Laugardagur 25.08.2012 - 20:16 - 14 ummæli

Úlfur, úlfur í Hjaltadal

Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti í dag á Hólum í Hjaltadal að vara við framkomnum hugmyndum um að leggja sæstreng til rafmagnsflutninga milli Íslands og Skotlands. Því fylgir nefnilega „stórfelld rányrkja“ á íslenskum nátturauðlindum.

Af hverju að slá þessa hugmynd út af borðinu í ágústmánuði 2012? Meðan einmitt er að störfum starfshópur sem er að fara yfir öll álitamál sem tengjast þessum sæstreng – en þar á VG auðvitað  fulltrúa, sjálfa Álfheiði Ingadóttur!

Vissulega gæti fullkominn sæstrengur orðið til þess að enn meira kapp yrði lagt á hráa orkusölu til útlanda – þá væri hægt að selja beint ,,inn á kerfið“ í Evrópu án þess að þurfa að standa í flóknum samningum við bræðsluhringi um ennþá fleiri stóriðjuver. Sumir mundu svo bæta við að slík söluaðferð væri hreinn hráefnisútflutningur og skapaði þá engin störf á Íslandi með hinum frægu margfeldisáhrifum. Hugsanlega.

En sá sæstrengur sem nú er verið að ræða um er alls ekki þesskonar – allavega fyrstu áratugina — heldur fyrst og fremst ætlað að bera umframorku úr kerfinu, rafmagn sem nú er ekki hægt að selja með föstum samningum, orku sem ,til fellur’ að nóttu og að sumri. Líklegt er að með svona sæstreng mætti nýta jarðvarmavirkjanirnar betur – nú eru aðeins nýtt 15% þeirrar orku sem þar stendur til boða meðal annars vegna þess að sölusamningar gera ráð fyrir lágmarks-fastaafhendingu nótt og dag.

Rányrkja og rányrkja

Einmitt í þessari vannýttu umframorku felst ,,stórfelld rányrkja“ – sérstaklega ef látin væru eiga sig tækifæri til að koma henni í verð. Þar við bætist að væntanleg rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar frá vindmyllunum sem nú eru að rísa við Búrfell er talin passa þennan markað. Fullmikið kannski að segja að sæstrengurinn sé grænn – en ályktun VG að óhugsuðu máli að nýhöfnu nefndarstarfi Álfheiðar hljómar einsog paranoja. Eða enn einar innanflokks-innantökurnar.

Það er svo rétt hjá VG að raforku gegnum sæstreng á Evrópumarkað væri hægt að selja hærra verði en nú tíðkast á íslandi. Er það vont? Stóriðjan kaupir rúma tvo þriðju af rafmagnsframleiðlsunnin núna – en er Vinstrihreyfingin að gæta þeirra hagsmuna? Viljum við ekki einmitt skipta við orkukaupendur sem hafa efni á að borga vel? Verð til almennings og ,venjulegra’ fyrirtækja kann að hækka af ýmsum orsökum í framtíðinni, meðal annars vegna beinnar tengingar við Evrópumarkað, en þá verður að muna að sem betur fer getur almannavaldið haft fulla stjórn á afdrifum auðlindarentunnar og komið hagnaði af raforkusölu aftur til íslenskra neytenda. Mun sanngjarnar reyndar en nú tíkast.

Á leiðarenda

Sæstrengur breytir síðan engu um þá staðreynd að við erum að komast á leiðarenda við nýtingu hefðbundinna orkulinda. Stefán Arnórsson hefur sagt að þær hefðbundnun virkjanir sem kynnu að vera eftir hagkvæmar og án verulegra umhverfisspjalla nemi bara um það bil hálfri þriðju Kárahnjúkavirkjun, og það passar nokkurnveginn við niðurstöður rammaáætlunarhópsins.

Verkefnið núna er að vanda sig einsog hægt er við þau verkefni sem kunna að standa eftir, og ekki síst nýta einsog hægt er þá orku sem þegar er virkjuð, ekki síst til að koma í veg fyrir framhaldandi rányrkju í íslenskri náttúru.

Og hugsanlegt er að sæstrengur geti hjálpað til við þetta. Er nú ekki rétt, kæru félagar í Grænu framboði, að bíða að minnsta kosti eftir niðurstöðum Álfheiðar Ingadóttur og samnefndarmenna hennar um málið áður en kallað er á úlf, úlf norður í Hjaltadal?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Þetta er eftir öðru. Eitthvað voðalegt gæti leynst í þessum sæstreng – og því rétt að afsegja hann og vinda upp áður en menn ná að vinna vorverkin.

  • Góður og yfirvegaður pistill, Mörður.
    Nauðsynlegt að skoða þetta vandlega.
    Hinsvegar eru margar aðvörunabjöllur sem hringja, t.d. hækkun raforkuverðs til almennings. Hefurðu kynnt þér hvernig þau mál hafa þróast hjá frændum okkar í Noregi? Það er ekki tilhlökkunarefni ef þróunin verður svipuð hér. Þeir hafa fjármuni til niðurgreiðslu, en EES kemur í veg fyrir hana.
    .
    Annað sem þessi sæstrengshugmynd staðfestir, eru þær framfarir, tæknilegar og fjárhagslegar, sem orðið hafa í strenglögnum almennt. Þetta opnar nýja möguleika fyrir Landsnet til að leggja jarðstrengi á hárri spennu, líkt og þeir ætla að gera á Reykjanesi, sem er fagnaðarefni.
    Gefur þeim einnig færi á að setja hálendistenginguna í jarðstreng.

  • orkan og náttúruauðlindir Íslands eru okkar sérstaða og þannig aðgreinir Ísland sig frá samkeppnisþjóðum sínum og nær samkeppnisforskoti. Ef orkan fær greiða leið úr landi þá glatar Ísland því sem aðgreinir það frá öðrum þjóðum og samkeppnishæfni sem það hefur hingað til notið.

    Sæstrengur snýst ekki bara um orkusölu til stóriðju heldur líka orkusölu til annarra nota.

    Auðvitað er sjálfsagt að skoða alla möguleika en þá verður auðvitað að skoða í heildarsamhengi hlutanna enda mun orkusalan ekki bara hafa áhrif á niðurstöðu rekstrarreiknings Landsvirkjunnar heldur líka á alla aðra sem nota orku, hvort sem það eru fyrirtæki eða fjölskyldur.

  • Ágæti Mörður.

    Þið, já þið, berið pólitíska ábyrgð á þessu fólki.

    Álfheiður var í dag að opinbera þá skoðun sína að BANNA beri einkarekna heilbrigðisþjónustu.

    Hvarflar aldrei að þér að þú berir einhverja ábyrgð gagnvart fólkinu sem í þessu landi býr?

  • Ég er almennt ekki hrifinn af þeirri neikvæðni sem einkennir VG. En í þessu máli verð ég að vera sammála. Hafirðu fylgst með fantasíuáróðri Landsvirkjunar síðustu árin (og því hvaða fólk LV hefur ráðið í þau verk, nefnilega hrægammana í Gamma), þá er full ástæða til að gjalda varhug við öllum áformum LV um aukinn gróða.

  • Hugmyndin um sæstreng er í hagkvæmniathugun og þess vegna einkennilegt og heimskulegt að álykta gegn henni áður en niðurstöður liggja fyrir.
    Verð á rafmagni um slíkan streng verður að vera talsvert hærra vegna þess að dreifikostnaður yfir hafið er svo miklu meiri (sæstrengur er kostnaðarsöm fjárfesting). Af þessum sökum og einnig vegna takmarkaðrar flutningsgetu þarf sæstrengur alls ekki að raska samkeppnisstöðu innanlands.
    Eru villikettirnir að ná völdum í VG?

  • Hver verða áhrifin á raforkuverð til notenda hér heima? Stenst það EES að selja til Evropu á einu verði en innanlands á öðru ?
    Getum við lært af reynslu Norðmanna í þessum efnum ?

  • Jón Ingi

    Gott að bíða eftir niðurstöðum og meta mál út frá þeirri niðurstöðu.

    En skoðun mín er að þetta sé svipað og senda óunninn fisk til útlanda og fullvinna hann þar.
    Orkunna á að nota til að hún gefi sem mesta og besta framlegð og við verðum að muna það að við höfum þegar virkjað meira en helming þeirrar virkjanlegu orku sem til er hér á landi og hagkvæmasta hluta hennar.

    Við gætum orðið lens með orku innan nokkurra áratuga til áframhaldandi iðaðaruppbyggingar innanlands og þess vegna verður að horfa lengra en fram í næstu ár, þetta þarf að meta með áratugayfirsýn.
    Þess vegna verður að hafa hemil á skammtímagróðasjónarmiðum sem allt of oft hafa komið okkur í koll.

  • Ekki-sf Trúboði

    Hér staðfestir þú það Mörður að það eina sem heldur ríkisstjórnnini saman er esb – umsóknin

  • Garðar Garðarsson

    Ég er viss um að það er hagkvæmast fyrir landsmenn að nýta orkuna hér innanlands og búa þannig til fleiri störf, því orkan er ekki ótakmörkuð og kannski hægt að tvöfalda hana frá því sem nú er.

    Nær væri að nýta raforkuna hér heima til þess að gera okkur samkeppnisfærari með því að orkan væri eitthvað ódýrari hér á landi en í samkeppnislöndum okkar, og þannig munum við auka verðmæti orkunnar, fjölga störfum og stækka skattstofninn.

    Við þurfum að fá mun meira en tvöfalt verð fyrir orkuna ef dæmið á að ganga upp með sæstreng, þar sem sæstrengurinn kostar ca. það sama og orkuverið sem þarf að byggja fyrir hagkvæmann útflutning orkunnar, og orkuverið þarf að jafnast á við eina Kárahnjúkavirkjun og þessi orka er ekki til eins og stendur. Orkutapið um strenginn og til notenda er ca. 20%. Er ekki nær að nýta takmarkaða orku hér á landi og útvega störf og margfalda þennig tekjur okkar?

    það er viðurkennt nú af stjórnvöldum og Landsvirkjun að áliðnaðurinn er að borga of lágt verð fyrir orkuna og þess vegna náðist ekki samkomulag um álver við Húsavík, og nú virðast menn huga betur að því að það sé góður hagnaður af orkusölu í framtíðinni og flýta sér hægt í öllum samningum við orkukaupendur. Og ég held að Landsvirkjun sé að notfæra sér umræðuna um sæstreng eingöngu til þess að þrýsta verðinu upp í samningum án þess að ætla sér að fara út í framkvæmdir við lagningu sæstrengs.

    Að öllum líkindum færi orkan sem flutt yrði út til fyrirtækja sem eru í samkeppni við okkur, og við það erum við að flytja störf út í stað þess að búa sjálf til störf hér á landi og auka þannig arðsemi með því að fá aukna skatta hér á landi. Við höfum verið að fara frá þeirri stefnu að selja fáum stórum aðilum orku okkar á lágu verði og huga að fjölbreyttari orkukaupendum og starfsemi hér á landi sem er tilbúin að greiða hærra orkuverð en hingað til. Þetta eru orkukaupendur eins og kísilver, gagnaver og gróðurhúsarækt.

    Noregur er mun nær þeim markaði sem við erum að ræða um og kosnaður við sæstreng og síðan tengingu við Svíþjóð er mun lægri þar en sá kosnaður sem við þurfum að leggja í. Og þessi útflutningur Norðmanna á orku er aðallega toppar sem þeir geta ekki sjálfir nýtt.

    Höfum við það fjármagn sem þarf til að leggja þennan sæstreng sem áætlað er að kosti svipað og ein Kárahnjúkavirkjun kostaði? Og samkvæmt skýrslu Iðnaðarráðuneytisins þá þarf orkusalan um sæstreng að vera ca. 500MW svo dæmið gangi upp sem er svipað orkumagn og Kárahnjúkavirkjun framleiðir og hvaðan á að fá þá orku og það fé sem þarf til að byggja svo stórt orkuver? Þessi 500MW eru engvir toppar hjá okkur, því þetta yrði alltaf það stór hluti af okkar heildar orkuframleiðslu og allt annað dæmi en hjá Norðmönnum.

    Svo er ekki einu sinni víst hvort það takist að leggja þennan streng því það hefur aldrei verið lagður sæstrengur sem flytur svo mikla orku yfir svo langa og erfiða leið, því yrði þetta alltof áhættusöm tilraun fyrir okkur sem við eigum ekki að leggja út í, enda mun dæmið í heild aldrei ganga upp.

    Mörður þú bregst hér væntingum mínum til þín. Stefnuleysi og umræðufátækt um orkumál innan Samfylkingarinnar er ótrúleg. Engin heildarstefna hefur verið mynduð um hvort og í hversu miklu mæli eigi að einkavæða orkuverin eða þá hvort eigi að stefna að útflutningi um sæstreng. Allt er þetta dutlingum háð örfárra þingmanna og/eða einhvers ráðherra og aðstoðarmanna hans. Þessar ákvarðanir eru ekki teknar á lýðræðislegan hátt innan Samfylkingarinnar eftir málefnalegar umræður og t.d. útekt á því hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar og lærdómur dreginn þar af.

  • Hannes Sigmarsson

    Margt er skritid i maga Ingibjörgu. That sem forradamenn landsvirkunnar eru ad velta fyrir ser er ad tengjst markadnum sem er uppbodsmarkadur a rafmagni i Evropu. A theim markadi gilda thaer reglur ad riki og sveitarfelög mega ekki eiga orkufyrirtaekin. Ma vera ad Landsvirkjun se nu einkarekid i vissum skilingi og se thi gajaldgengt a thessum amrkadi. Ef svo er ekki verdur a d selja landsvirkjun.

    That mun hinsvegar leida til mikillar haekkunnar a rafmangi til okkar almennar a neytenda og islenskra fyrirtaekja. Efalaust mun thetta ekki leida til haeknunnar a rafmagni til ,,storydju“ thar sem samningar vid thau eru vaentanlega fastbundnir. Ef raforkuverd er haerra i *Evropu mun ekki verda leyfilegt ad bjoda okkur uppa laegra verd en samkeppnisadilar geta bodid okkur fra Evropu. Thar sem vid eru eyland i dag en med tenginunni yfir hafid haett ad vera eyland i theim skilningi ad vid erum ,,tengd“.

    ,,Nidurgreidasla\’\’ a rafmagni myndi thetta heita, eins og verdid til okkar er i dag. slik niurgreidsla er oleyfileg.

    Raforkuverd i Noregi og Svithjod haekkadi umtalsvert thegar their gerdust adilar ad sameiginlegum orkumarkadi Evropu.

    Norsk sveitarfelög urdu ad selja virkjanir synar thar sem tau mattu ekki eiga i fyrirtaekjunum.

    Held at thetta seu stadreyndir sem vid verdum at hafa til hlidsjonar.

  • Guðmundur Hörður Guðmundsson

    Sæll.

    Tvær fullyrðingar sem mér þætti vænt um að fá nánari útskýringu á.

    ,,Stóriðjan kaupir rúma tvo þriðju af rafmagnsframleiðlsunnin núna.“ Í skýrslu orkustefnunefndar kemur fram að árið 2009 hafi áliðnaður keypt 74% af raforku og járnblendið 5%. Þetta hlutfall hefur líklega hækkað með stækkun í Straumsvík. Hvaðan færðu þína tölu – 2/3?

    ,,Líklegt er að með svona sæstreng mætti nýta jarðvarmavirkjanirnar betur – nú eru aðeins nýtt 15% þeirrar orku sem þar stendur til boða meðal annars vegna þess að sölusamningar gera ráð fyrir lágmarks-fastaafhendingu nótt og dag.“ Ég hélt að léleg nýting jarðvarmavirkjana væri vegna þess að flestar framleiða eingöngu rafmagn en ekki vatn inn á hitaveitur. Nýting virkjana eins og á Nesjavöllum er miklu betri vegna þess að hún framleiðir heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið auk rafmagns. Það er að minnsta kosti minn skilningur. Það væri vel þegið að fá nánari skýringu á þessari túlkun þinni.

  • Hreggviður

    Þetta hjal um sæstreng og gróða honum tengdum er fullkomlega óraunhæft.
    Við eigum ekki svo mikið óvirkjað að það verði til skiptanna í framtíðinni. Ekki þarf nema tug góðra hugmynda sem yrðu að veruleika til að fullnýta þá orku sem í boði er.
    Sæstrengur yrði meira til að kaupa orku en að selja.
    Ég er hættur að skilja íslenska pólitíkusa og lukkuriddara úr íslensku atvinnulífi, engu líkara en að rökhugsun hafi verið útmáð í öllum þeim hausum, að hausarnir þar séu einungis til að halda eyrunum í sundur.

  • Hreggviður

    Annað. Sjávarfallavirkjanir hljóta að fara að ryðja sér til rúms, ekki bara hér heldur um allan heim.

    Við getum hugsað okkur dúk sem er með 40 tommu gati í miðju, sem settur er lóðrétt í hafið. Það yrði ólýsanlegur kraftur á vatninu sem þrýstist í gegnum þetta gat þegar sjávaarfalla nyti við. Það er nóg pláss á þessum dúk fyrir óteljandi 40 tommu göt, sem leiddu kraftinn til rafala.
    Ef slíkir dúkar og orkustöðvar væru hringinn í kringum landið yrði enginn dauður tími í orkuöflun, ein tæki við af annarri allt eftir sjávarföllum. Ef slík orkuöflun yrði að veruleika, þá getum við farið að tala um sæstreng og sölu á orku.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fimm? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur