Föstudagur 23.10.2009 - 11:20 - 17 ummæli

Ginningarfíflin öskra á Árna Pál

Ef tilhugsunin um róttækar breytingar vekur upp meiri ótta en tilhugsunin um aðsteðjandi ógn – hvernig er þá hægt að koma í veg fyrir voðann? (Brennuvargarnir, síðasta orðsvar fyrir hlé)

Illugi – Þorgerður Katrín – Gunnar Bragi Sveinsson – Siv – LÍÚ-kontórinn – og auðvitað Davíð sjálfur á Mogga – eru æf af illsku útaf ræðu Árna Páls Árnasonar á ASÍ-þinginu þar sem hann skammaði forkólfa stóriðju og sjávarútvegs fyrir frekjugang og sérhlífni.

Árni Páll má vera ánægður með viðbrögðin frá þessu samansúrraða sérhagsmuna- og afturhaldsliði. En af hverju eru þau svona æst? Vegna þess að ráðherrann stendur í lappirnar – sem nú er mikið lýst eftir – þar sem aðrir beygja kné:

Við eigum að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu en við eigum ekki að sæta afarkostum óforskammaðra kapítalista. Þeir vinna að einu markmiði – hámörkun arðs. Það vitum við vel af reynslu undanfarinna ára. Við eigum að standa með okkur sjálfum, setja viðskiptalífinu skýr mörk og verða ekki ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds með sama hætti og við eltum sérhagsmuni bankadrengjanna og útrásargosanna á undanförnum árum.

Um sjávarútvegsbarlóminn:

Við viljum semja við erlend fyrirtæki en ekki upp á hvaða býti sem er. Við erum til dæmis ekki tilbúin að semja um óendanlega skattaafslætti. Atvinnulíf sem ekki getur lagt af mörkum til samfélagsins er ekki upp á marga fiska. Við getum tekið dæmi af sjávarútveginum sem hefur notið ríkulega ávaxtanna af stórfelldri gengisfellingu, en kveinar samt viðstöðulítið undan hugmyndum um hóflega innköllun aflaheimilda. Afkomubati sjávarútvegsins á síðasta ári hleypur á tugum milljarða. Þessi afkomubati er fenginn með fórnum ykkar og ykkar félagsmanna. Gengisfellingin færði peninga frá íslensku launafólki til sægreifa og stóriðju. Grátkór og kveinstafir útgerðar og álfyrirtækja er háværari og ágengari á sama tíma og launafólk hefur stillt kröfum í hóf og sýnt mikið þolgæði. Það er íhugunarefni. Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?

Og um stóriðjuhróp og -köll úr öllum áttum:

Við viljum ekki standa í vegi ákvarðana fyrirtækja um uppbyggingu í Helguvík. Ákvörðun umhverfisráðherra um línulagnir hefur verið gagnrýnd en mér finnst það billegt að reyna að kenna þeirri ákvörðun um tafir. Ákvörðunin mun ekki tefja verkefnið að neinu marki – og ekkert umfram þær tafir sem stafa af því að framkvæmdaaðilinn hefur ekki tryggt fjármagn til verkefnisins og innlend orkufyrirtæki njóta ekki lánstrausts og vafi leikur á að fullnægjandi orkukostir séu til reiðu. Það eru hinar raunverulegu ástæður tafa í Helguvík. Og endaleysan um álverið á Bakka er svo kapítuli út af fyrir sig. Ekkert lýsir betur áherslum ríkisstjórnarinnar en sú ákvörðun að endurnýja ekki viljayfirlýsingu við Alcoa í óbreyttu formi. Við viljum nefnilega uppbyggingu á Bakka. En við viljum ekki afhenda einum útlendum auðhring sjálfdæmi um álitlegan nýtingarkost og gera öðrum áhugasömum fyrirtækjum ókleift að komast að borðinu. Við höfum á undanförnum árum glatað ótöldum tækifærum með aðferðafræði fortíðarinnar. Við höfum samið á forsendum álfyrirtækjanna án þess að skapa okkur samningsstöðu með nauðsynlegri samkeppni um ólíka kosti.

Það er ekki nema von þau öskri á Árna Pál. Hann er nefnilega að segja satt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (17)

  • Við erum stolt og ánægð með ræðu Árna, við almenningur, fólkið. Þarna fannst manni loksins vera komin talsmaður fólksins í landinu, almennings gegn glórulausu gani auðvaldsins. Írónían er sú að fromaður ASÍ hefði átt að vera sá sem tók einhverja afstöðu með alþýðunii en það bara kann hann ekki. ASÍ á að berjast fyrir okkur ekki vingast við SA.

  • Mál til komið að Samfylkingin tæki ábyrgð á tiltektinni og færi sjálf út með ruslið í stað þess að sópa því undir teppið

  • Blandarinn

    Ánægður með hann.

  • Garðar Garðarsson

    Mörður, eitthvað finnst mér vanta á heildarstefnu í atvinnumálum þjóðarinnar hjá Samfylkingunni og reyndar öllum flokkum. Eitthvað finnst mér eins og þetta eigi að sjá um sig sjálft, fyrstir koma fyrstir fá.

    Verður ekki að líta á fjölbreytileikann og dreifa eggjunum í fleiri körfur? það þarf að vera þjóðarhagur langt fram í tímann sem skiptir máli en ekki markaðshyggjan ein sem ræður um val á því hvernig við nýtum auðlindir okkar, og út frá því byggjum við gagnsæjar leikreglur hvernig við útdeilum auðlindunum okkar.

  • Hressandi að stjórnarliði skuli tala fyrir góðri stefnu stjórnarinnar í þessum efnum af festu og án þess að afsaka sig. Það er því miður ekki of algengt. Frábært ef menn ætla að fara að taka slaginn við LÍÚ-/Davíðshirðina og kveða niður þann draug endanlega.

  • Helga Sigurjónsdóttir

    Flott hjá Árna Páli. Svona eiga jafnaðarmenn að tala. Það vekur sannarlega vonir að til séu stjórnmálamenn sem ÞORA.

  • Jón á skeri

    Það á fyrst að herða svolítið um hálssnöruna á þeim atvinnugreinum sem þó eru að standa við sitt í landinu, …og svo á að greiða fyrir einhverju öðru sem gæti verið eftir að atvinnuvegum í landinu.

    Það er ekki í lagi með ykkur!
    Aumingja alþýða Íslands. Hún á bæði að borga svo til allt í skatt, borga hvaða vitleysu sem er eins og Icesavið ykkar og svo á líka að svipta sem flesta atvinnunni!!

  • „Illugi – Þorgerður Katrín – Gunnar Bragi Sveinsson – Siv – LÍÚ-kontórinn – og auðvitað Davíð sjálfur á Mogga “ – þetta fólk ætti að skammast sín og segja okkur á hverja þau vilja leggja byrgðarnar. Ég borga mína skatta og skyldur án þess að væla, því ég veit að við verðum öll að leggjast á eitt. Hvað er að þessu fólki?

  • Hjartanlega sammála Árna. Flott hjá honum að segja þessu liði til syndana. Það er tími til kominn að það fari að gera sér grein fyrir að forréttindi þeirra verða ekki liðinn lengur.

  • Tryggvi L. Skjaldarson

    Ég fæ martröð. Sé mig fjarlægjast Samfylkinguna og horfi skelfingu lostinn á faðm Davíðs. Getur einhver vakið mig áður en það er of seint?

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Þetta er dálítill viðsnúningur varðandi Bakka. Reglan hefur verið sú að ákveða að byggja fabrikku. Samið við einhvern erlendan auðhring sem segir hvað hann vill fá af orku, skattaívilnunum og slíku. Og hvað hann vill borga fyrir orkuna. Þá fyrst er ráðist í að virkja.
    Mér virtist Árni Páll segja að nú yrði virkjað fyrst og svo yrði spurt hver vildi kaupa og sá sem býður best fær.

  • Einar Ólafsson

    Orð í tíma töluð ! Guð blessi Ísland !

  • Þóra Guðmundsdóttir

    Vonandi gefur Árni Páll tóninn í þessari ræðu um framtíðar áherslur Samfylkingarinnar, þá er von um alvöru endurreisn.

  • Sigurður #1

    Þetta er eitthvað skrítið.

    Þetta er ekki sami Árni Páll og hefur talað hingað til í fjölmiðlum til almennnings í landinu.

    Eru stjórnarslit á næsta leiti….?

    Eru menn komnir í kosningahaminn….?

    Maður veit aldrei hvort maðurinn er að koma eða fara eða hvaða stefnu hann hefur yfir höfuð????

    Hann virðist skipta um stefnu og skoðun í hvert sinn sem hann vaknar á morgnanna.

    Það er ekki nokkur leið að taka minnsta mark á þessum manni.

  • Haft hefur verið fyrir satt að er Morgunblaðið hælir mönnum þá séu þeir komnir af réttri leið. Árni Páll er svo sannarlega á réttri leið, góð ræða og margt sagt sem þörf var á að segja.

  • #Tryggvi L. Skjaldarson

    Tryggvi minn!, þú ert bara að þroskast 🙂

  • Ræða Árna Páls er rugl, þvaður, kjaftaæði og galskapur í eyrum allra sem eitthvað vita um iðnað, sjávarútveg og rekstur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur