Þriðjudagur 27.10.2009 - 09:38 - 14 ummæli

Sælgæti, sígarettur, vindlar – og Tómas í Alcoa

Tómas Már Sigurðsson heitir ein helsta bjargvættur Íslands eftir hrun – formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Alcoa – en þessi félög berjast einmitt hönd í hönd með SA þessa dagana gegn skattpíningu ríkisstjórnarinnar á þjóðþrif, og hafa fengið í lið með sér sjálft Alþýðusamband Íslands.

Pínulítill kall sem nú leyfir sér að vera félagsmálaráðherra var með kjaft um daginn út í álfyrirtækin og því svaraði herra Tómas einsog skot í Morgunblaðinu: Sitt félag, Alcoa, héldi ekki bara uppi öllum Austfjörðum heldur borgaði í skatt heila 4 milljarða króna á ári.

„Beinar skattgreiðslur okkar í fyrra voru um fjórir milljarðar króna að ónefndum hafnargjöldum og raforkureikningum,“ segir forstjóri Alcoa sem finnst ræða ráðherrans einkennast af sleggjudómum. (Mbl. 26. október.)

Og nú setur litla kalla auðvitað hljóða. Þegar nánar er að gáð kemur samt í ljós að Tómas hefur misskilið eitthvað í rekstrinum hjá sér. Skattgreiðslur Alcoa geta nefnilega ekki verið 4 milljarðar, hvorki í ár né í fyrra, því samanlagðar skattgreiðslur allra álfyrirtækjanna á Íslandi á þessum árum ná ekki 2 milljörðum.

Mínar upplýsingar eru þessar – komnar í upphafi frá Ríkisskattstjóra:

Gjaldárið 2008: Tekjuskattur 1.277 milljónir króna, tryggingagjald 419 milljónir; samtals 1.696 milljónir = 1,7 milljarðar.

Gjaldárið 2009: Tekjuskattur 1.335 milljónir króna, tryggingagjald 566 milljónir; samtals 1.901 milljónir = 1,9 milljarðar.

Þetta eru tölurnar fyrir: Alcan á Íslandi ehf., Alcoa á Íslandi sf.,  Alcoa á Íslandi ehf., Norðurál Grundartangi ehf., Norðurál ehf., Norðurál Helguvík ehf., Norðurál Helguvík sf. og Norðurál Helguvík Holding II ehf.

Hvað sem líður álitaefnum og viðhorfum er enginn að gera lítið úr mikilvægi Alcoa eða annarra álfyrirtækja fyrir íslenskt atvinnulíf. Við vitum að vísu ekki á hvaða verði þau kaupa rafmagnið, en við vitum að þau mynda vinnustaði fyrir líklega 1500–2000 manns eftir því hvernig reiknað er, eða allt að 1,2% af vinnuafli á Íslandi, og kaupa ýmsar íslenskar vörur og þjónustu – þótt mestur hluti hlutdeildar þeirra í útflutningsskýrslum hverfi aftur úr landi vegna hráefniskaupa og arðgreiðslna.

Til ríkisins í skatt borga þau hinsvegar bara tæpa 2 milljarða öll til samans. Af hverju heldur Tómas Þór Sigurðsson öðru fram?

Er hann að rugla óviljandi? Er hann kannski að bæta við virðisaukaskatti sem Alcoa fær endurgreiddan? Sköttum starfsmanna, sem þeir borga, ekki hann?

Eða er Viðskiptaráð/Alcoa viljandi að bjóða uppá sælgæti, sígarettur og vindla?

Tómas Már er velkominn hér á bloggið með nánari skýringar á skattgreiðslum Alcoa á Íslandi ehf. og sf.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Jenný Anna Baldursdóttir

    Heyr, heyr.

  • Rómverji

    Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa, hlýtur að útskýra sitt mál nánar.

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Góður, Mörður!

  • Tómas er ekki formaður SA, hann er formaður Viðskiptaráðs.

  • Mörður Árnason

    Rétt, leiðrétti það. Takk.

  • Ekkert svar frá Tómasi. Ætli sé á lettersbréf yfir Öxi?

  • Garðar Garðarsson

    Og ASÍ spilar með álrisunum og SA.

    Það er kannski kominn tími til að sameina ASÍ og SA, því þessi samtök eru alltaf sammála og ganga alveg í takt. Ég er farinn að ruglast á þeim Gylfa Arnbjörns. og Vilhjálmi Egils. og veit ekki lengur hver segir hvað.

  • Þeir skattar sem vísað er til eru bæði beinar og óbeinar skattgreiðslur Alcoa til ríkis og sveitarfélaga. Inni í því eru t.d. hafnar- og fasteignagjöld, tekjuskattar o.fl. Þetta eru alls um 4 milljaðar króna.

    30-40% af útfluningsverðmætum áliðnaðarins verða eftir í landinu (um 70 milljarðar króna í fyrra). Árið 2008 keypti Alcoa vörur og þjónustu fyrir 9,5 milljarða króna af íslenskum fyrirtækjum.

    Austfirðingar vita hver staðan væri þar ef Alcoa hefði ekki komið til sögunnar. Svæðið væri einfaldlega MJÖG illa statt ef þetta verkefni hefði ekki komið til. Mér þykir nákvæmlega ekkert skrítið að Húsvíkingar séu áhugasamir um sambærilegar framkvæmdir. Af þessari ástæðu líst mörgum Austfirðingum afar illa á fyrirhugaða orku-, stóriðju- og auðlindaskatta (sem er reyndar af sömu ástæðu og öllum með smá kommon sense líst illa á þær hugmyndir). Við eigum ekki marga burðarveggi eftir. Er skynsamlegt að byrja að berja í þá með sleggjum?

    Fyrirhugaðir skattar á iðnaðinn er nefnilega ekkert annað. Áliðnaðurinn hefur fundið verulega fyrir heimskreppunni. Það eru mjög fáir að ná því að reka álver á núlli í dag. Víða er verið að minnka framleiðslu og segja upp fólki. Það er einfaldlega ekkert borð fyrir báru hjá álverunum í dag. Ef þessi skattur verður lagður á, þá þurfa álverin að fara í massífan niðurskurð á mannafla, þjónustukaupum o.s.frv. Hundruðir missa vinnuna, kaup á þjónustu verða skorin niður og framleiðsla jafnvel minnkuð, auk þess sem menn geta gleymt frekari fjárfestingu í greininni.

    Megum við við slíku? Eru menn búnir að reikna þessar upphæðir inn í dæmið?

    Ég óttast reyndar að menn SÉU búinir að reikna þær upphæðir, en sé bara skítsama. Þessar skattheimtuhugmyndir eru einfaldlega af pólitískum rótum runnar. Umhverfisöfgamenn fá núna tækifæri til að hefna sín á iðnaði sem þeir hata eins og pestina.

    Og þeim er skítsama þótt það sé á kostnað þjóðarinnar.

    Og JÁ. Undirritaður er starfsmaður í áliðnaði og íbúi í Fjarðabyggð (en þaðan kemur ein króna af hverjum fjórum sem Ísland aflar í gjaldeyri)

    kv.
    Siggi

  • Mörður Árnason

    Kæri Siggi — Þú hefur ekki tekið eftir orðum yfirmanns þíns:

    „Beinar skattgreiðslur okkar í fyrra voru um fjórir milljarðar króna að ónefndum hafnargjöldum og raforkureikningum,“ segir forstjóri Alcoa sem finnst ræða ráðherrans einkennast af sleggjudómum. (Mbl. 26. október.)

    ,,Beinar skattgreiðslur.“ Þær á Tómas einmitt eftir að skýra. — Alveg rétt hjá þér að álfyrirtækin borga laun og kaupa vörur. Annaðhvort væri nú — það var tekin ákvörðun um að þessi iðnaður sæti að nánast allri orkuframleiðslu Íslendinga, og öðrum kostum verið skipulega rutt úr vegi. Þannig var það líka á Austfjörðum — þar sem gömlu rökin um að fjölga fólki hafa nú vikið og tekin eru við þakkaráköll fyrir að einhverjir eru Þó eftir. Plús þetta um ,,umhverfisöfgamenn“ að hefna sín.

    Þannig gætum við auðvitað haldið áfram. Brýnna er hinsvegar að svara spurningunni um framlag þessa geira til að endurreisa efnahags- og atvinnulíf á landinu. Minnugir þess að ein af orsökum hrunsins eru einmitt stórframkvæmdirnar fyrir austan í miðri uppsveiflu.

  • Mörður. Ég hef ekki hugmynd um hvað Tómas sagði. Ef hann hefur farið með fleipur þá leiðréttir hann það bara. Ég tel samt að þessi tala sem hann nefndi séu allar skattgreiðslur, beinar og óbeinar, alls 4 milljarðar króna.

    En það hvaða upphæð Tómas nefndi er algert aukaatriði í þessu samhengi.

    Spurningin sem þarf að svara er þessi:

    Getur áliðnaðurinn borgað nýja skatta upp á 16 milljarða króna eins og staðan er í dag- án þess að fara í stórfelldan niðurskurð.

    Svarið við þeirri spurningu er NEI. Ef þessir skattar verða lagðir þá þá hefur það þessar afleiðingar:

    -Áliðnaðurinn mun segja upp fólki. Annar kostnaður er þess eðlis að ekki er hægt að skera hann niður, þ.e. orka og hráefni. Álverin munu skera mannafla niður í lágmark. Við gætum verið að tala um nokkur hundruð störf í það heila. Það fólk verður atvinnulaust og þarf því atvinnuleysisbætur. Eða flytur úr landi (það mun ég sennilega gera ef til þess kemur). Alltént mun það ekki greiða tekjuskatta til ríkisins og kaupmáttur þess mun minnka niður í ekki neitt.

    -Áliðnaðurinn mun minnka kaup á þjónustu og vörum um milljarða. Það þýðir að ýmis fyrirtæki sem þjónusta álverin munu þurfa að segja upp fólki. Niðurstaðan verður minnkuð velta í samfélaginu, atvinnuleysi eða landflótti.

    -Ég tel raunverulega hættu á því að álverum verði lokað- eða a.m.k. að framleiðsla þeirra verði minnkuð niður í þau lágmörk sem tilgreind eru í orkusamningum. Sem þýðir minnkaðar útflutningstekjur og þau áhrif sem lýst er hér að ofan.

    -ENGU iðnfyrirtæki (hvorki í áliðnaði né öðrum iðnaði) mun detta í hug að fjárfesta á Íslandi. Það er kraftaverk að enn skuli finnast fyrirtæki sem eru tilbúin til þess arna, en ef skattaumhverfið verður gert jafn óvinsamlegt og allt stefnir í þá getum við sennilega gleymt því að nýir aðilar vilji fjárfesta hér.

    Ég get ómögulega séð einhverja vitglóru í því að fara í skattahækkanir sem gætu haft þessar afleiðingar. Það er varasamt að berja í einn af örfáum burðarveggjum í hálfhruninni byggingu.

    Skilningsleysi þitt á stöðunni á Austfjörðum er svo kapituli út af fyrir sig. Veist þú t.d. að störfum í sjávarútvegi í Fjarðabyggð hefur fækkað um 300 siðustu árin? Hvernig í ósköpunum heldur þú að staðan væri hér ef þetta álver hefði ekki komið til? Hún væri einfaldlega hrikaleg.

    Fullyrðing þín um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir sem einn af aðalorsökum hrunsins eru líka algert kjaftaæði. Þessir peningar sem komu inn í landið í tengslum við það verkefni voru dropi í hafið. Og talsverður hluti þeirra fór beint úr landi aftur í vösum Bechtel, Impregilo og þúsunda verkamanna. Það sem eftir stendur er stórt og öflugt fyrirtæki sem veitir fjölda fólks atvinnu, á stóran þátt í því að gera Austfirði að góðu samfélagi og á í dag STÓRAN þátt í því að við getum keypt seríós, tómat í dós og bóluefni gegn svínaflensu.

    Ég vona innilega að þinn skilningur á þessu sé ekki útbreiddur meðal Samfylkingarfólks- sem er, nota bene, sá flokkur sem ég hef tilheyrt og kosið síðan hann var stofnaður. Ég tel líkur á því að ég veiti honum aftur atkvæði mitt fara þverrandi.

  • Mörður Árnason

    16 milljarðar?

    En að öðru leyti er einfalt að búa til svona ræðu þegar útlit er fyrir skattahækkanir.

  • Er þá ekki einfalt að svara henni efnislega?

    Þið eruð að tala um að skattleggja iðnað sem í besta falli er rekinn á núlli um milljarða. Hvaða afleiðingar heldur þú að það hafi?

    Það mun hafa þær afleiðingar sem ég lýsi að ofan.

    Er þá eitthvað vit í þessum skattahækkunarhugmyndum? Ehhh……NEI! Þær munu einfaldlega draga úr öðrum tekjum ríkisins (minni skattheimta af veltunni, atvinnuleysisbætur handa þeim sem missa vinnuna, engin ný verkefni…), minnka veltuna í samfélaginu og draga okkur dýpra í þessa kreppu.

  • Ólafur Gíslason

    Það væri fróðlegt að vita hverjar vaxtagreiðslur orkufyrirtækjanna eru, t.d. af Kárahnjúkaævintýrinu, í samanburði við skattaframlag og rafmagnsverð Álfyrirtækjanna. Hefur einhver þær tölur við hendina?

  • fallegt þegar bjargvættur fær að vera kvenkyns.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur