Næsti kafli í málinu endalausa er þjóðaratkvæðagreiðsla – hvort sem menn eru sammála forsetanum eða ekki – og þá er að ganga til þess verks.
Sjálfur tel ég að forsetinn hefði átt að samþykkja lögin, og byggi þá skoðun á orðum hans sjálfs – í síðasta áramótaávarpi, í yfirlýsingunni frá fjölmiðlalagamálinu 2004 og röksemdum í forsetakosningunum 1996. En þeirri umræðu er lokið að sinni.
Pollýanna vinkona mín bendir á að hvað sem öðru líður sé gott að þjóðin ákveði þetta sjálf, ábyrgðin sé þá einmitt þar sem hún á að vera og enginn geti í framtíðinni sakast við annan en sjálfan sig. Þegar ég spyr hana um hugsanlega þróun í efnahagsmálum og pólitík næstu mánuði ypptir hún öxlum: Það reddast.
Nú er að vísu hugsanlegt að ekkert verði af þjóðaratkvæðagreiðslu. Annarsvegar getur alþingi breytt lögunum eða afnumið þau, einsog 2004. Þá skrifaði forsetinn undir ný lög án atkvæðagreiðslu og þar með varð til hefðarfordæmi um 26. greinina. Ég tel það ekki hyggilegt fyrir meirihluta alþingis (hvaða meirihluta? spyr Pollýanna og glottir) – nú á þjóðin einfaldlega heimtingu á því að segja sitt um málið, og vant að sjá hvað ynnist með breytingum.
Hinsvegar geta Hollendingar og Bretar rift samningnum einsog þeir hafa haft rétt til í tvo mánuði – og þá væri ekkert að greiða um atkvæði. Þá afnemur þingið hvortveggju lögin og málið allt kemst aftur á reit númer 1. En þessa hugsun vill ekki einusinni Pollýanna hugsa til enda.
Við Polla erum svo sammála um að ef af verður eru úrslitin í atkvæðagreiðslunni engan veginn ráðin – en það er mikilvægt að stuðningsmenn endurreisnar hætti sem fyrst að gráta Björn bónda og nái vopnum sínum.
Stysti hugsanlegi tími til kosninga er líklega hálfur annar mánuður (45 dagar í kosningar eftir þingrof, samkvæmt stjórnarskrá) og lengsti líklega tveir mánuðir (lengsti frestur samkvæmt frumvarpi forsætisráðherra um þjóðaratkvæði). Það þýðir atkvæðagreiðslu í mars. Sem meðal annars merkir að komin verður út skýrsla rannsóknarnefndar alþingis – algerlega nauðsynlegt plagg í umræðuna fyrir þessa atkvæðagreiðslu.
Ljúkum Icesave-endaleysunni. Samþykkjum lögin.
Nei, samþykkjum ekki. Það er kominn tími til að íslenska þjóðin uppskeri því sem hún sáir.
Hingað til hefur þjóðin verið óalandi og óferjandi. Synjum þangað til við verðum blá, því það er það sem þjóðin vill – og skítt með afleiðingarnar.
Sæll Mörður
Stofnum til undirskriftarsöfnunar um vantraust á ‘olaf ragnar grímsson grís og athyglissýkina burt frá Bessastöðum
Það er enginn möguleiki að þjóðin samþykki lögin, fari þau í þjóðaratkvæði.
Frekar væri sterkast að sem flestir greiði atkvæði gegn þeim, úr því sem komið er.
Eða hvað?
Er að reyna að mynda mér skoðun, sem ekki er auðvelt.
Synjun forsetans er jafngildi vantrausts hans á ríkisstjórninni. Þessvegna ríkisstjórnin að segja af sér og Ólafur að axla ábyrgð á ákvörðun sinni þótt hann beri enga ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni. Það væri mátulegt á þetta stertimenni að bera bæði siðferðilega ábyrgð á framgöngu útrásardólganna erlendis og afsögn endurreisnaraflanna. Þá getum við kvatt Evu Joly og allar vonir um siðferðislegt uppgjör í stjórnmála og viðskiptalífinu
Smáathugasemd um ,,ábyrgðarleysi“ forsetans án þess að fjalla á annan hátt um framlag Jóhannesar: Ég held að þau orð í 11. grein stjórnarskrárinnar (,,Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum“) merki að ekki er hægt að sækja forsetann til saka fyrir verk ráðherra, en ekki að forsetinn beri enga siðferðilega og pólitíska ábyrgð. Í dönsku stjórnarskránni er að minnsta kosti átt við þetta (13. gr.: ,,Kongen er ansvarsfri; hans person er fredhellig. Ministrene er ansvarlige for regeringens førelse; deres ansvarlighed bestemmes nærmere ved lov.“). Forsetinn er reyndar ekki ,,ábyrgðarlausari“ en svo að hægt er að setja hann af í þjóðaratkvæðagreiðslu sem þingið hefur samþykkt með auknum meirhluta.
Lögin um ríkisábyrgð á uppgjörsskuld Landsbankans eru í gildi. Samningurinn við Hollendinga og Breta hefur verið undirritaður. Engin ástæða til að bila á taugum. Það þarf að ræða ítarlega hvað nei-ið í þjóðaratkvæðagreiðslunni merkir. Það er auðveldara að átta sig á já-inu.
Mörður þetta er skemmtilegur vinkill varðandi ábyrgðina. En ætti forsetinn þá ekki að axla ábyrgð og segja af sér? Ef hann er settur af í þjóðaratkvæðagreiðslu þá er hann væntanlega jafn ábyrgðarlaus eða hvað?
Ég bið um að sá bikar verði frá mér tekinn að greiða atkvæði um þetta mál. Ég hef þá trú að mikill hluti þeirra sem báðu um þjóðaratkvæðagreiðslu viti ekki út í hvað þeir voru að fara. Allir útreikningar um fjárútlát og skuldir eru spár vegna þess að hagfræðin byggir á forsendum dagsins en ekki framtíðarinnar. Við erum undir öllum kringumstæðum háð samningum í framtíðinni ásamt þeirri viðmiðun sem samningurinn er. Þess vegna átti ríkisstjórnin að afgreiða málið sjálf í stað þess að fara með það fyrir þingið og láta þessa þvælu viðgangast allan þennan tíma.
Ég skila auðu ef ég þarf að kjósa!
Geta menn ekki hugsað sér að kanski veit ‘Olafur hvað hann er að gera. Erum við ekki að fá „athygli“ heldur betur. Þetta er það versta sem Bretar og Hollendingar fá í stöðunni. Að kastljósi sé beinnt að kúgun þeirra á smáþjóð. Það verður ekkert kosið, Nú held ég að það verði samið. En samið undir vökulum augum fjölmiðla evrópulanda.