Miðvikudagur 19.09.2012 - 17:51 - 10 ummæli

Lærdómar af Zoëga-málinu

Þeir Björn Zoëga og Guðbjartur Hannesson hafa nú gefist upp á launahækkuninni góðu fyrir aukastörf forstjórans við lækningar. Þá er að vona að Björn haldist í vinnu þrátt fyrir lélegu launin.

Getur kannski kennt okkur sitthvað. Annarsvegar að hafi menn markað sér stefnu þá á að standa við hana, jafnvel þótt hún sé fyrst og fremst táknræn einsog sú að enginn hafi hjá ríkinu hærri laun en forsætisráðherrann. Eða þá að breyta henni. Ekki reyna hjáleiðir.

Hinsvegar að það er óskynsamlegt – og reyndar alveg vonlaust til lengdar – fyrir opinbera vinnuveitendur að eltast við ofurlaun á almennum markaði, eða þá kostakjör í útlöndum. Launin geta aldrei orðið svo há hjá ríki og borg að þau standist slíka samkeppni. Ef menn vilja hærri laun en þar eru í boði verða þeir einfaldlega að drífa sig annað að sækja þau.

Launin geta aldrei orðið sá partur af opinberri stöðu sem laðar til sín gott fólk. Þar eiga að koma til aðrir þættir: Atvinnuöryggi, gott starfsumhverfi, liðlegheit í samtvinnun vinnudags og einkalífs, símenntunarmöguleikar, virðing fyrir starfsfólki, vissa um að farið sé eftir kjarasamningum, traust stéttarfélög, aðlögun að starfslokum og svo framvegis. Ég þori ekki að nefna lífeyrismálin, en í áratugi hafa þau einmitt verið sögð uppbót opinberra starfsmanna fyrir lægri laun en á almennum markaði. Ég þori heldur ekki að nefna að mönnum geti fundist ánægjulegra að vinna fyrir þjóðina sína en á einkamarkaði – en þó kunna ennþá að vera til einhverjir svo vitlausir (og sanngjarni stjórnmálamaðurinn bætir því við að á einkamarkaði séu líka margir að vinna óbeint fyrir þjóðina).

Held að þetta sé ekki raunverulegt vandamál – að það fáist oftast einhverjir sem eru næstum jafngóðir og Björn Zoëga, og geti jafnvel orðið betri en hann með svolítilli reynslu og hjálp. Á alþjóðamarkaði ef ekki finnast hæfileikamenn á Íslandi.

Raunverulega vandamálið á opinberum vinnumarkaði er það að almennir starfsmenn hafa ekki nægileg laun, einsog við höfum um fjölmörg dæmi síðustu vikur og opinberaðist ágætlega kringum Björns-Zoëga-málið. Það er ekki auðleystur vandi með ríkissjóð í stórskuldum eftir hrunið og skattheimtu við þolmörk. Eitt af verkefnum næsta kjörtímabils.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (10)

  • Þessari launahækkun átti að lauma þegjandi og hljóðalaust í gegn, Guðbjartur og samfylkingin gerðu í buxurnar í þessu máli, síðan er það efni í sér rannsókn hjá siðapostuladeild Háskólans hvernig standi á því að þið pólitíkusarnir klúðrið málum hvað eftir annað, Jóhanna/ Ögmundur meðtalin, og komið svo fram í kippum og lýsið yfir algeru sakleysi, eða slengið fram þessu kjaftæði að nú beri að læra af mistökunum ( spillingunni ).
    Það mætti gefa fleiri flokkum 4 ára frí en þeim sem Kjördæmapotarinn Steingrímur er að mæla með í sínum strigakjafts tón í pontu á hinu lága alþingi þessa dagana.

  • Sigurður K Pálsson

    „Þar eiga að koma til aðrir þættir: Atvinnuöryggi, gott starfsumhverfi, liðlegheit í samtvinnun vinnudags og einkalífs, símenntunarmöguleikar, virðing fyrir starfsfólki, vissa um að farið sé eftir kjarasamningum, traust stéttarfélög, aðlögun að starfslokum og svo framvegis.“

    Heldur þú virkilega Mörður að þessi gildi eigi ekki við á hinum almenna markaði. Ég vona allavega að atvinnuöryggi sé ekki svo mikið hjá ríkinu að lélegt starfsfólk haldi sinni vinnu.endalaust.

  • Merkilegt hvernig samfylking gerir Björn Zoega að geranda í þessu máli. Ábyrgðin er fyrst og síðast þess sem veitir launahækkunina. Það er Guðbjartur Hannesson. Með þvi að fleyta umræðunni í þessa átt hefur Guðbjartur og Samfylking algerlega sloppið sökina á þessu. í eðlilegu árferði hefði sá stjórnmálamaður sem hefði tekið þetta í mál þurft að segja af sér. Í hinu „nýja Íslandi“ þar sem allt er opið og gegnsætt gegnir öðru máli.

    það getur stundum borgað sig að vera kverúlant?

  • Elín Erla

    Mörður.

    Reisnin er löngu horfin en:

    Gerðu okkur öllum stóan greiða.

    Og sjálfum þér um leið.

    Hættu að tala við okkur eins og við séum fábjánar.

    Og hættu – umfram allt – að ljúga að sjálfum þér.

    Sé þig hinum megin – sem fyrst.

    Elin E

  • Gústaf Níelsson

    Vandinn við þennan sirkus er sá Mörður, að nú er trúlega búið að útiloka til langs tíma nokkrar kjarabætur til handa fólki í heilbrigðisgeiranum.

  • Bergsteinn

    6. sept. skrifaði ég þetta á „Fésið“ og var vissulega illur í skapi, en í dag sé ég enga ástæðu til að breyta neinu.

    „Ég get svarið fyrir það að í dag skammast ég mín fyrir að hafa kosið Samfylkinguna.
    Venjulega er ég ekki orðljótur maður en núna segi ég bara: „Farðu til helvítis, Guðbjartur“. Ég er ansi hræddur um að flokkurinn hafi misst marga kjósendur með þessum gjörningi. Það kemur ALLTAF maður í manns stað, það er enginn ómissandi og síst af öllu Guðbjartur Hannesson.
    Nú er liðin tíð að hægt sé að kenna Samfylkinguna við JÖFNUÐ.
    Ég held að Guðbjartur eigi að endurskoða gjörðir sínar og SEGJA AF SÉR RÁÐHERRADÓMI. Almenningur á Íslandi hlýtur að hafa rétt á að heimta afsögn manns sem NAUÐGAR kjósendum sínum svona.“

    Hvar eru þingmenn Samfylkingarinnar? Ekki trúi ég því að allir hafi samþykkt þennan gjörning. (Sennileg fæstir vitað af honum). Er bannað að gagnrýna athafnir einstaka ráðherra innan flokksins? Ekki trúi ég að nokkur flokksmaður ætli þessum manni meiri áhrif innan flokksins, síst eftir síðari ákvörðunina að fella burt hækkunina sem hann áður samþykkti!!!!!

  • Ásdís Jónsdóttir

    Góður pistill, en afsakar ekki dómgreindarskortinn, bæði hjá ráðherra og forstjóra. Þó að fyrri störf þeirra séu góð er hvorugur ómissandi. Samt finnst mér þó virðingarvert að draga þessa dómgreinarlausu ákvörðun til baka, það hefðu ekki allir haft manndóm í sér til að gera það.

  • Ríkisstjórnin lofaði kjósendum að enginn opinber starfsmaður skyldi hafa hærri laun en forsætisráðherra í aðdraganda þess að hin tæra vinstri stjórn tók hér öll völd. Svona loforð voru líklega ein helsta ástæða þess að almenningur var tilbúinn að lána öðrum hrunflokknum atkvæði sitt, þrátt fyrir skuggalega fortíð þess sama flokks, bæði í landsmálum og í stjórn helstu sveitarfélaga landsins.

    27. júlí sl. barst síðan tilkynning frá forsætisráðuneytinu, þar sem þessi regla skyldi numin úr gildi. Dagsetningin sjálf kom ekki á óvart, daginn eftir að tekjublað Frjálsar Verslunar kom út, sem sýndi svart á hvítu hvernig hundruðir opinberra starfsmanna voru með mun hærri laun en forsætisráðherra. Fjölmargir þeirra höfðu hækkað gríðarlega í launum á kjörtímabilinu.

    Mannafælan Jóhanna toppaði þetta rugl allt saman með því að setjast niður og semja í laumi um launakjör seðlabankastjóra Más Guðmundssonar á sama tíma og tveir valinkunnir rosknir hagfræðingar voru í grandaleysi að fara yfir umsókn hans og annnarra um seðlabankastjórastöðuna. Ekki þarf að spyrja að launakjörum, þau voru auðvitað miklu hærri en laun forsætisráðherra.

    Það er því kannski rétt sem Mörður segir, ef menn lofa kjósendum einhverjum málum í aðdraganda kosnina, þá eiga menn að standa við hana, menn markað sér stefnu þá á að standa við hana, jafnvel þótt hún sé fyrst og fremst táknræn. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur eiginlega ekki staðið við neitt af þeim loforðum sem voru gefin í aðdraganda kosninga, hvorki táknrænt né í veruleikanum.

  • Archibald

    Ég vil gera athugasemd við það að þú (og allir) kalli þetta launahækkun. Samkvæmt velferðarráðherra var þessi launagreiðsla til BZ hugsuð fyrir læknisstörf unnin með forstjórastarfinu. Það er skiljanlegt að maður vilji fá borgað fyrir þau störf sem maður vinnur. Ef almennur þingmaður tekur að sér formennsku í nefnd, fær hann þá ekki greitt aukalega fyrir það? Verður hann verri þingmaður? Er það launahækkun ef tekjurnar aukast?
    BZ er einn af þremur bæklunarlæknum á Landspítalanum sem gera að hryggbrotum og vandamálum í hrygg. Ef hann nú fer, þá er ekki víst að neinn „næstum jafn góður“ fáist í staðinn og ljóst að bísna erfitt yrði að krækja í einhvern af „alþjóðlegum markaði“. Ég lít því ekki á þetta sem launahækkun heldur tilraun til að borga laun fyrir unnin störf og til að halda í sérfræðikunnáttu. Þetta var hins vegar dæmt til að mistakast fof vegna ástandsins á spítalanum/þjóðfélaginu en líka vegna lélegra útskýringa þeirra félaga.

  • Brynjar Jóhannsson

    Því miður finnst mér margir hér vera í ruglinu. Skoðum aðeins hvaða upphæðir er hér verið að tala um. Nokkra hundrað þúsund kalla og ekki segja að það skipti ekki máli, því það skiptir víst máli. Hvað eru mörg ár síðan eitthver millistjórnendaplebbi í Kaupþingbanka komst í þá aðstöðu að „eignast“ hlutabréf í banka fyrir hátt í 2 milljarða – 2 milljarða. Eitthvað sem enginn kippti sér upp við fyrir nokkrum árum! Hvað höfum við oft og reglulega fengið fréttir af siðlausum fölsunum á reikningum hjá læknum sem eiga viðskipti við Tryggingastofnun Ríkisins. Þar var ekki verið að tala um hundrað þúsund kalla heldur stundum fleiri milljónir eða tugi milljóna. Móðursýkin og froðufellan í kringum svoleiðis glæpaskap náði ekki álíka hæðum og í kringum þessa umræddu launahækkun Björns Zoega. Hér er verið að gera tilraun til að halda í gríðarlega hæfann mann, en vissulega má greina um fínni útfærslu á því hvernig að þessu var staðið.

    En slakið aðeins á i guðanna bænum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur