Sunnudagur 03.01.2010 - 12:13 - 34 ummæli

Standard og Poor’s gegn Sigmundi Davíð

Merkileg frétt sem ekki hefur vakið næga athygli síðustu daga er sú að ríkisstjórnin er farin að borga fyrirtækinu Standard og Poor’s fyrir að breyta hjá sér lánshæfismatinu. Þetta gerðist í fyrsta sinn á gamlársdag þegar fyrirtækið gaf út það mat að horfurnar fyrir Ísland væru ekki lengur neikvæðar heldur stöðugar. Við var borið samþykkt Icesave-málsins á þingi, sem hér hefði styrkt uppbyggingu atvinnulífs og fjármálakerfis.

Fréttin um að þeir hjá S og P gefi út lánshæfimatstilkynningar eftir pöntun er að vísu úr hugarheimi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar – en merkileg engu að síður. Sigmundur Davíð virðist vera þeirrar náttúru að þykja „sérkennileg“ hver þau tíðindi sem ekki eru í stíl við drungann sem hann hefur gert að inntaki stjórnmálastefnu sinnar. Slík tíðindi utan úr heimi hljóti að vera kokkuð upp hjá vondu fólki innnanlands.

Látum í bili eiga sig grunsemdir Sigmundar Davíðs í garð þeirra Jóhönnu, Steingríms og Gylfa – en að telja að fyrirtæki á borð við Standard og Poor’s gefi út álit samkvæmt reikningi er grundvallarmisskilningur á eðli slíkra fyritækja. Starfsemi þeirra byggist einmitt á því að hagsmunir þess sem matið undirgengst komi hvergi við sögu – því að þá tekur enginn framar mark á matsfyrirtækinu.

Þetta er reyndar ekki alveg nýtt um erlend fjármálafyrirtæki, að þau vinni gegn stefnu Framsóknarflokksins í efnahagsmálum. Er skemmst að minnast fjallkonuræðnanna sem þáverandi Framsóknarforkólfar fluttu um aðvaranir sérfræðingana frá Danske bank hér um árið.

Með ummælunum um Standard og Poor’s held ég samt að Sigmundur Davíð hljóti að hafa sett nýtt Íslandsmet í svartagallsvænisýki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (34)

  • Sigmundur Davíð hefur sett mörg íslandsmet og flest eru þau af þeim toga að engir menn munu spreyta sig á því að hnekkja þeim.
    En, hvað gerðum við í veröldinni og hvernig leið okkur, Mörður, áður en við vissum um tilvisst þessara matsfyrirtækja?

  • Þórarinn Einarsson

    Það má vera að S&P viti af þeim hótunum sem við erum beitt og byggi mat sitt á því. Faglegt fyrirtæki myndi frekar lækka lánshæfismat og horfur gagnvart þeim sem tekur á sig stórauknar skuldbindingar. Mat S&P virðist því vera pólítískt en ekki hagfræðilegt.

  • Þórrainn: þú ferð í hring. Auðvitað vita S&P um afleiðingarnar ef við samþykkjum ekki Icesafe þ.e. einangrun til margra ára. Þannig er þetta hagfræðilegt en ekki pólitískt.

  • Elías Pétursson

    Er þetta S&P ekki sama fyrirtæki og gaf okkur allgóða einkun vikurnar fyrir hrun. Sama átti við um einkunnir og horfur sem greiningardeildirnar gáfu okkur, yfirlýsingar um „öfundsverðar rframtíðarhorfur“ komu frá AGS.

    Annars er þessu ruslflokkshótun sleifarbandalags samfylkingar og VG orðin svolitið þreytt, við erum nú þegar kominn í ruslflokk og höfum verið þar um margra mánaða skeið.

    Mælikvarðinn á ruslflokk er sá að erfitt er að nálgast lánsfé og þeir örfáu sem vilja lána bjóða kjör og vexti sem ekki eru þolandi, við erum þar núna.

    Núverandi stjórnvöld eru að verða býsna lík prestum fyrri alda, hóta helvíti og sálarbruna við hvert fótmál ef ekki er gengið á vegum AGS og þriggja stafa allausnar samfylkingarinnar.

  • Steinar Guðlaugsson

    Mörður. Hvernig standa málin með persónukjör og stjórnlagaþing? Er þetta ekki allt í góðum farvegi eins og um var talað?

  • Þórarinn Einarsson

    Siggi: S&P er pólítískt vopn sem elítan notar gegn Íslandi. Auðvitað er þetta tiltekna mat fyrst og fremst pólítískt. Við skulum a.m.k. ekki gefa okkur að S&P sé algjörlega óháð fyrirtæki.

  • Sigurður #1

    Þetta sama fyrirtæki gaf íslensku bönkunum sína bestu einkunn alveg fram á síðasta dag.

    AAA, eða sömu einkunn og stöndugustu ríki heims.

    Marklaus þvæla.

    Fyrir utan það að íslenska ríkið er hvort eð er ekkert að fara að taka nein lán á markaði næstu árin svo þetta mat getur varla skipt miklu máli.

  • þræll með debetkort

    Stígamenn, örvitar og jarmandi konur.

  • Sami S&P og hélt ekki vatni yfir íslensku bönkunum?

  • Jóhannes Laxdal

    Í þeirri stöðu sem við erum skiptir svona mat engu máli. Það er enginn að lána okkur peninga nema AGS en sjálfssagt finnst stjórnvöldum það vera til marks um að þau séu á réttri leið

  • Jóhannes Laxdal

    En hvað er að frétta af Græna Netinu og orkustefnu Samfylkingarinnar? Ertu ekki búinn að krefja Katrínu svara varðandi hvar á að taka orkuna fyrir Álverið í Helguvík ef Gagnaverið kemur til með að nota 100-120 MW? Bendi á nýjustu grein Sigmundar Einarssonar sem birtist nýlega í Fréttablaðinu en engin umfjöllun hefur verið um. Ég man vel þá tíma þegar beitt var rafmagnsskömmtunum til heimila og óttast að stutt geti verið í sams konar ástand ef ekki verður staldrað við og tekin ábyrg afstaða til orkunýtingar í stað þessarar álglýju sem nú blindar stjórnmálamenn sem er fjarstýrt af verktökum og öðrum sem borga til Stjórnmálaflokkanna

  • Hjördís Vilhjálms

    En veist þú Mörður, burtséð frá skoðunum SDG, hvaðan tekjur Standard og Poor´s koma til að halda sinni starsfsemi úti ?

  • Sigurður Sigurbjörnsson

    Jæja, eigum við ekki bara að halda áfram að hlusta á S&P og þeirra mat?? Hvert var matið á Íslensku bönkunum á sínum tíma? Hverjir gáfu þeim mat og á hvaða forsendum? Ég efast stórlega um að þær forsendur sem liggja að baki þessum mötum séu nægjanlega tæmandi til að getað sagt nokkuð til um framtíðina!

  • Sigmundur Davíð hefur náð að tryggja sér heimsmeistartitilinn í lýðskrumi á aðeins örfáum mánuðum í embætti formanns stjórnmálaflokks á Íslandi – geri aðrir betur. Er ekki hægt að setja lög um svona lýðskrumara í nýrri stjórnarskrá sem ríkisstjórnin fer í að koma í gangið um leið og tími gefst til fyrir málþófi og lýðskrumi í stjórnarandstöðunni.

  • Mér finnst persónur og pólitíkin síðan um kosningar vera um margt fyndin – umræddur formaður Framsóknarflokksins er að mínu mati kómísk og leikræn persóna.
    Sigmundur ásamt Bjarna Ben, Katrínu Jakobs og Degi Eggerts voru hjá Frey í Vikulokaþættinum í gær. Það fór þessi merkis stjórnmálamaður og formaður Framsóknarflokksins yfir árið og þar kom fram að allt sem hann hafði gert á árinu voru frábærar hugmyndir og verk sem aðrir eyðilögðu jafnharðan – sérstaklega var Samfylkingin vond við hann. En kaflinn í lok þáttarins um norska lánið er óborganlegur, þar sem Sigmundur Davíð lýsir því hvílíkt fórnarlamb hann var í því máli, Jóhanna sendi tölvupóst þar sem sem hún sagði „ætlið þið nokkuð lána okkur tvöþúsundmilljarða“, Bloggsveit Samfylkingarinnar blés út að útrásarvíkingar væri í mínu liði sem voru útúrsnúningar….. Linkurinn er hérna:

    http://dagskra.ruv.is/ras1/4493360/2010/01/02/

  • Gunnar Tómasson

    S&P’s Ratings Services business may receive compensation for its ratings and credit-related analyses, normally from issuers or underwriters of securities or from obligors. (Úr neðanmálsgrein við Íslandsmat S&P 31. des. sl. Sjá frétt Seðlabanka Íslands um matið á vefsíðu SÍ.)

  • Mr. Crane

    Bankarnir voru ekki lækkaðir fyrr en eftir að Davíð setti hrunið af stað með aðgerðunum gegn Glitni.
    S&P metur það svo, eins og allir ógeðveikir menn, að greiðsluhæfi sé til staðar með samning um Icesave. Það liggur algjörlega ljóst fyrir og það er hreint ótrúlegt hvað fólk er heimskt að skilja það ekki að ef að samning um Icesave er hafnað jafngildir það greiðslufalli. Það þýðir junk bond status á alla fjármálagerninga með ábyrgð íslenska ríkisins. Það þýðir hrun Landsvirkjunar, Orkuveitunnar, lokun á gjaldeyrisviðskipti við útlönd og í kjölfar spark út úr EES sem þýðir að við getum ekki einu sinni selt fiskinn sem við veiðum á sómasamlegum verðum.
    Það er hreint ótrúlegt að ábyrgðaleysi hjá Sigmundi Davíð og pakkinu í kringum hann að ætla að taka áhættu á að koma þessari atburðarrás af stað.

  • Hjördís Vilhjálms

    @ 03.01 2010 kl 17:19

    Gunnar Tómasson

    Takk fyrir þetta.

    En kanntu að snúa þessu yfir á íslensku og birta það hér ? Skil þetta ekki nógu vel.

    Reyndar beindi ég spurningu minni til Marðar og vænti þess að hann sé kurteis og svari mér sjálfur.

  • Mörður

    Að efast um tilgang frétta/greininga eða hvað svo sem þriðji aðili hefur greitt er fyrir, er almenn skynsemi.

    Ef þú ert ekki þriðji aðili í þessum leik, þá skil ég ósköp vel að þú sért ekkert efins…

  • Mörður Árnason

    Hjördís — S og P fær greitt fyrir matsstarf sitt hjá þeim sem gefa út skuldabréf og aðra peningapappíra. Íslenska ríkið er áskrifandi að slíku mati hjá þeim og væntanlega fleiri slíkum fyrritækjum, þekki það ekki í botn, enda er mat af þessu tagi talið nauðsynlegt við verðbréfaútgáfu á alþjóðamarkaði. Svona mat væri hinsvegar einskis virði ef minnsti grunur kviknaði um að það færi fram á forsendum þess sem metinn er, og þá mundi enginn skipta framar við S og P eða aðra álíka kóna.

    Annað: Að sjálfsögðu eru menn mis-sammála einstöku mati frá S og P eða öðrum, og matsfyrirtækin eiga vissulega hlut að alþjóðakreppunni með því að hafa rangmetið vafningavitleysuna og fjárglæfra sem á henni byggðust. — Að saka fyrirtækin um að afgreiða mat eftir pöntun — þegar manni líkar ekki matið — það er annað mál.

    Enn annað: Sammála Mr. Crane meira og minna, enda getur maður ekki annað en haldið uppá þann gamla íhaldsmann úr Bostonþáttunum — en minni á almennar kurteisisreglur sem í þessum athugasemdadálkum gilda líka um Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

  • Hjördís Vilhjálms

    @03.01 2010 kl 18:23

    Mörður Árnason

    Takk fyrir útskýringu þína.

    En veistu hversu háum fjárhæðum ríkið eyðir í S&P á ársgrundvelli og hversu mikið sú upphæð hefur hækkað eða lækkað eftir hrunið ?

    Er ekki gjarnan talað um það , hér á landi hið minnsta, að sjaldan sé slegið á höndina sem brauðfæðir mann ?

    Vitað er, að S&P gáfu íslensku bönkunum háar einkunnir á s.k. góðæristíma. Fróðlegt væri að vita hversu miklum fjármunum íslensku bankarnir hafi eytt í S&P og hvort það hafi allt skilað sér til þeirra, eða er það kannski í vanskilum ?

  • Mörður Árnason

    Nei, Hjördís, þetta veit ég ekki. Ég er hinsvegar algerlega viss um það að ef matsfyrirtæki af tagi S og P yrði uppvíst að því að breyta mati fyrir borgun færi það á hausinn daginn eftir.

  • Uppbygging

    Eg held að það sé alveg ljóst að það er vandmeðfarið að vera matsfyrirtæki sem verður að gæta hlutleysis t.d. er tímasetning útgáfu mats mjög viðkvæm breyta og næstum því ótrúlegt að matið hafi verið gefið út aðeins nokkrum klst eftir að samþykki alþingis. Afhverju – hverjir eru audiences hér? aðrir en fjölmiðlar sem síðan hafa áhrif á atburðarásina? Væri ekki nær að matsfyrirtæki gæfi út mat alltaf á sama tíma – því annars ber þetta keim af því að matsfyrirtækið sé orðinn gerandi í atburðarásinni sjálfri eins og þetta lítur út í þessu tilfelli.

  • Hjördís Vilhjálms

    Þá þurfa þeir bara að passa sig á að verða ekki uppvísir um það, líkt og eigendur fjölmiðla hér á landi, sem neita að stjórna umræðunni um sjálfa sig og sín fyrirtæki.

    Svo er heldur ekki útilokað, að einhverjir aðrir greiði S&P fyrir að gefa öðrum falleinkunn ?

    En þetta er auðvitað bara sagt í hálfkæring…

    Svo er líka mögulegt, að S&P hugsi sem svo, að það væri eflaust dapur buisness að gera sama aðila raðfalleinkunn ár eftir ár, svo maður veit aldrei.

    Veit þó það að fáir í peningaheiminum eru með vængi og geilsabaug.

    Sammála ýmsu hjá Uppbygging kl. 19: 46, t.d. því að matsfyrirtækin virðast oft gerendur í atburðarásum.

  • Mörður hvernig stendur á því að endurskoðunarstofurnar sem skrifuðu upp á ársreikninga flestra fyrirtækja hjá útrásarvíkingunum þar á meðal íslensku bankana?

    Gilda ekki sömu lögmál um S&P og önnur fyrirtæki þau lifa á meðan einhver hefur hag af því að skipta við þau, það getur nú ekki verið að mat frá S&P sé mikils virði eftir allt sem á undan er gengið

  • „Mörður hvernig stendur á því að endurskoðunarstofurnar sem skrifuðu upp á ársreikninga flestra fyrirtækja hjá útrásarvíkingunum þar á meðal íslensku bankana lifa ennþá?“
    átti þetta að vera

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Þetta er stórkostleg færsla um stórkostlegt fyrirtæki sem Íslendingar hafa stórkostlega reynslu af fyrir stórkostlegasta hrun Íslandssögunnar. Mörður þú ert stórkostlegur.

  • Fálkaorðu?

  • Sigurður G.

    Stórkostlegt hvað margir hér kvarta yfir því að S & P gaf bönkunum góða einkunn á sínum tíma. Alveg er ég viss um það, að þetta er einmitt aðilarnir sem sjálfir í huga sér gáfu bönkunum góða einkunn á sínum tíma. Það vill svo vel til að jafnvel þótt S & P hafi gert þau reginmistök að gefa ísl. bönkunum góða einkunn og naga sig enn í handarbókin af því, þá gildir þeirra einkunn talsvert í fjármálaheiminum. Jafnvel þótt heimavísum ísl. Sjálfræðismönnum og Framsóknarmönnum sé illa við fyrirbærið.
    Fólki sem einna helst horfir til Sómalíu eftir erlendri fyrirmynd vegna samninga við önnur ríki.
    S & P sá ekki um íslenska hrunið. Það gátu Íslendingar (les stefna Sjálfstæðisflokksins) alveg séð um.

  • Sveinbjörn

    Er mat S & P ekki bara glæsileg niðurstaða fagmanna?

  • Sigurður G.

    Já eru skoðanir Sjálfstæðismanna og Sigmundar Davíðs ekki bara glæsilegar skoðanir „vitra manna“ ? Ég meina, hafa þeir nokkurn tímann haft rangt fyrir sér? Eða þannig. Þrátt fyrir að hafa hannað allar aðstæður til að gera hrunið mögulegt.

  • Magnus Jonsson

    Þetta er nú meiri sandkassinn þetta blessaða Alþingi íslendinga.

    Að horfa á þetta fólk karpa þarna er eins og að horfa á leikskólakrakka rífast um vaxliti. Þegar að atburðir sem þessir dynja yfir þjóð, sitja menn niðrá þingi að benda á hina og uppnefna.
    Þetta lið er svartur blettur á sögu Íslands

  • Ómar Kristjánsson

    Þetta álit S&P segir sig alveg sjálf. Þarf ekkert virt martsfyrirtæki til Bara nota kommon sens.

    Að sjálfsögðu mun traust á ísilandi rýna ef alþjóðlegu skuldbindingunni varðandi innstæðutryggingar á EES svæðinu er enn einu snni hleypt í uppnám – og þ.a.l. styrkjast ef Landið ætlar loksins að axla sína ábyrgð þar að lútandi.

    Maður hélt nú í sakleysi sýnu að það þyrfti eigi að segja fólki slíkt.

    Sýnir ákaflega vel firringuna í sumum á íslandi að formaður stjórnmálaflokks á Alþingi skuli rugla í kringum svo einfalt dæmi. Hann heldur augljóislega að þetta sé líklegt til vinsæda, býst ég við.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur