Mánudagur 19.10.2009 - 15:13 - 10 ummæli

Svikin samþykkt!

34 þingmenn stjórnarflokkanna gefast upp fyrir ofbeldisöflunum, afsala rétti Íslands í Icesave-málinu og fella tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þetta gætu orðið fréttirnar eftir samþykkt Icesave-frumvarpsins nýja ef þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fengju að ráða.

Því að auðvitað eru þetta „svikasamningar við Breta“ og Hollendinga, og með þeim hefur ríkisstjórnin unnið „smánarlegt verk“. Þessi „níðingslegu svik“ eru svo fullkomnuð með því að stjórnarherrarnir neita „hinni sjálfsögðu kröfu að þjóðin sjálf fengi að ákveða hvort samningurinn skyldi taka gildi, og sýnir það best að þeir vita hvað þeir voru að gera og óttast dóm þjóðarinnar,“ enda er varla hægt að kalla málflutning stuðningsmanna samningsins við hið erlenda vald annað en „áróðursröskur ráðþrota manna“.

En „Ísland mun slíta svikafjötrana“ sem „breskur [og hollenskur] níðingsskapur, breskt [og hollenskt] ofbeldi, bresk [og hollensk] flærð og vesaldómur íslenskra valdhafa er nú að leggja á þjóðina. Ísland hefur áður verið bundið undir erlent ok. Það hefur hrist það af sér, og það mun hrista þetta ok af sér líka, þrátt fyrir allt.“

Plus ça change …

Nei, þetta er auðvitað ekki af heimasíðu xB eða xD daginn eftir að nýja frumvarpið verður samþykkt – heldur úr Þjóðviljanum 10. mars 1961, daginn eftir að alþingi samþykkti samning ríkisstjórnarinnar um lyktir landhelgisdeilunnar sem hófst með 12 mílna-reglugerð Lúðvíks Jósepssonar haustið 1958. Fyrirsögnin var SVIKIN SAMÞYKKT, og undirfyrirsögn yfir þvera forsíðuna:

33 þingmenn stjórnarflokkanna opna 12 mílna landhelgina fyrir ofbeldisflotanum, afsala rétti Íslands til einhliða stækkunar landhelginnar og fella tillöguna um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þá voru aðrir tímar, en nú minnumst við ekki lykta þessarar deilu sem sérstaks ósigurs í þjóðarsögunni, og þótt mikið hafi legið undir þykir manni nokkuð stórkarlalega talað á forsíðu málgagnsins þennan marsdag í upphafi sjöunda áratugarins.

Plus ça change, plus ça reste la même chose, segja Frakkar: Hvernig sem allt veltist verður einhvernveginn alltaf það sama uppá teningnum. Dómar Þjóðviljamanna um landhelgissamning Ólafs Thors og Emils Jónssonar 1961 eru keimlíkir umsögnum Bjarna og Sigmundar Davíðs um Icesave-samning Jóhönnu og Steingríms 2009.

Nema hvað þeir skrifuðu miklu flottari texta á Þjóðviljanum kringum 1960.

Svo verður skálaferð um helgina í skíðaskála ÆFR og ÆFK. Farið frá Tjarnargötu 20 klukkan 7.30 síðdegis á morgun, laugardag. Þeir ættu kannski að prófa eitthvað svoleiðis drengirnir sem núna ráða í stjórnarandstöðunni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Ertu í alvöru að bera þessi tvö mál saman Mörður? Það er greinilegt að þú hefur ekki lagt sagnfræði fyrir þig…

  • Hjörtur J. Guðmundsson

    Árið 1961 höfðum við sigur sama hvernig á það er litið. En það er gildir einu hvernig reynt er og hversu mikil vilji er fyrir hendi, Icesave-nauðungarsamningar ríkisstjórnarinnar verða aldrei skilgreindir sem íslenzkur sigur.

    Es. Og hverjir voru það sem héldu annars Þjóðviljanum sáluga úti? Eru ekki pólitískir arftakar þeirra í dag í Samfylkingunni og vinstri-grænum?

  • Arnar Steinþórsson

    Takk Mörður, fyrir að setja þetta í samhengi…

    Takk „fyrsta og eina hreinræktaða“ vinstri stjórn…

    Takk Alþingi.


    Takk fyrir mig og börnin mín.
    Sendið eftirleiðis póst og álagningarseðla til Kaupmannahafnar.

    Kær kveðja til ykkar allra; og farnist ykkur vel…


    Arnar

  • svinaflensa

    Fyrst þú ert byrjaður að fletta gömlum Þóðviljum viltu þá ekki vera svo góður og finna forsíðufyrirfsagnir hans gegn Búrfellsvirkjun ca. 1967 -8

  • Já Mörður – þú skalt skila kveðju til þinna flokksmanna fyrir IceSave. Svo ekki sé nú talað um skjaldborgina sem nú er hægt að fara að snúa sér að! Þar á endandlega að sjá til þess að lánaeigendur hreinlega græða á hruninu! Aldrei skal ég trúa né treysta vinstri aftur – ALDREI. Þið eruð mestu svikhrapparnir. Við vitum Þó HVAÐ Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. En þið hafið logið ykkur inná þjóðina. Logið og svikið með þeim hætti að annað eins hefur ekki sést í íslenskri pólitík.
    Þið svikuð okkur og þess fáið þið vonandi að gjalda grimmilega. Aldrei skal samfylking fá mitt atkvæði eða fjöslkyldu minnar aftur og segi eins og einhver segir hér í dag – Jóhanna mun framvegis gangan undir nafninu „Svikari almúgans“ á mínu heimili.

  • Gústaf Níelsson

    Samanburðurinn á Icesave nútímans og landhelgisdeilunni 1958-61 nær nú aðeins til orðanotkunarinnar. Efnisinnihaldið er gjörólíkt og fjarri öllu lagi voru menn að skuldbinda þjóðina um 700.000.000.000.- kr árið 1961. En það gerir hin sögulega vinstristjórn árið 2009 og deplar vart auga. Þessir samningar munu verða sem myllusteinn um háls íslenskrar vinstrihreyfingar um langa framtíð.

  • Guðmundur Guðmundsson 2

    Dæmið sem þú tekur er vægt sagt óheppilegt.

    Þú segir um samninginn 1961: „Þá voru aðrir tímar, en nú minnumst við ekki lykta þessarar deilu sem sérstaks ósigurs í þjóðarsögunni.“

    Gerir þú þér ekki grein fyrir því að útfærsla landhelginnar í 50 mílur árið 1971 byggðist á því að HAFNA samkomulagi viðreisnarstjórnarinnar við Breta? Samingurinn frá 1961 gerði ráð fyrir því að ágreiningi yrði skotið til alþjóðadómstólsins í Haag sem þýddi í raun að einhliða útfærsla landhelginnar var ÓMÖGULEG. Varstu búinn að gleyma þessu?

    Það var vinstri stjórninni, sem tók við árið 1971, að þakka að samningurinn 1961 varð ekki sögulegur ósigur.

  • Jón Bjarnason

    Ég hef óbeit á þér og þínum líkum í ríkisstjórn Íslands.
    Aldrei hefði ég trúað að það ætti eftir að gerast, en ALDREI, ALDREI, ALDREI á ég eftir að kjósa neitt sem byrjar á S.

    Það er loforð.

    Ég stend við loforð.
    Og þetta verður ekki neitt leyndarmál í mínu umhverfi.
    Sem betur fer á ég líklegast eftir að lifa nokkrar kosningarnar.

  • Mörður Árnason

    Það virðist þurfa að taka fram að samanburðurinn i pistlinum að ofan nær fyrst og fremst til orðbragðs af hálfu stjórnarandstöðuflokka um samninga við erlend ríki. Menn halda svo skoðunum sínum á sjálfum gjörningunum — það er til dæmis ýmislegt til í athugasemdum næstsíðasta ræðumanns. En telur hann þarmeð að Ólafur Thors hafi árið 1961 gert smánarlega svikasamninga? — eða að þeir sýni undanlátsemi og niðurlægingu, og að með þeim hafi verið sjálfstæði þjóðarinnar (Bjarni Ben október 2009) — ?

  • Til fjandans með ykkur samfylkingarsvikafólk – ALDREI ALDREI ALDREI skal maður kjósa ykkur aftur – ALDREI!!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur