Þriðjudagur 05.01.2010 - 21:32 - 13 ummæli

Meirihluti og þjóðaratkvæðagreiðsla

Hann entist ekki daginn, fögnuður Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar yfir ákvörðun forsetans um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Í Kastljósi í kvöld voru þeir báðir á því að best væri að sleppa atkvæðagreiðslunni – ef stjórnarflokkarnir gerðu svo vel að fallast á gömlu lögin (þegar Sigmundur Davíð var á móti og Bjarni sat hjá).

Vel kann að vera að þetta sé einhver „opnun“ af þeirra hálfu, af því þeim ógni framtíðarsýnin eftir málskotið og af því forystumenn atvinnurekenda hafi loksins náð eyrum formanns Sjálfstæðisflokksins. Það þurfa að meta þau Jóhanna og Steingrímur.

Sérkennilegt hlýtur það hinsvegar að hafa verið fyrir forseta Íslands að hlusta á þá félaga afneita þjóðaratkvæðagreiðslu – eftir að hafa rökstutt ákvörðun sína í morgun með sérstakri túlkun á vilja „meirihluta alþingismanna“ um sömu atkvæðagreiðslu.

En það er svo sem ekki nema í flútti við einmitt þessa túlkun Ólafs Ragnars Grímssonar forseta, sem hefði líklegast fengið falleinkunn hjá Ólafi Ragnari Grímssyni stjórnmálafræðiprófessor.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (13)

  • Hrafnkell Ásólfur

    já það er margt skrýtið í kýrhausnum – ekki er liðin vika frá því að þessir kumpánar greiddu þjóðaratkvæðagreiðslu atkvæði sitt í þinginu.

  • Alveg er magnað hvað allir eru allt í einu orðnir sammála um að „það þurfi að borga þetta“, bara ekki með akkúrat þessum skilmálum. Svona var tónninn sannarlega ekki í gær. Þeir sem ég hef rætt við og eru harðir á móti núverandi lögum eru raunar fæstir vissir á því hverju munar á þeim og lögunum sem Ólafur skrifaði náðarsamlegast undir í haust er leið, hvað þá að þeir hafi skýrar hugmyndir um hversu miklar tilslakanir af hálfu Breta og Hollendinga séu ásættanlegar.

  • Thrainn Kristinsson

    Nú þegar afleiðingarnar af egóflippi Ólafs Ragnars fyrir þjóðina eru að koma ljós er stjórnarandstaða önnum kafin draga yfir eigin þátt í að ala á sundrungu og misskilningi varðandi þetta mál allt.

  • Það er með ólíkindum hvernig Ríkisstjórnin bregst við þessu útspili.
    Nú er eins og stjórnarliðar og spunatrúðar keppist við að gera þetta eins svart og hægt er til að klóra yfir klúðrið og vanhæfnina og ætla sér bara að taka loka slaginn og vonast til að geta hrætt landann nægilega mikið til kjósa með Bretum og Hollendingum?

    Síðan hvenar hefur þetta snúist um að borga EKKI?

  • Stefán Benediktsson

    Stjórnarandstaðan óttast ekkert eins mikið og kosningar, þessvegna iða þeir svona á stólunum.

  • Steinar Guðlaugsson

    Sæll Mörður. Gamall skólafélagi hér. Ertu ekki til í að blogga dáldið um stöðuna í lýðræðismálum: Persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur, stjórnlagaþing, stjórnarskrárbreytingar, one-man-one vote o.s.frv….Er þetta ekki allt í traustum farvegi eins og talað var um fyrir kosningar? Viðtækt samráð við almenning. Er ekki verið að vinna í að rétta af lýðræðishallann og flokksræðisslagsíðuna sem óprýðir Fjallkonuna?

  • Þorsteinn Friðþjófsson

    Sæll Mörður.
    Sé ekki betur en þú hafir hitt naglann þráðbeint á höfuðið. Þessum ágætu mönnum sást ekki fyrir frekar en indefence hópnum. Nú er uppi staða sem þetta ágæta fólk reiknaði ekki með að kæmi upp og þau þyrftu að „feisa“.
    Þá og fyrst nú reynir á hvort einhver innistæða var fyrir mótmælum þeirra og öllu því sem á eftir fylgir.

  • Hjálmar

    Þeir félagar klifa líka einatt á því að ríkisstjórnin standi sig svo illa að verja málstað Íslands í erlendu pressunni. En eru ekki fullt af erlendum blaðamönnum á landinu núna ?
    Þeir ættu félagarnir auðveld með að verja okkur með sínum eigin orðum.
    Eða vigta orð stærsta stjórnarandstöðuflokksins ekkert lengur ?

  • Garðar Garðarsson

    Ég tók eftir þessu sama í Kastljósinu að þeir kumpánar Bjarni og Sigmundur stiðja nú báðir fyrra Icesave-frumvarpið, en annar sat hjá og hinn var á móti þegar það kom til athvæðagreiðslu Alþingis.
    Ég tók líka eftir því að Sigmundur gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að halda blaðamannafund svona fljótt eftir yfirlýsingu forsetans, en svo er hann alltaf að tala um að ríkisstjórnin tjái sig of seint og of lítið við fjölmiðla og almenning.
    Þeir félagar eru hálfgerðir Ragnar Reykásar.

  • Ólafur Guðmundsson

    Heitasta andstaðan við samning um icesave restina er hjá þeim sem finnst aðrir en við eigi að borga hana (voru til í að græða á icesave en hafna tapinu). Þetta eru siðleysingjarnir.

    Svo eru hinir sem telja að við gætum náð betri samningi (þeir verða alltaf til).

    Þessir ólíku hópar eru meintur meirihluti ÓRG.

    Við hin sem studdum þennan ótrúlega hagstæða samning sem forsetinn setti fótinn fyrir erum í vanda ef til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Eina rökrétta svarið er að leyfa liðinu að fella samninginn og taka afleiðingunum.

    Kannski lærir þjóðin þá loks hvað það er að taka afleiðingum eigin hegðunar.

  • Hrafnkell Ásólfur

    Úr því að minnst er á Ragnar Reykás sem manni hefur oft fundist endurspegla ansi marga íslendinga. Annar slíkur karakter er Ólafur Ragnar starsmanni á plani. Máske að erkiíslendingur sé sambræðingur þeirra félaga – Ólafur Ragnar Reykás…

  • Mörður Árnason

    Sæll Steinar — Um þetta eru frumvörp í þinginu, en mér sýnist áhuginn hafa dofnað hjá stjórnarþingmönnum sumum, og DB alltaf verið á móti. Tökum á því seinna.

  • Ég sá þetta Kastljós og tók því nú frekar þannig að menn væru að velta upp möguleikunum. Það var ekki verið að halda neinu sérstaklega fram umfram annað. Ég var á móti breytingunum sem fólust í nýju lögunum. Ég er vonsvikinn yfir því að ekki megi fá úr því skorið hvort þetta sé löglegt yfir höfuð eða ekki..en úr því sem komið er þá er rétt að standa við þennan samning. Skilmálarnir eru bara slæmir og ljóst er að meirihluti er fyrir því, bæði innan Alþingis sem utan. Að mínu mati tel ég tækifæri fyrir ríkisstjórn Íslands felast í neitun ORG. Hún á að nýta sér stöðuna með því að fara út og nota þetta til að fá menn til að fallast á samning og lögfesta ábyrgð frá því í haust. Tel ekki útilokað að á menn verði hlustað.. en þá þýðir ekki að senda embættismenn..nú verða menn að tjalda öllu til og það er Jóhanna, Steingrímur og Össur sem sitja í forystu meirihluta stjórnar. Nú eiga þau að nýta tímann fram til 20.02. Það er nefnilega vopn í þessari baráttu að þessar kosningar vofi yfir. Ég tel ekki að bretar né hollendingar vilji endilega takast á við það vandamál ef við höfnum þessum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fljótt geta veður skipst í lofti og það þekkja þeir eins og við.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur