Laugardagur 22.09.2012 - 22:03 - Rita ummæli

Síðasta bók höfundar

Ljóðabók eftir Jónas Þorbjarnarson kom út í vikunni, heitir Brot af staðeynd, og þarna fer þroskaður höfundur sem ekki hikar við að deila með okkur brotum frá ýmsum tímum ævi sinnar af verðskulduðu sjálfstrausti, fer með okkur út um heiminn talsverðan spöl öðru hvoru, í Alpafjöll meðal annars og einusinni alla leið til Gvatemala, en svo alltaf aftur heim í Eyjafjörð þar sem maður horfir með honum frá Hrísey í norður með mávagarg að baki, kynnist farartækjasmiðnum sem aldrei komst af stað frá Dagverðareyri, og svo fáum við KA-búninginn sjálfan í jólagjöf: ,,sólgula treyjuna, heiðríkjubuxur og -sokka“ – hefur ekki í annan tíma verið ort jafninnilega um fótboltaföt.

Ég keypti nýju bókina í dag, eiginlega á báðum áttum. Hef aldrei kynnst Jónasi nema sem höfundi af og til, og varð aðeins undrandi þegar birtist frá honum skyndilega netpóstur í vor þegar ég var á ferðalagi í Frans, hann þurfti að fá svör við brýnum spurningum um nákvæmni í texta, um eðlilegt samhengi sagntíða minnir mig það væri, hann væri að ganga frá bók og staddur fjarri hjálpargögnum, og ég svaraði eins og ég gat. Svo kom aftur daginn eftir önnur spurning, ég held um tilvísunarsetningu, með kankvísri afsökunarbeiðni af því það lægi á, og mér fannst einmitt að þetta hlyti líka að vera allra brýnasta verkefni mitt þá stundina. Þannig gekk þetta tæpa viku, fimm eða sex póstar, og vorum þó nær hvor öðrum en við vissum af. Svo var ég kominn heim og önnur tíðindi yfirgnæfðu daginn og minnið.

Þangað til allt í einu orðið kom í sumar um endalyktir hins nýja málvinar míns um tíðir og tilvísanir í ljóðrænni frásögn. Sviplegt er líklega rétta lýsingin á minni tilfinningu um þennan atburð og þau kynni við skáldið sem voru í þann veginn að takast og nú yrðu engin.

Og auðvitað verður lesandinn upptekinn af dauðanum í bókinni, því hann er mættur þarna ásamt vinkonum ljóðskáldsins, steinum í Alpahyl, Proust og KA-búningnum, þýska Gvatemalahippanum og Óla á Dagverðareyri. Dauðinn er að vísu fastagestur í ljóðabókum og kannski bara kringumstæðurnar sem gera hann ágengari við lesendur þessarar bókar en allajafna: ,,Og þó var mér að nokkru leyti ljóst orðið / að ég sjálfur / myndi einhverntíma enda …´´ — eða lambið á heiðinni og dauði þess sem lá ,,einkum í því að nærvera mín / skuli ekki vekja ótta …´´

Ég vona að það sé ekki bara að höfundurinn er allur sem veldur sterkum áhrifum þessarar bókar nú í haustbyrjun – og þykist vera nógu þroskaður sjálfur til að vita að þannig er það ekki hvað sem líður stuttum skilaboðum gegnum tölvupóst um nákvæmnisleg málfræðiatriði – en ég veit það auðvitað ekki, því að hvað sem öðru líður

er hugurinn alltaf óvarinn

 

sem ef til vill mætti líkja við það

að við þyrftum að lifa með iðrin úti.

 

Allavega:

 

þótt höfuð sé kannski betra en ekkert

á hugur manns í raun engan samastað.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur