Laugardagur 17.11.2012 - 13:26 - 7 ummæli

Áfram – undir merkjum Jóhönnu

Síðasti pistill fyrir prófkjörslok — reyni að draga saman það sem skiptir máli — á síðustu mánuðum leiðtoga sem ég tel að eigi að verða okkur fordæmi í framtíðinni:  

 

Jóhanna Sigurðardóttir hættir stjórnmálastörfum við lok kjörtímabilsins. Ferill hennar er merkilegur og glæsilegur. Þegar frá líður held ég að menn staldri ekki síst við endurreisnina úr hruninu. Við það erfiða forystuverk hefur Jóhanna haft skýra sýn – sýn jafnaðarstefnunnar.

Strax var ljóst að velferðarþjónustunni yrði hlíft einsog hægt var við niðurskurði – öfugt við hörmungar í ýmsum löndum sem lentu í fjármagnskreppu um leið og Ísland. Til að verja þá sem verst voru staddir, en líka atvinnulífinu í hag. Velferðarþjónusta og gott menntakerfi er ekki lúxus sem menn geta því aðeins leyft sér að það veiðist vel og markaðir séu hagstæðir. Velferð og menntir eru lífsgæði – en líka forsenda þess að atvinnufyrirtækin njóti heilbrigðra og hæfra starfsmanna.

Það yrði að halda á floti sem flestum fyrirtækjum, til þess að tryggja samfellu í atvinnulífinu og forðast himinhrópandi atvinnuleysi –þar komu meðal annars ráð frá sænskum jafnaðarmönnum, og ekki síður frá Finnum sem á sínum tíma völdu vonda leið gjaldþrotahrinu og fjöldaatvinnuleysis. Atvinnuleysið varð yfir 50% í norðurhéruðum landsins með tilheyrandi eymd og drunga.

Jóhanna og hennar fólk lögðu líka áherslu á að hreinsa til í stjórnsýslunni og koma böndum á fjármálakerfið eftir átján ára græðgisvæðingu hægriaflanna. Undir forystu Jóhönnu gáfu stjórnmálamenn sérkjörnum fulltrúum þjóðarinnar svigrúm til að móta nýja stjórnarskrá, sem um daginn sigldi þöndum seglum gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu.

Verk að vinna

Það hefur ekki allt tekist. Þar ber meðal annars að nefna að þrátt fyrir að hér hafi verið gert meira en nokkurstaðar annarstaðar í okkar samtíma til að aðstoða fólk í skuldavanda er víða mikill vandi – einkum hjá lánsveðshópnum og öðrum sem tóku verðtryggð lán rétt fyrir hrun. Þar er verk að vinna.

Og víðar er verk að vinna – með jafnaðarstefnuna að leiðarljósi. Við þurfum að byggja upp velferðarþjónustuna að nýju – og virða þar meðal annars rétt fólks á „þriðja æviskeiðinu“

Raunar í húsnæðismálunum yfirhöfuð. Eftir sameiginlegt skipbrot okkar í húsnæðisskuldunum – þótt einstaklingarnir hafi sloppið misvel eru í öllum fjölskyldum dæmi um vanda, jafnvel neyð – er kominn tími til að líta upp úr séreignarþrákelkni og líta til annarra þjóða, svosem jafnaðarsamfélaganna á Norðurlöndum, eftir fyrirmyndum við að koma þaki yfir höfuð nýjum kynslóðum.

Margt bendir til þess að nú sé að ljúka stóriðjuöldinni í íslenskri atvinnusögu, rétt einsog skútuöldin rann sitt skeið. Lítið er orðið eftir af virkjanlegri vatnsorku og reynsla liðinna ára sýnir að á jarðvarmann er ekki að stóla. Sovésk einblíning á orkuöflun og stóriðju sem bjargráð er ekki vænleg til árangurs á 21. öld. Nú þarf að sinna öðrum greinum í undirstöðunni: Velrekinni og markvissri ferðaþjónustu, þekkingargreinunum, nýsköpun í iðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði. Græna hagkerfið er að koma – ef við kunnum að greiða því leið.

Til þess að ná árangri verðum við að temja okkur aga í hagstjórn, og við þurfum að losna við sífelldar sveiflur og óróa. Til þess þurfum við nána samvinnu við grannþjóðir okkar, sem við höfum umgengist í blíðu og stríðu í þúsund ár. Slíkt samstarf hentar vel stoltri og sjálfráða þjóð með góðan menningararf og langa sköpunarhefð. Evrópa endar hér, sagði Hannes Pétursson nokkurnveginn í góðu kvæði. Ég segi: Evrópa byrjar hér.

Evrópa, græn framtíð, betri velferðarþjónusta, almennileg húsnæðisstefna, stjórnfesta hjá ríki og sveitarfélögum, markaðurinn notaður sem þjónn en ekki hafður sem húsbóndi. Þessi eru nokkur erindi jafnaðarmanna á næstu árum – með fordæmi Jóhönnu Sigurðardóttur í farteskinu.

 

(Líka birt í Fréttablaðinu 16. nóvember)

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Ummæli (7)

  • Óðinn Þórisson

    Þjóðin þolir ekki 4 ár í viðbót með “ góðu “ verk vinstri – stjórnarinnar.

    „Ferill hennar er merkilegur og glæsilegur“
    Þú bara reitir af þér brandarana.

  • Mörður Árnason

    Þú þyrftir að fara að gefa út ,,Samlede verker“ Óðinn, jákvæður og indæll sem þú ert alltaf hér í athugasemdunum 😉

  • Það verður landhreinsun á að losna við hana og stendur til að fagna í miðbæ Reykjavíkur.

    Síðan þarf að losna við restina af ykkur.

  • Rifjum upp gott fólk:

    „allt uppá borðið“ og „gagnsæi á öllum sviðum“ !!!

    http://www.dv.is/frettir/2012/11/17/leyndarhjupur-um-ferdakostnad-thingmanna/

  • Eftir að hafa verið hafnaði í prófkjörinu þá er spurning að láta verða loks af því að fara bara í réttan flokk, öfga umhverfis og ríkisvaldagræðgisflokkinn VG.

  • Arnar Ívar Sigurbjörnsson

    Ferill Jóhönnu sem Félagsmálaráðherra er sá, að mestu tekjutenginar í almannatryggingakerfinu er að finna í hennar valdatíð. Var ekki fyrsta verk núverandi ríkissjórnar að skerða kjör eldriborgara og öryrkja? Ég man ekki betur en það hafi verið fyrsta þrekvirkið sem þessi ríkisstjórn vann. Svo er fólk að hæla sér af því að hafa staðið vörð um aldraða og öryrkja.

  • Í niðurstöðu prófkjörsins felast skýr skilaboð til þín: Rætinni pólitík þinni sem og persónulegri ófyrirleitni var algjörlega hafnað. Flokkurinn og almennir kjósendur vilja ekkert með þig hafa – því miður…

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur