Fimmtudagur 22.11.2012 - 21:20 - 8 ummæli

Formaður úti að aka

Hélt að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðísflokksins fylgdist þokkalega með – og að aðstoðarmenn hans og trúnaðarmenn flokksins héldu honum upplýstum um helstu drætti á þeim sviðum sem skipta mestu í þjóðlífinu, að minnsta kosti í atvinnu- og efnahagsmálum.

Í morgun kom í ljós að Bjarni, og kannski gjörvallur flokkurinn, hefur ekki heyrt af þátttöku Íslendinga í evrópsku samstarfi um losunarheimildir – þótt það hafi nú staðið í fjögur ár, og taki á þessu ári og næsta til mikilvægra atvinnugreina, flugsins og stóriðjunnar.

Bjarni grunar að markmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum verði ,,notuð“ til að ,,leggja stein í götu“ stóriðjuverkefna norðanlands og vill að forsætisráðherra viðurkenni á sig þetta lymskubragð.

Markmiðin í loftslagsmálum eru vissulega metnaðarfull og mikilvægt að við stöndum við þau – vill Bjarni það annars? – en þátttaka okkar í Evrópusamstarfinu gengur nákvæmlega út á að losun frá flugi og stóriðju eru ekki lengur á ,,ábyrgð“ Íslendinga nema sem Evrópumanna. Ný fyrirtæki á þessu sviði verða að afla sér Evrópuheimilda til losunar, sama hvar þau eru á samningssvæðínu, en losa ekki lengur á landskvóta, sama hvort það er kísilver á Húsavík eða stálfabrikka í Ruhr.

Ég er reyndar ekki alveg viss um að þessar afleiðingar losunarsamstarfsins séu fullkomlega heppilegar, af því hérmeð er ábyrgðin færð frá stjórnvöldum á staðnum, sem einhverstaðar annarstaðar en á Íslandi kynnu að hafa áhyggjur af losun gróðurhúsalofttegunda.

Staðreynd er þetta engu að síður, og hefur greinilega gerst meðan Bjarni var úti að aka. Líklega með Birgi Ármannssyni, fulltrúa flokksins í umhverfisnefnd þingsins. En svo er heldur ekki langt síðan íslenskir íhaldsmenn töldu flestir að loftslagsbreytingarnar væru lygi úr vinstrimönnum. Fyrir nokkrum misserum sagði Illugi Gunnarsson opinberlega að hér væru líklega á ferð óvenjulega tíð sólgos. Bara halda áfram að losa og bíða þangað til sólin hætti þessum afbrigðilegheitum.

Flokkar: Viðskipti og fjármál

«
»

Ummæli (8)

  • Haukur Kristinsson

    Ofvaxið skilningi mínum skrifar Jónas Kristjánsson:

    „Mér er fyrirmunað að skilja, að Sjálfstæðisflokkurinn fái meira en fjórðung atkvæða í vor. Nýir menn með nýja stefnu tóku völdin í landinu um og upp úr 1990. Þessir nýju menn framleiddu hrunið með sinni nýju stefnu og gæludýrum sínum, sem reyndust stjórnlaus. Hrunið var óhjákvæmileg niðurstaða af mönnum og stefnu flokksins, svo og gæludýrum hans í bankabransanum. Engin leið er að líta framhjá kjósendum flokksins á þessum tíma, þegar sökinni er skipt á dólgana. Hvernig fólk lætur sér svo detta í hug að kjósa sömu aumingjana fimm árum eftir hrun, er ofvaxið skilningi mínum. Eru kjósendur fáráðlingar?“

    En einnig mínum skilningi, sem er nokkuð góður.
    Kveðja, HK, Sviss.

  • Hvenær er svo von á frumvarpi um bann við eldgosum Mörður? Mér skilst að áhrif eins lítils eldgoss sé meiri en sem nemur öllum útblæstri sprengihreyfla hér á landi plús mengun frá stóriðjunni. Ég held að of miklar skuldbindingar séu ekki raunhæfar. Og alls ekki meðan stærstu áhrifavaldarnir Kína og Bandaríkin neita að taka þátt. Byrjum á heimavinnunni áður en við tökum á okkur syndir annarra er mitt motto. Tökum á útblæstri og votlendisáhrifum ásamt því að binda kolefni og tökum ekki þátt í braskinu með mengunarkvótann. Það er nægilegt markmið fyrir dvergríkið Ísland sem er stór sökudólgur í losun gróðurhúsalofttegunda af náttúrunnar völdum.

  • Mörður Árnason

    Þetta er ekki ,,brask með mengunarkvóta“, Jóhannes — þótt sumir byrji alltaf að svindla þegar reglur eru settar. Markmiðið er að það mengandinn bæti tjónið, og sé hvattur/barinn til minnka losunina vegna peninganna og ekki bara göfugmennskunnar. Veikleikinn er hinsvegar að Evrópusambandið og bandamenn þess, þar á meðal við, standa einir uppi við núverandi aðstæður, Bandaríkin ekki með né Japan né Kína o.s.frv. — Annars eru Íslendingar alls engir englar í losun, miðað við höfðatölu, jafnvel þótt stóriðjan sé undantekin. Þurfum að endurheimta nokkuð mikið votlendi til að vinna það upp …

  • Mörður.

    Þér virðist annt um umhverfismál. Hvers vegna heyrist ekkert í þér varðandi næsta nágreni ? Hvalfjörðurinn er ein mesta ruslakista ykkar samfylkingarmanna varðandi umhverfismál. Össur er búinn að sjá vandlega um að dæla sandi úr firðinum ( allt á hans vakt með orkustofnun ). Síðan eru þið búin að vera með verksmiðjurnar á ykkar vegum og þær spúa út eytri í jarðvegin beggja vegna fjarðarins.

    Hver er ferkasta hugmyndin varðandi ykkar aðkomu að umhverfismálum í næsra umhverfi ?

  • Gústaf Níelsson

    Þótt veðrið skáni aðeins er ástæðulaust að fara á taugum. Íslandssagan geymir hlýskeið og kuldaskeið og sömuleiðis saga margra annarra samfélaga. Búsvæði manna hafa breyst ýmist til hins verra eða hins betra vegna loftslagsbreytinga, sem við höfum sjálfsagt lítil áhrif á. Óþarft er því að móta einhverja sérstaka „pólitíska veðurfræði“, sem er auðvitað „lygi úr vinstrimönnum“. En stefnan hefur verið tekin: „Almennileg umhverfisstefna er jafnaðarstefna framtíðarinnar“. Þetta er mat Svavars Gestssonar, meints CIA njósnara, sem hann viðraði á fundi í Háskóla Íslands um nýútkomna bók hans Hreint út sagt. Það leikur vart á tveim tungum að hin „pólitíska veðurfræði“, er komin til að vera.

  • Hvar ætla hægri menn og afkomendur þeirra að búa í framtíðinni. Á Mars? Varla Venus? Nei ég spyr bara.

  • kristinn geir st. briem

    var að hlusta á mörð um rammaáætlun fanst hann málefnalegur er kanski ekki samála honum t.d. að setja í biðflokk það er altaf hægt að ransaka endalaus ef menn vilja þó það er sett í virkjunaflokk er ekki þar með sagt að það muni virkjað. svo það er hægt að líta á þettað á tvennan hátt.
    vonandi komast menn að góðri málamiðlun

  • Það er hressileg tilbreyting að sjá aðra formenn úti að aka en Jóhönnu og Steingrim. Eitthvað við svona útafakstur minnihlutann sem er í senn græskulaust og dálítið saklaust. Þessir formenn hafa jú ekkert vald til að ná nokkrum málum fram. Þingstyrkur Bjarna er t.d. 16 þingmenn mv. síðustu kosningar, en samanlagður þingstyrkur Jóhönnu og Steingríms er helmingi meiri eða 34 þingmenn.

    Það er þess vegar grafalvarlegt þegar formenn stjórnarflokkanna og lykilfólk í ríkisstjórninni er úti að aka í helstu hagsmunamálum þjóðarinnar s.s. Icesave, Skjaldborginni, fiskveiðistjórnarmálum, ESB málum, stjórnarskrármálum og í raun öllum öðrum málum sem dettur inn á borð alþingis. Alltaf virðast formenn stjórnarflokkanna snúa hlutunum á hvolf og fara í utanvegaakstur án nokkurra heimildar landsmanna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur