Fimmtudagur 29.10.2009 - 08:53 - 26 ummæli

Fyrir hverja vinnur Gylfhjálmur?

Ég er alinn upp í virðingu, lotningu næstum því, við verkalýðshreyfinguna og störf hennar í þágu alþýðu frá upphafi sínu í lok 19. aldar: Að skapa réttlátt þjóðfélag. Og hef enn ekki brugðist þeim lærdómi úr foreldrahúsum að leggja við eyrun þegar forystumenn alþýðusamtakanna tala.

Meginstefna Alþýðusambandsins hefur frá því á sjöunda áratugnum verið svokallaður korpóratismi, sem einmitt hefur gefist vel í skárstu samfélögum Vesturlanda eftir stríð – Þýskalandi, norrænu ríkjunum, Benelúxlöndum: Samvinna faghreyfingarinnar, atvinnurekenda og ríkisvalds um stóru línurnar í atvinnu- og efnahagsmálum. Rökin eru þau að þannig næst árangur sem verkalýðshreyfingin réði ekki við ein og sér, og heldur ekki í félagi við vini og skyldfólk í pólitík – með þeim sem einu sinni voru kallaðir verkalýðsflokkarnir.

Og víst getur íslensk verkalýðshreyfing státað af margvíslegum ávinningi af þessari samvinnu, allt frá lífeyrissjóðakerfinu og Breiðholtsblokkunum (hvar er annars styttan af Guðmundi J.?) til menntaátaks og starfsendurhæfingar í nútímanum.

Fjöregg verkalýðshreyfingarinnar við þessar aðstæður er að týna ekki sjálfri sér í öllu samningaspilinu og skrifstofuþrefinu sem fylgir þessari tegund af stéttasamvinnu.  Forystumennirnir, kjörnir eða ráðnir (sumir fyrst kjörnir, svo ráðnir, aðrir fyrst ráðnir, svo kjörnir) mega ekki missa sjónar á félögunum og stemmningunni á gólfinu, og þeir verða að passa uppá það í allri þjóðfélagsverkfræðinni að niðurstaðan úr hverri samningalotu og heildarstefnan til langs tíma sé í samræmi við hagsmuni alþýðu.

Órofa samstaða

Hér er þetta þríhliða samstarf atvinnurekenda, verkalýðshreyfingar og pólitískrar forystu landsins óðum að þróast út í tvíhliða samstarf. SA og ASÍ semja fyrst sín á milli og síðan saman við ríkið. Þar koma samtökin fram einsog einn maður – engin furða að bloggarar eru farnir að taka um SASÍ og kalla formanninn Gylfhjálm.

Órofa samstaða hefur verið beittasta vopn verkalýðshreyfingarinnar frá upphafsdögum hennar um miðja 19. öld. Ljóst er eftir undanfarna daga og vikur að forysta Alþýðusambandsins hefur þennan gamla arf í heiðri. Hún sýnir svo sannarlega órofa samstöðu – með vinnuveitendasamtökunum.

Ýmislegt er auðvitað til í gagnrýni ASÍ/SA á ríkisstjórnina, og sjálfsagt að setjast niður í miklu samráði um útfærslu skattahækkana – eru skattleysismörkin mikilvægari en tekjuskattsprósentan? Hvað þola fyrirtækin mikla hækkun á sínum tekjuskatti? Hvað er sanngjarnt – og óhætt – að leggja mikinn skatt á fjármagnið?

Þetta er hinsvegar ekki áhyggjuefni Gylfa og félaga á skrifstofum ASÍ, enda eru stjórnmálamennirnir bráðfúsir að fá fleiri að því borði. ASÍ leggur aðaláhersluna á að styðja SA í kröfum sem koma launafólki ekkert við og vinna sumar gegn hagsmunum þess. Það er átakanlegt að sjá Alþýðusamband Íslands róa gegn breytingum á gjafakvótakerfinu. Það tekur líka á að sjá sambandið bætast í einhæfan álkór gegn lausnum sem skapa meiri vinnu með miklu minni umhverfisfórnum. Hlálegastur er þó vígbúnaður alþýðusamtakanna gegn orkusköttum – þar sem SA/ASÍ leggur til að í staðinn verði hækkað tryggingagjald!

ASÍ: Hærri skatt á laun

Tryggingagjaldið leggst á laun og hefur aldrei verið hærra en nú – 7% frá því í júlí. Hvernig kemur það við hagsmuni launafólks? Illa, af því að eðlileg viðbrögð atvinnufyrirtækis við svo háum skatti eru að minnka einsog verða má kostnað af launagreiðslum. Ætli það hjálpi til við að berjast gegn atvinnuleysi?

Svar óskast frá skrifstofu Alþýðusambands Íslands.

Þetta var hinsvegar með í pakkanum sem ASÍ/SA samdi um við SA/ASÍ – og í nafni órofa samstöðu er afl Alþýðusambandsins lagt gegn skynsamlegum leiðum til að dreifa byrðunum eftir hrun markaðshyggjunnar. Með samtökunum sem kenna sig við atvinnulífið einsog þeir einir séu atvinnulíf sem eiga hlutabréf í vinnustöðunum.

Sem betur fer virðast ráðherrar Samfylkingarinnar og VG hafa ákveðið að ,kalla blöffið’. Í yfirlýsingu stjórnarinnar frá í fyrragær er ekki fallist á neinar kröfur „aðilanna“ – sem að lokum þorðu ekki að standa við hótanirnar.

Eða ætlar Gylfi Arnbjörnsson að boða til verkfalla til að styðja gjafakvótann og hækka tryggingagjaldið?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Besserwisser

    Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur engu skilað. Allar framfarir hafa komið að utan, aðallega Skandinavíu, og kom ekki Hitler með félagsbústaðakerfið?

  • Góður pistill hjá þér Mörður. Já það er enginn munur orðinn á ASÍ og SA. Það væri hagkvæmni hjá þeim að steypa þessu í eina heild- Sameignarfélag atvinnulífsins. Þeir eru samt umboðslausir frá þjóðinni. Við kjósum okkar fulltúa til Alþingis- þar er stjórnvaldið. Þessir menn Gylfi og Vilhjálmur hafa ekki það umboð.

  • Bjarni Sig.

    Þetta er mjög góð grein hjá Merði. Snýst um grundvallaratriði.

    Svo virðist sem samruni SA og ASÍ í SASÍ sé að breyta eðli verkalýðsbaráttunnar.

    ASÍ virðist stefna á að verða sjóðstjórahreyfing. Hreyfing sem stýrir lífeyrissjóðum, sjúkrasjóðum, endurhæfingarsjóði og nú líka atvinnuleysistryggingasjóði.

    Verkalýðsleiðtogarnir virðast vilja vera sjóðstjórar umfram allt.

    Hvernig kjarabaráttufólk verða þeir þá?
    Hvernig verður hægt að vinna að hagsbótum launþega, sem alla jafna rekast á markmið sjóðstjóra?

  • Jón Ottesen

    Ríkisstjórnin er komin svo langt til vinstri að hún hefur meira að segja skilið verkalýðshreyfinguna eftir! Það þykir mér saga til næsta bæjar.

    ASÍ áttar sig greinilega á því að fyrirtæki verða að þrýfast í landinu til að fólk hafi atvinnu. Það gerir sosíal ríkisstjórnin hins vegar ekki.
    En ég vona að ríkisstjórnin haldi áfram á þessari braut svo við losnum við hana fyrr en ella.

  • Margrét S.

    Góð grein hjá þér.

    Það er langt síðan ég áttaði mig á því að ASÍ er komið langt langt í burtu frá grasrótinni. Ögmundur Jónasson lýsti því mjög vel í ræðu sem hann hélt sem fráfarandi formaður BSRB. Hann sagði að „menn væru á alltof stórum jeppum og í alltof stórum húsum“ til að geta starfað fyrir láglaunafólkið og verkafólk. Gylfi Arnbjörnsson er sérkapítuli út af fyrir sig, helsti varðhundur víðtækrar verðtryggingar á húsnæðislán almennings. Hann er kominn lengst í burtu frá venjulegu launafólki. Hann er eflaust einn af ofurlaunafólkinu í verkalýðshreyfingunni á alltof stórum jeppa og í alltof stóru einbýlishúsi.

    ASÍ hefur ekki sýnt neinn áhuga á því að leiðrétta húsnæðislán almennings sem hafa hækkað um tugi prósenta á örfáum árum og eignaupptakan algjör.

  • Þetta er allt satt og rétt

  • Það er auðvitað mikið áfall fyrir komma og krata þegar verkalýðshreyfingin hleypst undan merkjum í þeim hernaði sem ríkisstjórnin stundar gegn þjóðinni. Stjórnarflokkarnir hafa skipt með sér verkum; Samfylkingin einbeitir sér að því að framselja sjálfstæðið til ESB og erlendra vogunarsjóða í óþökk þjóðarinnar á meðan Vg berjast gegn allri uppbyggingu í atvinnulífinu – líka í óþökk þjóðarinnar. Stefna beggja flokka byggist á hreinni ídeólógíu – hatri á „self-identity“ einstaklinga og þjóðríkja annars vegar og hatri á kapítalisma (ríku fólki) hins vegar. Raunveruleikinn er til trafala þegar ídeólógían er annars vegar og þess vegna er verkalýðshreifingin til trafala.

    Fólk þarf helst að hafa vinnu til að geta borgað skatta. Það er of flókið til að ríkisstjórnin skilji það en Gylfi virðist gera það að einhverju leyti.

  • Mætti líka skoða að stofna önnur samtök fyrirtækja, sem gætu haft nútímalegri áherslur en Samtök atvinnulífsins.

  • Jenný Anna Baldursdóttir

    Þetta fyrirkomulag á glittvíburunum er bara sorglegt.

  • Er ekki séra Gunnar Björnsson á lausu núna? Hann ætti því að hafa nægan tíma til að gefa saman þessi tvö samtök í heilaga einingu. Herra og frú SASÍ vekur hins vegar upp spurninguna um hvor þeirra sé frúin, Gylfi eða Vilhjálmur, eða kanske hjónabandið sé nýmóðins og án kynja:)

  • Kristján Kristinsson

    Góð grein að venju Mörður.

    Mér verður alltaf hugsað til lagsins „Working Class Hero“ með Lennon þegar ég sé Gylfa:

    There’s room at the top they are telling you still,
    But first you must learn how to smile as you kill,
    If you want to be like the folks on the hill,
    A working class hero is something to be.
    A working class hero is something to be.

  • Þessi viðsnúningur hjá þér síðan í vor, þegar þú hættir skilyrðislausum stuðningi við Ríkisstjórnina er af hinu góða. Nú held ég að sífellt fleiri vinstri mönnum hugnist pistlarnir þínir. Aðhald skapast með gagnrýni og það er það sem fulltrúar okkar þarfnast svo þeir forherðist ekki í kastljósi valdsins. Gildir einu hvort það eru forystumenn launþega, vinnuveitenda eða Ríkisstjórnar

  • Arnþór Sigurðsson

    Enn og aftur ertu sammála mér. Ég er farinn að hafa áhyggjur af þessu, ég verð að segja það.

  • Frábær grein hjá þér Mörður. Verkalýðshreyfingin er máttlaus og hefur verið það undir stjórn Gylfa. Eini maðurinn sem að raunverulega berst fyrir hagsmunum alþýðunnar er formaður verkalýðsfélags Akraness. Væri gaman að sjá hann sem næsta forseta ASÍ. En það gerist seint í þessu gjörspillta batteríi

  • Ég verð að segja að sem fulltrúi VR á ársfundi ASí, þá er ég ekki par sáttur viið þessar yfirlýsingar. Það er og á ekki að vera hlutverk ASÍ að vera þrýstihópur fyrir atvinnurekendur, hvað þá að beita sér sérstaklega fyrir hagsmunum álvera og kvótagreifa.

  • María Kristjánsdóttir

    Góður pistill. það hlýtur að vera eðlilegra að forseti ASÍ komi úr röðum þeirra stéttafélaga sem eru innan sambandsins, af gólfinu sem sagt. Hagfræðinga má alltaf fá til ráðuneytis.

  • ÉG held að það sé kominn tími fyrir launafólk Í ASÍ að fá nýjan formann,

    ER viss um að Gylfi Arnbjörnsson fær vinnu á skrifstofunni hjá Vilhjálmi vini sínum.

    Gylfi Arnbjörnsson hefur ekki umboð þorra félagsmanna í ASÍ, hann var jú púaður niður á ræðupallinum 1 maí , það hefur ekki gerst áður. enda virðist hann vera búinn að gera ASÍ að deild hjá Atvinnurekendum, þessi maður þarf hvíld frá verkalýðsstörfum.

  • kristínÞM

    Eins og talað út úr mínu hjarta. Karlrembuþröngsýnissérhagsmunastefnupólitík ætti að vera yfirskriftin á það sem hefur komið frá tvíburunum í Gylfa og Vilhjálmi

  • Fínn pistill Mörður. Mér finnst hinsvegar enginn munur vera á Tortola formannimum Gylfa og ríkisstjórn Íslands. Ef ég vissi ekki betur myndi ég áætla að Gylfi væri í ríkisstjórn. Hann er allvegana ekki að vinna fyrir verkafólk sem hann var kosinn af. Sjaldan hef ég heyrt eins mikið af óánægju röddum með nokkurn ASÍ mann einsog Gylfa. Hann átti að segja af sér þegar í stað vegna Tortola fyrirtækjana. Jafn siðblindur og þeir sem riðu öllu á annan enda hér.

  • Nú þurfum við að gera hallarbyltingu og koma lýðskrumaranum og Sjálfstæðishundinum Gylfa út úr ASÍ. Hann er ekkert annað en auðvaldsattaníossi þó hann reyni að líta út eins og besti vinur litla mannsins, Jólasveinninn.

  • Mörður Árnason

    Svona, svona — gera mun á manninum og málefninu. En takk fyrir hressileg innlegg!

  • Ég er bara alveg sammála. Í umboði hvers starfar maðurinn eiginlega. Hann hefur ekkert með málefni alþýðunnar að gera og eins og þú ritaði Árni Þór þingmaður góðann pistil um þetta. Gylfi ætti að fara að tala við fólkið áður en hann heldur áfram. Það væri þá daguinn að alþýðan þyrfti að fara í mótmælagöngu GEGN ASÍ?!!!!!

    http://www.visir.is – Árni Þór

    ..ASÍ gagnrýnir yfirlýsingu Jóhönnu og Steingríms

    Mér er minnisstætt að fyrr á þessu ári var ég á Austuvelli á einum af mörgum borgarafundum sem haldnir voru til að mótmæla stöðu þjóðmálanna og krefjast aðgerða af hálfu ríkisvaldins. Einn ræðumanna var forseti Alþýðusambands Íslands, Gylfi Arnbjörnsson. Er skemmst frá því að segja að hann fékk varla nokkurn frið til að flytja mál sitt, slík voru mótmælahrópin að honum og var öllum ljóst að hann nýtur lítils trausts og trúnaðar meðal þjóðarinnar.

    Engu að síður telur þessi sami forseti ASÍ sig þess umkominn að setja stjórnvöldum skilyrði fyrir aðkomu samtaka launafólks að uppbyggingu íslensks samfélags úr rústum nýfrjálshyggjunnar. Væri það ekki í frásögur færandi ef hann væri að krefjast þess að hagsmunir alls almennings yrðu hafðir að leiðarljósi, að samfélagið yrði byggt upp á samfélagslegum forsendum og lögmálum frjálshyggjunnar, sem hrundi sl. haust, yrði varpað á öskuhauga sögunnar. En því er ekki að heilsa, því miður. Nú er eins og fátt komist að í sálu forsetans en hagsmunir stórfyrirtækja, fjármagnsins, auðvaldsins… Öðru vísi mér áður brá!

    Hver valdi Gylfa Arnbjörnsson til að stjórna málefnum þjóðarinnar? Var hann í framboði í nýliðnum þingkosningum? Hversu mörg atkvæði hlaut hann? Framganga hans í tengslum við endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs og stöðugleikasáttmálann hlýtur að kalla á spurningar og svör af þessum toga. Vill hann frekar meiri niðurskurð almannaþjónustu eða meiri skattahækkanir á launafólk en að atvinnureksturinn (þmt. orkugeirinn) leggi sittlítið eitt af mörkum til samfélagsþjónustunnar? Hverra hagsmuna er hann að gæta?

    Forseti Alþýðusambandsins er einfaldlega umboðslaus þegar hann gengur fram með þeim hætti sem maður verður vitni að þessa dagana. Þjóðin kaus hann ekki til að stjórna málum sínum, og það gerðu reyndar (merkilegt nokk) ekki vinnuveitendur heldur. Er engu líkara en málið snúist nú aðallega um það hverjir ráði för, ekki hvert stefnt er. Þegar svo er komið þurfa menn að fara að hugsa sinn gang.“

  • Jakob Þór Haraldsson

    Frábær skrif hjá þér, til fyrirmyndar og gaman að sjá málefnalega & kröftuga gagnrýni seta fram á STASÍ – sorry – ASÍ & SA. Vinnubrögð Gylfa, ASÍ & SA hafa í mínum huga verið til skammar í mjög langan tíma…!

    kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)

  • Guðrún Hlín

    Ég hef mikið reynt að skylja hvað felist í stöðuleikasáttmálanum, nú í kvöld í kastljósinu kom það sem ég ekki skyldi sem sé að VG er að fela sig á bakvið samþykktir í virkjunarmálum sem aðrar ríkisstjórnir hafa gert.ASÍ tekur fullan þátt í þeim áformum og ætla svo að finna eina græna þúfu sem Guðmundur Gunnarsson á að varðveita. Já þessi samtök eru komin svo langt frá sínum félagsmönnum og vaða áfram án þess að hafa neitt umboð nema frá útvöldu trúnaðarráði sem á ekki að taka pólitískar ákvarðanir fyrir vinnufélaga sína.Hafðu þökk fyrir að verja landið okkar og ég vona að þingmenn VG sem lofuðu að verja neðri þjórsá geri sér grein fyrir þessari BARBA BRELLU sem felst í stöðuleikasáttmála sem ASÍ er að fela sig á bakvið. Verjum Fallega Landi Okkar.

  • Sigurður #1

    Góður pistill.

    Og þeir fara stöðugt batnandi hjá þér, gott mál.

  • Við þurfum ekki svona atvinnuöreiga til að stjórna ASÍ. Laun fólks í verkalýðshreyfingunni ætti að vera taxtakaup verkamanns plús eitthver uppbót vegna fundahalda og þess háttar.
    Mikið myndu lægstu laun vera þá fljót að hækka.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur