Föstudagur 30.10.2009 - 08:16 - 15 ummæli

Ráða skattinum sjálfir

Loksins skil ég tillögur SA og ASÍ um hvað á að koma í staðinn fyrir orkuskattinn, og þurfti til sjálfan Gylfa Arnbjörnsson forseta Alþýðusambands Íslands að skýra það út fyrir mér í Kastljósi í gær. Í staðinn kemur nefnilega skattur sem SA og ASÍ ætla að ráða sjálf og hækkar og lækkar eftir þörfum. Aðrir geta svo bara borgað það sem viðkomandi stjórnvöldum þóknast að leggja á þá.

Tryggingargjaldið er skattur á laun, nú 7% eftir hækkun 1. júlí úr 5,34%. Hann rennur að stórum hluta í Atvinnuleysistryggingasjóð. Sjöprósent tryggingargjald er þegar feikihátt og veldur því að fyrirtæki reyna að draga sem verða má úr launakostnaði, breyta launafólki í gerviverktaka, freistast til að kaupa svarta vinnu. Enn hærra tryggingargjald kemur verst við þau fyrirtæki sem einkum reiða sig á mannshöndina og mannshugann – svo sem ferðaþjónustu, verslun allskyns, sprotageirann, menntastarf af ýmislegu tagi, einyrkja – en síður við þá sem mikinn kostnað hafa af hráefnisútvegun, orkukaupum og fjárfestingum í vélbúnaði, svo sem fyrirtæki í stóriðju og sjávarútvegi.

Í stað orkuskatts vilja SA og ASÍ hafa hærra tryggingagjald. Það orðar verkalýðsleiðtogi í bloggi í gær þannig að „þeir [í SA] væru tilbúnir til þess að borga þá upphæð sem sækja átti í orkuskatt, en vildu gera það með breytingu á tryggingargjaldi, það væri einfaldara og skilaði sér betur“. Gylfi sagði svo í gær að „þeir“ treystu fyrirtækjunum til að ráða við hærra tryggingagjald nokkra hríð þangað til vextir lækkuðu og færi að rofa til, þá mundi atvinnuleysi minnka og þá væri hægt að lækka tryggingagjaldið aftur.

Við þetta er því að bæta að SA og ASÍ hafa einmitt síðustu vikur krafist þess að fá Atvinnuleysistryggingasjóð í sínar hendur.

Díllinn er sumsé að „aðilarnir“ í samfélaginu hafi verkaskipti. „Atvinnulífið“ sjái um hina atvinnulausu og afli fjár til þess með tryggingargjaldinu, sem hækki og lækki eftir því sem þörf er á. Ríkið – það er að segja skattborgararnir – sjá svo um hitt, velferðarþjónustu og önnur ríkisútgjöld, niðurgreiðslu ofurskulda, mengunar- og losunarkostnað og svo framvegis, en þessi kostnaður lækkar ekki mikið fyrr en eftir áratugi.

„Þeir“ í SA og ASÍ eiga að ráða líka Atvinnuleysistryggingasjóði – og meðan alþingi og sveitarstjórnir leggja skatt á almenning fyrir öllum kostnaðinum við hrunið ætla „þeir“ að ráða sjálfir hvað þeir borga – eftir því hvert er talið hæfilegt atvinnuleysi.

Sniðugt!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (15)

  • Sko, Gylfi gerði frammíköll að listgrein í gærkvöldi. Ég hélt að það væri ekki hægt að toppa frammistöðu sumra pólitíkusa í greininni, en sjá – Gylfi gat það.
    Svo er ljótt að leggja manninn svona í einelti Mörður.
    Rugl.
    Takk fyrir pistil.

  • Ruglið og endaleysan á þessu landi tekur engan enda. Skilja menn ekki hugtakið „skynsemi“ í þessu landi?

  • Jóhann F. Kristjánsson

    Já þetta er virkilega sniðugt eða þannig…
    Fyrir þá sem lítið vita um tryggingagjald þá er hér slóð http://www.rsk.is/rekstur/skattar/trygginga auk þess eftirfarandi klippa úr lögunum,

    Til gjaldstofns teljast meðal annars:

    * Hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og allt mótframlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð.
    * Verkfærapeningar, flutningspeningar, fæðispeningar og þess háttar greiðslur.
    * Ökutækjastyrkir og dagpeningar. Þó ekki greiðslur dagpeninga sem heimilt er að halda utan staðgreiðslu.
    * Gjafir og risnufé sem teljast kaupuppbót og eftirgjöf lána sem telja má að komi í stað launa.
    * Laun eða þóknanir fyrir störf unnin erlendis, greidd af íslenskum aðilum til manna sem eru heimilisfastir hér á landi.

    Sem sagt, ef tryggingagjald verður hækkað meira þá leggst það af auknum þunga ofan á fyrirtækin í landinu, sérstaklega mannaflsfrek fyrirtæki og sveitarfélög.
    Þarft væri að spá í hvaða áhrif þetta gæti haft á stærsta vinnustaðinn, Landsspítala Háskólasjúkrahús.
    Ef menn telja þetta réttu aðferðina til að örva atvinnustarfsemi og minka atvinnuleysi þá er eitthvað mjög undarlegt í gangi.
    Hvernig komist er að þeirri niðurstöðu að tryggingagjald sé betri leið til að ná inn tekjum en auðlindaskattar sem stemma stigum við útflæði gjaldeyris og að auki leggjast að mestu á fyrirtæki sem hagnast nú á falli krónunnar, er einhver merkilegasta hagfræðileg niðurstaða sem lengi hefur litið dagsins ljós.

  • Höskuldur Davíðsson

    Takk fyrir þetta Mörður.
    Bara að halda áfram að klæða þá úr þessarri skikkju soldánanna.
    Það þarf að kæla niður kalla sem brenna í skinninu að ræna hér áfram.
    Gott hjá þér, haltu áfram á þessarri braut. Það virðist vera lítil traffík
    á henni nú um stundir.

  • Nýi Dexter

    Svo verður ekki hægt að laga láglaunavibbann, þá hækkar nýja lánavísitalan.

  • Takk fyrir pistilinn Mörður. Góður punktur hjá Nýja Dexter.

  • Tvennt eiga forystumenn ASÍ og SA sameiginlegt um þessar mundir. Þeir vilja draga úr fyrirhugaðri skattheimtu og efla atvinnulífið í landinu.
    Varla er hægt að álasa þeim fyrir það.
    Kastljósþátturinn með Merði og Gylfa var að mörgu leyti upplýsandi en áheyrilegur var hann ekki því þarna voru saman komnir víðfrægir þrasarar sem hafa vanið sig á þann ömurlega ósið að grípa stöðugt fram í og yfirtala viðmælandann með innantómri síbylju.
    Í þessa gryfju fellur Mörður hvað eftir annað og er því með leiðinlegri mönnum í sjónvarpi og almennt í viðtalsþáttum um stjórnmál.

  • Guðm. R. Ingvason

    Já, það verður ekki á Kastljósið eða RÚV logið með hlutlægnina.

    Vinstri krati (fyrrum AllaBalli), hægri krati og stjórnandinn, viðrinis krati, rabba saman í Kastljósi RÚV um hver sé verstur eða bestur í flokknum „sínum“.

    Hvílíkt einstefnu og einlitrar einræðubull.

    Svo er hún toppuð, enn frekar, hlutlægnin, með sunnudags Agli, laugardags Hallgrími og vikulegum morgun ógeðsdrykkjaráróðri Jónasar og Láru Hönnu svo nokkrir af „genetískt útvöldum“ séu tilnefndir.

    Ég er eiginlega komin uppí háls með skylduáskriftargreiðslu á ríkisútvarpi Samfó og VG. Er það nema von að maður setji „on“ takkann æ oftar og oftar í „off“ stöðu?

    Kveðja
    Guðm. R. Ingvason

  • ASÍ og SA eru einfaldlega að leita leiða til að lágmarka þann skaða sem fyrirhugaðar skattahækknir munu valda á efnahagslífi landsins. Hækkun tryggingagjalds er auðvitað hið versta mál, en mun skárri kostur orku- og auðlindaskattarnir.

    Báðir þessir aðilar sáu hvað fyrirhuguð tangarsókn gegn undirstöðuatvinnuvegunum var klikkuð hugmynd. Mörður (og hans skoðanabræður í stjórnarflokkunum) eru einfaldlega hundsvekktir yfir því að sú tangarsókn hafi verið stöðvuð. Þetta fólk HATAR stóriðjuna og hugsaði sér gott til glóðarinnar að gefa henni gott pungspark (sem ÖLL þjóðin hefði svo fundið fyrir).

  • Hef hugsað hlýtt til þín Mörður síðustu daga og vikur vegna skrifa þinna t.d. um skattamál,stóriðju og umhverfismál.

  • Garðar Garðarsson

    Takk fyrir góða pisla Mörður.

    Það er ótrulegt að horfa upp á ASÍ gleyma sér gjörsamlega í baráttunni fyrir SA upp á síðkastið. ASÍ eru að vísu eitthvað að berjast við ríkið um hækkun á persónufrádrættinum, en um leið kaffæra þeir þær góðu kröfur með ofuráherslum á kröfur SA um að sleppa við orkuskattinn og mengunarskatt.

    Ekki hefur maður orðið var við að ASÍ hafi gert einhverjar kröfur til SA sem eiga að vera aðalviðsemjandinn.
    Kastljósþátturinn var allt of stuttur og endaði í karpi og frammíköllum sem gerðu það að verkum að ekki var hægt að greina allt það sem sagt var.
    Samt var hægt að greina það að Gylfi sagði margt skilja að á milli ASí og SA og þú reyndir þá að fá að vita hvað það væri, en þá var þættinum slitið.

  • Sæll Mörður
    Gott að þú skulir standa í ístaðinu, það mættu fleiri gera. Hækkun á tryggingargjaldi er ekki góður kostur, en það er hinn ýkti VG orkuskattur alls ekki heldur. En gott að þú og fleiri skuli hafa staðið vaktina í þessu máli, því tyggingargjaldið kemur augljóslega verst við mannaflsfrek fyrirtæki.

  • Gylfi Arnbjörnsson

    Sæll og takk fyrir síðast.
    Mikið væri nú gott að þú tjáir þig af ögn meiri þekkingu um þessi mál, í stað þess að fara fram með þessum ósmekklega hætti. Vissir þú ekki að í gildandi lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð er kveðið skýrt á um að atvinnulífið, (þ.e. öll fyrirtæki, sveitarfélög og ríki) eiga að bera kostnað af atvinnuleysi með breytilegu atvinnutryggingagjaldi. Ríkisstjórnin ætlar að taka 16 miljarða úr ríkissjóði og leggja í Atvinnuleysistryggingasjóð á næsta ári og Guð má vita hvað á þar næsta ári. Til að standa undir þessu ætlar ríkisstjórnin að leggja ýmsa skatta á, m.a. orku-, auðlinda- og umhverfisskatta. Síðan á að rukka atvinnulífið um tiltölulega hátt atvinnutryggingagjald til margra ára til að endurgreiða ,,lánið“ síðar. Okkar áhyggjur eru þær, að samkeppnisstaða fyrirtækjanna er þannig að betra er að taka þetta strax út en lækka gjaldið fyrr en samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar þegar gengið fer að styrkjast og samkeppnisstaðan að þyngjast.

    Þá fæst einnig meiri tími til að útfæra umhverfisskattanna á þann hátt, að þeir raski ekki hagsmunum okkar sem þjóðar í samkeppni við aðrar þjóðir. Afleiðing slíkrar samkeppni mun nefnilega koma niður á almennu launafólki í meiri óvissu um atvinnuhorfur sínar.

    Kveðja

  • Jóhann F. Kristjánsson

    Áhugavert komment hjá þér Gylfi, „Okkar áhyggjur eru þær, að samkeppnisstaða fyrirtækjanna er þannig að betra er að taka þetta strax út en lækka gjaldið fyrr en samkvæmt tillögu ríkisstjórnarinnar þegar gengið fer að styrkjast og samkeppnisstaðan að þyngjast.“
    Viltu útskýra þetta nánar?

    Tryggingagjald er innheimt með staðgreiðslu (af lækkandi tekjustofni þessa dagana) og þyrfti sennilega að hækka í nærri 9% til að skila þessum 16 extra milljörðum á heilu ári.
    Hvað svo, árið 2011, 2012…
    Eru allir atvinnurekendur sammála um að taka á sig svo mikla hækkun í svo langan tíma?
    Svona í fullri einlægni, er ekki miklu líklegra að fyrirtæki og sveitarfélög losi sig við starfsfólk í stað þess að taka á sig þennan bagga?

    Alveg má taka undir að varlega þarf að fara í að leggja á orku og auðlindaskatta.
    Því fyrr sem það er gert því fyrr geta orkunotendur aðlagað áætlanir sínar að breyttu umhverfi.
    Óvissa er afleiðing hringlandaháttar.

  • Gylfi: Er það ekki rétt skilið að tryggingargjaldið vegi þyngra á þá sem eru með flest fólk í vinnu m.v. veltu?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur