Laugardagur 11.06.2016 - 13:11 - 8 ummæli

Múlattafræði

Hannes Hólmsteinn Gissurarson spurði á Fésbók:

Er það rétt, að í hinni upphaflegu orðabók Árna Böðvarssonar hafi orðið ekki verið? (Ég er ekki með hana hér.) Og að í endurútgáfu Marðar Árnasonar hafi orðið ekki verið með neinum sérstökum tilvísunum? (Án þess að ég telji það neitt aðalatriði.) Ég spyr.

Ekki nema sanngjart að svar fræðimannsins birtist líka utan ,,bókar“:

 

Já, það er rétt, Hannes, í 1. útgáfu Íslenskrar orðabókar (ÍO) frá 1963 er ekki þetta orð, múlatti. Ef til vill má þar greina áhrif frá Blöndalsbók, sem er einskonar móðurbók ÍO, en þar þótti ekki til siðs að sinna ,dönsku’ orðfæri. Orðið er hinsvegar að finna í 2. endurskoðaðri útgáfu ÍO frá 1982 og er skilgreiningin þá: „kynblendingur hvíts manns og svertingja.“

Um tilurð þessarar flettu veit ég ekki. Um það mál mætti ef til vill fræðast betur af vinnslugögnum eldri ÍO-útgáfnanna sem eru geymd á Þjóðskjalasafninu. ,Múlattinn’ kynni að hafa bæst við í viðamikilli yfirferð Ásgeirs Blöndals Magnússonar um orðaforða rit- og talmálssafns Orðabókar Háskólans, en Ásgeir starfaði við endurútgáfuna með Árna Böðvarssyni. Í orðsifjabók ÁBlM er skilgreiningin þó orðuð öðruvísi: „afkvæmi hvíts manns og blökkumanns.“

Þriðja útgáfa ÍO í ritstjórn minni og samstarfsmanna var ekki heildarendurskoðun hinna eldri heldur beindum við sjónum að sérstökum sviðum og þáttum (sjá um það inngang ÍO3, bls. vii‒ viii). Almennur nafnorðaforði var ekki þar á meðal, nema ýmislegar nýjungar og viðbætur, og við fórum því miður ekki sérstaklega yfir orðfæri á þessu sviði, um kynþætti o.þ.u.l., sem full ástæða er til að gera, þó ekki væri nema til að gefa stíl- og málsniðsupplýsingar. ‒ Nú er framundan, síðsumars eða í haust, svolítil vinna við ÍO á öðrum verksviðum, og alveg upplagt að nýta þá törn og taka til í þessu orðfæri (árangur af slíkri vinnu sést strax á Snöru).

Áður en yfirsýn fæst um orðfæri á þessu sviði er erfitt að segja til um hvaða meðferð múlattinn á skilið ‒ en miðað við málsniðsmerkingar í ÍO3 (sjá bls. xiii–xiv) sýnist mér helst eiga við að vekja athygli notandans á að orðið sé ,,gam.“ — ,,gamallegt mál eða gamaldags, þó ekki horfið úr nútímamáli“. Þegar orðið múlatti barst í málið, líklega um 1800 (fyrstu dæmi frá Magnúsi Stephensen!) virðist það ekki hafa niðrandi merkingu í sjálfu sér ‒ fyrir utan lífseiga andúð á „kynblendingum“ og fordómum í þeirra garð fyrr og síðar ‒ heldur sýnist vera tiltölulega tæknilegt heiti um þvílík ,fyrirbæri’, einsog að orði var komist um daginn. Á okkar tímum tíðkast hinsvegar að fara afar varlega í orðavali á einmitt þessu sviði, og því rétt að umsjónarmenn orðabóka og orðasafna gefi notendum fyllri upplýsingar en í boði eru í ÍO3.

 

Við þetta svar mætti svo bæta því að í téðri orðabók er að finna fjölmörg orð sem íslenskir málhafar vita að þeir nota ekki nema þau henti viðáttu og kringumstæðum — svosem orðin masgepill, ofrembingur og skítakarakter — en það ætlar fræðimaðurinn ekki að gera að sinni heldur er farinn að búa undir sig leiki dagsins á stórmóti Evrópusambands knattspyrnumanna.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Kristinn J

    Flott grein um eitt orð :! Maður er alltaf að læra eitthvað nýtt 😉

  • Hlynur Þór Magnússon

    Að mínum dómi (m.a. sem gamals íslenskukennara) verður spurningu ágæts Hannesar Hólmsteins varla svarað á skilmerkilegri og skemmtilegri hátt!

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    „…masgepill, ofrembingur og skítakarakter…“

    Tilvísun í fyrirspyrjanda? Ég spyr. 🙂

  • Hvað með orðið lakrísrör
    er það álika „ljótt“ að mati Samfylkingarmansins

  • Hörður Þormar

    Ef ég man rétt þá kom strokuþræll, af afrískum ættum, frá nýlendu Dana í Karíbahafi til Íslands á ofanverðri 18. öld.
    Hann settist að einhvers staðar á Austfjörðum og gerðist þar góður og gegn bóndi, að ég held. Munu margir mætir menn af honum komnir.

  • Ívar Arason

    Hvað skrifaði ekki Stefán Jónsson þegar hann nefndi blámanninn hvað hann nú hét Hans eða hvað?.

    Hinsvegr er líka til flökkusaga um blámann sem á að hafa komist lífs af úr strandi syðra, en það hafi verið honum skammgóður vermir þegar íslendingar sáu hann og fyrirkomu honum. 😉

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Grímur. Ráðlegg þér heilt að leita þér lækninga við Samfylkingarheilkenninu. Getur orðið króniskt ef þú leitar þér ekki læknishjálpar.

  • Oye como va mi ritmo, Bueno pa’ gonzar mulata. Carlos Santana.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur