Fimmtudagur 06.09.2012 - 18:16 - 10 ummæli

Í batafýlu

Forstjóri Toyota er í batafýlu, alveg einsog Morgunblaðið og formenn hrunflokkanna:

… telur batann í hagkerfinu ekkert hafa með verk ríkisstjórnarinnar að gera. Útflutningsgreinarnar haldi hagkerfinu gangandi og aðrir reyni að hoppa á vagninn.

Nú er ekki hægt að komast hjá því lengur að viðurkenna batann í hagkerfinu, enda eru allar vísbendingar á sama róli. En umfram allt má batinn ekki vera ríkisstjórninni að þakka.

Nú er batinn auðvitað ekki ,,að þakka“ ríkisstjórn eða stjórnarmeirihluta – við höfum öll þurft að færa fórnir til að bjarga skipinu af strandstað og koma því á siglingu. Eða mörg hver að minnsta kosti. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar og hagstjórnin hafa hinsvegar skapað aðstæðurnar fyrir batann. Sjá grein Jóns Steinarssonar í Fréttablaðinu í dag. Besta setningin þar:

Ég hvet lesendur til þess að reyna að hugsa þá hugsun til enda að Davíð væri enn seðlabankastjóri.

Úlfar Steindórsson forstjóri mundi líklega vilja hafa Davíð ennþá í Svörtuloftum. Hann telur í viðtali við Viðskiptablaðið að útflutningsgreinarnar, sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan, hafi sjálfar búið til batann – það hafi „ekkert með ríkisstjórnina að gera“. Nú? Er það þá alveg óháð gengi krónunnar og umbúnaði um þann skrýtna gjaldmiðil? Alveg óháð aðgerðum á vinnumarkaði? Hefur ekkert að gera með endurskipulagningu fyrirtækja með sérstökum ráðstöfunum í stað þess að una fjöldagjaldþrotum einsog sumstaðar annarstaðar? Óháð framlagi af skattfé til að auglýsa Íslandsmarkað fyrir erlendu ferðafólki?

Fyrir utan batafýlukastið segir Úlfar allt gott. Hann vill fá annan gjaldmiðil í landið, evru, og telur helsta vandamál Íslendinga vera agaleysi, bæði í ríkisfjármálum og fyritækjarekstri. Sammála. Hann telur að það sé ekki hlutverk stjórnmálamanna að skapa störf. „Ríkið á að skapa gott umhverfi og vera síðan ekki fyrir.“ Sammála – en þá er mikilvægt að þeir standi í stykkinu sem eiga að skapa störfin, þar á meðal hinir agalausu stjórnendur atvinnufyrirtækjanna. Og hann telur að rammaáætlun um vernd og orkunýtingu hefði átt að vera búið að afgreiða fyrir löngu. Líka sammála. En drætti á því máli verður ekki kennt um að ekki skapist störf einsog Úlfar gefur í skyn. Því miður, liggur mér við að segja, er það er ekki andstaða grænna stjórnmálamanna eða barátta náttúruverndarsinna sem mestan þátt á í því að stóriðjudraumarnir hafa ekki orðið að veruleika, heldur annarsvegar breyttir tímar í orkumálum/atvinnusköpun og hinsvegar lokaðir lánsfjármarkaðir og kreppa víðast um heiminn. Eitt af því góða við batann og árangur ríkisstjórnarinnar er einmitt að þetta er að gerast án þess að fram fari stórkarlavirkjanir með umhverfisspjöllum.

En svo eiga litlir kallar auðvitað að passa sig þegar Úlfar Steindórsson talar um hagstjórn og rekstur, ráðinn forstjóri bílainnflytjandans á vegum sjálfs Magnúsar Kristinssonar fyrrverandi útgerðarmanns. Þekkir agaleysið ekki bara af afspurn.

 

Flokkar: Dægurmál

«
»

Ummæli (10)

  • Haukur Kristinsson

    Úlfar Steindórsson er einn af þessum týpisku sjallabjálfum. Af hverju er verið að taka viðtal við svona menn?
    Við geturm rétt ímyndað okkur hvort minni afli, færri túristar, minni gjaldeyristekjur hefði ekki verið ríkisstjórninni að kenna.
    Þessir gaurar virðast ekkert hafa lært af hruninu, hakka í sama farinu. Ídíótar!

  • Versnandi lífskjör almennings , verðbólga , sífellt lækkandi laun, gerfihagvöxtur, sömu okurvextirnir, sama manndrápsverðtryggingin, viðhaldið af núverandi ríkisstjórn, sífellt hækkandi ólögleg gengistryggð lán innheimt af fullu undir vernd Ríkistjórnarinnar, áframhaldandi sjálftaka bankaelítunar og nú síðast undir forystu Guðbjarts Hannessonar til handa forstjóra spítalana….. er þetta allur batinn ?? ég þekki engan eða hef talað við sem vill kannast við einhvern bata !! enda eru að koma kosningar og þetta allt saman haugalygi fals og áróður hjá ykkur vesalingunum sem þráið ekkert annað en að ljúga ykkur að kjötkötlunum á ný !!!

  • Guðmundur Ólafsson

    Gott Ólafur – það sem ég vildi sagt hafa

  • Það er freistandi að uppnefna andstæðinga sína, sérstaklega ef manni finnst þeir eiga það skilið, en það skilar okkur ekki betri pólitískri umræðu, pólitísku andrúmslofti eða eykur virðingu Alþingis og stjórnmálamanna.

    Á meðan stjórnarandstaðan gæti verið í batafýlu þá gætu sumir stjórnarliðar verið með messíasarkomplex því þeir eru sífellt að hæla sér af kraftaverkum sem enginn annar hefði getað framkvæmt að eigin mati.

    Ég vona að síðustu mánuði fyrir kosningar að þá verði hægt að ræða málefnin án sífelldra uppnefninga.

  • Davíð Arnar

    Hvað er hrunflokkur?

  • Davíð Arnar – hrunflokkar eru þeir stjórnmálaflokkar nefndir sem orsökuðu Hrunið 2008 – Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur.

    Batafýla er ekki uppnefni – heldur lýsingarorð yfir hugarástand sem nú er að breyðast út hjá ákveðnum hópum samfélagsins.
    Gott nýtt orð sem spara langar og flóknar útskýringar !!

  • Skjöldur

    Hahahaha,
    það sem er að bjarga þjóðinni og þar með ykkur vinstri kjánum eru neyðalögin sem þið komuð til allrar lukku ekki nálægt

  • Haukur Kristinsson

    Við skulum gefa Agli Helgasyni orðið:

    „Eitt af því sem menn munu sjálfsagt deila um eru neyðarlögin og setning þeirra. Það er bent á að Vinstri græn hafi verið setið hjá þegar þau voru samþykkt. En það er ótrúlegt þegar menn láta eins og setning neyðarlaganna hafi verið stjórnviska – það var búið að sökkva landinu með skuldum og fáránlegri efnahagsstjórn – ríkið var svo gott sem stjórnlaust, Seðlabankinn tæknilega gjaldþrota, þeir leituðu logandi ljósi að fyrirgreiðslu en var alls staðar vísað á náðir Alþjóða gjaldreyrissjóðsins“.

  • Þorleifur H. Gunnarss.

    Ha, ha, ha, Mörður.

    Mikið drambsemi þetta hjá þér, Mörður.

    Mundu að dramb er falli næst og þú verða sá fyrsti til að falla út af þingi í næstu kosningu þannig að hlutskipti þitt verður þaðan í frá snautlegt.

  • Davíð Arnar

    Aftur að þessu með hrunflokkana, var ekki enn annar flokkur í stjórn þegar hrunið varð? Er hægt að sleppa honum þegar rætt er um hrunflokka? Eða er bara þægilegra að líta framhjá því?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur