Sunnudagur 02.02.2014 - 11:16 - 3 ummæli

Þrjár góðar hugmyndir

Maður verður stundum einsog soldið syfjaður af öllu þessu verðtryggingartali – þar hafa svo margir sérfræðingar svo rétt fyrir sér. Samt tvennt snjallt sem upp úr því hefur komið síðustu vikur:

Lítil en verðtryggð launahækkun  

1. Annarsvegar sú hugmynd Stefáns Ólafssonar að verðtryggja kjarasamninga með litlum launahækkunum. Launamenn sætta sig (sumir að minnsta kosti !) við að launin hækki lítið eða ekki til þess að halda niðri verðlagi og eyðileggja ekki kaupmáttinn. Þessvegna er eðlilegt að þeir fái tryggingu fyrir því að launin lækki ekki að lokum – með því að verðtryggja þau á samningstímanum. Af hverju hefur ekki orðið meiri umræða um þessa tillögu? Einmitt núna þegar Gylfi og félagar eru komnir í vitleysu með sína tilraun til hefðbundinna þjóðarsáttasamninga, við ríkisstjórn sem ekki hefur traust?

Ef ráðamenn meina eitthvað með samstöðutalinu, og ef menn ætla sér að ná árangri gegn verðbólgunni, þá er þetta upplagt.

Annaðhvort belti eða axlabönd

2. Hinsvegar spyr Páll Bergþórsson á Fasbók af hverju við tökum ekki í horn á bola í staðinn fyrir að hlaupa á undan honum − látum verðtrygginguna eiga sig af löngum lánum en skerum niður vextina:

Þeir sem taka ný verðtryggð íbúðalán hljóta að eiga heimtingu á að vextir af þeim séu ekki hærri en 2% eða svo. Bankarnir fá samt höfuðstólinn að fullu greiddan á sannvirði og eins miklar vaxtatekjur í sinn hlut að raunvirði og tíðkast víða erlendis. Sérstaka meðferð þarf á þeim lánum sem lánþegar hafa þegar fengið og eru að greiða. Það er rökréttara og sennilega hagstæðara að fara þessa leið vaxtalækkunar en að afnema verðtrygginguna, því að í stað verðtryggingar mundi lánveitandi tryggja sig með háum og breytilegum vöxtum sem erfiðara er fyrir lánþega að verjast.

Úr því menn treysta sér til að banna ákveðin lánaform á frjálsum markaði – af hverju ekki að setja lög um vexti af tilteknum lánum – hinum verðtryggðu? Sem mundi líklega koma miklu betur út fyrir lántakann – og að lokum lánveitandann líka með betri skilum?

Evra, stöðugleiki, ESB

3. Þriðja hugmyndin er svo ekki sérlega frumleg: Hvernig væri að draga úr eyðileggingarmætti verðbólgu og hávaxta með því að stöðva dýrtíðina?  – svo sem með efnahagslegum stöðugleika sem fæst með skárri gjaldmiðli og traustum tengingum við það efnahags- og menningarsvæði sem við höfum verið partur af í um það bil hálfa tólftu öld?

Veskú: Þrjú stykki efnahagsaðgerðir, fyrir skammtíma, meðaltíma og langtíma.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Hef beðið eftir vitrænni umræðu um að dempa verðtrygginguna með endurskoðun vísitölu og vaxta. Aðilar mætist á miðri leið hið minnsta. Það voru ein stærstu vonbrigðin með síðustu ríkisstjórn að hún skyldi ekki hreyfa við málinu.
    Hvað varðar esb og evru er ég hættur að furða mig á, að eingöngu skuli vera rætt um kosti aðildar og evru en ekki gallana, en gallar krónunnar tíundaðir út í eitt.

  • kristinn geir st. briem

    leið 1. þetað var reint. man reindar ekki hverjar voru launahækkanir voru ofaná verðtryggínguna en vilhjálmur eigilssonn talað um að hann hafi verið að reika út verðbætur á laun á að mig minnir á 3. mánaða fresti sem endaði í vítahríng. sé ekki það góða við þessa hugmind.
    leið .2. er vel framhvæmanleg. en vandin er sá að það þarf að reka tvær stofnanir ibúðarlánasjóð og lífeyrisjóði ætli það taki ekki um 1-2.% til hvorrar stofnunar sem er um 2-4.% bara til að vera slettu þessir sjóðir hljóta gétað sameinað sig mest alt fé íbúðarlánasjóðs kemur frá lífeyrisjóðunum afhverju tekur lífeyrisjóðirnir ekki íbúðarlánasjóð yfir til að lækka kosnað
    leið.3. hún er ekkert sérlega frumleg og leisir eingan vanda .
    skil reindar ekki í afhverju íbúðarl´nsjóður er að géfa útt ný skuldabréf ef hann er fullur af peníngum ef það er rétt . það virðist vera vandamálið sé svokkallað eigiðfé. eru þá eignir sjóðsins of lágt metnar í bókum sjóðsins

  • Háir vextir skýrast aðallega vegna óvissu i efnahagslífi en hún skapast vegna átakastjórnmála. Of há verðbólga skýrist aðallega vegna verðtryggingar neytendalána. Á sínum tíma var verðtrygging neytendalána viðurkenning átakastjórnmálamanna að þeir ráða ekki við sín eigin átök.

    Það er að segja, átök stjórnmálamanna er grunnmein hárra vaxta og hárrar verðbólgu. Átök stjórnmálamanna leiða til átaka almennings.

    Tillaga 1: Mun ekki laga grunnmeinið, enn meiri verðtrygging innan kerfis mun leiða til enn hærri verðbólgu, við höfum reynslu af því. Að lokum leiðir slíkt til enn meira falls nafngengis, með áframhaldandi átökum.

    Tillaga 2: Að halda þvi fram að verðtrygging neytendalána eigi eitthvað skylt við frjálsan markað er alrangt. Frjáls markaður væru venjuleg óverðtryggð lan án allra vaxtabóta og hvað allar þessar bætur heita. Það er ekkert val fyrir neytandann að hafa of háa grunnvexti í gegnum lífeyriskerfið í samblandi við verðtryggingu sem veldur verðbólgu. Fjöldi aðila með fín laun kemst ekki í gegnum greiðslumat óverðtryggðra lána, því nafnvextir eru of háir, sem skýrast vegna of hárrar verðbólgu. Það er, verðtryggingin er vítahringur. Enn meiri flækjur eins og úr tillögu 2 leysir ekkert.

    Tillaga 3: Það er nauðsynlegt fyrir okkur að laga grunnmeinið áður en mögulegt er fyrir okkur að ganga í ESB og taka upp evru. Hagstjórn þeirra evruríkja sem féllu efnahagslega var svipuð léleg og hér. Það er, stöðugur gjaldmiðill tryggir ekki stöðuga hagstjórn. Tillaga þrjú mun því ekki laga grunnmeinið.

    Grunnmeinið er kerfið sjálft, það er auðséð. Verðtryggingin þarf að fara alfarið.

    Þá fyrst fara lánveitendur og ríkið að huga að því að halda uppi jákvæðum raunvöxtum með heilbrigðum hætti. Það er með þeim hætti að verðbólga haldist lág.

    Fyrr mun það ekki gerast.

    Allt annað er útúrsnúningur sem mun ekki laga eitt né neitt til lengri tíma.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur