Hvalaskoðunarmenn hafa nú lagt til að Faxaflói verði friðaður fyrir hvalveiðum.
Menn geta deilt um það alveg þangað til við göngum í Evrópusambandið hvort þjóð sem fær peninga af að sýna hvali á líka að tapa peningum af að drepa þá. (Því hvar er gróði Kristjáns Loftssonar? Og hvar er hagur landsbyggðarinnar af hrefnuveiðunum frá Hafnarfirði og Kópavogi?) Hitt er alveg augljóst að þetta gera menn ekki á sama stað.
Hitti á landsfundinum um helgina hvalskoðunarskipstjóra frá Húsavík – hann sagði að hvalaskoðunin hefði breyst verulega síðan hrefnuveiðarnar hófust aftur. Hrefnurnar væru miklu færri og styggari og „kunningjarnir“ frá í gamla daga horfnir, líklega skotnir af því dýrin voru orðin óhrædd við báta og menn. Sem betur fer nóg af öðrum hval – og svo fórum við að tala um steypireyðina og lauk með boði um borð næsta sumar.
Í ályktun frá aðalfundi Hvalaskoðunarsamtaka Íslands segir að um 70 þúsund ferðamenn fari í hvalaskoðun á Faxaflóa á þessu ári, og um 60 þúsund fyrir norðan þar sem þeir vilja annað griðasvæði.
Rétt að minna á að það var ekki stóriðjan sem bjargaði því sem bjargað varð eftir hrunið – hvað þá hinir blautu Japansdraumar Kristjáns Loftssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar – heldur ferðaþjónustan. Erlendir ferðamenn sem hrífast af íslenskri náttúru hafa verið okkur helstir bjargvættir, og vaxtarbroddurinn í þessum atvinnuvegi hefur einmitt verið hvalaskoðunin, allra helst frá Reykjavík og Húsavík.
Nú verður fróðlegt að sjá viðbrögðin. Hér er álit 11. þingmanns Reykjavíkur norður:
Eindreginn stuðningur.
—
Ályktunin:
Aðalfundur Hvalaskoðunarsamtaka Íslands hvetur sjávarútvegsráðherra til að stækka griðarsvæði hvala á Faxaflóa þannig að það markist af línu sem dregin verði frá Eldey að Öndverðarnesi.
Vegna hrefnuveiða sem stundaðar hafa verið á síðustu árum á Faxaflóa telja samtökin einsýnt að hvalaskoðun muni leggjast af á Faxaflóa ef heldur fram sem horfir. Athygli er vakin á að yfir 70.000 ferðamenn fara á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá norðurlandi.
Einnig þarf að tryggja griðarsvæði hvala fyrir norðurlandi. Þar er lagt til að dregin verði lína frá Hornbjargi um Grímsey að punkti 12 sjómílur norður af Hraunhafnartanga í Font á Langanesi.
Bent er á að Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað sent ályktanir um stækkun griðarsvæða hvala en því miður án sýnilegs árangurs.
Hvalaskoðun er orðin ein mikilvægasta afþreying á sviði ferðaþjónustu, því er brýnt að hún líði ekki undir lok vegna aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda.
Þunnur þrettándi þetta…
Stóriðjan gerði það sama eftir hrun og hún gerði fyrir…mala gull í gjaldeyrisvaraforðakistur landans…meira að segja sérstaklega skattlögð af ykkur !
Ferðaþjónustan þurfti hinsvegar á sérstöku átaki að halda, styrktu af almannafé, til að hjálpa henni yfir áföll vegna náttúruhamfara en þrátt fyrir það jukust tekjur af henni lítið sem ekkert sbr. nýlega úttekt.
Hvernig er það…urðu einhverjir Samfylkingarmenn eftir í hliðræna heiminum sem þeir voru í um síðustu helgi ?…þessum þar sem allt er svo gott og samfylkingin er hætt að selja almenning til vogunarsjóða!
Já flott, mótum pólisíur og skerðum athafnafrelsi eftir munnmælasögum hagsmunaaðila. Sterkt og faglegt.
Halda hvalaskoðunar menn að þeir eigi einir rétt á nýtingu á hafinu umhverfis landið. Auðvitað á að efla hvalveiðar, þær geta vel farið saman með skoðurum.
Var ekki vinsælt á hvalveiðiárunm fyrri að fara með ferðamenn í Hvalstöðina í Hvalfirði og sýna þeim hvalskurð?
Það er vitað að hvalir éta mikið magn af fiski og þeim hefur fjölgað mikið. Hvalkjöt er mjög góður matur. Það sem ekki er hægt að nýta til manneldis á að nýta í skepnufóður.
Ég er búinn að sigla mikið um N Atlantshaf undanfarin ár og sama hvar farið er allstaðar er hvali að sjá.
Það er tóm della að það sé bara íhaldsáróður að veiða hvali. Það eina sem ég man að EKG gerði af viti sem ráðherra var að heimila hvalveiðar.
Auðvitað eru ýmis virðingarverð rök með hvalveiðum. En ekki þau að hvalir éti fisk, það er að segja skilji ekkert eftir handa okkur að veiða. Sú staðhæfing byggist á þeirri sýn að hafið mikla umhverfis jörðina sé einsog baðkar sem börn setja í hornsíli. Jafnvel aumur málfræðingur skilur að hafið er aðeins flóknara, enda roðna líffræðingar þegar undir þá eru bornar ,rannsóknir’ um að hvalir steli fiskum frá mönnum.
Sjá glærur úr erindi Hilmars Malmquists um stöðu hvala í sjávarlífríkinu við Ísland og ,,líffræðilegar bábiljur um nauðsyn hvalveiða“ (og svo greinargerð Gísla Víkingssonar um rannsóknarniðurstöður Hafró): http://natturuverndarsamtok.is/lifrikisjavar/frettirpage.asp?ID=2779
— Var reyndar að lesa um rannsakendur sem telja að hvalir gegni þvert á móti mikilvægu hlutverki við að viðhalda frjósemi sjávar vegna þess að þeir eru á sífelldri ferð frá botni til yfirborðs og bera með sér nauðsynleg efni (skíta járni úr botninum handa svifinu við haffflötinn o.s.frv.) — en þessa speki ætlar íslenskufræðingurinn ekki að selja mjög miklu dýrar en hún var keypt …
svo má gjarnan hafa í huga hvílíkt ógnarmagn af hvölum þyrfti að veiða ef það ætti að hafa merkjanleg áhrif á fiski/svifstofna.
Þær tölur eru örugglega aðgengilegar gúgglandi fólki, en ég má ekki vera að því.
Í prinsippinu er ég á móti því að hvalveiðar séu bannaðar almennt. Sönnunarbyrgðin um nauðsyn bannsins hlýtur að vera hjá þeim sem vilja banna.
En strategískt bann á ákveðnum stöðum til að bæta aðstæður hvalaskoðunar er ekki slíkt hvalveiðibann. Og þar að auki stutt skýrum hagsmunarökum.
Mörður, þú spyrð hvar gróði Kristjáns Loftssonar sé? Ég skal fús viðkenna það að ég veit ekki hvar sjá gróði er eða hversu mikill hann er, enda kemur mér það ekkert við.
Hins vegar veit ég hver gróði þeirra 150 starfsmanna sem unnu við vinnslu á hval árin 2009 og 2010 var. Ég veit einnig hvaða áhrif hvalveiðarnar höfðu á tekjur sveitarfélagsins hér á Akranesi og kannski upplýsir Steingrímur fjármálaráðherra þig um það hversu miklar skatttekjur skiluðu sér inn til ríkissjóðs en ég veit að það var umtalsverð upphæð.
Meðallaun verkamanna sem unnu í vinnslunni bæði í Hvalfirði og hér á Akranesi voru yfir 700.000 kr. á mánuði og heildartekjur yfir vertíðina voru um 3 milljónir fyrir 4 mánaða vinnu.
Það er kominn tími til að menn átti sig á því að velferð hér á landi byggist á því að framleiða, skapa gjaldeyri. Ef Kristján nær ekki að selja sínar afurðir þá er þessu sjálfhætt en þér eins en öðrum kemur það ekkert við, ekkert frekar en þér kemur það við hvort skósali nær að selja sína skó eða ekki.
Þessar veiðar eru löglegar og sjálfbærar og enda byggjast þær á fiskiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun. Það er einnig mjög mikilvægt að það ríki jafnvægi í hafinu en það liggur fyrir að hvalir eru að borða gríðarlegt magn að bolfiski á hverju ári, það er kannski ein skýringin á því hversu illa hefur gengið að byggja suma fiskistofna upp.
Það er mér hins vegar hulin ráðgáta hví menn tala gegn hvalveiðum en ugglaust er ein megin skýringin á því sú að ein af höfuðkröfum Evrópusambandsins er að við hættum hvalveiðum tafarlaust ef við ætlum að fá inngöngu og því tala menn eins og þú með þessum hætti.
Eitt að lokum: ferðaþjónustan talaði um á sínum tíma að ef hvalveiðar yrðu leyfðar í atvinnuskyni þá myndi draga stórlega úr komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Hins vegar sýnir sagan okkur að það hafa aldrei fleiri ferðamenn komið til landsins en eftir að hvalveiðar hófust aftur.
Mín persónulega skoðun er sú að vinnsla og veiðar á hval sé vistvæn væn stóriðja og það er eitthvað sem þú og þinn flokkur ættuð að styðja, enda þurfum við að skapa gjaldeyristekjur til að geta haldið hér uppi velferð sem nú sætir blóðugum niðurskurði.
Helsta atvinnuuppbygging Marðar og samfylkingarinnar er að allir sulli í fótabaði með iðnaðarráðherra. En annars Mörður hvenær ætlar þú að fara að haga þér eins og fullorðin maður ?
Vilhjálmur Birgisson ofmetur bolfiskát þeirra hvala sem Kristján Loftsson veiðir enda nærast Langreyðar fyrst og fremst á svifi. Mér vitanlega hefur Hafrannsóknarstofnunin ekki kynnt neinar vísindarannsóknir þess efnis að hrefnuveiðar muni auka fiskgegnd hér við land.
Það rétt hjá þér Árni að Langreyðar nærast fyrst og fremst á svifi. Það er hins vegar ekki rétt hjá þér að Hafrannsóknarstofnun hafi ekki skoðað bolfiskát hrefnunar en það er umtalsvert eins og fram kom í fréttum frá stofnunni í fyrra.
Ég hins vegar spyr: Hví í óskupunum eigum við ekki að nýta okkar sjávarauðlindir í ljósi þess að um sjálfbærar veiðar er um að ræða og byggðar á vísindalegum forsendum.
Það er alla vega morgunljóst að við Íslendingar lifum ekki á fjallagrösum og einhverju „öðru“ eins sumum stjórnmálamönnum er svo tíðrætt um og menn verða að átta sig á að við verðum að skapa gjaldeyrir til að hér þrífist eðlilegt samfélag.
Ef menn mæla með svartri atvinnustarfsemi þá mæla menn líka með glæpum þá eiga menn að huga sin gang hvort þeim sé statt á þingi.
Sjálfbærar veiðar á hvölum sem og á öðrum tegundum er málið, Ekki þessa greenpeace bull á okkar borð þegar vísindin segja annað.