Sunnudagur 11.10.2009 - 17:26 - 6 ummæli

Örvænting á fiskmörkuðum?

Árið 2007 var landinn orðinn svo snjall að fiskur var hættur að skipta okkur máli. Fjármálalífið aflaði tvö- eða þrefalt á við sjávarútveginn og þetta pauf við að selja saltfisk og frosin flök ofan í einhvern lýð í útlöndum var meira einhverjar leifar frá því í gamla daga. Enda streymdi fólk úr þeim sölustörfum í alvöruvinnu fyrir alvörukaup í blessuðum bönkunum.

Nú heldur fiskurinn aftur í okkur lífinu – ásamt nátttúruauðæfum landsins sem við seljum ferðafólki – en þá berast vond tíðindi af mikilvægum fisksölusvæðum: Ekki linni sífelldum undirboðum útflytjenda langt niðrúr öllu samkeppnisvaldi, og lengst gangi stórfyrirtæki í eigu eða forsjá ríkisbankanna.

Ég heyrði fyrst lauslega af þessu í sumar gegnum og núna um daginn hitti ég svo kunningja í þessum bransa sem segir að undirboðin séu ennþá regla, ekki undantekning. Ein afleiðingin er sú að Norðmenn eru orðnir órólegir! en þeir eru vanir að vera með sína vöru, að minnsta kosti saltfiskinn, nokkrum klössum neðan við Íslendinga.

Það er enginn að biðja um einokunarsamsölu einsog áður tíðkaðist – en þjóðarhagur krefst þess sem aldrei fyrr að fyrirtækin hugsi til langs tíma og splundri ekki langvinnu starfi á mörkuðum með óábyrgri undirboðastefnu.

Hver er skýringin? Eru þetta kröfur nýju bankanna um sýna sem mestan pening sem fyrst? Er þetta gjaldeyrisgræðgi? – yfirskuldsett fyrirtæki þurfi hverja evru og dollar til að halda frá erlendum lánardrottnum? Eru þetta skuldugir útgerðarmenn og hluthafar – að borga peningabréfin og jeppana og þyrlurnar?

Ytra er sérstaklega fylgst með þeim fyrirtækjum sem nýlega hafa fengið afskrifaðar stórskuldir og nota það forskot til að undirbjóða þá sem fóru varlegar og sitja þessvegna enn uppi með sínar klyfjar. Björgunarstarfið í bönkunum getur þannig orðið skjól fyrir grófa mismunun þar sem „gælu“-fyrirtækjum bankanna (sem nú eru í almannaeigu) er beitt gegn öðrum fyrirtækjum í sama bransa, sem að réttu lagi ættu að njóta þess að þar var haldið skynsamlegar á málum.

Þennan vanda þekkjum við undanfarna mánuði í atvinnu- og viðskiptalífi hér heima – en grunaði kannski ekki að sömu aðstæður ynnu beinlínis gegn þjóðarhagsmunum á mikilvægum mörkuðum þar sem dýrmætur gjaldeyrir fæst fyrir afurðir úr hinni sameiginlegu sjávarauðlind. Kannski þarf að nefna nöfn?

Útlendum fiskkaupendum er fyrir löngu farið að þykja nóg um, einkum þeim grónu og vönu. Þeir vilja auðvitað sem best verð – en hafa engan áhuga á að sprengja sig langt niður á matarmarkaði heima hjá sér í verðstríði sem ekkert vit er í. Sumir þeirra munu hafa haft á orði að hætta að kaupa íslenskan fisk ef ástandið lagaðist ekki. Aðrir spyrja hvort ríkisstjórnin á Íslandi viti virkilega ekki af þessu háttalagi á mörkuðunum.

Það er góð spurning. Fiskútflutningur er okkur einfaldlega það mikilvægur að hér má ekki ríkja stjórnlaus örvænting. Hvað er sjávarútvegsráðherra að hugsa? Æ, fyrirgefið, hann er að berjast gegn ESB. En utanríkis-viðskipta-ráðuneytið? Á það sér ekki duglegan og harðskeyttan ráðherra með munninn fyrir neðan nefið?

Íslensk útflutningssaga gerist ekki mikið eldri en á sumum þeim mörkuðum sem hér um ræðir. Örvænting og flumbrugangur eftir hrunið er nú að spilla þeim árangri á einu ári sem margar kynslóðir af duglegum sjómönnum, útgerðarmönnum, fiskflytjendum ogsölufólki hafa náð í nafni Íslands.

Það er aumt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Þú þarft að nefna nöfn – hvaða fiskútflutningsfyrirtæki hafa fengið niðurfellingu skulda og eru að stunda undirboð? Í svipinn man ég ekki eftir neinu útgerðarfyrirtæki nema Stím sem laumaðist frá skuldunum á nýja kennitölu!
    Það á allt að vera upp á borðinu, er það ekki. Þá á að nefna hlutina réttu nafni, ekki tala í gátum eins og núverandi ritstjóri Mbl. sem lætur mann velkjast í vafa um hvaða ráðherrasonur, alinn upp í aftursæti ráðherrabíls, fékk óverðskuldaða upphefð og stöður! Var það Björn, Steingrímur, Þorvaldur – ég man í svipinn ekki eftir fleiri ráðherrasonum sem hafa sett svip á þjóðlífið!
    Það væri reyndar fróðlegt að fá lista yfir þau fyrirtæki sem hafa fengið felldar niður skuldir (og eru enn í rekstri) og þá hve mikið. Þetta fyrirtækjarugl er löngu búið að gera mann ruglaðan og fréttir af niðurfellingum óljósar!

    Ragnar Eiríksson

  • Hafa menn íhugað það að bankar eru í vaxandi mæli að taka yfir mikinn fjölda af mikilvægum fyrirtækjum þrátt fyrir að hafa verið svo yfirgengilega vanhæfir í sínum eigin rekstri að engin orð ná yfir það.

    Slæmar afleiðingar af þessu eru þegar byrjaðar að koma fram samanber umfjöllun þína um fiskútflutninginn.

    Hvað er t.d. ríkisstjórnin að gera til þess að tryggja að bankarnir með sinn afleita viðskiptaferil og tortryggilegu stjórnendur klúðri ekki málunum í öðrum fyrirtækjum?

  • Alma Jenný Guðmundsdóttir

    Algerlega gjörspillt kerfi – framsalsheimildir fiskveiðikvótans.

    Og Mörður – því gerir ríkisstjórnin ekki meira í því að skikka þá sem fá að veiða fiskinn – veðsetja hann – selja kvóta – hirða allan arð – erfist og notaður í hjónaskilnaðarmálum – að skila gjaldeyristekjunum heim ?

    Það er svo gjörspillt – að þessir útgerðaraðilar – skuli ekki sjá sóma sinn í því að koma með gjaldeyristekjurnar inn í landið – til uppbyggingar.

    Hvar er fyrningaleið Samfylkingar í dag ? Auglýsi eftir henni.

  • Rómverji

    Mörður. Það er 2009. Ekki sjö. Nefndu nöfn, maður. Hættu þessu pukri.

  • arni aðals

    nokkrar staðreyndarvillur hér hjá þér.
    náttúruauðæfi landsins hafa nú frekar verið seld erlendum auðhringjum en ferðafólki.
    þú talar um sameiginlega sjávarauðlind-rangt, þetta er ekki sameiginlegt nema fyrir kosningar og á sjómannadag,þökk sé spilltum stjórnmálamönnum sem af aumingjaskap hafa ekki haft dug né þor til að nýta sjávarauðlindina í þágu fjöldans,heldur leyft útgerðarmönnum að veðsetja,selja og erfa „sameignina“.
    þú talar um að shvað sjávarútvegsráðherra sé að hugsa-þetta dæmir sig nú sjálft.
    kveðja

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er svo sem ekki við öðru að búast. Það er sama siðblinda liðið í bönkunum og fyrirtækjunum og fyrir hrun.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur