Það var gaman á laugardaginn að ganga með Hjálmari Sveinssyni í um sjötíu manna hópi um hafnarsvæðið frá Arnarhól út að Sjávarklasanum á Grandagarði, gegnum menningarhöfnina, ferðahöfnina og fiskihöfnina – þarna er mikið að gerast og gríðarlegar breytingar frá því fyrir bara nokkrum árum þegar höfnin var að deyja, og sem betur fer hafa hugmyndir og áætlanir breyst verulega líka – Slippurinn á að vera áfram ef hann getur og vill hinumegin við Marínu og barinn, sjórinn verður sóttur úr Víkinni einsog alltaf í námunda við nýjan barnafans í Vesturbænum, og menningarstarf teygir sig yfir hafnarsvæðið frá heimslist í Hörpu vestur í verkstæðin á Grandagarði – og alveg út á enda í nýju Þúfuna.
Þróunin í gömlu höfninni sýnir kannski að Reykjavík sé loksins að verða stór – allavega virðist hún vera að taka ákvörðun um hvað hún ætlar að verða.
Það sést í nýja aðalskipulaginu: Yfirgefin er ameríska bílaborgin með pínulítilli háhýsamiðju og síðan hraðbrautum og flugvelli út í hundrað svefnbæi – og stefnan tekin á samfelluborg á evrópska vísu þar sem mörg smáþorp hverfast um sögulegan kjarna, gamalt og nýtt flæðir saman, atvinnustarfsemi tengd íbúðarbyggð einsog skynsamlegt er, náttúra og menningarminjar partur af lífsgæðum íbúanna, þjónusta, jafnræði og þjónusta lykilorð í mennta- og velferðarmálum.
Um þetta verður kosið í vor – og nú þegar eru upprisnir pólitíkusar sem vilja snúa þróuninni í gamla farið: Breiðari hraðbrautir, hærri háhýsi, umfangsmeiri miðborgarflugvöll, ríkt fólk í ríkum garðahverfum, fátækt fólk í blokkasamsteypum.
Umbætur og framfarir gerast ekki af sjálfu sér. Einn af höfundum og smiðum hinna nýju tíma sem ágætlega sjást í höfninni og aðalskipulaginu er einmitt sá Hjálmar Sveinsson sem gerðist leiðsögumaður okkar á laugardaginn – menningarmaður sem yfirgaf Útvarpið fyrir fjórum árum til að takast á við framtíðina í borginni, og hefur nýtt tækifæri sín á S-listanum út í æsar í góðu kompaníi við Besta.
Það væri stórslys að missa Hjálmar úr forystustörfum í Reykjavík – en út af prófkjörshavaríi er allt í einu hætta á þvílíku slysi, sem um leið slægi á aflið að baki breytingum einsog í höfninni og aðalskipulaginu. Þetta má ekki gerast. Þvert á móti eigum við núna að auka hlut Hjálmars Sveinssonar.
Þétting byggðar er tískuorð. Blæti nokkurra manna sem hafa þrástaglast á hugmyndinni um að Reykjavík verði stórborg með iðandi mannlífi upp á evrópskan máta — eins og þeir sem hafa haldið uppi þessum málflutningi þekkja frá sínum náms — og útlandsárum. Kannski er það gott og vel.
En hver í fjandanum getur fullvissað mann um að þessar byggingar verði fallegar og í takt við það sem fyrir er? Að þetta brambolt sem þú kallar þróun eyðileggi ekki ásýnd borgarinnar?
Hvað er Sjávarklasi? Altt í einu er allt orðið að klasa, klasi þetta eða klasi hitt. Maður er búinn að fá upp í kok af þessu ofnotaða orðskrípi.
Hins vegar er þétting byggðar af hinu góða, vegna þess að hún skapar skemmtilegra mannlíf og nýtir þann infrastrúktur sem fyrir er (hagkvæmt). Það er ágætt að hafa Amstersdam til fyrirmyndar þar sem mörg hundruð þúsund búa á svæði sem er aðeins partur af Reykjavík að stærð og þrátt fyrir það eru engin risa háhýsi, mest 4ra til 5 hæða fjölbýlishús.
Þetta snýst hvorki um iðandi mannlíf né háreistar eða lágreistar blokkir, þyrpingu eða sjávarkalsa.
Þetta snýst bara um það hvort þetta verði fallegt — með tíu upphrópunarmerkjum. Ekkert annað.
Þetta snýst sem sagt um það hvort Jónas frá Hriflu yrði ánægður með breytingarnar.
Og því spyr ég höfund greinarinnar: Verður þetta fallegt?
Fegurð í borg fer ekki síst eftir því hvort manni líður þar vel! Við erum ekki að tala um stórborg með brambolti heldur aðra stefnu í skipulagsmálum, með þéttingu sem getur dregið úr samgöngukröfum þannig að einkabíllinn sé kostur meðal kosta en ekki nauðung — og um miðbæjarlínur suður úr Kvosinni og inn úr Laugaveginum í staðinn fyrir Smáralindagervimiðbæi undir hraðbrautum.
Nýja aðalskipulagið í Reykjavík er eitthvert flottasta pólitíska verkefni lengi hér á landi, og ekki síst þessvegna legg ég að mönnum að tryggja einn af smiðum þess, Hjálmar Sveinsson, áfram í borgarstjórninni. 😉
Það líður engum vel í ljótri borg. Umhverfið eykur á daglega velíðan og nærir hamingjuna. Hún er langhlaup.