Miðvikudagur 15.08.2012 - 17:01 - 16 ummæli

Þrjár spurningar um plan B

Árni Páll átti kollgátuna spurður um Evrópusambands-sinueldinn í pólitíkinni: Þeir ættu ekki að henda plani A sem ekki hafa plan B.

Er hvenær sem er til í umræðu um kosti og galla ESB-aðildar, almennt og sérstaklega – þótt mér finnist eðlilegast að við hinkrum með djúp-umræðuna þangað til komin eru samningsdrög.

Á móti verða ESB-andstæðingar, Evróvafrar, biðstöðusinnar og viðræðuhlésáhugamenn að sýna okkur plan B – hvað eigi að gera þegar viðræðunum er hætt / frestað / látnar bíða.

Hér er eru þrjár spurningar um plan B:

1. Hvaða gjaldmiðill er við lýði í plani B? Ef króna – er það þá króna með gjaldeyrishöftum? Eða gjaldmiðill annars ríkis á forsendum þess ríkis?

2. Hvernig á að hætta gjaldeyrishöftunum?

3. Hvað á að gera við EES? (sjá m.a. ágætan pistil Andra Geirs hér).

Reyndar eru spurningarnar allar samtengdar. Ef ekki á að nota krónuna verður að ganga efnahagslega í Noreg, Kanada eða annað gjaldmiðilssvæði. Það verður ekki gert með gjaldeyrishöftum. Ef á að nota krónuna verður annaðhvort að halda gjaldeyrishöftunum eða losa um þau með gengisfalli sem mundi rústa lífskjörum og gæti startað öðru hruni. Ef við ætlum að halda gjaldeyrishöftunum kemur fyrr eða síðar að því að Íslandi verður óvært í EES-samstarfinu. Það er opinbert leyndarmál að við komumst pólitískt upp með gjaldeyrishöftin – þvert á mikla hagsmuni krónueigenda – af því við erum umsóknarríki.

Þegar svör fást við þessu – frá sosum einsog Bjarna Ben, Ögmundi og Sigmundi Davíð – og B-planið er komið, þá er fyrst hægt að fara að setjast niður og tala um samningshraða og þjóðaratkvæðagreiðslur.

 

 

Flokkar: Dægurmál

«
»

Ummæli (16)

  • Hans Haraldsson

    Þið Árni Páll eruð enn fastir í því hugarfarslega hjólfari að það verði til einhverskonar ókeypis galdrapeningar við að taka upp evru.

    Ef Ísland tæki upp evru með þeirri aðferð sem hefur hingað til tíðkast og saqmþykktir ESB mæla fyrir um þyrfti fyrst að leysa þau vandamál sem liggja að baki gjaldeyrishöftunum og aflétta þeim.

    Auðvitað er það fræðilegur möguleiki að ESB féllist á að „styðja við gengi krónunnar“ án þess að Íslendingar bæru kostnaðinn en í raun og veru myndi það ekki fela í sér annað en að þýskir skattgreiðendur færðu okkur nokkur hundruð milljarða að gjöf. Höfum við eitthvað tilefni til að vona að það sé stemming fyrir slíku örlæti þar suðurfrá?

    Þurfum við kannski að ljúka aðildarviðræum til að geta verið 100% viss um að Þjóðverjar ætli ekki að gefa öllum Íslendingum glænýjan Benz?

  • ESB er ein lausn sem búið er að ákveða að fara af stað með.
    En ég hef ekki heyrt um aðrar lausnir, þegar það verður hætt við ESB.. hvað svo..? hvað. Bara loka landinu og fara verka skreið og salfisk aftur ?
    Bjarna Ben sem forsetisráðherra og hvað.???

  • Mörður, nú höfum við krónu, við höfum gjaldeyrishöft og við erum í EES.

    Núverandi stjórnarmeirihluti sem Samfylkingin á hlut í hefur ekki svarað þeim spurningum sem þú setur hér fram.

    Það er alvarlegt mál og sýnir skammsýni að laga ekki hagstjórnina að þeim raunveruleika sem við lifum við í dag.

    Ríkisstjórnin og stjórnarþingmenn eru stöðugt að benda á erlenda aðila sem hrósa Íslandi fyrir efnahagsundrið! Undur sem byggist á gengisfellingu(þeas. sjálfstæðri mynt) og gjaldeyrishöftum! Þegar þið þingmenn Safmylkingarinnar segið endurreisnina byggjast á aðferðum sem bannaðar eru í ESB og mælið á sama tíma með því að ESB taki upp sömu þjóðernissinnuðu efnahagsstefnuna, þá eruð þið að draga úr stuðningi við ESB aðild.

    Eins og ég hef marg oft bent þér á þá eru lausnir t.d. við afnám hafta skammsýnar og búa til ný vandamál. Þar er einnig hvorki gætt jöfnuðar né réttlætis eins og dæmin sýna.

    Hvers vegna ætlið þið Samfylkingarþingmenn sífelt að veita auðmönnum undanþágur frá lögum og reglum og afhenda þeim milljarða króna á sama tíma og óbreyttur almenningur og smáfyrirtæki fá ekki sömu undanþágur og tækifæri?

    Það er ódýrt að kenna Sjálfstæðismönnum um! Heiðarlegt svar er byggt á föstum rökum en ekki stöðugum réttlætingum og afsökunum.

    Hvers konar jafnaðarmenn eruð þið?

    Samfylking þarf virkilega að skerpa á hugsjónum sínum og láta þær virkilega skýna í gegn fyrir kosningar.

    Ég vona að þið breytist eitthvað fyrir kosningar því Plan A virðist ekki vera í augsýn og það er ykkur að þakka að hluta.

  • Rétt hjá síðuhaldara.

    Þetta eru lykilspurningarnar.

    Einangrunarsinnar skulda þjóðinni skýr svö við þessum spurningum.

  • Kjarni málsins sem Mörður dregur hér fram!

    Hans og Lúðvík.
    Hver eru svör ykkar við spurningum Marðar?

  • Hans Haraldsson

    Einsi: Mörður heldur fram óraunhæfri galdralausn og fullyrðir svo að þeir sem eru í einhverju jarðasambandi hafi engar lausnir að bjóða ef þær virka ekki jafn vel í raunheimum og lausnin hans gerir í Draumalandinu.

    Í veruleikanum eru engar galdralausnir. Annað hvort tökum við skell eða vindum ofan af gjaldeyrishöftunum á löngum tíma. Myntbreyting eins og Lilja Mósedóttir hefur lagt til gæti hjálpað til þótt hún sé ekki Lausnin með stóru elli.

    Hvað síðan tekur við er erfiðara að segja til um enda lifum við á umbrotatímum. Ef við gefum okkur að umhverfið í peningamálum verði einhvern tímann svipað og fyrir hrun þá verður að reyna að reka agaðri peningastefnu, þess verður að gæta að falsa ekki kaupmátt með of háu gengi og ríkið og Seðlabankinn verða að vera samstíga – ekki fleiri skattalækkanir og ríkisstyrktar stórframkvæmdir á meðan Seðlabankinn er að hækka vexti vegna verðbólgu og meira common sense þegar kemur að stýrivaxtaákvörðunum.

    Flest af þessu væri reyndar a.m.k jafn nauðsynlegt með evru.

  • einsi, ég ætla í ESB og vona að stuðningsmenn aðildar fari að skerpa á stuðningi sínum fyrir næstu kosningar.

    Þangað til þá þurfa stjórnvöld að stjórna landinu í þeim raunveruleika sem við búum við í dag og það eru haftakróna og EES. Flestir eru því miður í afneitun og fastir í því að kenna öðrum um. Það er engin afsökun fyrir meirihluta Alþingis að segjast þurfa að vera vondir vegna þess að Sjálfstæðismenn voru vondir.

    Þegar rök þrýtur finna menn réttlætingar og það er of mikið um réttlætingar hjá stjórnvöldum í stað skotheldra raka. Þegar horfið er frá rökum og notaðar tilfinningalegar réttlætingar þá fer sífellt minna fyrir umburðarlyndi og náungakærleik. Þess vegna verða jafnaðarmenn að standa fast á sínu og nota rök til að kveða andstæðinga sína í kútinn.

    Þingmenn verða að hafa þor til að gera góða hluti vegna þess að þeir vilja og ætla sér að standa fyrir jöfnuði, réttlæti og velferð. Mörður hefur verið að fikra sig aðeins í þá átt en ég skora á hann að fara alla leið.

  • Góðar spurningar um tilvist okkar framtíð.

    Og maður kannast við þær allar.

    Það er svo skrýtið að við erum innan borðs en viljum vera utangarðs.

    Afhverju? Út hræðslu við „hagsmuni“ landbúnaðar og sjávarútvegs.

    Hagsmunasamtökin halda út þeim hræðsluáróði — og eyða miklum fjármunum í það apparat — en vita ekkert hvað samingur verður á borð búinn.

    Þau vilja hvorki heyra né sjá en tala samt fyrir apann sem ekkert vill illt segja.

  • Annað sem mér datt í hug.

    Þegar við vorum að gera EES saminginn þá vildu Íslendingar gera einhliða saming við Evrópusambandið.

    Man einhver eftir bókun sex?

    Íslendingar vildu alls ekki að settur yrði á 12% innflutingsskattur á síld eftir tiltekinn kvóta — sem ég man ekki alveg hver var í tonnum talið. Og þar við sat í langan tíma.

    Á þeim tíma var nork-íslenska síldin nánast horfin af Íslandsmiðum. Og er enn eftir rányrkju okkar ágætu útvegsmanna.

    Það þykir töff á Íslandi að fá allt fyrir ekkert.

    Að vera frekur og óbilgjarn er vísir á vinsældir og þingsæti

  • ESB verður aldrei nein galdralausn, en við erum á vegferð sem GETUR leitt til ásættanlegrar niðurstöðu. Það mun þjóðin greiða atkvæði um að loknum samningum.

    Að skifta um hest í miðri á hefur aldrei þótt til fyrirmyndar, en að hafa engan hest til vara og vilja samt hoppa út í iðuna, hljómar ekki viturlega.

    Hugleiðingar Andra Geirs um EES eru afar athygliverðar. Hvaða kosti og samningsstöðu höfum við, ef sá samningur kemur til endurskoðunar innan skamms?

  • Það þarf reyndar að bæta aðeins við spurningu 1 hér fyrir ofan, því þeir sem segjast vilja halda í krónuna verða líka að taka from hvort þeir vilja halda í verðtryggðu krónuna eða þá óverðtryggðu, eða báðar!

  • Á nú að fara að hlusta á aðra? Hingað til hefur Samf. aðeins haft eina lausn (sama lausn og Grikkir, Spánverjar, Írar o.fl.) Þið hafið lofað að afnema verðtryggingu. Hverjar eru efndirnar? Það er löngu búið að svara öllum þessum spurningum en svörin henta ykkur í Samf. ekki. Þið hafið Fréttablaðið til að heilaþvo þjóðina sem þakkar fyrir að fá ókeypis heilaþvott. Ástandið hér á fjölmiðlamarkaðinum er hörmung. Eitt blað með ráðandi stöðu, stöðugar árásir á Mbl sem reynir að sýna hlutina í öðru ljósi, það má ekki, það eru einhverjir ríkir sem eiga mbl og hafa fengið afskriftir. Öðru gildir um Fréttablaðið sem virðist í eign eins manns sem hefur aðeins fengið 30 milljarða afskrifaða.

  • Eina plan Samfylkingarinnar er þetta svokallaða A plan þeirra sem er að troða þjóðinni inn í ESB og taka upp Evru.
    Það vita allir, nema þeir sem eru í massívri afneitun og hafa lokað fyrir augu og eyru að þjóðin mun aldrei samþykkja ESB aðild.
    Þess vegna er það Samfylkingin sem þarf sérstaklega að undirbúa sig og hafa plan B. Þegar þjóðin á endanum og það fyrr en seinna hafnar með yfirgnæfandi mun þessu A plani þeirra.
    Engir aðrir flokkar eru með þetta svokallaða plan A, en þar eru samt sem áður margar ágætar hugmyndir í gangi um það hvernig þjóðin vinnur sig út úr vandanum, án ESB helsis og án Evru.

    Nú síðast í gær sagði utanríkisráðherra Finna sem er jafnaðarmaður í fullri alvöru að þeir yrðu að búa sig undir það að Evran splundrist í loft upp.

    Samfylkingin lokar augum og eyrum fyrir öllum válegum tíðindum og svona viðvörunum um geigvænlegt efnahagslegt og peningalegt kreppuástand ESB/EVRU svæðisins ástand sem stöðugt versnar og versnar og enginn sér fyrir endan á. Þeir í mesta lagi tala um þetta sem eitthvert léttvægt smá mál sem annaðhvort sé búið að leysa eða að leysist á allra næstu vikum.

    Angela Merkel segir að það þurfi að búa sig undir það að það muni taka EVRU svæðið mörg ár að vinna sig út úr vandanum, ef það þá tekst.

    Mörður hvar er plan B hjá Samfylkingunni ? Ætlið þið að standa með allt niður um ykkur hnípnir og spældir þegar þjóðin loks fær tækifæri að kolfella plan A ?

    Eða ætlið þið kannski að segja eins og Elítan í Brusssel gerir alltaf þegar kosningaúrslit eru þeim ekki að skapi að það þurfi bara að upplýsa fólk betur hvað sé „hið eina rétta“ og láta svo kjósa aftur af því að það hafi í raun ekkert verið að marka þessar kosningar ?

    Síðan er bara látið kjósa aftur og aftur þangað til „hin einu réttu“ kosningaúrslit fást og eftir það verður auðvitað aldrei neitt meira kosið um þetta mál !
    Best gæti ég trúað því, vegna þess hvað þið eruð forstokkaðir og óforskammaðir í þessu máli !

  • Við getum haldið krónunni, hætt í höftunum án mikils gengisfalls og verið í EES (ef við viljum).

    Það er plan B.

    Kosturinn við plan B er síðan náttúrulega að við ráðum okkar málum sjálf.

  • ….. Og engu svarar Mörðurinn – Ætli hann sé að ráðfæra sig við spjátrunginn og einn helsta ESB rétttrúnaðar páfa Samfylkingarinnar Árna Pál Árnason !

    Það kæmi svo sem ekki á óvart en ég ráðleg honum nú frekar að setja sig í hóp þeirra örfáu efasemdaarmanna sem taldir hafa verið til Samfylkingarinnar eins og Prófessor Stefán Ólafsson í HÍ sem leggur til að ESB aðildarviðræðurnar verði settr á ís !

  • Leifur Björnsson

    Gunnlaugur Ingvarsson það er hlutverk þeirra sem eru á móti plani A að koma fram með plan B ekki öfugt.
    Andstæðingar ESB umsóknarinnar eru ekki sammála um neitt annað en að tala illa um ESB og það leysir nákvæmlega engan vanda.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur