Laugardagur 11.08.2012 - 08:38 - 11 ummæli

Nafnlaust hatur

Og sjálfan gleðigöngudaginn hefur einhver fundið hjá sér hvöt til að kaupa auglýsingu í Fréttablaðinu, undir sjónvarpsdagskránum á bls. 56, og komið þar fyrir hinum fræga ritningarstað um vonda fólkið sem ekki kemst til Himnaríkis:

Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

Nú spretta sjálfsagt upp þeir talsmenn málfrelsis sem helst láta á sér kræla þegar þarf að skilgreina róg og níð sem sérstök lífsviðhorf verðskuldandi stranga mannréttindavernd – látum vera í bili. Í Fréttablaðsauglýsingunni vekur mesta athygli að enginn skrifar undir, auglýsingin er ekki frá neinum.

Hatrið er nafnlaust.

Nema þá maður eigi að þekkja auglýsandann af stílfærðri mynd sem fylgir af pabba, mömmu og barni, sem væntanlega eru fulltrúar Guðsríkiserfingjanna. Af því auðvitað að kynvillingarnir voru aldrei börn. Þær eru ekki mömmur, og þeir eru ekki pabbar.

Ef kristið fólk þegir þá talar Biblían

Það er fyrirsögnin í auglýsingunni. Textinn er hafður eftir Páli postula, stendur í kafla 6, 9. og 10. versi í bréfinu fyrra til Kórintumanna. Um nákvæma þýðingu og frummerkingu er reyndar vafi – ég held þetta sé öðruvísi í nýju biblíuþýðingunni sem ég hef þó ekki við höndina. Mér finnst sennilegast að þessi kall hafi samt meint þetta nokkurnveginn svona. Kristnir söfnuðir á þessum tíma – og sannarlega líka síðar – voru almennt ekki hrifnir af kynlífi eða jarðneskum ástum yfirhöfuð nema þá rétt til að fjölga mannkyninu, hvað þá samkynhneigð … kannski einmitt vegna þess að hún þótti ekki tiltökumál í þeim menningarheimi sem kristnina fóstraði, hinum grísk-rómverska.

Páll postuli – amma hans hvað!

– en Páll sagði sitthvað merkilegra en þessa blessuðu tuggu um drykkjumenn og þjófa og kynvillinga. Til dæmis þetta við Galatamenn (3.28) um einingu mannanna í Kristi, hvaðan sem þeir koma, hverjir sem þeir eru:

Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

Og svo auðvitað þetta um eiginleika kærleikans, í sama bréfinu og nafnleysinginn vitnar til í Fréttablaðinu, 13.13.:

Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. …

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Til hamingju með daginn.

Flokkar: Vinir og fjölskylda

«
»

Ummæli (11)

  • Laufey B Waage

    Í nýju þýðingunni er þetta svona: Villist ekki! Enginn sem er saurlífur, dýrkar falsguði eða lifir í hórdómi, enginn karlmaður sem lætur nota sig eða notar aðra til ólifnaðar, enginn þjófur eða fégráðugur, vínsvallari, rógberi eða fjársvikari fær að erfa Guðs ríki.
    Afar ókristilegt af fordómafullum bókstafstrúarmönnum að láta svona auglýsingu frá sér fara. Og yfirmáta huglaust að hafa þetta nafnlaust.

  • Ásdís Jónsdóttir

    Nú furðaði ég mig á því einu sinni enn að fólk sem telur sig kristið skuli velja sér að misnota trú sína til að afsaka hatur sitt og fordóma og ganga þannig gegn kærleiksboðskap Jesú Krists, ekki opinberlega einu sinni heldur í skjóli nafnleyndar! Ekkert er jafn ókristilegt og fyrirlitlegt og slík hegðun.

  • Hlynur Þór Magnússon

    Eins og frá þessu er gengið mætti að líta svo á, að það sé frá ritstjórn blaðsins. Hins vegar tel ég næsta víst, að hér sé um mistök að ræða og blaðið muni biðjast afsökunar.

  • Guðbjörg Björnsdóttir

    Ef þetta sannkristna fólk er svona aflögufært með peninga þá hefði kanski verið meira í anda kærleika að láta þá renna til þarfara málefnis, og það er víst nóg til af þeim. Þetta væri líka góð lesning, „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra“ sagði Jesús eitt sinn við lærisveina sína. Stundum finnst okkur gott að snúa þessari setningu við og segja: „Það sem þér viljið ekki að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér ekki gjöra þeim.“ Þessi regla virðist nefnilega geta þýtt hvort tveggja.

  • Anna María Sverrisdóttir

    Ég lít eins á þetta og Hlynur.
    Ef maður væri ekki svo einfaldur að vilja engu illu trúa, þá virkar það eins og yfirlýsing frá blaðinu þegar svona er birt þar án undirskriftar. Án þess að ég vilji banna fólki að vitna í Biblíuna eða aðrar bækur þá finnst mér þetta lýsa dómgreindarskorti Fréttablaðsins.
    Læt eiga sig að lýsa hverju mér finnst það bera vitni um þann / þá sem láta birta þetta.

  • Þetta er nú meiri hommadýrkunin á Íslandi alla daga. Af hverju hneyklast
    engin á því að auglýsingin gerir árás á okkur lastmála fólkið? Okkur er
    líka hótað öllu illu eftir dauða okkar. Okkur drykkjumönnunum eru ekki
    vandaðar kveðjurnar. Varðar það ekki við lög? Ég hef alltaf haft ríka eignarhvöt, sem heitir víst ásælni á Biblíumáli. Mér er hótað Andskotanum með krepptar klær eftir dauðann og öllum er sama. En allir
    gráta með hommunum og jafnvel Biblían er enduþýdd þeim í hag.

  • Sigurður #1

    Heimurinn væri töluvert betri staður til að búa á ef ekki væru fjandans trúarbrögðin.

    Hottintottar um allan heim, hver að berjast fyrir sinn draug.

    Minn draugur er betri en þinn, og hefur réttar fyrir sér en þinn og því verður þú að deyja.

    Og minn draugur segir að hommar fari ekki til himna, en á sama tíma er leitun að presti sem ekki er annað hvort nauðgari, barnaníðingur eða hvort tveggja.

    Og svo er gert grín að fólki sem trúir á álfa?

  • Dettur engum í hug að þessi auglýsing sé í raun keypt af einhverjum sem hatast við kristna og kristna trú og er með þessu að hella olíu á það hatursbál? Það var a.m.k. það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þessa auglýsingu. Það væri fróðlegt að vita hver stendur fyrir þessu.

  • Pétur Örn Björnsson

    Ekki var okkar gamli góði Jesús hræddur við að stíga fram, Maríu Magdalenu til varnar, þegar farísearnir og hræsnarnir ætluðu að grýta hana fyrir meintan hórdóm. „Sá yðar er syndlaus er, kasti fyrsta steininum“ Þess ættu menn að minnast, vilji þeir kalla sig kristna, en kannski er þessi auglýsing, líkt og Jóhann bendir á, keypt af einhverjum sem hatast við hinn kristilega boðskap.

  • Það er margt sem nútíminn er búinn að brjóta og týna.

    Skilningur Páls á kærleikanum er nú kallaður ,,meðvirkni“ af svokölluðum sálfræðingum sem standa þó ekki á fræðilegri grunni en spákonan í næsta húsi.

    Lítil var það gæfa að bregða trúnaði sínum við postulann en taka við mélkisulegu mjálmi fræðahrappa.

  • Anna María Sverrisdóttir

    Meiri sveimhuginn Páll postuli. Hér eru önnur orð og fegurri eignuð honum:

    „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“.
    (1. Kor 13.4-8)

    Ég mér ekki þá duld að dæma trú annarra eða trúarbrögð. En ég er sannfærð um að ef það er til kærleiksríkur guð, þó ekki sé nema inni í hjarta okkar þá myndi þess háttar guð aldrei gera gott fólk óhamingjusamt og vansælt vegna þess að það er það sem það er. Slíkur guð myndi aldrei lasta það að fólk elskaði. Slíkur guð myndi örugglega frekar vilja að fólk væri ærlegt um sjálft sig og elsku sína.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur