Mánudagur 07.11.2011 - 14:05 - 23 ummæli

Milljóndollaraspurningin

Opinn fundur um Vaðlaheiðargöng í morgun í umhverfis- og samgöngunefnd: Niðurstaðan að einhver óháður fari yfir útreikninga ríkiseinkafyrirtækins Vaðlaheiðarganga h.f., vonandi að minnsta kosti Ríkisendurskoðun.

Þetta var fróðlegur fundur – þótt áætlanir gangamanna, sem fjármálaráðuneytið blessar, stangist svo ævintýralega á við mat FÍB að maður nær ekki botni.

Þarna var meðal annars fulltrúi MP-banka sem gefur h.f.-inu ráð um fjármögnun. Ég spurði Arnar Guðmundsson einmitt milljóndollaraspurningarinnar:

Fyrst þetta lítur svona vel út – er þá ekki MP-banki til í að fjármagna dæmið?

Svarið var að bankinn sæi bara um ráðgjöfina. Hitt hefði aldrei verið rætt.

En þá ættu Göngin háeff, Steingrímur og Margeir endilega að gera það. Með því að bankinn tæki að sér lánin til Vaðlaheiðarganga væri gulltryggt að kostnaður félli ekki á skattborgarana – og MP mundi græða vel miðað við eigin ráðgjöf.

Og allir brosandi út að eyrum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (23)

  • Góð spurning en grínlaust þá trúi ég því ekki að dæmið gangi upp. Göngin verða vetrarvegur og þetta endar á borði skattgreiðenda ef farið verður í framkvæmdina.

    Líst vel á að fá óháðan aðila til að meta arðsemina. Ef ég man rétt þá voru það norskir aðilar sem mátu arðsemi Hvalfjarðarganga. Gott að leita út fyrir landsteinana að óháðum aðila.

  • Sævar Helgason

    Helst að fá erlendan aðila til að meta kostnaðinn. Þegar opinberar framkvæmdir eru annarsvegar standast okkar eigi frum kostnaðaráætlanir aldrei. Síðan á að fá erlendan aðila til að stjórna verkefninu verði samþykkt að framkvæma það.

    Við sjáum núna í dag t.d með Hörpu. Gert var ráðfyrir á þeim bænum að kostnaður við verkið gæti aldrei orðið hærri en 24 milljarðar ísl kr. það þótti stjarnfræðilega langt frá raunkostnaði ef svo færi.

    Núna í dag er verið að tilkynna um 27 milljarða ísl kr endurfjármögnun Hörpu-og ekki öll nótt úti ennþá með lokaverð. Gangi ykku vel í Umhverfis og samgöngunefnd-við fylgjumst með….

  • Sigurður Hr. Sigurðsson

    Ég hlustaði á þennan fund og upplifði mjög sterkt lýðræðishallann sem við búum við. Þarna er verið að kippa ákveðinni framkvæmd út úr samgönguáætlun og setja hana framar öðrum mikilvægari. Rökin fyrir því að engin kostnaður falli á ríkissjóð eru vægast sagt vafasöm.

    Í umhverfis- og samgöngunefnd sitja níu aðalmenn og eru sex þeirra þingmenn landsbyggðarkjördæmanna. Af málflutningi þeirra að dæma fór það heldur ekkert á milli mála. Þegar misvægi atkvæða er tekið með í reikninginn kemur í ljós að fulltrúar einungis 36% kjósenda ráða 2/3 hlutum atkvæða. Reyndar er þá enn eftir að taka með í reikninginn þá kjósendur sem náðu ekki mönnum á þing, skila auðu eða sitja heima.

    Fjármálaráðherra sat fyrir svörum ásamt fleirum en hann er sjálfur fyrsti þingmaður NA-kjördæmis. Þar talar sá sem valdið hefur, og virðist hann skella skollaeyrum við öllum viðvörunum um að framkvæmdin muni ekki standa undir sér. Ömurlegt!

  • S. Guðmunds

    Alltaf sama fjandsamlega afstaðan til landsbyggðarfólks af hálfu Samfylkingarfólks.

    Fyrir Samfylkingarfólk er Ísland bara Höfuðborgarsvæðið og heimurinn er bara ESB-löndin.

    Í tíð núverandi stjórnvalda hefur verið skorið mest niður á landsbyggðinni hvað varðar heilbrigðismál, löggæslu, samgöngur, og það að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu.
    Vegna hroka Samfylkingarfólks finnst þeim þetta allt í lagi enda vita þau að úti á landi er engin atkvæði að ná í. Öll þeirra atkvæði koma nefnilega frá Höfuðborgarsvæðinu og þess vegna er þeim svo mikið í mun að koma á svonefndu „jöfnu vægi“ atkvæða sem þýðir í raun Samfylkingunni í hag.

    Vegna þrýstings frá stjórnvöldum, sérstaklega frá Samfylkingunni, var ákveðið að hæta við allar framkvæmdir á Bakka og á Þeistareykjum.
    Að nafninu til er sagt að til standi að nýta orkuna þarna, en aldrei er útskýrt hvernig, hverjir og með hvaða hætti. Miklar líkur eru á því að það verði aldrei gert.

    Hef heyrt um áð fólk úr Þingeyjarsýslum og annað landsbyggðarfólk og niðjar þeirra á Höfuðborgarsvæðinu ætli ekki að greiða Samfylkingunni né VG atkvæði í næstu kosningum, ætli að segja nei við nýrri stjórnarskrá og ætli að segja nei við aðildarsamningi að ESB með þökkum fyrir fjandsamlegheit Samfylkingarinnar í garð landsbyggðarinnar.

  • Mörður nær ekki botni og ráðgjöf MP þvælist illilega fyrir honum og ekki bætir hann stöðuna huldumaðurinn sem Mörður kallar Margeir.

  • Baldur Kristjánsson

    Gild spurning. Ríki og sveitarfélög ættu ekki að að innviklast í önnur fjárfestingarverkefni en þau sem bankar og fjárfestingarsjóðir teysta sér ril að taka (megin)áhættuna á. Ætti að vera hin gullna regla fjárfestinga.

  • Þór Saari

    Þetta var góður fundur og athyglisvert hvað áætlun og forsendur gangnamanna voru glórulausar svo ekki sé meira sagt. Eins og málið er lagt upp virðist algerlega útilokað að það gangi upp fjárhagslega og þá stendur eftir spurningin. Hver á að borga? Til er ég sem skattgreiðandi þegar þar að kemur en þetta er ekki og getur ekki verið forgangs mál í vegakerfinu. Þetta verður vissulega samgöngubót en arðbær fjárhagslega verður hún ekki. Úttekt Ríkisendurskoðunar og annars óháðs aðila er næsta skrefi enda það eina skynsamlega í stöðunni.

  • EiríkurJ

    Ætli þeim FIB mönnum hafi ekki dottið í hug að bæta við væntanlegt „tjón“ ríkissjóðs því sem notendur ganganna munu spara sér í greiðslu eldsneytisskatta af styttri akstursvegaleng.
    Sama sjónarmið ætti svo við með Hvalfjarðargöngin, gríðarlegur tekjumissir fyrir ríkissjóð að umferðin skuli ekki lengur öll fara fyrir Hvalfjörð.

  • Stefán Benediktsson

    Góð hugleiðing Mörður. Hef oft hugleitt hvað rak foreldra þína til að nefna þig Mörð en sé við nánari athugun að þau hafa haft sömu framsýni og maðurinn sem skýrði son sinn „Sue“. Eldsins herðing

  • Helga Rakel Guðrúnardóttir

    Ég er ein af þeim sem keyri Víkurskarðið mjög oft. Ég las þó einhverja skýrslu um þessi göng og þar voru útreikningarnir mjög undarlegir og öll röksemdafærslan.
    Mín skoðun er að ekki sé hægt að rukka veggjöld nema önnur leið sé í boði eins og er fyrir Hvalfjarðargöngin.
    Ég mundi vilja sá einhverskonar blandaða leið. Á sumrin væri Víkurskarðið opið og þá væru rukkuð veggjöld um göngin. Að vetri yrði hinsvegar Víkurskarðið lokað og þannig mundi sparast þeir fjármunir sem fara í að halda því opnu en á sama tíma væri frítt í göngin. Ríkið gæti samið um að greiða rekstraraðilum gangnanna hlutfall af þeirri fjárhæð sem það kostar að halda Víkurskarðinu opnu að vetri til. En það þarf auðvitað að vera sparnaður af þessu fyrir ríkið.

  • Fróðlegur fundur. Það er ljóst að gera verður alvöru hagkvæmisathugun. Annað er ótækt. það er undarlegt hversu slakur málflutningur Vaðlaheiðarganga h.f. er . það verður að gera ráð fyrir að menn mæti vel undirbúnir og geti rökstutt sit mál. Svo var hins vegar ekki. ÁJ sá um skemmtiatriðin eins og við avr að búast.

  • Jón Ólafs.

    Mörður hafðu ekki neinar áhyggjur af Vaðlaheiðargöngum þau munu borga sig með tíð og tíma, þau koma til með að verða í notkun í mörghundruð ár, og mikil uppbygging á eftir að verða í þingeyjarsýslu í kringum þá orku sem þar er, ég myndi hafa meiri áhyggjur af svarbréfinu til Heimis tónlistarmans í Hveragerði, og leyfðu okkur að fylgjast með þegar þú verður búinn að svara honum.

  • Jens Gíslason

    Helga Rakel,

    Dalsmynnið verður líklega ennþá opið yfir veturinn.

  • Það getur verið að framkvæmdakostnaður fari fram úr áætlun eins og oft gerist, en fjöldi bíla gegnum göngin getur verið stórlega vanáætlaður. Hér er ekki um nein Héðinsfjarðargöng að ræða, sem þjóna örfáum útkjálkahræðum, heldur er þetta göng á þjóðvegi 1, hringveginum. Umferðin gegnum Hvalfjarðargöngin var afar hóflega áætluð í arðsemisútreikningum og göngin borguðu sig á mun skemmri tíma en áætlað var vegna þess að notendur reyndust mun fleiri. Það virðist ekki mikil áhætta tekin með því að hefja framkvæmdir. Verkefnið er tilbúið og engin ástæða til að kjafta það útaf dagskrá.

  • Nokkrar staðreyndir tengdar þessum fundi:
    Skuldbindandi tilboð í 95% af kostnaðaráætlun liggur fyrir, engin óvissa þar. Eina óvissan sem skiptir máli er um umferðarmagnið. Þá þarf að horfa til sambærilegra verkefna hérlendis sem erlendis. Hafi menn bæði augun opin í þeirri skoðun og lausir við fordóma sést að áætlanir eru hófsamar svo vægt sé til orða tekið. En auðvitað er þetta óvissa, enginn er að halda öðru fram. Það er hinsvegar gert alltof mikið úr henni en fordæmi og efni standa til.
    Umframkostnaður Héðinsfjarðarganga skýrist að mestu leiti af falli krónunnar í bankahruninu en þá stóðu framkvæmdir yfir. Umferð er 70% meiri en áætlun gerði ráð fyrir um Héðinsfjarðargögn. Það talar enginn um það. Ef gengisfellingin er tekin út er um bullandi arðsamt verkefni að ræða, sama hvernig á það er litið. Svo nota höfuðborgarmiðaðir þingmenn þetta sem samnefnara fyrir sóun fjármuna í landsbyggðarfólk. Hafi þeir skömm fyrir það.
    Ríkið fær allt að 2 milljarða í skatttekjur vegna umsvifa á verktíma Vaðlaheiðarganga. Það er því sú fjárhæð sem ríkið má tapa á verkefninu sjálfu áður en það fer að valda nettó skaða fyrir ríkissjóð. Ef áætlanir ganga upp er því um tilflutning fjármuna (notendagjöld) frá íbúum á Norðausturlandi til Höfuðborgarinnar þar sem langstærstum hluta skatttekna ríkisins er ráðstafað á höfuðborgarsvæðinu.
    Hvernig er hægt að vera á móti þessu verkefni, sama hvar þú býrð eða sama hvar í flokki þú stendur?

  • Mörður Árnason

    Takk fyrir ágætar umræður hingað til.

    Pétur — ,,Verkefnið er tilbúið og engin ástæða til að kjafta það útaf dagskrá.“ Ágætt. En neytendasamtök á samgöngusviði, Félag ísl. bifreiðaeigenda, gera verulegar athugasemdir. Á alþingi ekki að hlusta á þær?

    Jón Ólafs: Áhyggjur af svari til Heimis í Hveragerði eru eðlilegar — hefði átt að vera komið fyrir löngu. Svargrein þingflokksformanns okkar bíður nú birtingar í Fréttablaðinu. Bendi til fróðleiks á nýlegan pistil minn um lánsveðshópinn (óljóst hvort Heimir er þar á meðal) — nú styttist biðin eftir tillögum um það mál úr efnahagsráðuneytinu.

    Stefán: Ja, þetta veit ég ekki. En þakka mínum sæla að ekki skyldi komast í framkvæmd fyrsta hugdetta föður míns, sem um þessar mundir var niðursokkinn í sögur af mögnuðum galdramanni, félaga Sæmundar fróða, nefnilega Kálfi Árnasyni … 😉

  • Árni Björnsson

    Stefán og Mörður.
    Ég má til með að koma að leiðréttingu. Mér datt sjálfum Kálfur aldrei í hug, heldur Kristjáni heitnum Eldjárn, sem skaut þessu ítrekað að mér, ef mér yrði annars sonar auðið. Nafngiftin Mörður er án efa birtingarform þess uppreisnaranda gegn viðteknum ‘sannindum’ sem í mér bjó um tvítugt og býr reyndar enn.

  • Gagnrýni FÍB var óvænt. Hagsmunasamtök bílaeigenda lýsa efasemdum um vegabætur! Hitt er annað mál að gagnrýnin er efnisleg og eðlilegt að farið verði yfir útreikninginn. Menn mega hins vegar ekki gleyma að vegfarendur greiða þessa framkvæmd og þó að einhverjar ábyrgðir féllu á skattgreiðendur þá er hér um ræða vegagerð í þágu almennings.

  • hvernig væri dæmið ef við hentum krónu og tækjum upp evru. er ekki rétt að endurreikna miðað við þær forsendur? þþ

  • Þá er það komið á hreint sbr frétt frá Vegagerðinni í dag

    Héðinsfjarðargöng fóru 17% fram úr kostnaðaráætlun að raungildi, að miklu leyti vegna ófyrirséðra vatnsvandamála. Umferðin er hinsvegar 70% meiri heldur en áætlanir gerðu ráð fyrir. Nú geta menn endanlega hætt að níðast á þessu verkefni að ósekju og yfirfæra meinta harmsögu þess yfir á önnur verkefni af þessari tegund sem og landsbyggðarverkefni almennt. Nú er það staðfest að verkefnið er bullandi arðsamt þrátt fyrir að ónefndir þingmenn séu enn að reyna að halda öðru fram.

  • Ágætis punktur hjá þér Mörður. Ef þetta er svona brilljant og skothelt, þá ættu allir helstu gróðapungar landsins að vera stokknir á tækifærið.

    En styður þú að farið verði í Norðfjarðargöng á næstunni? Það er þó framkvæmt sem er nauðsynleg, á meðan Vaðaheiðargöngin er lúxusframkvæmd.

  • Hvað með fyrirtæki eins og Samherji sem velta tugum milljarða. Myndu þeir ekki sjá sér hag í því að fjármagna þessi göng? Bara ef við hefðum rukkað þá fyrir makrílin þá hefðum við léttilega efni á þessu. Þeir sem nota munu nota þessi göng mest eru sjávarútvegsfyrirtæki á þessu svæði. Finnst bara ekkert að því að fyrirtæki sem eiga tugi milljaraða erlendis komi með þá heim og styðji framkvæmdir eins og þessar. Skrýtið að ríkið þurfi alltaf að ábyrgjast einkaframkvæmd.

  • Ríkið á meirihluta í Vaðlaheiðargöngum hf. og er því að mestu að ábyrgjast sjálft sig.

    Ríkið er í reynd að fjármagna vegabætur með gjaldtöku/notendaskatti sem er einsdæmi í Íslandssögunni. Hvalfjarðargöng eru ekki í eigu ríkisins eins og Vaðlaheiðargöng. Norðanmenn eru tilbúnir að láta það yfir sig ganga svo þeir fái samgöngubótina.

    20% af heildarkostnaði Hvalfjarðarganga var gjöf/styrkur frá ríkinu. Á það hefur enginn minnst né gert kröfu um endurgreiðslu. Það er því ekki rétt sem haldið hefur verið fram að segja að ríkið hafi ekki komið að Hvalfjarðargöngum á sínum tíma. Það væri ekkert óeðlilegt að ríkið kæmi að Vaðlaheiðargöngum með sama hætti ef menn eru að horfa til fordæma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur