Sunnudagur 18.10.2009 - 22:42 - 12 ummæli

Icesave: Einsog vænta mátti

Lendingin í Icesave-málinu er einsog vænta mátti. Við þurfum að afturkalla „fyrirvarana“ um að hætta að borga 2024 og um að ríkisábyrgð falli niður ef mál skyldi vinnast um að ríkið beri ekki ábyrgð á Tryggingarsjóðnum. Í staðinn fallast stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi á að íslenska ríkið megi fara í slíkt mál, og að koma að viðræðuborði ef það vinnst. Þau fallast líka á að Ragnars Halls-deilan um forgang krafna fari fyrir EFTA-dómstólinn, sem er skynsamlegt af allra hálfu.

Þetta er nokkurn veginn einsog vænta mátti. Þeir sem hafa lagt áherslu á dómstólaleiðina geta bent á nokkurn árangur. Spurningunni um það hvort hann er fjögurra mikilvægra mánaða virði verður svarað þegar dómsmálunum lýkur eftir mörg ár og nokkra milljónatugi í kostnað. Hugmyndin um að skuldunauturinn ákveði einhliða að hætta að borga á tímapunkti sem hann sjálfur ákveður, hún er dáin drottni sínum – einsog vænta mátti – ævintýraleg sem hún var.

Ögmundur og Liljur standa að samkomulaginu og styðja það á þinginu. Þau bjarga andlitinu eftir afsögnina, og nú ætla allir að verða góðir vinir á stjórnarheimilinu. Sprungan er samt fyrir hendi, vegna þess að hún er hugmyndaleg – en aðilum máls var enginn kostur annar en að klára þetta nokkurnveginn svona.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins taka strax þá afstöðu að þetta sé niðurlæging og uppgjöf – það var einmitt eftir bókinni frá því í sumar. Það er reyndar soldið fyndið að heyra þá Hrunabræður hamast gegn stjórninni fyrir að ætla að „svíkja“ samþykkt alþingis um ríkisábyrgðina frá í sumar – af því að þá voru stjórnarþingmennirnir þeir einu sem samþykktu frumvarpið. Framsóknarmenn voru á móti, og Sjálfstæðisflokksmenn sögðu hvorki já né nei heldur sátu hjá. Hverja eru þá VG og Samfylkingin að svíkja?

Hávaðinn í Bjarna og Sigmundi Davíð stafar fyrst og fremst af  vonbrigðum þeirra með að stjórnin skyldi ekki springa á þessu erfiða máli. Þeir vita að úr því hún komst yfir þennan hjalla er líklegast að hún styrkist fyrir næsta verkefni: Að halda Íslandi og sjálfri sér á lífi þann illvíga vetur sem nú er að hefjast.

Icesave-málið er auðvitað h.f.f. – eiginlega móðir allra HFF-a –  og rifrildið um það í sumar og haust bendir ekki til að við séum mikið að átta okkur á nýju lífi eftir hrun. Við erum hinsvegar komin á skrið og þegar þessi stífla loksins brestur í efnahagslífi og þjóðarsál er kannski orðinn séns að við náum næstu áföngum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Takk fyrir góða grein Mörður. Hjartanlega sammála 🙂

  • Þórarinn Einarsson

    Mörður, við hefðum átt að nota tækifærið og láta viðsemjendur hafna opinberlega fyrirvörunum og ljúka málinu þannig. Svo ætti Ísland að lýsa yfir einhliða greiðslustöðvun og fara að undirbúa okkur fyrir hina raunverulegu heimskreppu sem nú er á leiðinni.

    En þess í stað eru stjórnarliðar enn á hnjánum án staðfestu og hugrekkis og ætla að reyna við þá lönguvitleysu að standa við fjárhagsskuldbindingar Íslands, þ.m.t. Icesave.

    Þegar hrunið kemur, þá verða eignir Landsbankans verðlausar og gjaldeyrisforðalánin fara í að borga upp önnur lán og flóttakrónur. Að endingu mun Icesave gjaldfalla á einhverjum þeim 11 gjaldfellingarákvæðum samningsins.

    Samfylkingin vantar bæði hugrekki og ímyndunarafl, eða einmitt það sem þarf til þess að byggja nýtt Ísland.

  • Ögmundur er ekki viss á stuðningi sínum núna. Allt í einu og uppúr þurru virðist vera.

    http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item307684/

  • og núna getum við fengið næsta skammt. þegar við samþykkjum þetta þá fáum við fixið okkar, nýtt lán.

    Ef Icesave verður samþykkt þá verður þetta mesti glæpur sem framin hefur verið á Íslenskri þjóð.

    Mörður sestu niður og hugsaðu svona aðeins. Aðrir kröfu hafar munu hafa jafnan rétt í þrotabú Landsbankans sem hljóðaði upp á hvað? +3000 milljarða eða eru það 4000 miðað við gengið í dag? Icesave er upp 700 til 1000 milljarða og síðan ofan á það leggjast vextir. Við þurfum að vera með bullandi hagvöxt í áratug upp tugir prósenta til þess að geta borgað þetta. Ef við munum ekki verið búinn að borga niður 70 til 80% af þessu árið 2024 þá munum við aldrei ná að borga þetta. ALDREI.

    Vextirnir leggjast af svo miklum þunga á svona lán að þau nást aldrei að verða borguð. Farðu til Afríku og kynntu þér hvernig AGS hefur verið notað í gömlu nýlendum Breta og Hollendinga. Hvernig efnhagshjálp og „góð“ lán hafa mergsogið ríkin. Frá afríku hefur margfalt meira fé runnið út úr álfunni til að greiða vexti heldur en nokkurntíman hefur farið til álfunnar og tek þar saman lán og þróunaraðstoð.

    Lausn Icesave málsins er fullkomin uppgjöf fyrir Bretum. Allt til þess að samfylkingin fái að komast í ESB og VG fái sína dýrmætu „vinstristjórn“. kostnaðurinn verður færður á næstu kynslóð og þá þar næstu.

    að mínu mati á að svipta alla þá sem samþykkja þennan landráðasamning Ríkisborgararétti sínum og senda þá í ævivarandi útlegð.

  • Svo þegar þessu máli er lokið þá finnst mér að það ætti að banna að orðið Icesave sé sagt upphátt eða sjáist á prenti að viðlögðum sektum. Allavega næstu mánuði. Fæ æluna upp í háls þegar ég sé marglita Icesave merkið…..

  • Dugleysi ríkisstjórnarmanna er algjört. Tala um að uppgjöfin sé „sigur skynseminnar“. Samfylkingin er í hrunafneitun og kallar Framsóknarflokkinn hrunflokk, en sjálf var hún hvergi nærri. Eða þannig upplifir hún það. Það er ekki góðs viti.

  • Telemakkos

    Hrunið var verk Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

    Samfylkingin gat því miður ekki, á þeim 16 mánuðum sem hún sat í stjórn fyrir hrun, með nokkru móti snúið íslenska hagkerfinu við á bjargbrúninni.

  • Ásgeir Beinteinsson

    Takk félagi Mörður

    Þú kallar þá Bjarna og Sigmund hrunabræður. Hvernig væri nú að kalla þá fulltrúa brennuvarganna svona rétt til að stimpla inn örugga myndlíkingu af fjölum Þjóðleikhússins.

    Með kveðju,

    Ásgeir

  • Þórarinn Einarsson

    Ásgeir, hrunið er í boði B, D og S, brennan er í boði S og V.

  • Mörður Árnason

    Ja, Ásgeir, — Biederman og brennuvargarnir er frábært leikrit (að minnsta kosti í útvarpsgerðinni með Flosa sem yfirbrennuvarg) en hver er þá Biederman? Almenningur — sem lét þetta góðærisfyllirí yfir sig ganga? Fjölmiðlarnir, sem trommuðu undir við bensínflutningana? Og kannski Samfylkingin 2007-2009, sem leyfði íhaldinu að stjórna öllum efnahagsráðuneytunum (forsætis-, fjármála- og Seðlabankanum) af því það átti að endurreisa velferðina? — Líkingin er að minnsta kosti ekki síðri en Hrunadansinn í pistlinum!

    Annars tek ég hjartanlega undir með Ínu — held að þjóðin hefði gott af að splæsa á sig löngu Icesave-fríi …

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Mikið eru brezkir og hollenzkir ráðamenn indælir að leyfa okkur að koma að samningaborði ef dómur fellur um að þeir séu í órétti. Þá á slíkur dómur ekki að þýða að greiðsluskyldu okkar samkvæmt nauðungarsamningunum sé hnekkt eins og eðlilegt hlýtur að teljast heldur á að semja um niðurstöðuna. Og hvað ef samkomulag næst ekki við stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi um hana? Og það sem meira er, hvað ef þau samþykkja ekki eins og hingað til að málið farið fyrir hlutlausan dómstól? Þetta ákvæði í fyrirliggjandi breyttum nauðungarsamningum er algerlega gagnslaus og alfarið háð geðþótta brezkta og hollenzkra stjórnvalda sem fyrr.

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Mörður, þú gleymir (viljandi?) viðskiptatáðuneytinu sem var á könnun Samfylkingarinnar og þar með fjármálaeftirlitið. Icesave-ruglið kom aðallega upp og varð að vandamáli í tíð þeirrar ríkisstjórnar. Hvar var Björgvin?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur