Þriðjudagur 14.08.2012 - 21:49 - 25 ummæli

Risaeðlur og afastrákar

Kemur á óvart að ekki sé hægt að ná upp stemmingu á landsleikjum nema með því að selja þar áfengi.

Það er svo alveg rétt hjá Heimi Hallgrímssyni aðstoðarþjálfara að við Íslendingar erum hálfgerðar risaeðlur í brennivínsmálunum. Kannski vegna þess að við höfum aldrei kunnað með vín að fara?

Það var samt enginn bjór þessi þrjú skipti sem ég hef farið á völlinn í föðurlandi fótboltans, í Liverpool og London. En þeir staupuðu sig að vísu nokkuð duglega fyrir leik á kránum í kring, sumir.

Annars erum við að fara á landsleikinn við Færeyinga, ég og dóttursonur minn, tíu ára, annar KR-ingur og hinn Bliki. Við hlökkum til og erum að vonast eftir sigri, eða að minnsta kosti tilþrifum hjá íslenska liðinu – Gylfi Þór, Kolbeinn, Emil, kannski Eiður …

Mér finnst líklegt að þarna verði góð stemming ef strákarnir leggja sig fram og liðið leikur skemmtilegan bolta. Alveg óháð áfengisneyslu í stúkunni.

En er ekki viss um að okkur tveimur yrði hleypt í þetta ferðalag ef Heimir Hallgrímsson nútímamaður stæði við innganginn að selja bjór og snafs.

 

Flokkar: Lífstíll

«
»

Ummæli (25)

  • Ásdís Jónsdóttir

    Mikið ofboðslega held ég að það sé tilkomulítil knattspyrna sem fólk getur ekki horft á nema drekka í sig stuð! Menn sem hafa ekki meira álit á íþróttinni sem þeir stunda en þetta ættu bara að gera eitthvað annað.

  • Friðrik Smári Sigmundsson

    Burtséð frá því hvort það sé til að auka stemningu á pöllunum ættu menn kannski frekar að velta fyrir sér hvort það sé ekki bara sjálfsögð þjónusta að selja slíkar guðaveigar.

    Að mínu viti er hamsleysi Íslendinga þegar kemur að áfengi mýta, þ.e. í dag þó öðruvísi hafi það verið. Flestum þykir einfaldlega sjálfsagt að leyfa sér að sötra einn öl þegar þannig ber við. Rétt eins og öðrum finnst sjálfsagt að sötra sykurleðjuna og eitrið Coke Cola.

    Enginn verður verra foreldri af því að fá sér ölglas á knattspyrnuleik og ósanngjarnt að ætla Íslendingum slíka ógæfu að vera allir ógæfumenn inni við beinið.

    Hvers vegna er það, að litið er á lífsgæði sem bjóðast öðrum Evrópubúum sem hina mestu hneisu hér á landi? Hvers vegna gæti það ekki gengið hér á landi sem viðgengst í öðrum löndum og þykir sjálfsagt mál?

    Má þetta að sjálfsögðu einnig heimfæra upp á verslun með léttvín og bjór í matvöruverslunum.

  • Hvers vegna er Evrópusinninn Mörður ámóti því að íslenskt samfélag verði líkt erlendum að þessu leyti?

    Hvers vegna er ekki hægt að treysta fólki á Íslandi til að stjórna lífi sínu?

    Með hvaða rökum er Mörður Árnason hæfari en ég sjálf til að ákveða hvað er mér fyrir bestu?

  • Sæll Mörður.
    Ég hef skilning á sjónarmiðum beggja, þ.e. hjá þér og Heimi.
    Líklega er það er það rétt að við séum pínulítið á eftir þeim þjóðum sem sumir vilja bera okkur saman við, þá á knattspyrnuvellinum.

    Hitt er svo annað, sem er líka rétt hjá þér, þarf áfengi ef að leikurinn er góður og önnur umgjörð sé í lagi ?

    Ég gæti rætt lengi um getuleysi (lesist sem pungleysi) KSÍ í þessum málum.
    Það er alveg merkilegt hvað KSÍ neitar að líta í eigin barm og kemur þessu ávallt yfir á áhangendur. Ég hef sjálfur unnið við það á vegum KSÍ að skapa stemmingu fyrir nokkuð mörgum árum. Þá var lagt töluvert í að græja stuð og stemmningu. Hafði reyndar ekkert að gera með áfengi nema það sem KSÍ bauð upp á í hálfleik fyrir VIP fólkið.

    En svo aftur að jafn kjánarlegum sjónarmiður líkt og téð Rósa hendir hér inn.
    Hvernig er það, má ekki setja penging í stöðumæli án þess að það sé tengt pólítískum sjónarmiðum og áróðri um Evrópusambandið ?

    Því miður hefur það sýnt sig að Íslendingar eru ekki frábærir þegar kemur að áfengi og neyslu þessu.
    Því miður kunnum við ekki að fara með áfengi, ennþá.
    Þá er rætt um að stjórna lífi sínu sjálfur. Allt í lagi. Þá verður til annað sjónarmið. Hvað með það að gera ekki neitt sem kann að hafa áhrif á aðra, þá bæði í andlegum skilningi og verkum.

    Nú er það svo að mig dauðlangar að fara í fyrsta sinn með 6 ára drenginnn minn á völlinn í kvöld. Ef áfengi væri selt á vellinum, ef einhverjir félagar á aldrinum 35 til 45 fara á völlinn, missa sig örlítið í drykkjunni, því að það má ekki „stjórna“ lífi annara og þessi félagahópur drekkur aðeins meira en einn eða tvo ?
    Það yrði þá kannski til þess að tveir í félagahópnum fara jafnvel að tala, rífast, slást á miðjum leik.
    Þá , jafnvel, kæmi upp sú staða að 6 ára drengurinn minn yrði smeykur, vildi ekki fara aftur.
    Er þá ekki búið að svipta hann e-u sem hann hafði ekkert um að segja.

    Allir á völlinn, glaðir/glöð í bragði.
    Áfram Ísland ( þó svo að við endum í Evrópusambandinu…;) )

  • Afhverju má ekki halda í þessa skaðlausu sérstöðu Íslands að vallarlgestir séu allsgáðir? Ég hef ekkert á móti áfengi og uni Englendingum og öðrum þess að geta keypt sér vín og bjór á vellinum, en þar er önnur menning en á Íslandi. Vona að aðstoðarþjálfari landsliðsins leggi frekar áherslu á gengi landsliðsins.

  • Tilgangurinn var nú ekki sá að hefja umræðu um ESB.

    Ég er sammála Merði og Samfylkingunni þar.

    En hvers vegna má aðeins bera ákveðna þætti saman við það sem viðgengst erlendis en ekki aðra?

    Sú öfgafulla haftastefna sem hér er í gangi veldur miklum skaða.

    Umræða um áfengi er í höndum öfgamanna.

    Hvers vegna megum við ekki vera eins og annað fólk í öðrum löndum?

    Hvers vegna þurfa hér að vera höft og stýring langt umfram það sem þekkist erlendis t.d. í ESB?

    Það er auðvitað spurningin.

  • Rósa:
    Einföld spurning til þín:
    Ef það er þitt mat að það sé „öfgafulla haftastefna“ að banna áfengi til almennrar sölu á knattspyrnuleikjum, hvað eigum að bíða eftir mörgun ólátum, slysum ( fólk undir áhrifum á það til að gera hluti sem það öllu jafna gerir ekki alsgátt), þangað til að við bönnum almenna áfengisneyslu á knattspyrnuvöllum, aftur ?
    Eitt óhapp, tvö , níutíu ?
    Hvar dregur þú mörkin ?

    Mín skoðun er sú að stemming á landsleikjum komi ekki af þvi að ég eða þú getum tekið einn kaldan á meðan leiknum stendur.
    Horfðu þá frekar á leikinn heima með kippuna með þér.
    Stemmningin saman stendur af því hvernig liðið á vellinum leikur og viðhorfi hvers og eins vallargests.

    Staðreyndin er sú að Íslendingar eru ekki barnanna bestir þegar kemur að áfengisneyslu.
    Ekki það að ég sé e-r sérstakur bindindsmaður, því fer fjarri en það er mín skoðun að þar sem börn ættu/vilja vera, á ekki að vera áfengisneysla.

  • „Hvers vegna megum við ekki vera eins og annað fólk í öðrum löndum?“

    Uhumm! Boltabullur, áflog og skrílslæti sem við heyrum reglulega fréttir af og eru hluti af „stemmingunni“ hjá afar mörgum sem vilja gjarnan fá sér bjór til að auka skemmtunina. Er þetta eitthvað sem fólk vill sjá á Íslandi?

    „þar sem börn ættu/vilja vera, á ekki að vera áfengisneysla.“ Algerlega sammála þessu.

  • SIGFÚS

    Hafir þú lesið það sem ég skrifaði sérðu að ég spyr þeirrar almennu spurningar hvers vegna höft og stýring á öllum sviðum sé nauðsynleg hér en ekki annars staðar.

    Með rökum þínum mætti réttlæta algjört bann við áfengissölu.

    Ég tel reyndar að þeir talibanar sem ráða áfengisstefnu á Íslandi ættu einfaldlega að berjast fyrir áfengisbanni – það væri mun hreinskilnari afstaða en þess stefna að hefta allt og hafa hér hæsta áfengisverð á vesturlöndum sem getur af sér glæpamennsku, smygl og eiturlyfjaneyslu.

    Lang best að koma bara hreint fram. Það gildir líka um ofstýringar- og öfgamenn.

    Mín spurning er því almenns eðlis. Hvers vegna megum við ekki vera eins og annað fólk?

    Þessu svara öfgamennirnir aldrei enda leiðir svarið í ljós öfga þeirra og fyrirlitningu í garð annarra.

    Sjálf hef ég engan áhuga á áfengi og ekki hvarflar að mér að fara á völlinn.

  • Það er fyrst og fremst kynslóð Marðar sem höndlar ekki frelsið þegar kemur að aðgöngu að áfengi. Enda ólst hún upp við hin og þessi bönn, sbr. bjórbannið sem margir flokksbræður Marðar vildu alls ekki afnema. Barnapíu- og vasapeningaþjóðfélagið er eitthvað sem vinstri menn vilja troða upp á fullorðið fólk við hvert tækifæri. Hrokinn í vinstri mönnum (og sumum Framsóknarmönnum sem heita Siv Friðleifsdóttir) er það mikill að þeir telja sig þurfa hafa vit fyrir okkur óvitunum.

  • Rósa:
    Leitt að sjá að þú treystir þér ekki að svara minni einföldu spurningu.
    Þú um það.
    Hitt er annað, að ég á þeirri skoðun, almennt, að áfengi og börn eigi ekki saman.
    Ef það flokkar mig sem Talíbana og öfgamann, þá verður svo að vera.
    Enda ef þú hefur haft tíma til að lesa mín innlegg í morgun, þá hlýtur þú að sjá að mín umræða/rök snúast um áfengi á knattspyrnuleikjum og einungis það.
    Ef við og þeir sem styðja það, vilja hafa áfengi á pöllunum, þá einfaldlega hindrum við á sama skapi aðgang barna á sömu leikjum.

    Ég hef ekki tíma í að rökræða við þig um almenn afnám hafta á áfengi og enn síður fíkniefnum, það er efni að töluverðir lengri pistil.
    Bendi bara á að það alveg tryggt að verði farið í að selja áfengi í frjálsri sölu, þá þýðir það bara hærra verð.
    Ég hef ekki áhuga á því.
    Með fíkniefnin, þá hef ég ekki heyrt eða sér skrifað frá einum eða neinum sem starfa/tengjast löggæslu styðja það, þannig á meðan verð ég á móti afnámi/lögleiðingu fíkniefna.

    Dude, veit ekki á hvað aldri þú ert en einu sinni var ég mjög ungur og vitgrannur og hélt að ég og mín kynslóð gætum höndlað frelsið til hins ýtrasta.
    Því miður, nokkrum árum síðar, sé ég að svo er ekki. Núna 17 árum eftir að ég hóf að neyta áfengis er sama bullið í gang og þó nokkuð verra þarna úti. Fíkniefnaneysla hefur bara aukist.
    Eins var farið út í mikið frelsi sem tengtust fjármálum og peningamálum á íslandi.
    Því miður hefur það „frelsi“ leitt til þess að ég horft upp vini mína missa atvinnu og eigið húsnæði vegna ólöglegra lána, rangra ráðgjafar frá „ábyrgum“ fjármálaráðgjöfum og svo mætti lengi telja.
    Því miður er það bara svo að það verða alltaf til einstaklingar sem munu mismuna frelsið á kostnað annara. Þá til að koma í veg fyrir frekari misnotkun verðum við sem samfélag, kjósi fólk að búa í slíku, að sætta sig við meiri aga í staðinn, í boði þeirra sem misfara með aukið frelsi.

  • SIGFÚS

    Hvernig lifa annarra þjóða börn það af að fara á völlinn og sjá fólk þar drekka bjór?

    Eru annarra þjóða foreldrar vondir og óhæfir foreldrar?

    Hvaða skaða verða börn fyrir á þeim fótboltaleikjum? Eru til einhverjar upplýsingar um það?

    Ég les í fréttum að áfengi sé veitt í svokölluðum VIP stúkum á fótboltavöllum á Íslandi.

    Hvernig eru Þær stúkur tilkomnar?

    Hver borgaði þær, kannski skattgreiðendur?

    Er þessi mismunun eðlileg? Hver ber ábyrgð á henni?

    Þarf ekki að banna áfengi í VIP stúkum?

  • Rósa.
    Þú hlýtur að gera þér grein fyrir að þar sem áfengi er veitt er ekki ætlast til að börn séu á sama stað.
    Annars væri margir barinir hér í borg með barnahorn í sínu húsnæði.
    Hefur þú séð mikið af því ?

    Veit ekki með foreldrar í Bretlandi en ég spyr mig hvort að við þurfum þá að gera eins.
    Mega þá ekki börnin njóta vafans í þessu tilviki ?
    Er ekki nóg samt af áfengi í umhverfi barna ?

    KSÍ rekur formlega VIP stúku þar sem gestum KSí og samstarfaðila þeirra er boðið í hálfleik. Veit ekki til þess að börnum sé heimill, sérstaklega, aðgangur en munurinn sá að neyslan fer ekki fram á pöllunum á meðan leik stendur, um það rætt en ekki hvað viðkomandi gerir fyrir leik eða eftir leik.
    Þetta er ekki gert í boði skattgreiðanda.
    Íþróttafélögin sjálf eru svo með stuðningsmannaklúbba, þar sem svipað fyrirkomulag er haft í hálfleik, að þeir sem greiða árgjald eiga kost á þvi að versla bjór af stuðingsmannaklúbbnum. Engin neysla fer fram á pöllum þar.

    Sammála þér því að KSÍ eigi ekki að hafa heimild til að veita áfengi í sama húsnæði og öðrum er bannað að neyta, versla áfengi.

  • Haftastefna Marðar og co í gegnum tíðina er ekkert nýtt,
    Vildu aldrei leyfa bjór, og formaðurinn þeirra mislukkaði vildi aldrei Flugstöð í Kef, er fólk búið að gleyma því ? áttum að vera í torfkofunum áfram, þannig halda kommarnir að þeir hafi stjórn á heimskum lýðnum……
    banna banna banna er tískuorðið hjá þeim, hafa vit fyrir heimskum
    almúganum, engin má neitt nema þeir sjálfir…..
    Þó að ég myndi aldrei treysta Merði Steingrími fyrir því að fá sér Öl á fótboltaleik, þá treysti ég fullkomnlega þjóðinni fyrir þeim sjálfsagða hlut.

  • Ólafur:
    Umræðan um Leonid Brezhnev og Regan hætti sko þegar þeir dóu báðir
    Austur- Vestur, Kommar og svona mismálefnaleg umræða er umræða ekki gærdagsins heldur síðustu viku….

    Koma svo…

  • SIGFÚS

    Eru ekki allar líkur á því að börn á fótboltaleikjum geti séð fólk neyta áfengis í VIP stúkum?

    Eru ekki allar líkur á að börn á fótboltaleikjum geti séð fólk undir áhrifum áfengis á leið út af vellinum eftir að hafa neytt þess í VIP stúku?

    Er þetta ekki stórhættulegt?

    Finnst þér eðlileg þessi mismunum og að íþróttafélög geti mismunað vallargestum með þessum hætti?

    Eða KSÍ? Er ekki Laugardalsvöllur byggður fyrir skattfé? Hvernig stendur þá á VIP stúkum með áfengisveitingum á þeim velli?

    Hver ber ábyrgð á þeim? Hver ákvað VIP stúkur með áfnegisveitingum á þjóðarleikvanginum?

    Er ekki sjálfsagt að banna alla neyslu áfengis á íþróttavöllum og þá líka í VIP stúkum?

    Er það ekki verðugt baráttumál fyrir ykkur sem teljið ykkur hæfa til að hugsa fyrir alla hina?

  • Rósa:
    Verum bara sammála um að vera ósammála um þetta atriði.
    Við erum greinilega ekki að tengja.

    Over & át.

  • Sigfús:
    Umræðan um boð og bönn heldur áfram, allveg sama þó að Bresnev og Regan séu dauðir, það eru fullt af fólki sem heldur uppi og lifir eftir hugsjónum þessara snillinga, ma fólk innan vg .

  • Takk fyrir innlegg. Enginn er vonandi að halda því fram að til sé einföld lausn á þessum brennivínsmálum, allavega ekki ég. Held samt að við eigum að fara afar varlega. Menn þekkja það bæði sjálfir, í fjölskyldu sinni og vinahóp — og reyndar í Íslandssögunni nokkuð margar aldir — að áfengi hefur valdið ómældum vanda, sama hvað okkur þykir gaman meðan þrúgna gullnu tárin glóa.

    Tek ekki til mín glósurnar um bannfýsn — en vil að meðmælendur vindrykkju á knattspyrnuvöllum fari yfir það í fullri alvöru hvernig staðan er í þessum málum í grannlöndunum. Ég veit að ekki er seldur bjór eða leyfð drykkja á breskum völlum, og í fréttum segir að þetta sé bannað á öllum leikjum sem Júfa og Fífa standa fyrir. Eru þessir bannglöðu vinstrimenn líka þar í forustu?

  • Það er rangt hjá þér að ekki sé seldur bjór á völlum í Englandi og einnig er seldur bjór á leikjum uefa og fifa fyrir leik í hálfleik og eftir leik.

  • Nú er ég ekki nógu gamall til að muna eftir því þegar bjórinn var leyfður en það gerir mér kannski kleift að hafa það rétt hvernig umræðan um það var — en ekki bara hvernig mig minnir að það hljóti að hafa verið, í samræmi við mína pólitísku fordóma.

    Staðreyndin er sú að margir Sjálfstæðismenn voru líka á móti því að bjórinn yrði leyfður og var andstaða við hann langt frá því einskorðaður við „komma“ — það er annars merkilegt, þegar haftaþjóðfélagið íslenska er rætt, að Sjálfstæðismenn eru aldrei taldir eiga þar neina sök, sem þó hafa stjórnað landinu nánast alla tíð.

  • Mörður þó, Júfa. UEFA er að því er ég best veit hvergi borið fram Júfa, nema hjá íslenskum boltabjánum sem halda að það sé enska.

  • Jón — Ja, fræddu okkur! Þessi sambönd heita bæði frönsku nafni og ensku, reyndar eru frönsku nöfnin frekar ófrönsk (Féderation internationale / Union européenne … de Football Association), líklega til að skammstöfunin sé eins á báðum málum. Hvað segja Bretar?

  • Í Bretlandi er hægt að kaupa bjór á leikjum en það má ekki fara með bjórinn í stúkuna. Þú mátt standa við barinn að drekka. Þannig er það með fótboltann. Ef það er rugby í gangi þá máttu drekka í stúkunni.

    Á meðan á leik stendur er börum í nágrenni vallarins lokað og einnig er óheimilt að versla bjór í verslunum í nágrenninu frá því hálftíma fyrir leik þar til klukkutíma eftir leik. Þetta er ekki að ástæðulausu.

    Ég hef horft á tugþúsunda stuðningsmanna frá hinum ýmsu liðum hertaka hverfið mitt heilu dagana. Ótrúlega margir mæta 7-8 tímum fyrir leik á barinn og hella sig stjörnubilaða og muna örugglega ekki mikið eftir leiknum. Ég hef séð 1000 slagsmál og ég hef aldrei orðið var við annað en að allir aðillar séu ölvaðir sem taka þátt í þeim. Oft með reiddann hnefann og haldandi í hendina á einum 7 ára gutta með hinni hendinni (börn mega fara og sjá fullorðið fólk drekka og syngja sóðasöngva um mótherjann. Bara sjálfsagt mál) Mörgum af þessum mönnum gæti náttúrulega ekki verið meira sama um fótbolta, í þeirra huga er þetta afsökun til þess að detta í það og slást (partur af menningu í UK sem þekkist ekki heima) Þetta er auðvitað minnihlutahópur en þar sem völlurinn „minn“ tekur 90.000 manns þá er litli hópurinn ansi fjölmennur. Þessar bullur kalla á gæslu sem telur mörg hundruð lögreglumenn á tugum bíla og tugum hesta, allt með tilheyrandi kostnaði. Ég er alveg 100% viss um að ef það væri bannað að vera ölvaður í stúkunni þá væri hægt að skera löggæslu niður um 50% á þessum viðburðum.

    Ég er mjög mótfallinn öllum boðum og bönnum á áfengisneyslu en ég sé hina hliðina mörgum sinnum á ári og hef skilning á því hvers vegna menn reyna að halda aftur af bjórnum á leikjum heima. Þetta einfaldlega kallar á meiri gæslu en lögreglan ræður við hugsa ég. Kannski má hækka miðaverð og borga lögreglunni fyrir að fylgjast með? Man einhver eftir veseni í stúkunum þar sem allsgáðir menn fóru að slást?

    Ég bý á Wembley, hef verið hér í meira en 2 ár. Ég hef hjálpað til á barnum mínum þegar það er mikið um að vera. Ég hef séð þetta allt. Ekki horfa til Bretlands í þessum málum. Þeir eru löngu búnir að missa tökin á þessu. Gerum frekar eins og einhverjir aðrir.

    ps. En ég get lofað því að ef það yrði seldur bjór á Íslandi þá yrðum við aldrei verri en þeir sem búa norðarlega á Bretlandi 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur