Fimmtudagur 22.10.2009 - 23:21 - 5 ummæli

Teigsskógur sigrar í Hæstarétti

Dómur Hæstaréttar í dag er öllum unnendum Teigsskógar í Þorskafirði mikið ánægjuefni. Í ljós kemur að Vegagerðin hefur rasað um ráð fram við umhverfismat, og þó einkum að Jónína Bjartmarz Framsóknarráðherra í umhverfisráðuneytinu var á skjön við lögin þegar hún sneri við úrskurði Skipulagsstofnunar um vegagerð á þessum slóðum undir pólitískum þrýstingi.

Jafnljóst er það að á sunnanverðum Vestfjörðum verður ekki mikil ánægja með úrskurðinn. Þar þurfa menn að íhuga málið rækilega, og spyrja bæði sjálfa sig héraðshöfðingja sína þá sem enn eru óbrottfluttir hvort samgöngumálum væri nú ef til vill betur komið ef endirinn hefði veri skoðaður betur í upphafinu og hlustað eftir varnaðarorðum og athugasemdum í staðinn fyrir hefðbundinn bumbuslátt yfir lönd og strönd.

Þær raddir hafa lengi heyrst innan úr Vegagerðinni að þverunar- og skógarleiðin sé alls ekki besta faglega lausnin heldur orðin til undir pressu frá pólitíkusum fyrir vestan og sunnan.

Eftir þessi úrslit í héraðsdómi og hæstarétti hljóta Vegagerðin og yfirmaður hennar, Kristján Möller samgönguráðherra, að staldra við og hugsa málið algerlega upp á nýtt. Fram hefur komið tillaga um jarðgöng í stað þverunar og brautar gegnum skóginn og það er heldur ekki fullreynt með vegabætur á gömlu leiðinn en hvort tveggja hefur hingað til verið slegið og hlegið út af borðinu vegna áætlananna sem nú hafa siglt í strand á báðum dómstigum.

Það er svo full ástæða til að óska til hamingju þeim sem stóðu vörð um Teigsskóg í þessum málarekstri, ekki síst Gunnlaugi Péturssyni verkfræðingi og lögmanninum Katrínu Theodórsdóttur sem er að verða einn af öflugri umhverfis- og mannréttindalögmönnum landsins.

Teigsskóg á svo auðvitað að friða sem fyrst, og auðvelda íslensku og erlendu útivistar- og ferðafólki að njóta hans og þessara slóða allra við norðurströnd innanverðs Breiðafjarðar um leið og félagi Möller setur sína menn til verka við alvöru-samgöngubætur vestra.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Jónina Bjartmars og hennar fjölskylda fer að verða persona non grata hér á skerinu.

  • Sæmundur Kr. Þorvaldsson

    Svona til að rétt sé alveg-rétt,
    Málið sem Vegagerðin féll á var alls ekki tengt Teigsskógi heldur skorti á frekari rannsóknum vegna þverunar Gufu- og Djúpafjarðar.
    Það bendir ekki til að Teigsskógur sé þrætueplið -eða hvað ?

  • Mörður Árnason

    Bæði þverunin og Teigsskógur eru undir í málinu einsog það liggur pólitískt. Dómsmálin snúast svo um tæknilegri atriði — en hér varð niðurstaðan meðal annars sú að í umhverfismati á ekki að taka með óskylda þætti, svo sem röksemdir um kostnað og öryggi. Þeir koma inn við sjálfa ákvörðun stjórnvaldsins. En það er rétt: Rétt skal vera rétt.

  • Guðmundur Ólafsson

    Þegar þetta óvandaðir og illa gefnir einstaklingar líkt og Jóhannes laxdal Baldvinsson, telja sig á einhvern hátt vera að taka þátt í umræðunni með álíka heimskulegum og lágkúrulegum ummælum og þeim sem að eru hér að ofan þá er nú algjört lágmark að þeir sjái sér fært að skrifa nöfn aðila rétt.

  • Eiríkur Kristjánsson

    Ágætur pistill hjá þér Mörður. En Guðmundur, við skulum ekki útiloka það að Jóhannes Laxdal hafi ekki hugmynd um hvað latínan, sem hann ætlaði að slá sér upp með, þýðir á íslensku.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur