Fimmtudagur 13.09.2012 - 10:01 - 6 ummæli

Repúblikanar, stefnuræða og sósíalismi

Hér er framlag yðar einlægs til umræðna um stefnuræðu forsætisráðherra í gær (mynd hér). Í drögum var þetta miklu lengra — svo sker maður úr gáfulega aukakafla og alla fyrirvara og seming, bætir inn molum sem detta inn í umræðunni sjálfri, og að lokum hrynja burt setningar í kapphlaupi við tímann: 5 mínútur. Þetta varð samt nokkuð gott, en í svona giggi vigtar flutningurinn alltaf sirka helming. — Eitt af því sem þarf svo að endilega gera er að breyta þessum eldhúsdögum haust og vor, laða fram meiri samræðu og skarpari skil þar sem þau eru fyrir hendi. Hugsanlega ættu bara flokksleiðtogar að tala á eftir stefnuræðu forsætisráðherra, og aðrir þá að fá andsvör — það yrði að minnsta kosti líflegra sjónvarpsefni. En næstur tekur til máls 11. þingmaður Reykjavíkur norður og talar af hálfu Samfylkingarinnar:

 

Forseti.

Leikur að tölum, leikur að orðum, sagði háttvirtur þingmaður Bjarni Benediktsson. Það er vissulega gott að leika sér en grundvöllur umræðu er að viðurkenna staðreyndir. Staðreyndirnar um stöðu efnahagsmála, um lífskjör þjóðarinnar, eru þær að núna erum við að ná okkur upp úr kreppunni. Allar vísbendingar eru í sömu áttina um þetta: Hagvöxtur, kaupmáttur launa, atvinnuþátttaka, skuldastaða og svo má lengi telja.

Staðreyndirnar tala. Staðreyndirnar segja okkur ekki að kreppan sé búin og að nú megi byrja upp á nýtt á næsta fylliríi, en þær segja okkur að það sé orðinn verulegur árangur við að endurreisa samfélag og hagkerfi eftir hrunið. Á alþjóðavettvangi er horft til Íslands sem fordæmis vegna þess að við, ríkisstjórnin og allir landsmenn, gerðum þetta í stórum dráttum eins vel og hægt er. Efnahagslífið komst aftur í gang án þess að niðurskurður, sem var nauðsynlegur, og kaupmáttarrýrnun bitnaði fyrst og fremst á lág- og meðaltekjufólki eins og víðast hvar í löndunum í kringum okkur. Með því að bjarga flestum alvörufyrirtækjum frá því að fara á hausinn tókst að koma böndum á atvinnuleysið. Þetta hefur gerst undir forustu jafnaðarmanna. Við höfum gert þetta á forsendum jöfnuðar, og við höfum varið velferðarþjónustuna sem var bæði sanngjarnt og skynsamlegt

Þetta vekur athygli sérfræðinga innlendis og erlendis. Við fáum fyrir þetta hrós frá erlendum forustumönnum. Nokkrir eru samt óánægðir, eru í fýlu yfir batanum. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins og framkvæmdastjóri SA eru í nýrri fýlu sem mætti kalla bata-fýlu. Það er sorglegt en við hin skulum virða þetta við þá og halda áfram.

Forseti.

Það er auðvitað algerlega eðlilegt að tala hér í kvöld um árangurinn við endurreisnina. Við jafnaðarmenn ætlum okkur að halda áfram á þessari braut í verkum vetrarins og í kosningunum að vori er eðlilegt að Íslendingar geti valið að byggja framtíðina næstu ár á þeim árangri sem nú hefur náðst. Jafnaðarmenn boða til nýrrar sóknar með áherslu á menntun og græna hagkerfið til að tryggja atvinnu og lífskjör í framtíðinni. Við viljum halda uppi jöfnuði með bættri þjónustu við fjölskyldurnar, taka fulla ábyrgð í umhverfis- og náttúruverndarmálum og hagnýta tækifærin sem þar liggja, stíga enn djarfari skref við að efla lýðræðið með beinni þátttöku borgaranna og vera með í samvinnu Evrópuþjóða.

Sem betur fer virðist staðan vera þannig að annar skýr kostur verður líka í boði. Hann býður fram flokkurinn sem ber ábyrgð á hruninu og hörmungum þess umfram öll önnur stjórnmálaöfl. Í Sjálfstæðisflokknum hafa menn setið og spekúlerað þessi fjögur ár, það er gott, og núna í sumar og haust er þar líka að koma í ljós svolítill árangur. Háttvirtir þingmenn Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson lýstu því yfir í sumar að nú væri fram undan mikil tiltekt í samfélaginu, leiftursókn, ný leiftursókn sem fælist í því að lækka skatta og skera miklu meira niður en ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefði tekist.

Næsti kafli var að Bjarni Benediktsson og háttvirtur þingmaður Ragnheiður Elín Árnadóttir fóru á flokksþing repúblikana í Bandaríkjunum í haust. Þriðji þátturinn er svo sérstakt málefnaþing á Akureyri hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna undir vígorðunum Sókn gegn sósíalisma. Eins og frægt er orðið á þar ekki bara að sækja gegn sósíalistunum Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni heldur líka á móti sósíalistanum François Hollande, forseta Frakklands, og sósíalistanum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna.

Flokkurinn stefnir á hugmyndafræðilega kosningabaráttu í vor, þar á að tefla repúblikanisma Sjálfstæðisflokksins fram gegn sósíalisma stjórnarflokkanna á Íslandi og gegn sósíalisma Baracks Obamas.

Það kemur svolítið á óvart að þetta séu lærdómar hrunsins í Valhöll, að gera Sjálfstæðisflokkinn að íslenskri teboðshreyfingu, en það er sjálfsagt líka að fagna þessu því að núna í vetur og vor þurfum við ekki bara að ræða um hin mikilvægu praktísku verkefni sem fram undan eru heldur líka hvaða samfélag við viljum.

Viljum við samfélag þar sem markaðurinn ræður lögum og lofum og frumskógarlögmálin skapa mönnum örlög, eins og nú boða Mitt Romney, Paul Ryan og Bjarni Benediktsson í baráttu sinni gegn sósíalistunum Jóhönnu Sigurðardóttur og Barack Obama?

Eða viljum við samfélag mótað af jafnaðarstefnu? – samfélag þar sem menn taka ábyrgð hver á öðrum, þar sem markaðurinn er góður þjónn en ekki húsbóndi, þar sem jafnrétti, frelsi og bræðralag eru æðstu boðorð eins og frönsku sósíalistarnir á 18. öld vildu, samfélag þar sem þjóðin á auðlindirnar, og þar sem menntun, heilsa og lágmarksafkoma er ekki byggð á náð og miskunn heldur á lögfestum rétti, samfélag „þar sem þú hugsar ekki bara um það sem landið þitt getur gert fyrir þig, heldur ekki síður um það sem þú getur gert fyrir landið þitt“ — eins og sagði í frægri ræðu fyrir rúmri hálfri öld sósíalistinn John F. Kennedy.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Ummæli (6)

  • Hlynur Þór Magnússon

    Ið besta var ræðan flutt og hæfði flutningurinn efninu.

  • Sigrún Guðmundsdóttir

    Já, það er ótrúlega fyndið að SUS skuli tengja íslenskan sósíalisma við amerískan Democrat sem er þó nær hugmyndum íslenska Sjálfstæðisflokksins!

    Kannski er það vegna þess að þið hafið viljað eigna ykkur þá á góðum stundum.

  • Ein af 5 bestu ræðum kvöldsins.

  • Ekki-sf Trúboði

    Þegar Samfylkingni var stonaður 2000 þá var hann stofnaður sem jafnaðrmannaflokkur – undir forystu Jóhönnu hefur hún fært flokkin til vinsri og virðist vera kominn í samkeppni við VG hvor er meiri sósíalflokkur.

    Það er fátt í dag sem tengir Samfylkinguna saman við Alþýðuflokinn.

    VG og SF reyndu að halda í rauða bandalagið í Kópavogi sem endaði ekki vel fyrir þessa vinstri flokka – það getur snúist í höndum á stjórnmálafokki að útiloka einn flokk.

  • Doktor Samúel Jónsson

    Hvað er samFylkingin?
    Byrokratísk sella gamalla Trotskíista, sem í sin alderdom liggja makindalega á spena á gyltunni, liggjandi í ríkisjötunni? Allt lint og lullulegt, liggjandi.

  • Páll Baldvin Baldvinsson

    Þokkaleg ræða, skárri en flestar sem voru yfirleitt til háborinnar skammar, andlaust stagl, gersneytt allri sýn. Flest af þessu liði ætti að finna sér aðra vinnu.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur