Föstudagur 14.09.2012 - 14:29 - 9 ummæli

Hvernig fiskveiðistjórnarfrumvarp?

Steingrímur J. Sigfússon íhugar nú hvernig nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp á að líta út.

Eftir þrjá haustfundi í karlanefndinni góðu er komin greinargerð (hér) þar sem fjórir af körlunum fimm gera grein fyrir því um hvað þeir eru sammála og um hvað ekki.

Og hafið er túlkunarstríð um framhaldið – Einar K. Guðfinnsson úr Sjálfstæðisflokknum segir að nú skipti mestu að í yfirlýsingu frá formönnum stjórnarflokkanna í vor

skuldbinda þau sig til að leggja frumvarpið fram með þeim breytingum, sem við yrðum ásáttir um.

Þetta er hæpin túlkun. Í yfirlýsingunni segir að greinargerð frá hópnum verði lögð til grundvallar frumvarpi – ef allir í hópnum yrðu sammála. Í greinargerðinni sést að karlarnir fjórir eru ekki sammála um allavega tvo veigamikla þætti – leigupottinn og kvótaþingið. Að auki hefur greinargerðin þau missmíði að hún kemur bara frá fjórum körlum af þeim fimm sem þarna völdust til fundarstarfa – Þór Saari var aldrei boðaður á fund af óljósum og óskýrðum ástæðum.

Mér finnst þetta alltsaman vond tíðindi. Mikill áfangi í sjávarútvegs- og auðlindamálum náðist í vor með veiðigjaldinu, en framhaldið er í óvissu. Þó er stefna Samfylkingarinnar og VG alveg skýr frá kosningunum vorið 2009, og stjórnarsáttmálinn er líka alveg á tæru.

Ég veit ekki hvað Steingrímur ætlar að gera – en hann er að minnsta kosti ekki bundinn af þessari greinargerð. Rétt að minna á það líka að þingflokkar standa ekki að baki henni – að minnsta kosti ber þingflokkur Samfylkingarinnar ekki ábyrgð á plagginu, þrátt fyrir að þar komi fram persónuleg viðhorf hins ágæta félaga okkar Kristjáns Möllers.

Sjálfur get ég á þessu stigi ekki annað en tekið undir orð Ólínu Þorvarðardóttur í bókun hennar á hasarfundinum í atvinnuveganefndinni í gær:

Aldrei getur heldur orðið sátt um 20 ára forgangsúthlutun 95% aflaheimilda til núverandi kvótahafa án þess að á móti tímabundnum nýtingarleyfum komi öflugur og vaxandi leigumarkaður, þar sem menn geta á jafnræðisgrundvelli gert tilboð í og leigt til sín aflaheimildir. Hugmyndir innan fjórmenningahópsins um að festa hluta 2 í hlutdeild og takmarka vaxtarmöguleika leigupottsins við 20 þúsund tonn – í stað þess að miða við það magn sem upphafsstöðu – eru óásættanlegar.

Óásættanlegt er að í uppsjávar- og úthafsveiðum deilistofna verði komið á samskonar gjafakvótakerfi og því sem viðgengist hefur í botnfiskveiðum, eins og tillögur hópsins gera ráð fyrir.

Verði þær breytingar á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu sem fjórmenningarnir hafa drepið á er ljóst að upphaflegt markmið með frumvarpinu — um jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðunar möguleika – yrði að engu. Væri þá verr af stað farið en heima setið með mál þetta í heild sinni.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Sjöfn Rafnsdóttir

    Sjálfskipaðir sjálftökumenn ?

    Hefur ekkert breyst? Trúi því ekki að þeir verði látnir komast upp með sömu gömlu hagsmunagæsluna!

  • Hreggviður

    Það breytast allir í lufsur þegar til kvótamálsins kemur, hvernig ætli standi á því?
    Svo virðist einnig að sjallar ráði ferðinni og hinir ýmsu flokkar mest uppteknir af að gera hosur sínar grænar fyrir þeim í von um að verða kippt með í næstu stjórn.

    Verður ekki forgangsmál hjá ykkur í SF að ýta núverandi formanni til hliðar, sérstaklega í ljósi þeirrar skoðunar sem hann hefur á samstarfi við sjalla eftir kosningar? Varla hugnast Árna Páli slíkar yfirlýsingar.

  • Þór Saari

    Það er rétt Mörður. Þetta er ekki greinargerð samin af hópnum semt talað var um í samkomulagi formanna flokkana frá í vor. Í því samkomulag var talað um að ákveðin trúnaðarmannahópur með einum frá hverjum þingflokki, alls fimm, héldi áfram að funda um málið. Sá hópur hefur hins vegar ekki hist síðan í júní. Þessa greinargerð skrifuðu fjórir sjálfskipaðir þingmenn sem misskilja hlutverk sitt sem þingmenn og skilja heldur ekki þingsköp og verklag á Alþingi. Þessu plaggi á því að henda í tunnuna.

  • Ég treysti því að þú, Valgerður og Ólína og sem flestir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar standi í ístaðinu og tryggið þær breytingar á fiskveðistjórnunarkerfinu sem Samfylkingin lofaði fyrir kosningar.

    Hefur ekki verið ólöglegt að veðsetja aflaheimildir? Ef svo hefur verið, hvers vegna er það liðið?

  • Halldór Guðmundsson

    Það er óumdeilt að kvótinn er sameign þjóðarinnar, því er það skýlaust brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, ef með löggjöf á að færa fáum útvöldum ófæddum börnum á Íslandi, erfðatéttinn að stórum hluta ófædds fisks á Íslandmiðum án gjaldtöku, og með frjálsu framsali til næstu 20-40 ára.

    Það á að fara fyrningarleyðina 5% á ári, og það fer á uppboðsmarkað, það á að gefa veiðar á makríl frjálsar, þar til kvótinn klárast, gegn t.d. 20% gjaldi við löndun, og skilja eitthvað eftir sem kemur með síldinni, seint á haustin.
    Sömuleiðis á að gefa allar veiðar á skötusel frjálsar.
    Srandveiðiflotinn fái 10 daga í mánuði allt árið sem þeir velji sjálfir, og fái að stunda frjálsar makrílveiðar allt sumarið, aðra daga, í net, línu, handfæri, og hringnót, eins og þetta er í Noregi. Í sumar voru allir fyrðir og flóar fullir af makríl, og örfáir bátar að veiða með króka.
    Get ekki séð að þetta frumvarp eins og það er fari nokkurntíman í gegnum þingið, óbreytt.

  • Við skulum bara vona að Steingrímur geri ekki neitt.Því að það er alveg sama hvað sá óheilinda maður gerir honum tekst alltaf að eyðileggja.

  • Jónas Bjarnason

    Sæll vertu Mörður og takk fyrir afstöðu þína, sem þú skrifar að ofan. – En hvað verður með Kristján Möller og Björn Val þegar að hugsanlegri afgreiðslu á þingi kemur? Styðja þeir ríkisstjórnina eða fara þeir eftir fjögurra karla plagginu? – Ef eitthvað slíkt á að koma til afgreiðslu á þingi, þá má segja, að það sé verra en ekki neitt.

  • Halldór Guðmundsson

    72. gr. stjórnarskrárinnar tekur skýrt á því sem skal gera við kvótann,“eign þjóðarinnar verður ekki látin af hendi nema fullt gjald komi fyrir“
    Kvótinn verði leigður til t.d. 40 ára, sem er endingartími nýs skips.

    Menn verða að fara að gera sér grein fyrir að stjórnarskráin, eru æðstu lög landsins, og ef menn vilja ekki fara eftir stjórnarskránni, þá endar þetta ekki nema á einn veg, að stofnaður verði sannleiks-og sáttadómstóll, og þeir ráðherrar og þingmenn, sem hafa brotið af sér samk. stjórnarskránni, verði sviftir eftirtilaunum að hluta eða að fullu leiti, eftir alvarleika brotsins.
    Sérstaklega þarf að skoða samþ. frjáls framsals á kvótanum 1990.

  • Jón Ólafs.

    Get tekið undir það, að það stefnir allt í að stofnaður verði Kviðdómur, til að taka á spillingunni, og menn verði að svara fyrir gjörðir sínar, með skerðingu á eftirlaun eftir alvarleika brotsins.
    Því trúi ég ekki öðru en allur makrílkvótinn fari á markað næsta vor.
    Því það er ekki hægt að réttlæta það að afhenda stóran hluta makrílkvótans þeim sömu, sem fengu stóranhluta kvótans gefins fyrir 20 árum, og hafa geta fénýtt hann án gjaldtöku í allan þennan tíma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur