein Dofra Hermannssonar hér á Eyjunni).
… að stóriðjuverin tvö og hálft sem Vilhjálmur berst fyrir mundu gleypa alla fáanlega orku fyrir norðan og sunnan og meira til – þannig að ekkert yrði eftir fyrir „eitthvað annað,“ svo sem gagnaver og sólkísil.
… að sjálfur er Vilhjálmur framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda þar sem stóriðja er aðeins lítill hluti fyrirtækjanna, sem flest fást við „eitthvað annað“ eða réttara sagt: „allt hitt“.
Sennilega er bara soldið snúið að vera Vilhjálmur Egilsson þessa dagana.
En hvar ætla þeir að taka orkuna? Það er málið.
Já, það er búið að sýna okkur að orkan er ekki til staðar !
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/entry/959306/
Hvar ætla menn að sækja peninga til að framkvæma ?
Allir tilbúnir að lána á viðráðanlegum kjörum, er það ekki ?
Endilega haltu svona áfram – því það eru kosningar á næsta leiti …
JR það er einmitt búið að sýna okkur að næg orka er fyrir 900þús tonna álveri með þessari grein í við bót, er það sem þú villt.
Við höfum séð þetta gerast. Menn sem eru þekktir af rólyndi og jafnvægi hugans tútna út af reiði þegar þeim er stórlega misboðið og láta þá oft vaða á súðum. Mánuðum saman hefur ekkert gerst í atvinnumálum þjóðarinnar, vaxtastigið óbærilegt, gjaldeyrishöft, atvinnuuppbygging sem komin var á rekspöl með alla lögboðna pappíra í lagi slegið á frest og ekkert bitastætt í farvatninu hjá ríkisstjórn landsins. Það er ekki undur þó að óþolinmæði grípi um sig og Vilhjálmi karlinum er sannarlega vorkunn.
Meira að segja Gylfi í ASÍ er farinn að tvístíga og er rétt byrjaður að blása út í annað en hann á vissulega svolítið bágt og það verður að sýna honum samúð í erfiðri stöðu. Jóhanna er hans yndi en á hinn bóginn er það allur pupullinn sem er að tapa eignum sínum, missa vinnuna og á svo í þokkabót von á hærri sköttum og allskyns óáran.
En kannski hefur hann Guðbjörn rétt fyrir sér með kosningarnar á næsta leiti. Því myndu þeir félagarnir Vilhjálmur og Gylfi vafalaust fagna og við getum í anda séð þá ganga léttstíga til daglegra starfa.
Jóhanna er nefnilega á góðri leið með að sprengja stjórnina með taktík sem hún hefur lært einhvers staðar. Fyrst rak hún Ögmund með óbilgjörnum hótunum og síðast í dag saug hún spádóm um ragnarök út úr Seðlabankaforystunni og kom samdægurs í fjölmiðla. Bankastjórinn fór á taugum og sór af sér samsærið og fjármálaráðherrann og formaður VG fékk ekkert að vita og var sýnilega fúll og reiður yfir trakteringunum.
Svona fer stundum fyrir daufu fólki sem skyndilega ákveður að sýna röggsemi. Það lendir í tómu tjóni og gerir allt öfugt. Já, Jóhanna kerlingin er á góðri leið með að sprengja stjórnina.
Þessi umhverfissamkoma er djók. 400 manns komnir saman til að rakka niður allt sem heitir atvinnulíf. „Vinna“ allir í Árnagarði og búa í 101. Það var ótrúlegur léttir – fyrir okkur úr atvinnulífinu sem villtumst þarna inn – að heyra í Villa Egils.
GSS:
Jóhanna Sigurðardóttir var ekki lengi í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, en lærði af honum vinnubrögðin!
Lengi býr að fyrstu gerð í ríkisstjórn – ekki satt!
Mörður: Vilhjálmur er hæglátur maður sem hefur verið mannasættir mikill. Nú er honum nóg boðið og ASÍ líka enda er ríkisstjórnin að bregða fæti fyrir þau fáu tækifæri sem við höfum til atvinnusköpunar.
Þú ættir að skammast þín fyrir svona ósmekkleg skrif að líkja einum vandaðasta fulltrúa vinnumarkaðarins við fullan frænda. Fólk er að fá nóg af svona málflutningi.
Málið snýst um að arðsemin á virkjað MWe er afar léleg þegar horft er til álvera.
haha „Fulli frændinn“ góður 🙂 það kom mér jafn mikið á óvart hvað fast hann kvað að orði. En Vilhjálmur eins og aðrir verða að sætta sig við að til er fólk (guði sé lof) sem hefur aðrar skoðanir á til hvers við eigum að nota orkuna okkar. Það er ekkert einkamál Samtaka Atvinnulífsins og landsöluliðsins í hópi sjálstæðis og samfylkingarmanna.
Ég fagna því að þú ert farinn að taka sjálfstæða afstöðu til málanna Mörður, vegna þess að gagnrýni þín er ekki síður gagnrýni á stóriðjustefnu samfylkingarinnar. Kannski er enn von um „vinstri“ pólitík í Samfylkingunni þegar búið er að hreinsa út hrunprinsinn Björgvin og alla hina hægri kratana