Þriðjudagur 18.09.2012 - 10:54 - 5 ummæli

Evra eða haftakróna

Megintíðindin úr skýrslu Seðlabankans um gjaldeyriskosti (hér, 622 bls.) eru þau að þeir séu tveir. Annarvegar er það evran eftir inngöngu í Evrópusambandið, hinsvegar krónan með höftum.

Aðrar tillögur fá falleinkunn í skýrslunni, að taka einhliða upp dollara, norska krónu, svissneskan franka o.s.frv. – eða þá evru án aðildar, að halda krónunni með fastri tengingu við annan gjaldmiðil eða myntkörfu en sleppa höftunum, eða þá að semja við annað ríki um gjaldmiðil þess, einsog sumir hafa talað um með norsku krónuna. Það gæti reyndar haft ýmsa tæknilega kosti – en þá værum við í raun að ganga í Noreg eða hvað það ríki annað sem samið yrði við.

Evran merkir að íslenski gjaldmiðillin hefur fast gengi gagnvart flestum helstu viðskiptalöndum og sveiflast ekkert í líkingu við krónuna. Hún merkir stöðugleika í verðlagi og kaupmætti, lægri vexti, lægra vöruverð vegna minni viðskiptakostnaðar. Evruupptaka þýðir líka að við verðum að hafa önnur ráð við innlendum sveiflum en gengisfall, svo sem sterka jafnvægissjóði og aukinn aga í ríkisfjármálum og öðrum sviðum hagstjórnar.

Krónan getur aldrei orðið annað en haftakróna. Örsmátt gjaldeyrissvæði getur ekki til lengdar gert það tvennt í einu að láta gengið fljóta og leyfa frjálsa fjármagnsflutninga. Með því undirselja menn sig spákaupmönnum og setja hagkerfið – en fyrst og fremst fólkið sem við það býr – í stórhættu af harkalegum gengis- og verðlagssveiflum við minnstu hræringar í efnahagslífi hér og ytra.

Í stöðunni núna eru höftin nauðsynleg en jafnnauðsynlegt er að losna við höftin sem allra fyrst til að millilandaviðskipti geti gengið eðlilega. Málið er reyndar enn alvarlegra: Höftin eru í ósamræmi við fjórfrelsið og þar með samninginn um Efnahagssvæði Evrópu. Meðan við erum að ná okkur upp úr kreppunni hreyfa önnur ríki ekki athugasemdum, þótt hugsanlegt sé að einstaklingar sem eiga innilokaðar krónur geti reynt að sækja rétt sinn. Hér skiptir aðildarumsóknin líklega enn meira máli – með henni höfum við markað okkur stefnu í gjaldeyrismálunum út úr höftunum. Það róar hin ríkin í EES, og ekki síður krónueigendur sem vonast til að eignir þeirra verði smám saman að evrum.

Við komumst með krónuna í skjól af evru eftir aðild en hún verður ekki gjaldmiðill hér strax. Áður þurfum við að vinna heimavinnuna okkar – og fylgjast að sjálfsögðu með breytingunum á evrusvæðinu upp úr kreppunni þar. Þær breytingar virðast reyndar ætla að verða góðar fyrir okkar framtíðarhorfur.

Við þurfum hinsvegar sem allra fyrst að verða nokkurnveginn sammála um áfangastaðinn. Kostirnir sem einangraðir eru í skýrslu Seðlabankans – evra eða haftakróna – hjálpa til við það.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (5)

  • Ekki-sf Trúboði

    Sæll Mörður
    Það sem vg styður er að aðildarviðræðurnar verði kláraðar – en þeir hafa ítrekað sagt að flokkurinn telji að hagsmunum íslands sé best komið utan esb – þannig ef/þegar þessar aðildarviðræður klárast og saminngur liggur fyrir mun vg berjast fyrir því að samingurinn verði samþykktur – held ekki.
    Lilja R. þingkona vg sagði í silfrinu á sun að afstaða hennar gegn aðild hefði aukist ef eitthvað er.
    Evran verður aldrei tekin upp án þess að þjóðin hafi samþykkt saming í þjóðaratkvæðagreislu.
    Þú þekkir afstöðu Framsók og Sjálfst. flokks og er þvi ekki heppilegast að fá fram skýran vilja þjóðarinnar hvort aðildarviðrlum islands við esb verði haldið áfram.

    En ekki vil ég krónu í höftum en við verðum að ná fram einhverrri sátt varðandi aðildarviðrlur íslands við esb.

    Evran er vissulega góður valkostur en hún verður ekki tekin upp einhliða.

    Hvað ef esb – aðild verður hafnað í þjóðaratkvæðargrelslu – hvað vill sf – þá gera ?

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Hvaða mantra er þetta um afnám hafta? Við prófuðum að hafa allt frjálst og vitum fullvel hvernig það endaði. Hvergi meiri höft en í Kína og hagvöxtur þar er alveg þokkalegur, þakka þér fyrir.

    Ég læsi bæði húsinu mínu og bílnum og er í áhættu samt. Gilda einhver önnur lögmál um þjóðfélög?.

  • Sigvaldi Ásgeirsson

    Þetta er hárrétt hjá þér Þorsteinn Úlfar Björnsson. Þakka þér fyrir að benda á, að keisarinn er nakinn.

  • Ingi Gunnar Jóhannsson

    Mér finnst eitt stórt og mikilvægt atriði gleymast, nefnilega það að valið stendur ekki bara um að hafa Evru eða íslenska krónu.

    Valið stendur í reynd milli þess hvort fólk vill fá laun sín greidd í einum gjaldmiðli en borgi af lánum sínum í öðrum gjaldmiðli, eða að hvort tveggja, launatekjur og afborganir lána, séu í sama gjaldmiðli.

    Haftakrónan býður Íslendingum bara upp á óverðtryggð laun en verðtryggðar fjárskuldbindingar. Og líka gengisfellingar, þar sem fjármunir eru „fluttir til“ (falleg lýsing á þjófnaði) frá almenningi til sjávarútvegsins.

    Getur fólk ekki vaknað til vitundar um veruleikann? Er ekki nóg komið af „sjálfstæðum“ gjaldmiðli á Íslandi?

    Auk þess legg ég til að fólk flykkist á kjörstað þann 20. október !!!!

  • Bendi á að það er ekki hægt að komast úr haftakrónu yfir í Evru. Fyrst þurfum við að vera haftalaus í a.m.k. 2 ár án verulegs gengisfalls. Þar með þyrfti að greiða út alla snjóhengju þeirra fjármuna sem hægt verður að taka út úr landinu á þeim tíma í Evrum. Slíkt verður ekki gert nema með lánsfé sem mun taka allt okkar vinnuframlag svo áratugum skiptir að greiða niður.

    Þá er eftir að reikna með þeim gífurlega varasjóði sem þarf að vera til staðar þegar að ekki verður lengur hægt að beita gengisfellingum þegar á að takast á við aflabrest eða aðrar stórsveiflur sem lítil hagkerfi verða alltaf líklegri til að lenda í en þau stærri.

    Við þurfum að horfast í augu við að hvort sem við viljum halda í krónuna eða taka upp Evru að það þarf að taka á snjóhengjunni. Eina raunverulega lausnin á henni sem ég hef séð er tillagan sem Friðrik Jónsson hefur talað fyrir og kallað þýsku aðferðina. Þar er gjaldmiðlinum skipt á mismunandi gengi eftir upphafi og þannig komið í veg fyrir gífurlegt útflæði á fjármagni þegar höftum verður létt.
    http://fridrik.eyjan.is/2010/12/plasturinn-af.html

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur