Þriðjudagur 27.10.2009 - 11:45 - 18 ummæli

Í hvaða fötum er stöðugleikasáttmálinn?

Það er látið einsog allt fari beinleiðis til andskotans ef þessi svokallaði stöðugleikasáttmáli fokkast upp.

Af hverju?

Treystum við ekki atvinnurekendum og verkalýðsforystu til að gera á vinnumarkaði samninga í samræmi við stöðu þjóðarinnar?

Er hugsanlegt að Vilhjálmur Birgisson á Akranesi hafi rétt fyrir sér um að fjölmörg fyrirtæki geti vel borgað laun í samræmi við fyrri samninga?

Auðvitað er eðlilegt að „aðilar vinnumarkaðsins“ (alltaf þessir sömu tveir einir) hafi skoðun á skattamálum – en hafa þeir enga skoðun á gífurlegum niðurskurði í velferðarþjónustu sem yrði enn ógnvænlegri ef ekki verða hækkaðir skattar?

Auðvitað er rétt að Liljur, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur og ýmiskonar þjóðernispopúlískur kverúlans í samfélaginu hefur skemmt fyrir endurreisninni með því að tefja Icesave-samkomulagið og kenna AGS – og forsetanum! – um hrunið. Hefur ríkisstjórnin þar með „svikið“ efnahagsþættina í samkomulaginu?

Af hverju berst ASÍ gegn því að stóriðjufyrirtæki leggi sitt fram á erfiðustu tímum í nútímasögu Íslendinga?

Hver kaus Vilhjálm Egilsson og Gylfa Arnbjörnsson til að stjórna ferðinni í atvinnumálum með stórkarlaframkvæmdum og náttúruspjöllum?

Hver gaf forystu Alþýðusambandsins umboð til að hóta verkföllum ef loksins yrðu stigin skref til að lagfæra gjafakvótakerfið?

Svo spurt sé svipað og litla barnið í kóngsins Kaupinhafn: Er stöðugleikasáttmálinn mikli í einhverjum fötum?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (18)

  • Já Mörður, það er ekki hægt að þessir karlar þekki sinn vitjunartíma. Enda eitt ólánlegasta dúó Islandssögunnar, skaga að vísu ekki upp í Davíð og Geir.

  • Pétur Björn

    Þetta er mjög góður pistill hjá þér Mörður.

    Stöðugleikasáttmálinn er furðulegur samningur, m.a. um atriði sem samningsaðilarnir stýra ekki (t.d. ákvörðuin stýrivaxta og gjaldeyrishafta).

    Fyrir þetta sló verkafólk af launakröfum sínum.

    Hreinna hefði verið að semja um að launafólk gæfi eftir launahækkanir vegna erfiðleika atvinnulífsins, ef það er þá rétt í öllum tilvikum.

    Svo vilja ASÍ menn setja atvinnueysistryggingasjóð undir þá sjálfa og atvinnurekendur! Það er einkavæðing velferðarkerfisins.

    Slík stefna gæti breytt ASÍ í sjóðafyrirtæki og kjarasamningar og kjarabarátta heyra þá fortíðinni til. Furuleg stefna.

  • Arnþór Sigurðsson

    Aldrei þessu vant ertu sammála mér.

  • Ég er örugglega alltaf næstum því sammála þér, Mörður 🙂 Heyr heyr fyrir þér.

    Kærar kveðjur úr norðrinu.

  • Bára bleika

    Það er sorglegt að hafa gefið „vinstri stjórn“ atkvæði sitt og verða svo vitni að því að hún BERST GEGN hækkun persónuafsláttar!!

  • Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

    Tek undir hvert einasta orð og hverja einustu spurningu hjá þér Mörður.

    Framganga þessara forkólfa vinnumarkaðarins er vægast sagt forkastanleg í ljósi þess hvers konar tíma við erum að reyna að koma okkur í gegnum. Umleið og þeir heimta og heimta af ríkinu þá gera þeir atlögu að stjórnsýslu þess með því að gera kröfu til þess að atvinnuleysistryggingasjóður verði færður undir stjórn aðila vinnumarkaðarins. !!!

    Hér er enn og aftur verið að leggja drög að því að tvær þjóðir búi í þessu landi, þ.e. fólk (vinnu)markaðarins og svo hitt fólkið sem verður í forsjá ríkisins sem aðilar vinnumarkaðarins telja sig að sjálgsögðu ekkert hafa með að gera.!!!

  • Heyr, heyr Mörður. Ég hélt að Gylfi Arnbjörnsson og forysta ASÍ gætu ekki valdið meiri vonbrigðum en þetta heldur bara áfram og áfram.

  • ASÍ virðast vera komnir undir hælinn á LÍÚ. Það er átakanlegt að horfa upp á þetta. Hversu langt getur firringin gengið?

  • Sigurður #1

    Bára Bleika.

    Þetta er ekki vinstri stjórn.

  • Garðar Garðarsson

    Hvað halda þessi samtök atvinnulífsins að Ríkið sé?
    Ríkið er við öll og líka þessi samtök.
    Það á að sýna Ríkinu mikla þolinmæði í þessu ástandi enda hefur verið nóg að gera við þrif eftir mörg stærstu fyrirtæki landsins og fyrri ríkistjórnir sem stjórnarandstaðan hefur komið að mestu nærri.

  • Þórður Magnússon

    Það kom að því að ég yrði sammála þér, en asskoti tók það langann tíma. ASÍ er orðin grímulaus hagsmunagæsla fyrir stórkapítalið enda er hún í forsvari óbeint fyrir eina stórkapítalið sem eftir er á landinu, lífeyrissjóðina. Ef dugur væri í ASÍ þá berðist así fyrir afnámi verðtryggingar í stað þess að berjast fyrir verðtryggingunni svo dæmi sé tekið.

    Tillögur ASÍ og SA um hækkun á tryggingargjaldi eru óskiljanlegar með öllu og er ekkert annað en flatur tekjuskattur á öll laun og verður síst af öllu til þess fallin að koma hjólum atvinnulífs í gang aftur. Þessi skattur er atlaga að þeim vinnustöðum þar sem laun eru stærsti hluti gjalda og leggst með sama þunga á lægstu sem hæstu laun.

    SA er með engu móti að vinna fyrir lítil eða meðalstór fyrirtæki, einungis fyrir þau allra stærstu og ASÍ virðist kominn í einhverskonar blóðskammarsamband með þeim. Réttast væri að sameina fyrirbærið enda sést hvorki né heyrist nokkur munur á hvor þeirra er að tala. Þau gætu þá heitið „Samtök alþýðlegra atvinnusamtaka“ og það myndi þó allaveganna sparast tími í sjónvarpsfréttum þar sem nóg væri að tala við annað höfuðið af þessum nú tvíhöfða þurs.

  • Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir

    Ef menn skilja stöðugleikasáttmálann sem einhvers konar „stöðugt-leika-sáttmála“, – þá má sá sáttmáli fara lönd og leið nákvæmlega þessa stundina meðan við erum í miðri brekku. Mætti ég þá heldur biðja um samstöðusáttmála sem tryggji það að ein þjóð búi áfram hér í þessu fámenna landi.

  • Alma Jenný Guðmundsdóttir

    Hvað er eiginlega með þá fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar sem taka fullan þátt í þessu ?

    Hvað með VR og nýjan formann þar – hann vill halda sig við samstarf við ASÍ !

    Launþegar þurfa að hætta að greiða félagsgjöld til þessara aðila – þeir missa að vísu orlofshúsa-réttindi – en það er ekkert á pr. fjölskyldu miðað við það gjald sem við greiðum til þessara spilltu afla.

  • Sjöfn Kristjánsdóttir

    Mörður á þakkir skilið fyrir þessa grein og margar aðrar. Get tekið undir flest af þess. Satt að segja hefur Gylfi stöðugt komið á óvart sem forsvarsmaður ASí og svo hætt að koma á óvart þar sem viðbrögð hans hafa verið orðin fyrirsegjanlega og hann greinilega orðinn múlbundinn af öðru/öðrum en hann ætti að vera.

  • Óðinn Þórisson

    Mörður Árnason málpípa græningja&hafta í sf ásamt Dofra og verða seint sakaðir um að skylja út á hvað hlutirniir ganga eða það að ég muni nokkurtíma taka nokkuð mark á einu orði sem þessir piltar hafa fram að færa.

  • Mee, meeee,meeeee…..!

  • Mörður verður seint kallaður skemmtilegur maður og hvað þá að skilja samhengi hlutanna. Þessi stjórn er fyrir löngu gjaldþrota og hvergi í heiminum hefur kommúnismi gengið upp.

  • Ég finn þjóðarsáttarfnyk af þessum „sáttmála“. Sú „sátt“ var mesta svikamilla sem íslenskir launþegar hafa lent í. Yfirvarp til að öll vara og þjónusta gæti hækkað í verði, en laun staðið í stað.

    Ég hef ímugust á þessari „sáttmálagerð“ allri og held að hún þjóni aðeins auðvaldinu og yfirvaldinu og búi til þægilega yfirbyggingu til þess að almenningur haldi áfram að borga skítinn eftir „góðærið“ sem aldrei var annað en yfirdráttur og mokaði auðæfum til þessara fáu sem nú grenja hæst en eiga í leynum digra sjóði á Tortólum heimsins.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur