Fimmtudagur 20.09.2012 - 17:25 - 2 ummæli

Spjallað við Styrmi

Yðar einlægur naut þess heiðurs að vera í hádeginu framsögumaður á fundi Heimssýnar um meint andlát umsóknarinnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hinn framsögumaðurinn var Styrmir Gunnarsson . Þetta var skemmtilegt, bæði að kynnast Heimssýnarfólkinu og rökræða við Styrmi – það hef ég reyndar gert oft áður yfir Morgunblaði fyrri tíma, en aldrei að honum sjálfum viðstöddum. 😉

Hérna er framsöguræðan nokkurnveginn, varð að sleppa nokkrum köflum þegar kom á fundinn, svosem makrílnum:

Þakka ykkur fyrir að fá mig hér á þennan fund, það er ánægjulegt, sérstaklega kannski vegna þess að spurningunni sem fundurinn á að fjalla um, ,,Er ESB-umsóknin dauð?“, var svarað ágætlega í skýrslu sem kom út fyrir nokkrum dögum um gjaldeyrismál frá Seðlabankanum. Úr henni les ég að umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu er ekki bara sprelllifandi heldur hefur aldrei verið meiri þörf á henni en nú.

Haftakróna eða evra

Í skýrslu Seðlabankans kemur fram að í gjaldeyrismálum eru til framtíðar bara tveir kostir. Við getum notað haftakrónu eða evru. Með því að hætta við umsóknina væri verið að fækka þessum tveimur kostum í aðeins einn: Haftakrónuna.

Það koma auðvitað vomur á ýmsa við þessa skýrslu. Hér hefur verið undanfarin misseri einskonar gestaþraut að búa til aðra valkosti en þessa tvo, og menn hafa nefnt, væntanlega í alvöru einhliða upptöku annars gjaldmiðils – Bandaríkjadollars, norskrar krónu, Kanadadollars – nú eða þá evru án þess að ganga í Evrópusambandið eða spyrja um leyfi. Tvíhliða samningar svokallaðir um nýjan gjaldmiðil eru líka afgreiddir burt, þar sem þeim fylgir miklu meira framsal fullveldis en þátttaka í samstarfi um evruna

Kostirnir eru tveir. Evrunni fylgir auðvitað áhætta. Við þurfum að fylgjast vel með tíðindum á næstunni, og Íslendingar eiga ekki að taka upp evru nema jafnframt sé samstaða innanlands um að aga hagstjórnina og gera þær ráðstafanir aðrar sem fastgengisstefna krefst. Kostirnir eru hinsvegar ljósir: Lægri vextir, verðbólga í skefjum, verðtrygging úti sem almenn regla, viðskiptakostnaður lækkar verulega og um leið verðlag, og þjóðartekjur ættu að hækka. Umfram allt gefur evran færi á stöðugleika í gengi og verðlagi, öfugt við krónuna sem sjálf veldur sveiflum í gengi og kaupmætti.

Haftakrónan – vissulega er hægt að búa við hana áfram, en þá með gjaldeyrinn í stöðugri gjörgæslu, sem seðlabankamenn kalla „stýrt flot“ og „varúðarreglur“ – það yrði stanslaust fjör við Arnarhólinn. Rétt að menn geri sér grein fyrir því að það koma aldrei aftur þeir tímar að krónan sé höfð á fljótandi gengi með frjálsum fjármagnsflutningar.

Haftakrónan krefst feikilegra fórna af þjóðinni. Án evrukostarins, án umsóknarinnar tæki það okkur mörg ár að létta núverandi gjaldeyrishöft, og 800 milljarða snjóhengjan vofir sífellt yfir. Í rauninni hafa ekki komið fram nein ráð til að leysa það mál – nema helst frá Samtökum atvinnulífsins sem vildu svipta burt höftunum í ein u vetfangi, með leiftursókn = mikil gengisfelling = verðhækkun og kaupmáttarrýrnun, sem átti svo bara að reddast.

Önnur leið út úr þessum bráðavanda okkar byggist á umsókninni. Með henni erum við með krónuna í ákveðnu skjóli. Vegna umsóknarinnar er þolinmæði hinna EES-ríkjanna í lagi, og vegna hennar er órói ekki meiri en raun ber vitni hjá eigendum aflandskrónanna, hverjir sem þeir nú eru, erlendir eða innlendir, vegna þess að þeir vonast til að krónurnar þeirra verði smámsaman að evrum.

Opið hagkerfi – lokað hagkerfi

Tveir kostir. Það er líka hægt að setja þá fram á annan hátt. Jafnvel þótt við öguðum hagstjórn og ynnum í okkar málum – mundi haftakrónunni fylgja lokað hagkerfi með meiri hagsveiflum, minni útflutningi og fjárfestingum, hærra verði og lakari lífskjörum. Evran er hinsvegar ávísun á opið hagkerfi með hindrunarlitlum millilandaviðkiptum, meiri útflutningi og fjárfestingum, minni sveiflum og betri lífskjörum.

Sumum kann að finnast skrýtið að heyra mig tala um frjálsa verslun og opið hagkerfi meðan Styrmir Gunnarsson þegir – en svona er þetta nú samt.

Að hætta við umsóknina, eða fresta henni um ótiltekinn tíma sem kemur út á eitt, merkir að útiloka fyrirfram annan þessara kosta. Því fylgir mikil ábyrgð.

Það er rétt að ríkin á evrusvæðinu eru í vanda. það er kreppa um allan heim, og birtingarmynd hennar í Evrópu er reiptogið milli evruríkjanna. Í raun er þessi kreppa þó ekki gjaldeyriskreppa, heldur – einsog Seðlabankinn segir – bankakreppa og ríkisskuldakreppa. Evran stendur jútakk ágætlega á gjaldeyrismörkuðum.

Björn vill evru

Við eigum að fylgjast vel með þróuninni í evruríkjunum hvort sem menn vilja inn eða ekki. Líkurnar og sagan segja manni að evruríkin hafi þetta af, með betra skipulagi og sameiginlegu FME-i, líklega líka einhverskonar ramma um ríkisfjármálin. Ekkert af því ætti reyndar að koma okkur illa, ef við viljum læra af reynslunni á annað borð.

Ég tek eftir því að eftir Seðlabankaskýrsluna vilja ekki allir efasemdarmenn um Evrópusambandsaðild skella dyrum á evruna. Í þeim hópi er sjálfur Björn Bjarnason, sem nú dreymir um að komast inn í evrusamstarfið bakdyramegin á svipaðan hátt og hann kom okur inn í Schengen. Ég hef ekki trú á þeirri leið, en þakka Birni fyrir að taka ekki eindregna afstöðu með haftakostinum.

Norðvesturbandalagið og Ólafur Ragnar

Þessi spurning um gjaldeyriskostina er víðtækari en svo að hún nái „bara“ til gjaldmiðilsins. Ein af niðurstöðunum í skýrslu Seðlabankans er sú að ef Íslendingar ætla að standa sig á evrópskum og alþjóðlegum mörkuðum, þá verður evran að vera framtíðarkosturinn. Ef hætt er við umsóknina er hætt við að Ísland einangrist og klippi á þau efnahagstengsl sem við þurfum á að halda í framtíðinni. Þeir sem þetta vilja hætta viðræðum verða þessvegna að stika út aðrar leiðir í utanríkisviðskiptum og í utanríkismálum yfirleitt. Styrmir Gunnarsson er nánast eini maðurinn sem hefur fitjað upp á þvílíku og bendir í nýlegri grein á „norðvesturbandalagið“ – vill snúa frá nánum samskiptum og samstöðu með Evrópuþjóðum, þar á meðal norræmu þjóðpunum en taka þess í stað upp einhverskonar endurnýjað bandalag við Bandaríkin að viðbættu Kanda. Þetta er viðhorf og má ræða – alveg einsog ábendingar bóndans á Bessastöðum um Kína, Indland og Rússland. Þeim sem ekki líst á að fara með Styrmi eða Ólafi Ragnari í slíkan leiðangur, þeir mega gjarna fara að gera sér grein fyrir hvað hér kann að vera í húfi.

Stjórnmálamenn og ýmsir „kraftar“

Er ESB-umsóknin dauð? – þeirri spurningu á að svara hér á þessum fundi. Í fundarkynningu eru nefndar skoðanakannanir, og talað um að fyrir umsókninni sé „lítill stuðningur á alþingi“. Utanþings séu heldur „engir kraftar sem orð er á gerandi“ sem tali fyrir umsókninni.

Þá er að svara:

Skoðanakannanir um aðildina sjálfa eru upp og niður, en í þeim öllum kemur fram öflugur stuðningur við að viðræðurnar haldi áfram, oftast meirihluti. Fólk vill sjá samninginn og ákveða svo hvað á að gera.

Í pólitíkinni er umsóknin vel á sig komin og heilsuhraust sprelllifandi. Þingið samþykkti að sækja um í júlí 2009 með meirihluta atkvæða, 33–28, að sækja um, fá samning og leggja hann síðan undir þjóðina. Þessi meirihluti er enn til, hvað sem menn mala og hjala. Hann jókst við atkvæðagreiðslu í vor um tillögu frá Vigdísi Hauksdóttur, sem hér situr einmitt, um að kjósa um málið án samnings. Það var fellt, 25–34.

Í stjórnmálaflokkunum er staðan mjög svipuð og eftir kosningar 2009. Samfylkingarmenn eru jákvæðir en vilja sjá samninginn fyrst, Framsókn er klofin, bæði þingliðið og félagarnir, Sjálfstæðisflokkurinn líka – Bjarni og Illugi tala nú þvert á það sem þeir sögðu fyrir kosningar, ekki alltaf með miklum sannfæringarkrafti, en í flokknum eru líka staðfastir og hugrakkir þingmenn sem styðja umsóknaferlið – Rannveig og Þorgerður Katrín. Allir vita að þau viðhorf eiga sér mikinn hljómgrunn víða í flokknum.

Það var fróðlegt að heyra greiningu Katrínar Jakobsdóttur á stöðunni í VG á Hólafundi þeirra um daginn. Hún sagði að innan flokksins væru þrjár deildir að þessu leyti. Þeir sem tækju eindregna afstöðu gegn aðild og umsókn, væri einsmálsmenn. Þeir sem efuðust um gagnsemi Evrópusambandsins fyrir Íslendinga en litu á þetta mál sem eitt af mörgum úrlausnarefnum í landstjórninni og stjórnarsamstarfinu. Að lokum þeir sem ekki hefðu gert upp hug sinn um mikilvægi málsins. –Allir vita að fylgismenn VG eru ýmissar skoðunar um ESB, og á tímabili svaraði meirihluti þeirra játandi í könnunum um inngöngu.

Ný stjórnmálaöfl eru svo á ýmsu reki í þessu efni. Björt framtíð vill klára viðræðurnar, Lilja er á móti, Dögun líklega á báðum áttum, Hægrigrænir með held ég.

Hagsmunablokkir í SI

Um þessa „enga kraftar sem orð er á gerandi“er það að segja að ég hef ekki orðið var við neina stefnubreytingu hjá hagsmunasamtökum, málefnahreyfingum eða áhugafélögum í þessu efni. Þau sem höfðu mótað sér stefnu halda sig við hana – þau sem ekki höfðu gert það fylgjast vel með og ætla að fara af stað þegar samningurinn er tilbúinn – og lýsa afstöðu til þeirra þátta hans sem helst snertir þeirra svið. Eini „krafturinn“ sem mér kemur til huga í þessu sambandi eru Samtök iðnaðarins, sem áður voru áhugasöm um aðild en hafa heldur látið undan síga uppá síðkastið. Ég held að þar sé ekki á ferðinni eiginlega stefnubreyting heldur miklu frekar að valdahlutföll einstakra hagsmunablokka innan samtakanna hafi hnikast til, sést meðal annars með mannaskiptum í forystunni.

Fyrst og fremst bíða menn almennt í samfélaginu eftir að viðræðunum ljúki. Þá er tími til að taka afstöðu, þá tekur pólitíkin við sér, og þá koma „kraftarnir“. Mér sýnist að hagsmunasamtök taki góðan þátt í undirbúningi viðræðnanna, LÍÚ ætlar til dæmis ekki að láta taka sig í bólinu ef af inngöngu verður, og jafnvel Bændasamtökin hafa upp á síðkastið hafa breytt um vinnulag í umsóknarferlinu.

Makríll milli vina

Það er líka nefndur makríll. Það er eðlilegt að fiskveiðidellur veki hita í Íslendingum en makrílmálið er þrátt fyrir sérkenni sín hefðbundin deila sem við höfum margoft staðið í áður, milli strandríkjanna við Norðursjó og Norður-Atlantshaf. Þetta eru Skotar og þó einkum Írar, sem Evrópusambandið semur fyrir hönd þeirra, og svo eru Færeyingar, og við, og Norðmenn. Rússar eru ekki langt undan og nú eru Grænlendingar komnir líka. Írskir útgerðarmenn og sjómenn reyna að hafa sem allra mest gagn af Evrópusambandinu, en þó eru Norðmenn líklega öflugasti andstæðingur okkar í þessari deilu. Þetta er ekki skemmtilegt. Það er grannakrytur sjaldan, en það er engin ástæða til að fara á límingunum. Makríllinn á ekki að spilla viðræðunum – nema menn vilji endilega láta makrílinn spilla viðræðunum.

Áfram eftir kosningar

Sjálf umsóknin er svo á ákaflega góðu lífi frá því menn byrjuðu fyrir hálfu öðru ári. Þingið hefur afgreitt 28 samningsafstöðuskjöl, af 32, og í árslok verður hugsanlega búið að semja um 15 kafla, eða fast að helmingi. Það sem helst stendur á er sjávarútvegskaflinn, og honum tengjast tveir aðrir kaflar vegna fjárfestingahindrana okkar. Fyrir nokkrum vikum lýsti Stefán Fühle, stækkunarstjóri ESB, því yfir að sjórinn verði opnaður fyrir jól. Ég er ekki sérlega bjartsýnn en þetta er ennþá möguleiki.

Líklegast er samt að viðræðunum ljúki ekki í heild fyrr en síðla árs 2013, jafnvel á árinu 2104. Áður verða hér alþingiskosningar og stjórnarmyndun. Í þeim slag verður auðvitað tekist á um ESB. Mín spá er þó sú að viðræðunum verði haldið áfram hvaða stjórn sem hér tekur við eftir kosningar, vegna þess að það eru hagsmunir Íslendinga, og ábyrgir stjórnmálamenn loka ekki neinum dyrum fyrr en allir kostir eru ljósir.

Svo lifandi er þessi umsókn.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur