Þriðjudagur 20.10.2009 - 22:33 - 13 ummæli

Velkominn, Björgvin Guðni

Björgvin G. Sigurðsson hefur lýst stuðningi við tillögu stjórnarandstæðinga á þingi gegn ákvörðun umverfisráðherra um mat á svokallaðri suðvesturlínu til álversins í Helguvík.

Gott og vel – til þess hefur hann fullan rétt. Þegar maður er ekki bara stjórnarþingmaður heldur formaður þingflokks forsætisráðherrans – þarf sannfæringin samt að vera afar öflug til að stíga slíkt skref, og málið algerlega á tæru.

Nú vill svo til að hinn gamli félagi minn Björgvin Guðni Sigurðsson frá Skarði hefur líka lýst sig andvígan áformum um virkjanir í Þjórsá neðanverðri, og náði á sínum tíma kjöri sem fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæmi sínu á þeim forsendum.

Veit Björgvin G. hvaðan orkan á að koma gegnum suðvesturlínu til álversins í Helguvík?

Og hefur hann fullvissu um það að Þjórsá neðri verði ekki virkjuð til þess einmitt að knýja verið á Suðurnesjum?

Áður en þingmaðurinn greiðir atkvæði með tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins gegn umhverfisráðherra hlýtur hann að gera okkur grein fyrir þessu.

Og segja okkur hvaðan sú orka kemur sem á að renna gegnum hinar langþráðu línur í álverið, sem verður aftur … 250 þúsund tonn eða 360 þúsund tonn? Og hvaða orka verður eftir í Suðurkjördæmi fyrir annað en álver? – til dæmis ,sæta’ stóriðju á borð við gagnaver og sólarkísil, eða fyrir ylræktina eða bara fyrir vaxandi þéttbýli um allt svæðið næstu áratugi. Þessum spurningum hafa þeir nefnilega ekki svarað sem mest æsa sig yfir nokkurra vikna eða mánaða töf vegna matsmálsins, og allra síst hinn gunnreifi þingflokksformaður af Þjórsárbökkum.

Á laugardaginn heldur Græna netið fund um einmitt þetta á Sólon, byrjar klukkan 11, málshefjendur Sigmundur Einarsson jarðfræðingur, Dofri Hermannsson varaborgarfulltrúi og Ágúst Hafberg upplýsingafulltrúi Norðuráls. Þú ert velkominn, Björgvin Guðni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Þórarinn Einarsson

    Auðvitað hlýtur Björgvin að vita það, en væntanlega eru margir Samfylkingarmenn að fara að skipta um skoðun í umhverfis- og virkjunarmálum, nú þegar þarf að fara að fjármagna Icesave.

    Þá kemur auðvitað líka að því (eftir Icesave) að Samfylkingin sé tilbúin að skipta um samstarfsflokk í ríkisstjórninni til þess að geta sett stóriðjuna (álversstækkanir) á fullt.

    Eftir Icesave er e.t.v. von á því að Sjálfstæðisflokknum verði skipt inná og hrunstjórnin þá komin aftur. Þá verður gaman, því þá verður sko bylting!

  • Ég hélt að minn gamli félagi Björgvin Guðni Sigurðsson frá Skarði hefði einmitt þessa skoðun því hann VILDI virkja neðri Þjórsá.
    Ég hef þá eitthvað misskilið hlutina.

  • Mörður er ekki tími til kominn að yfirgefa þennan guðsvolaða söfnuð? Þú átt greinilega meiri samleið með VG í umhverfismálum. Samfylkingin vill fórna öllu fyrir skammtíma ávinning og meinar ekkert með „Fagra Íslandi“ eða þjóðsöngnum 17,júní

  • Mér finnst nú vegið að Björgvini. Honum er bar ekki sagt neitt.

    Þegar bankarnir voru að hrynja og hann var ráðherra bankamála var honum aldrei sagt neitt. Hann bara vaknaði einn morgunin og úps – það hafði gleymst að segja honum að það væri smá séns að það væri ekki allt í lagi…

    Nú er bara nákvæmlega það sama að gerast – og aldrei er Björgvin sagt neitt. Hvernig átti hann að vita að suðvesturlinan og og álverin gera bara fastlega ráð fyrir meiri virkjunum í Þjórsá? Honum er aldrei sagt neitt.

    Ég vorkenni honum. Lítill strákur með heimspekilegar hugsjónir – en engin tengsl við raunveruleikann.

  • Magnús Bjarnason

    Hvar er Fagra Ísland – rammaáætlun Samfylkingarinnar um nýttingu náttúruauðlinda.

    Við byggjum ekki öflugt velferðarkerfi eins og við viljum, nema með öflugum iðnaði og atvinnulífi.

    Það gengur ekki að Samfylkingin skuli vera að skapa óvissu ástand um uppbyggingu atvinnulífs. Það þjónar ekki hagsmunum þjóðarinnar og það þjónar ekki hagsmunum Samfylkingarinnar.

    Ég verð að taka undir með skoðun Björgvins – það má ekki vera neinn óvissa um uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.

  • Besserwisser

    Mikið stærra álver með kjarnorkuveri. Þannig losnum við við þetta línuvesen.

  • Garðar Garðarsson

    Landið þarf að vera eitt kjördæmi svo við losnum við svona mikið kjördæmapot eins og við verðum vitni að í álversmálum og virkjanaframkvæmdum. Skammsýni sveitastjórnamanna og þingmanna ákveðinna sveitastjórna og kjördæma er svo mikil að menn eru tilbúnir blint að fórna allri virkjanlegri orku og meira til fyrir tvö álver.

    Hvaðan ætla menn að fá orku til fjölbreyttari atvinnuvega en álvera þegar orkan er uppurin?

    Við þurfum fleiri þingmenn sem líta heilrænt á hlutina og sjá eitthvað fram í timann.

    Áfram Mörður þú hefur verk að vinna.

  • Garðar Garðarsson

    Afsakið, átti að vera „líta heildrænt á hlutina“.

  • Thrainn Kristinsson

    Björgvin er kjördæmapotari og stóriðjusinni eins og flestir þingmenn Samfylkingarinnar.

    það er táknrænt fyrir aumingjaskap Samfylkingarinnar (og þjóðarinnar) að Björgvin skuli hafa verið kjörinn á þing aftur og sé nú formaður þingflokksins.

  • María Kristjánsdóttir

    Bjarti Mörður, segi ég nú bara. Og: Er ekki hægt að láta teikna upp, gera módel af því hvernig Reykjanesið og Suðurland muni líta út með öllum háspennulínunum?

  • María, er það ekki nákvæmlega það sem Svandís var að biðja um með ákvörðun sinni?

  • Björn S. Lárusson

    Mér finnst þú draga rangar ályktanir af réttum forsendum. Björgvin Guðni var kjörinn á þing fyrir það sem hann stendur fyrir og vegna þess að hann er sunnlendingur. Þessi örfáu atkvæði í kring um neðri hluta Þjórsár skiptu þar ekki sköpum. Þegar ég spurði sunnlenskt Samfylkingarfólk hvort það ætlaði virkilega að kjósa fv viðskiptaráðherra aftur var svarið oft og einatt; hann er sunnlendingur og heilsteyptur stjórnmálamaður.

    Ég tek fram að ég er ekki Samfó kjósandi.

  • Er það svona sem umræðan á að vera? Útúrsnúningar, pex, orðhengilsháttur og bull.
    Svandís er að gera tilraun til að breyta umhverfismati sem búið er að gera, þ.e. breyta reglunum eftirá. Ég geri ráð fyrir að afstaða Björgvins og fleiri byggist á því að þau séu ekki ánægð með að leikreglum sé breytt á þennan hátt.
    Varðandi virkjanir í neðri Þjórsá: Það að vera á móti þeim getur ekki verið rökrétt ef málið er skoðað af hlutlægni, því vandfundnar eru fyrirhugaðar virkjanir í fallvötnum sem minni skaða valda á umhverfi, við verðum að gæta okkuar, að tína ekki allri vitrænni hugsun í umræðunni. Þjóðin verður að lifa af landinu hvort sem mönnum líkar betur eða ver og málið snýst um að gera það af varkárni. Ekki bara vera á móti öllu sem gera þarf alltaf og ævinlega, það er Vinstri Græna leiðin, því miður.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur