Föstudagur 28.10.2011 - 11:15 - 20 ummæli

VG, ESB og svikabrigslin

Formaður Vinstrigrænna og þingmenn liggja undir ágjöf um að hafa brugðist kjósendum sínum og stefnuskrá vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Og auðvitað er það skrýtin staða fyrir kjósendur VG og flokksmenn að ríkisstjórn á þeirra vegum standi fyrir þessari umsókn, ekki síst þegar á þeim dynja dagleg svikabrigsl – frá Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum.

Nú er ég enginn ofuraðdáandi formanns VG og forystusveitar svona í heildina – en rétt skal vera rétt:

Uppúr kjörkössunum vorið 2009 komu tvennskonar úrslit. Annarsvegar meirihlutastuðningur við ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og VG (34/63). Hinsvegar meirihlutastuðningur við þá stefnu þriggja framboða að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samningsniðurstöðuna fyrir kjósendur. Þetta voru Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin (33/63).

Samfylkingin og VG hlýddu að sjálfsögðu kjósendum og mynduðu ríkisstjórn. Í þeim viðræðum setti Samfylkingin fram þá kröfu að niðurstaða kosninganna um ESB-umsókn yrði virt, og sett á stefnuskrá stjórnarflokkanna að sækja um aðild. VG féllst á þetta með því skilyrði að flokkurinn hefði fullt frelsi til að halda við sína afstöðu í málinu og leggjast gegn aðild að samningum loknum.*)

Þetta var þroskuð og ábyrg afstaða hjá flokknum. Hann hélt við sína meiningu en féllst á vilja meirihlutans. Og þetta var líka það eina skynsamlega í stöðunni.

Hvað annað? Fyrir okkur Samfylkingarmenn valt stjórnarmyndunin á þessu máli. Hefði VG látið stranda á aðildarumsókninni kom tvennt til greina: Að Samfylkingin hefði reynt að mynda stjórn um aðildarumsóknina með Framsókn og Borgarahreyfingunni einsog hún hét þá. Sem hefði verið ómöguleg og líklega ómyndanleg stjórn af mörgum ástæðum öðrum.

Eða þá að VG reyndi myndun stjórnar gegn ESB með Sjálfstæðisflokknum, sem reyndar var jafnklofinn þá og nú í málinu, og þriðja flokki, annaðhvort Framsókn (39/63) eða Borgarahreyfingunni (34/63). Báðir kostirnir út í hött fyrir VG – og algerlega fáránlegt framhald af hruni, búsáhaldabyltingu og kosningaúrslitum.

En kannski lögðu geislabaugsmenn þetta einmitt til á sínum tíma? Hvað sagði Atli?

VG tók rétta ákvörðun, stjórnin var mynduð og aðildarumsókn samþykkt á alþingi 16. júlí um sumarið með 33 atkvæðum gegn 28. Þá brá svo við að sex af níu Framsóknarmönnum voru hlaupnir í andstöðu við málið sem þeir studdu fyrir kosningar, og þrír af fjórum Hreyfingarþingmönnum. Sá hringlandi var hinsvegar ekki VG að kenna – og ef einhverstaðar er viðeigandi að tala um brigð við kosningafyrirheit, þá er það í námunda við þetta fólk.

Hvað menn athugi vel á Akureyri um helgina.

*   ESB-kaflinn úr samstarfsyfirlýsingunni 10. maí 2009:

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í  þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á  Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma. 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 27.10.2011 - 12:29 - 11 ummæli

Griðasvæði á Faxaflóa

Hvalaskoðunarmenn hafa nú lagt til að Faxaflói verði friðaður fyrir hvalveiðum.

Menn geta deilt um það alveg þangað til við göngum í Evrópusambandið hvort þjóð sem fær peninga af að sýna hvali á líka að tapa peningum af að drepa þá. (Því hvar er gróði Kristjáns Loftssonar? Og hvar er hagur landsbyggðarinnar af hrefnuveiðunum frá Hafnarfirði og Kópavogi?) Hitt er alveg augljóst að þetta gera menn ekki á sama stað.

Hitti á landsfundinum um helgina hvalskoðunarskipstjóra frá Húsavík – hann sagði að hvalaskoðunin hefði breyst verulega síðan hrefnuveiðarnar hófust aftur. Hrefnurnar væru miklu færri og styggari og „kunningjarnir“ frá í gamla daga horfnir, líklega skotnir af því dýrin voru orðin óhrædd við báta og menn. Sem betur fer nóg af öðrum hval – og svo fórum við að tala um steypireyðina og lauk með boði um borð næsta sumar.

Í ályktun frá aðalfundi Hvalaskoðunarsamtaka Íslands segir að um 70 þúsund ferðamenn fari í hvalaskoðun á Faxaflóa á þessu ári, og um 60 þúsund fyrir norðan þar sem þeir vilja annað griðasvæði.

Rétt að minna á að það var ekki stóriðjan sem bjargaði því sem bjargað varð eftir hrunið – hvað þá hinir blautu Japansdraumar Kristjáns Loftssonar, Einars K. Guðfinnssonar og Jóns  Gunnarssonar – heldur ferðaþjónustan. Erlendir ferðamenn sem hrífast af íslenskri náttúru hafa verið okkur helstir bjargvættir, og vaxtarbroddurinn í þessum atvinnuvegi hefur einmitt verið hvalaskoðunin, allra helst frá Reykjavík og Húsavík.

Nú verður fróðlegt að sjá viðbrögðin. Hér er álit 11. þingmanns Reykjavíkur norður:

Eindreginn stuðningur.

Ályktunin:

Aðalfundur Hvalaskoðunarsamtaka Íslands hvetur sjávarútvegsráðherra til að stækka griðarsvæði hvala á Faxaflóa þannig að það markist af línu sem dregin verði frá Eldey að Öndverðarnesi.

Vegna hrefnuveiða sem stundaðar hafa verið á síðustu árum á Faxaflóa telja samtökin einsýnt að hvalaskoðun muni leggjast af á Faxaflóa ef heldur fram sem horfir. Athygli er vakin á að yfir 70.000 ferðamenn fara á þessu ári í hvalaskoðun frá Reykjavík og um 60.000 frá norðurlandi.

Einnig þarf að tryggja griðarsvæði hvala fyrir norðurlandi. Þar er lagt til að dregin verði lína frá Hornbjargi um Grímsey að punkti 12 sjómílur norður af Hraunhafnartanga í Font á Langanesi.

Bent er á að Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað sent ályktanir um stækkun griðarsvæða hvala en því miður án sýnilegs árangurs.

Hvalaskoðun er orðin ein mikilvægasta afþreying á sviði ferðaþjónustu, því er brýnt að hún líði ekki undir lok vegna aðgerða eða aðgerðarleysis stjórnvalda.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.10.2011 - 13:50 - 12 ummæli

Friður & trúverðugleiki

Stjórn Bankasýslunnar sem af sér sagði þarf að tala skýrt og segja okkur um hvaða utanaðkomandi afskipti var að ræða. Var það gagnrýni alþingismannanna Helga Hjörvars og Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur? Eða eitthvað annað ósagt – einsog helst má skilja af þögn stjórnarmannanna fyrrverandi?

Mega alþingismenn ekki lengur segja það sem þeir meina?

Þessi utanaðkomandi afskipti segir gamla Bankasýslustjórnin hafa „vegið að trúverðugleika Bankasýslunnar“ þannig að „friður“ sé „rofinn um starfsemi hennar“. Sérkennileg yfirlýsing, því þetta fólk virðist sjálft ekki hafa haft nokkurn skilning á þessum trúverðugleika og tókst sjálfu ekki að varðveita þann frið sem er öðru nauðsynlegri til að Bankasýslan geti unnið sitt verk.

Það verk felst á næstu mánuðum í því að selja umtalsverðan hluta af eignarhlut almennings í ýmsum fjármálafyrirtækjum til að vega upp á móti þeim gríðarlega halla á sameiginlegum sjóði okkar sem fyrrverandi eigendur sömu fjármálafyrirtækja ollu okkur með hruninu – ásamt stjórnmálamönnum sem ýmist stuðluðu að atburðunum með stefnukreddu og spilltum starfsháttum eða vanræktu þann starfa sem þeim var falinn í nafni almennings á Íslandi.

Páll Magnússon er sjálfsagt alls góðs maklegur – en það er augljóst öllum, nema þá stjórnarmönnunum með gullfiskaminnið,  að hann er ekki heppilegasti verkstjórinn við þetta.

Það stóð ekki til að reka Bankasýsluna á pólitískum forsendum. En það stóð heldur ekki til að reka hana einsog ennþá væri árið 2007 – eða öllu heldur árin góðu aðeins fyrr þegar téður Páll Magnússon var einn helstu dugnaðarforka í teyminu sem sá um einkavinavæðingu gömlu bankanna.

Ef kostirnir eru ekki nema þessir tveir er kannski best að leggja Bankasýsluna niður sem stjórnsýsluapparat – og bjóða verkefni hennar út á EES-svæðinu.

PS — daginn eftir

Páll Magnússon — sem þátttaka hans í málinu er eingöngu að hafa sótt um starf — tók hárrétta ákvörðun og verðskuldar þakkir. Stend við tillögu mína um útboð á EES-svæðinu. Önnur leið er að skipa útlenda fagmenn sem stjórnarmenn og forstjóra.

Á óbreyttan alþingismann leitar það líka eftir ýmis tíðindi undanfarið að handhafar framkvæmdavaldsins, ráðherrarnir, eigi að taka skýra og beina ábyrgð á öllum ákvörðunum sem teknar eru á verksviði þeirra. Ráðherra verður í starfi sínu að vera bæði pólitískur og faglegur og á að kunna að greina þar á milli.

Pólitíkin er ekki ljót og fag-tíkin falleg. Þetta eru bara tvö svið, hvort með sína aðferð — en á ekki að blanda saman — þá skapast sprengihætta.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 19.10.2011 - 13:10 - 18 ummæli

Lausnir fyrir lánsveðshópinn

Þau Eva Baldursdóttir og Sverrir Bollason hafa sett í skýrt kastljós vanda sem lengi hefur kallað á lausnir – skuldastöðu lánsveðshópsins sem lendir milli skips og bryggju í kerfi ráðstafana eftir hrun. Þetta gerðu þau með hófstilltri en rökfastri grein í Fréttablaðinu á laugardaginn (hér, bls. 25) og aftur á fundi í Sjóminjasafninu í gærkvöldi.

Lánsveðshópurinn er fólkið sem keypti sér íbúð í fyrsta sinn árin 2004–2008, og varð að fá veð hjá foreldrum eða öðrum ættingjum, ýmist þar sem íbúðasjóðsláninu sleppti eða fyrir því sem til þurfti milli lánsmats og raunverðs. Vegna þess að þessir kaupendur eru yfirleitt með traust veð á 110%-leiðin ekki við, kröfuhafarnir geta gengið að veðunum ef um allt þrýtur öfugt við lán á yfirveðsettri íbúð.

Þrátt fyrir alla heimsins útreikninga síðustu missiri er ekki ljóst hversu fjölmennur þessi hópur er. Fjórir árgangar, fimmtán þúsund manns, sagði Sverrir í gær – það er líklega of mikið í lagt. En þetta er verulegur fjöldi, og kröfur hans um leiðréttingu mála sinna eru bæði sanngjarnar og pólitískt eðlilegar. Ef ekki finnst leið til að bregðast við þeim er heil kynslóð, eða að minnsta kosti verulegur hluti kynslóðar, „skilinn eftir“ í skuldabasli. Allar kynslóðir núlifandi Íslendinga hafa lent í hinum séríslenska þrældómi þaksins yfir höfuðið, og eru sumsé enn á lífi – og meðan við höfum ekki dug til að breyta þessu vitleysiskerfi verðum við að sýna samstöðu.

Málið er auðvitað erfitt – annars væri búið að leysa það. Bankastjórarnir þykjast ekki hafa þetta fræga svigrúm, og forystumenn lífeyrissjóðanna þegja sem fastast. Við gerum þó þá kröfu til bankanna að þar minnist menn þess hvernig hrunið varð og geri sér fulla grein fyrir samfélagsábyrgð sinni. Hitt er svo alveg rétt að þeir í lífeyrissjóðunum eru að geyma peningana sem lífeyrisþegar framtíðarinnar treysta á – eftir fimm ár, fimmtán eða fimmtíu. Á hinn bóginn hefur grundvöllur þessara sjóða verið tryggður með margvíslegum ráðstöfunum sem allir bera kostnað af, og við sem eigum þetta framtíðarfé megum ekki yfirgefa einstaka hópa húsnæðisskuldara í súpunni einsog við á um lánsveðshópinn.

Því miður vaxa peningar ekki á trjánum einsog Davíðskynslóðinni var talin trú um, og til að leysa þennan vanda þarf einhver að borga. Það þarf nefnilega alltaf einhver að borga, og nú er engum til að dreifa nema íslenskum almenningi, gegnum lífeyrissjóðina, skattana, þjónustu bankakerfisins.

Ég bíð nú tillagna frá efnahags- og viðskiptaráðherra um þessi mál.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 17.10.2011 - 17:11 - 15 ummæli

Lækka skatta, auka útgjöld

Sniðugt hjá Sigmundi Davíð að kalla nýja stefnu hjá Framsóknarflokknum Plan B.

Samkvæmt viðtali við Moggann er plan bé einfalt. Hætta við umbætur í sjávarútvegi og losa heimilin við skuldir. Hætta niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni – og lækka skatta.

Eitthvað kunnuglegt við þetta samt. … Fjórtán þúsund störf. Selja alla bankana. 100 prósent lán. Fimm Kárahnjúkavirkjanir. Flugvöllinn á Löngusker …

Hókus pókus.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 4.10.2011 - 13:59 - 5 ummæli

Palestína í Evrópuráðinu

Tíðindi í Strassborg: Evrópuráðsþingið samþykkti með 110 atkvæðum gegn 5 að taka upp ,,lýðræðissamstarf‘‘ við Palestínuþingið. Þjóðarráð Palestínu er annað arabaþingið sem fær þessa aðstoðaraðild að ráðinu, Marokkómenn voru fyrstir núna í vor, og næstir kynnu að verða Túnisar eða Egyptar. Samþykktin nú hefur verið undirbúin lengi með yfirlýsingum og samningum og rannsóknarferðum og skýrslum ­– en hún vekur auðvitað sérstaka athygli sem frumkvæði Evrópuríkja meðan Bandaríkjaforseti veifar vetó-vopninu yfir höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna.

Einsog sést á atkvæðatölunum voru allar meginfylkingar Evrópuráðsþingsins sammála um Palestínumenn sem nýja lýðræðis-félaga (Partner for democracy, heitir þetta á ensku), vinstrigrænir og jafnaðarmenn, kristilegir demókratar, líberalar og hægrihægrimenn. Meira að segja formaður ísraelsku áheyrnarsendinefndarinnar taldi þetta jákvætt skref (nokkuð tregur að vísu) – en annar Ísraeli stóð upp líka og mótmælti harðlega með kunnuglegum áróðursrökum þar sem Strassborgarþingmenn voru rækilega minntir á fornar ofsóknir og stefnu á síðustu öld um Evrópu sem ,,Judenfrei‘‘. Nokkuð langt gengið.

Ég var með í umræðunni fyrir atkvæðagreiðsluna, svosem einsog fyrir hönd Íslendinga, til að fagna þessari ákvörðun og minna á okkar afstöðu til málanna — nú getur maður nefnilega rætt utanríkismál við evrópska kollega reistu höfði. Talaði um stuðning Íslendinga við stofnun Ísraelsríkis 1948, breytingar á afstöðu almennings smátt og smátt áratugina eftir sex daga stríðið – varð svo að sleppa kafla sem ég var búinn að skrifa kafla um ályktun alþingis 1989 og ferð Steingríms að hitta Arafat (sem Hallbjörn í Kántríbæ gerði ódauðlega :)) – og að lokum um Palestínuferð Össurar í sumar og þingsályktunartillöguna um viðurkenningu frá í gær. Gat montað mig af því að við yrðum líklega fyrst Vestur-Evrópuríkja að stíga þetta mikilvæga skref. Í endann aðeins væminn og rifjaði upp minningar frá Palestínuferð fyrir tæpu ári og hugleiðingarstund við Grátmúrinn.

Ræðunni var ágætlega tekið ­– og fylgir hér á eftir fyrir áhugamenn, á flutningsmálinu:

Mr Mörður ÁRNASON

Speech on the occasion of the debate on the Request for Partner for Democracy status with the Parliamentary Assembly submitted by the Palestinian National Council

Parliamentary Assembly of the Council of Europe

Strasbourg, 4 October 2011

Thank you Mr President

I think there is reason to have great expectations towards this Partnership for Democracy with Palestine. For us Europeans to acquire a better understanding of conditions in an area of the world that is important for us. And for you Palestinians to benefit from our experience of negotiation and cooperation after centuries of violence.

My country, Iceland, supported warmly an independent state of Israel in 1948. Iceland was then a newly-independent nation taking its first steps in international politics after the atrocities of World War II. However, after the six-day war, the public in Iceland like elsewhere in the West gradually awoke to the realization that there were two nations living in Palestine, one of which ruled the other with methods that former US President Carter was one of the first to compare with apartheid.

This summer, our foreign minister, Össur Skarphéðinsson, visited both the West Bank and Gaza and met his colleague, Al-Maliki, and President Abbas. He declared on this occasion his support for the wishes of Palestine to become a full member of the United Nations. He also expressed a desire for the Palestinians to solve their internal divisions, which is an important prerequisite for progress.

Yesterday, the Icelandic government submitted a draft resolution in Parliament, Alþingi, that would recognize Palestine as an independent and sovereign state. The resolution enjoys a broad majority and is likely to be passed in the next few weeks. Iceland would then be the first country in Western Europe to take this step. Thank you for the advice, Mr Hancock. We have already taken it.

I have myself visited Palestine and been fascinated by the people, the land and the history. I saw many indications of injustice and oppression but also sensed a strong national desire for life and freedom and the perseverence of a long-established nation.

On the same trip, I visited the Western Wall in Jerusalem and reflected on the history and fate of the remarkable people for which that place is holy, a history which we in Iceland and elsewhere in our part of the world become acquainted with in our schools and places of worship. It is fully in line with our respect for the state of Israel and our friendship towards the Jewish people all over the world that we celebrate here and now a new partnership between the nations of Europe and a democratic and independent state of Palestine.

Mr President, I congratulate the rapporteur on an outstanding report and I am happy to see the representatives of Palestine here in Strasbourg. I thank them for everything their people have taught us about the right of existence of a small but proud nation. Welcome.

Thank you Mr President.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.10.2011 - 10:48 - 37 ummæli

Twist and shout

Sá í netfréttum að Dorrit er farin að mótmæla á Austurvelli. Minnti mig á þegar Lennon bað salinn að slá með sér taktinn: And the rest of you, please rattle your jewelry.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.9.2011 - 10:00 - 19 ummæli

Þú getur þetta, Vigdís!

Sýndar-Ási – einsog sigurvissir stuðningsmenn kalla hann – er maður dagsins í bikarkeppninni æsilegu á þingi og gerir nú raunverulegt tilkall til fyrsta sætisins í keppninni. Gunnar Bragi Sveinsson sem enn heldur toppsætinu átti hinsvegar slakan dag í gær og má nú reyna að kalt er á hefðartindi.

Gunnar Bragi hefur raunar lagt fram kvörtun við mótsstjórnina vegna ýmissa truflana frá öðrum þátttakendum – meðal annars með því að kalla eftir löngum samningafundum þingflokksformanna með forseta sem að sjálfsögðu gera honum óhægt um vik við sýndarandsvör í þingsal. Hefur mótsstjórn kallað fyrir sig Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta alþingis, og farið fram á að keppendur fái að beita kröftum sínum óhindrað að sýndarbikarnum án óeðlilegra afskipta þingforystunnar.

Brussel bíður

Gleðileg tíðindi fyrir fjölmarga aðdáendur Vigdísar Hauksdóttur: Keppandinn káti virðist nú hafa tekið á flug upp úr ákveðinni lægð sem merkja mátti eftir að hún stakk höfðinu í stein fyrr í vikunni. Vigdís átti í gær fjögur glæsileg sýndarandsvör og lyfti sér upp í 4. sætið. Sannarlega góður árangur, og sýnir að Vigdís getur ennþá blandað sér í baráttuna um bikarinn ef hún bara vill – og Evrópusæti er ekki langt undan. Brussel bíður, Vigdís – þú getur þetta!

Birkir Jón í vanda

Ekki urðu veruleg tíðindi neðar á stigatöflunni. Hinn efnilegi Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, stóð sig vel í gær og er nú í 8. sæti en má vara sig, því formaðurinn, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, er lítt hrifinn af samkeppninni frá hinum knáa Siglfirðingi og gekk um húsið í gær rauður í kinnum með kreppta hnefa og tautandi fyrir munni sér óljósar formælingar.

Örvilnan hjá Birgismönnum

Þess má geta að á sérstökum neyðarfundi í fámennum en harðskeyttum aðdáendaklúbbi Birgis Ármannssonar var í gær tekist nokkuð harkalega á um hvað til bragðs skyldi taka keppandanum til aðstoðar. Birgir hefur dregist verulega aftur úr og mun hafa í huga að segja sig frá keppni. Í hópi náinna félaga keppandans eru nú komnar upp efasemdir um að Birgir hafi raunverulega í sér þá snörpu sýndarmennsku sem þarf til að ná árangri í eins langri keppni og nú stendur yfir, þótt enginn efist um getu hans í skyndisýndum þegar svo ber undir.

Staða efstu manna eftir síðustu sýndarandsvör næturinnar (Ásmundur Einar Daðason við Illuga Gunnarsson kl. 1.30):

1. sæti – 54 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B  

2. sæti – 46 stig: Ásmundur E. Daðason, B

3. sæti – 37 stig: Pétur Blöndal, D

4. sæti – 32 stig: Vigdís Hauksdóttir, B

5. sæti – 29 stig: Ásbjörn Óttarsson, D

6.–7. sæti – 19 stig: Einar K. Guðfinnsson, D, og Sigurður Ingi Jóhannsson, B

8.– 9. sæti – 18 stig: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birkir Jón Jónsson, B

10. sæti – 16 stig: Ólöf Nordal, D

Næst kemur Unnur Brá Konráðsdóttir með 15 stig, og svo Birgir Ármannsson með 12 stig . Hann náði ekki að bæta við sig stigum í gær þrátt fyrir 15 tíma langan keppnisfund í þinginu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 15.9.2011 - 07:57 - 26 ummæli

Loksins, loksins, Ásmundur Einar!

Ásmundur Einar Daðason hefur fundið fjölina sína! Þingmaðurinn hefur lítið sést í þingsal á kjörtímabilinu og verið hálfvegis utangátta eftir að hann yfirgaf kjósendur sína og gekk í Framsóknarflokkinn – en eftir rólega byrjun er hann nú orðinn einn efstu manna í keppninni um sýndarbikarinn og náði í gær sjálfum Pétri Blöndal að stigum. Stuðningsmenn Sýndar-Ása svifu um þinghúsið í gær með blik í auga og hrópuðu: Loksins, loksins – einsog gert var á síðustu öld þegar annar snillingur opinberaðist í ákveðinni íþróttagrein.

Daðason, einsog hann er gjarna kallaður í hópi aðdáenda sinna (sbr. Ríkharð Daðason og Sigfús Daðason), á raunhæfan möguleika á Evrópusæti í sýndum, en toppsætið vermir sem fyrr „Gamli seigur“ – Gunnar Bragi Sveinsson – sem jók forustu sína verulega í gær, á níunda keppnisdegi sýndarbikarsins, og hefur nú farið einum tuttugu sinnum í sýndarandsvör við samherja sína og svarað þeim níu sinnum að auki.

Enn sem fyrr er þingflokksformaður Framsóknarflokksins því líklegastur handhafi sýndarbikarsins í lok vertíðar – og yrði þá jafnframt sæmdur heiðurstitlinum „sýndarmenni septembermánaðar“.

Ásbjörn Óttarsson vakti einnig athygli fyrir góðan sprett við sýndarandsvör í gær og er nú í fjórða sæti. Hann fór með glæsibrag fram úr Vigdísi Hauksdóttur sem þrátt fyrir þokkalega frammistöðu síðari hluta dags hefur valdið fjölmörgum aðdáendum sínum vonbrigðum í keppninni til þessa. Sumir telja raunar að hún sé enn að ná sér eftir meiðsli frá því á mánudag þegar hún varð sem kunnugt er fyrir því óláni að stinga höfðinu í stein.

Nýstirni á sýndarhimninum er svo gamla brýnið að vestan, Einar K. Guðfinnsson, og átti besta einstaka afrek gærdagsins þegar hann fór í sýndarandsvar við Vigdísi Hauksdóttur sem er nú næst á undan honum á stigatöflunni,. Er ekki ofsagt að menn hafi sopið hveljur við ölduganginn frá þeim átökum.

Hinsvegar hefur mjög dofnað yfir Ólöfu Nordal, hástökkvaranum úr fyrri umferð, og á göngunum er nú rætt um hana sem einsmellsundur (e. one hit wonder) sem á ný hafi lokast inni í sinni prúðu skel. Svipaða sögu er að segja af Birgi Ármannssyni sem margir höfðu trú á fyrstu dagana. Hann virtist í gær orðinn afhuga virkri þátttöku í sýndarbikarkeppninni að sinni, en kom þó stöku sinnum í andsvör við samherjana einsog af gömlum vana.

Staðan að loknum síðustu sýndarandsvörum næturinnar (Pétur Blöndal við Birgi Ármannsson klukkan 3.20):

1. sæti – 49 stig: Gunnar Bragi Sveinsson, B

2.-3. sæti – 34 stig: Ásmundur E. Daðason, B, og Pétur Blöndal, D

4. sæti – 25 stig: Ásbjörn Óttarsson, D

5. sæti – 24 stig: Vigdís Hauksdóttir, B

6. sæti – 19 stig: Einar K. Guðfinnsson, D

7. sæti – 18 stig: Sigurður Ingi Jóhannsson, B

8. sæti – 16 stig: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, B

9. sæti – 15 stig: Unnur Brá Konráðsdóttir, D

10. sæti – 14 stig: Ólöf Nordal, D

Næstir koma Birgir Ármannsson, D, og Birkir Jón Jónsson, B, með 12 stig.

Sýndarmennskan gildir

Metingur og öfund hafa með köflum sett leiðinlegan svip á keppnina og náði þetta hámarki í gærkvöldi þegar nokkrir ónefndir keppendur um miðbik stigatöflunnar komu að máli við mótsstjórnina og kröfðust þess að fá metinn til stiga árangur sinn í öðrum málþófsíþróttum en sýndarandsvörum, einkum frammistöðu sína í umræðum um fundarstjórn forseta. Þessu hefur mótsstjórnin synjað eindregið.

„Við hlustum ekki á neitt væl,“ sagði Róbert Marshall, talsmaður keppnishaldara, við fréttaritara í gær. „Hér er það bara sýndarmennskan sem gildir.“

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 14.9.2011 - 11:02 - 7 ummæli

Reykjavík ráði sjálf

Ég held að það sé ekki til neinn endanlegur stórisannleikur um það hvað borgarfulltrúar í Reykjavík eiga að vera margir. Sjálfsagt mál að alþingi tryggi með lögum að þeir séu nógu margir til að lýðræðið virki í hreppsnefndarkosningum hjá okkur í höfuðborginni – en umfram það er þetta mál best komið í höndum okkar borgarbúa og þess fólks sem við kjósum til forustu í sveitarstjórn.

Í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga er ákvæði um að borgarfulltrúum í Reykjavík fjölgi í minnst 23 – því er pakkað inn í þessa formúlu:

    1.      Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn.
    2.      Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn.
    3.      Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn.
    4.      Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn.
    5.      Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn.  

Athygli vekur auðvitað að ekkert sveitarfélag á Íslandi er í 4. deild, ekki einusinni Kópavogur þótt þar gangi nú ýmsir um með delerium burgonis. En eitt sveitarfélag er í 5. deild, nefnilega Reykjavík, og samkvæmt frumvarpinu á að skylda Reykvíkinga til að fjölga hjá sér í hreppsnefndinni um heila átta, um 53% !

Nú má segja að borgarfulltrúar í Reykjavík séu þegar fleiri en fimmtán af því nokkrir varaborgarfulltrúar eru í nánast fullu starfi. Líklega er skynsamlegt að fjölga fulltrúunum eitthvað, og lýðræðislegt líka því fylgisþröskuldurinn er nokkuð hár fyrir framboð til borgarstjórnar. 17? 19?

Aðalmálið er samt að Reykvíkingar eiga að fá að ráða þessu sjálfir innan ákveðins ramma. Ég hef þessvegna lagt fram þá breytingartillögu við frumvarpið  að tóma deildin og Reykjavíkurdeildin verði sameinaðar, svona:

Þar sem íbúar eru 50.000 eða fleiri: 15–31 aðalmaður.

Kannski finnst einhverjum borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum þessi drukkur heldur beiskur, og voru að vonast til að einhver annar tæki af þeim kaleikinn. En af þessum kaleik á hvergi að bergja nema í Ráðhúsi Reykjavíkur. Á það hefur nýlega bent borgarfulltrúi Kjartan Magnússon úr KR og hafi þökk fyrir. 

Mér sýnist stuðningur verulegur við tillöguna. Vonast eftir 22 sjálfsögðum atkvæðum úr R norður og suður, og veit af góðum skilningi á málinu víða meðal utanbæjarmanna.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur