Föstudagur 28.10.2011 - 11:15 - 20 ummæli

VG, ESB og svikabrigslin

Formaður Vinstrigrænna og þingmenn liggja undir ágjöf um að hafa brugðist kjósendum sínum og stefnuskrá vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Og auðvitað er það skrýtin staða fyrir kjósendur VG og flokksmenn að ríkisstjórn á þeirra vegum standi fyrir þessari umsókn, ekki síst þegar á þeim dynja dagleg svikabrigsl – frá Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum.

Nú er ég enginn ofuraðdáandi formanns VG og forystusveitar svona í heildina – en rétt skal vera rétt:

Uppúr kjörkössunum vorið 2009 komu tvennskonar úrslit. Annarsvegar meirihlutastuðningur við ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og VG (34/63). Hinsvegar meirihlutastuðningur við þá stefnu þriggja framboða að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samningsniðurstöðuna fyrir kjósendur. Þetta voru Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin (33/63).

Samfylkingin og VG hlýddu að sjálfsögðu kjósendum og mynduðu ríkisstjórn. Í þeim viðræðum setti Samfylkingin fram þá kröfu að niðurstaða kosninganna um ESB-umsókn yrði virt, og sett á stefnuskrá stjórnarflokkanna að sækja um aðild. VG féllst á þetta með því skilyrði að flokkurinn hefði fullt frelsi til að halda við sína afstöðu í málinu og leggjast gegn aðild að samningum loknum.*)

Þetta var þroskuð og ábyrg afstaða hjá flokknum. Hann hélt við sína meiningu en féllst á vilja meirihlutans. Og þetta var líka það eina skynsamlega í stöðunni.

Hvað annað? Fyrir okkur Samfylkingarmenn valt stjórnarmyndunin á þessu máli. Hefði VG látið stranda á aðildarumsókninni kom tvennt til greina: Að Samfylkingin hefði reynt að mynda stjórn um aðildarumsóknina með Framsókn og Borgarahreyfingunni einsog hún hét þá. Sem hefði verið ómöguleg og líklega ómyndanleg stjórn af mörgum ástæðum öðrum.

Eða þá að VG reyndi myndun stjórnar gegn ESB með Sjálfstæðisflokknum, sem reyndar var jafnklofinn þá og nú í málinu, og þriðja flokki, annaðhvort Framsókn (39/63) eða Borgarahreyfingunni (34/63). Báðir kostirnir út í hött fyrir VG – og algerlega fáránlegt framhald af hruni, búsáhaldabyltingu og kosningaúrslitum.

En kannski lögðu geislabaugsmenn þetta einmitt til á sínum tíma? Hvað sagði Atli?

VG tók rétta ákvörðun, stjórnin var mynduð og aðildarumsókn samþykkt á alþingi 16. júlí um sumarið með 33 atkvæðum gegn 28. Þá brá svo við að sex af níu Framsóknarmönnum voru hlaupnir í andstöðu við málið sem þeir studdu fyrir kosningar, og þrír af fjórum Hreyfingarþingmönnum. Sá hringlandi var hinsvegar ekki VG að kenna – og ef einhverstaðar er viðeigandi að tala um brigð við kosningafyrirheit, þá er það í námunda við þetta fólk.

Hvað menn athugi vel á Akureyri um helgina.

*   ESB-kaflinn úr samstarfsyfirlýsingunni 10. maí 2009:

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í  þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á  Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma. 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (20)

  • Olafur Sveinsson

    Rétt með farið hjá þér Mörður.
    Var á umræddum flokkstjórnarfundi.

  • Eðlilegast hefði verið að Samfylkingin eða VG hefðu myndað minnihlutastjórn sem hefði notið hlutleysis hins flokksins og þurft að ná meirihluta í hverju máli fyrir sig. Að reyna að keyra í gegn aðildarferli með engan meirihlutastuðning á þingi fyrir aðild mun gera það að verkum að það er enginn sem meirihluti sem tekur pólitíska ábyrgð á ferlinu og það í senn svik við þá sem vildu fara í sambandið og þá sem vildu standa fyrir utan það.

    Ef Samfylkingin hefði samið við Framsókn og Borgarahreyfingu um ESB malið og stækkað þannig þann hóp sem tók ábyrgð á stjórnun samfélagsins hefði ferlið verið í betri farvegi og enginn hefði þurft að styðja aðild að sambandi sem viðkomandi hafði engan áhuga á þátttöku í.

  • Hrekkjalómur

    Héðinn,
    Allar skoðanakannanir fram til þessa sýna að það er meirihlutastuðningur við að sækja um aðild meðal þjóðarinnar. Hvað Alþingi varðar, þá þarf að hringja í Veðurstofuna daglega til að fá uppýsingar um stuðning þingmanna við þetta mál.

    Ég skil ekki hvernig Framsókn ætti að hjálpa til við endurreisn landsins, eins og þeir haga sér þessa dagana. Þingmenn flokksins minna helst á klikkuðu forsetaframbjóðendurna í Bandaríkjunum.

    Hrekkjalómur

  • Það er ekki vist að Framsókn og Hreyfingin hefðu þróast á sama veg ef þeim hefðu verið falið ábyrgð. Það er ekkert eins temprandi á öfgar eins og valdið til að koma hlutum i framkvæmd. Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið einangraður i stjórnarandstöðu hefði verið hægt að horfa fram á áratugi án þess að hann kæmist aftur að, en nu litur allt ut fyrir að hann komist i stjórn strax við næstu kosningar, an þess að náist að klara ESB aðildarumsókn, stjórnlagabreytingar eða breyta neinu grundvallandi i fiskveiði- og fjarmalakerfi.

    Það var kluðrað ákveðnu tækifæri sem myndaðist i tima minnihlutastjórnarinnar til að byggja nytt, á breiðum grunni og til langs tima. En þetta er allt orðið sagnfræði. Ef farið hefði verið i að byggja breiðan grunn hefði verið folk sem hefði kvartað yfir að ekki skildi hafa verið reynt að nyta hið sögulega tækifæri til vinstristjornar. Eða eins og Kirkegaard sagði:
    „Gift Dig, Du vil fortryde det; gift Dig ikke, Du vil ogsaa fortryde det;“

  • Það sem vakir fyrir Sjálfstæðisflokknum varðandi ESB er ekki andstaða við aðild. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar sjálfur að vera í stjórn þegar Ísland gengur í ESB. Þess vegna er það afar dapurlegt og vanþroskuð afstaða landbúnaðarráðherrans að svíkja samstarfssamninginn og eyðileggja umsóknarferlið. Ég fullyrði að meirihluti VG er hlyntur aðild og hinir elska þjóðaratkvæðagreiðslur. Hvað er að Jóni?

  • Þetta er nú meira fimbulfambið hjá þér Mörður og hjá flestum sem hjá þér commenta.

    Hlustuðuð þið ekki á erlendu sérfræðingana sem töluðu í Hörpunni í gær þar sem tveir heimsþekktir nóbelsverðlaunahafar í hagfræði þeir Paul Kruger og Joseph Stiglitz ásamt hinum hinum vel þekkta blaðamanni Financial Times Martin Wolf lýstu því allir yfir því að Ísland ætti að forðast aðild að ESB og að Evran myndi ekki gera okkur neittt gagn. Krónan hefði hjálpað okkur mest og best eftir Hrunið.
    Martin Wolf spurði þau Jóhönnu og co við háborðið með nokkrum þjósti, hvort að þau fylgdust virkilega ekkert með fréttum hvað væri að gerast á EVRU/ESB svæðinu og uppskar hlátur salarins fyrir.

    Þessi ESB umsókn Íslands er ónýt og allar forsendur breyst síðan umsóknin var send inn. ESB/EVRU svæðið logar í fjárhagslegum stórviðrum sem mun taka langan tíma að lagfæra ef það þá nokkurn tímann tekst. Talað er um að breyta þurfi EVRU samstarfinu í eitt stórt miðstýringarapparat þar sem allir þræðir lægju til embættisaðalsins í Brussel.

    Skynsamlegast er að reyna að sætta þjóðina og það væri best gert með því að leggja þessa ESB umsókn til hliðar í 2 ár eða svo og athuga allar aðstæður þá og þá fengi þjóðin að kjósa um það hvort þessu aðildar og aðlögunarferli við ESB verði haldið áfram eða ekki. Samningar yrðu hvort eð er aldrei tilbúnir fyrr en þá og því væri ekki verið að taka neinn rétt af þjóðinni með beinni aðkomu að þessu máli.
    Ef þjóðin vildi halda þessu ferli áfram þá sem ég reyndar dreg mjög í efa þá er það starf sem unnið hefur verið alls ekki ónýtt, síður en svo.

    Að vaða svona áfram með hroka og yfirgangi er feigðarflan og verður heldur ekki ESB aðildarsinnum til framdráttar. Þeir skara aðeins eld að höfði sér og ala enn frekar á sundurlyndisfjandanum í þjóðfélaginu.

    Kannski er það einmitt það sem þeir vilja !

  • Ég þekki hóp af fólki sem kaus VG einungis vegna þess að þeir voru eini flokkurinn sem hafði á stefnuskrá sinni að standa gegn aðild að ESB. Enginn okkar ætlar að kjósa VG aftur enda sviku þeir kjósendur sína.

    Þá skiptir ekki máli þó svo þú eða sjálfstæðismenn eða einhverjir aðrir, skrifa 10 bls þvælu til að reyna að yfirklóra þetta. Þið eruð augljóslega orðnir hræddir vegna þess að sjáið fram á að þið munuð ekki ná þessu máli í gegn fyrir næstu kosningar og því sé best að hafa VGarana góða.

    Jæja, newsflash for you. Þið munið ekki geta myndað stjórn eftir næstu kosningar enda þá báðir orðnir örflokkar. Nú getið þið bara slakað á og haldið áfram að grafa undan samstarfsflokknum enda óþarfi að smjaðra ef engin eru launin.

  • Það er hæpið að lesa kröfu um umsókn úr síðustu kosningaúrslitum. Telur þú að allir sem kusu Samfylkingu, Borgarahreyfingu og Framsóknarflokk hafi verið að lýsa yfir stuðningi við umsókn? Fékk Jóhanna engin atkvæði út á „skjaldborgina“? Var ESB það sem trekti kjósendur að Borgarahreyfingunni?

    Hvar passa svo skilyrði Framsóknarflokksins inn í myndina? Voru þau atkvæði ekki í mesta lagi stuðningur við skilyrta umsókn?

    Réttast hefði verið að leggja málið í þjóðaratkvæði úr því að ekki fékkst skýr niðurstaða í þingkosningum.

  • Hrekkjalómur

    En ágæti Gunnlaugur,
    Þessi sérfræðingar þínir vissu ekkert um Ísland. Tóku það meira að segja fram sjálfir. Þeir skildu ekki verðtrygginguna og virtust ekki átta sig á hvað gerst hafði með krónuna. Sem féll um nær 50% á meðan Evran hefur eiginlega ekki fallið neitt að ráði. Sýnist þessir góðu herramenn ekki hafa áttað sig á því að heimilin tóku skell sem birtist í helmingi lægri virði myntarinnar, með hækkun verðs og skulda, á meðan launin hafa staðið í stað.

    Þegar erlendir hagfræðingar koma til landsins, og hafa kynnt sér forsendurnar hér á landi, sem taka svo undir með þessum gaurum, þá skal ég hlusta og taka mark á þeim. Ég tek ekkert mark á gapuxum sem blaðra án þess að hafa kynnt sér málin, sama hvað þeir segja.

    Hrekkjalómur

  • Jón Sig.

    Mörður farðu nú að snúa þér að einhverju öðru, t.d. skuldavanda heimilanna í landinu, þú veist sem er að Ísland mun aldrei ganga í ESB, enda mun það batterý, aldrei ganga nema hafa einn fjármálaráðherra, í Brussel, og það mun aldrei gerast.

    Leyfðu okkur svo að fylgjast með þegar þú svarar tónlistarmanninum í Hveragerði sem sendi póst á ykkur þingmenn Samfylkingar.

    Það sem veldur mér áhyggjum er að byggingarfyrirtæki slapp við 9.9 miljarða sjálfskuldarábyrð hjá Ríkisbanknum, en heldur samt eftir miljarða eignum, á sama tíma sem Ríkisbankinn neitar að fella niður sjálfskuldarábyrð hjá mér, vegna íbúðarkaupa skyldmennis, það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón hjá Ríkisbankanum.
    Svona mismunun er ekki hægt að líða, til hvers var bankasýslan stofnuð.

  • Hrekkjalómur.
    Þetta er bara alls ekki rétt hjá þér þessir mikilsmetnu og virrtu herra menn hafa sett sig mjög vel inn í íslenskar efnahagsaðstæður og fylgst af áhuga með Íslandi og hvernig því vegnaði allt frá Hruni.

    Þetta eru líka menn sem vanir eru að skoða hagstærðir og bera þær saman við efnahagslegan veruleika, hvar sem er í veröldinni, enda 2 af þeim ekki Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði fyrir ekki neitt.

    Þeir hafa sumir hverjir oft komið hingað til lands og skrifað um efnahagslegar aðstæður Íslands í virrta alþjóðlega fjölmiðla.

    Þannig að ég álít þessar athugasemdir þínar annað hvort bara vera „hrekk“ eða að annað hvort veistu ekkert um málin og það passar þér ekki að þessir mætu menn eru mörgum númerum fyrir ofan þig í þjóðfélagslegri og efnahagslegri þekkingu !

  • Steingrímur J. Sigfússon sveik sína kjósendur áður en stjórnin var mynduð með því að gangast undir að sækja um ESB aðild. Það er ekkert hægt að kjafta sig frá þeirri staðreynd.

    Loforðin sem Samfylking hefur síðan svikið sína kjósendur eru svo mörg að menn hafa ekki pólitískt þrek til að telja það allt saman upp.

  • Sammála þér Jói.

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir athugasemdir — einkum var áhrifamikið að heyra sjálfan Kierkegaard taka til máls um Evrópusambandsmálin 😉 — Það sem skiptir máli um VG er það að í raun áttu þeir tvo kosti, samstarf við S með Evrópuumsókn eða samstarf án umsóknar við D og B/O. Völdu auðvitað fyrri kostinn.

    Aðstæður breyttar? Já, heimurinn og Evrópusambandið eru alltaf að breytast. Síðan ég man fyrst eftir ESB (EBE hét það þá) hefur þar geisað krísa um einhver mál, svo er samið undir morgun, og alltaf stendur sambandið sterkara eftir. Fréttir eru sagðar af ótíðindum en ekki framförum frá degi til dags. Evrukreppan er alvörumál sem reynir á samheldni og skipulag í ESB og á evrusvæðinu. Til eru þó reyndir menn, svosem Giscard gamli Frakklandsforseti, sem telja hana ekki mikla á dýptina og hrista hausinn yfir svartagallsrausi fréttaskýrenda. — Gallinn við að slá umsóknarferlið af vegna ,,breyttra aðstæðna“ er svo auðvitað sá að sömu aðstæður geta breyst skyndilega aftur. Eða var ekki verið að ná samkomulagi í Brussel í gærmorgun?

  • Halldór Guðmundsson

    Mörður leyfðu okkur að fylgjast með, þegar þú svarar honum Heimi í Hveragerði, því það svar verður áhugavert fyrir margan manninn, sem er með stökkbreytt lán.

  • Blessaður láttu okkur vita næst þegar ESB styrkist Mörður. það eru nefninlega svo rosalega fáir sem eru að koma auga á þessa styrkleika þessa dagana nema þú, og svo kannski Össur Skarphéðinsson, en það er auðvitað ekkert að marka Össur. Hann hefur gefið það út opinberlega að hann hafi ekkert „vit á business“. ESB er jú fyrst og fremst tollabandalg. Tollar flokkast undir business, og þess vegna er Össur eiginlega ekki gjaldgengur í umræðunni. Þá er betra að fá upplýsingar frá jafn áreiðanlegum stöðum og frá Merði.

  • Hrekkjalómur

    Halldór,
    Stökkbreyttu lánin eru krónunni að kenna. Ekki evrunni. Það var krónan sem féll. Evran hefur ekki haggast og þrátt fyrir allt tal um kreppu í evrópu þá finna evrópubúar ekki fyrir henni á sama hátt og Íslendingar. Þar hefur ekki orðið 50% gengisfall. Eða hvað?

    Hrekkjalómur

  • Hrekkjalómur hefur ekkert haggast í Evrópu meðaltals atvinnuleysi á EVRU svæðinu er ca 10% og það er nú 21,5 % á Spáni á landsvísu þ.e 5.000.000 manna eru atvinnulausir hér á Spáni með ESB og EVRUNNI sem er meira en 3,5 sinnum meira en það er á Íslandi.

    Auk þesss er kaupmáttur launa og almenn félagsþjónusta mörgum sinnum verri hér á Spáni þrátt fyrir hrunið og þrátt fyrir að Mörður Árnason er í stjórn og vill endilega troða þjóðinni inn í þetta handónýta stjórnstýsuapparat sem hangir saman á lyginni og slefi frjálshyggjuauðvaldsins og Eurokratismans.

  • Hrekkjalómur

    Já en Gunnlaugur. Ástandið er búið að vera svona lengi á Spáni. Og reyndar víða í Evrópuo. Atvinnuleysið þar hefur varað í langan tíma og hefur lítið að gera með hrunið á Íslandi eða núverandi efnahagsvanda Evrópu. Þetta er reyndar stærsta vandamál Evrópu og mun örugglega ekki skána en þetta er ekki nýtt ástand. Og þetta ástand hefur ekkert með Evruna að gera.

    Hrekkjalómur

  • Eins og staðan var eftir kosningar var VG einfaldlega að fara eftir Lýðræðislegum vilja þeirra sem höfðu keypt þá hugmynd að þörf væri á að kíkja í pakkann eins og það var nefnt. Og tekist hafði að rakka niður gjaldmiðil þjóðarinnar í kór við ASI sem vildi náttúrulega halda krónunni verðtryggðri þangað til að gróðinn af hruninu væri allur búinn að skila sér í hús frá ungu kynslóðinni.
    Ég er búinn að vera að reyna að segja jafnaðarmönnum sem trúa virkilaga á jöfnuð meira en alræði peninga og fjármálalífs. Að leggja þessa skaðræðishugmynd til hliðar í smá stund. Anda með nefinu og spurja sig hvort þeir vilji fara lengra inn í geðveikina. Þá meina ég geðveiki sem fylgir alvarlegri afneitun og sturluðu heyrnarleysi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur