Formaður Vinstrigrænna og þingmenn liggja undir ágjöf um að hafa brugðist kjósendum sínum og stefnuskrá vegna Evrópusambandsumsóknarinnar. Og auðvitað er það skrýtin staða fyrir kjósendur VG og flokksmenn að ríkisstjórn á þeirra vegum standi fyrir þessari umsókn, ekki síst þegar á þeim dynja dagleg svikabrigsl – frá Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum.
Nú er ég enginn ofuraðdáandi formanns VG og forystusveitar svona í heildina – en rétt skal vera rétt:
Uppúr kjörkössunum vorið 2009 komu tvennskonar úrslit. Annarsvegar meirihlutastuðningur við ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingarinnar og VG (34/63). Hinsvegar meirihlutastuðningur við þá stefnu þriggja framboða að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja samningsniðurstöðuna fyrir kjósendur. Þetta voru Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Borgarahreyfingin (33/63).
Samfylkingin og VG hlýddu að sjálfsögðu kjósendum og mynduðu ríkisstjórn. Í þeim viðræðum setti Samfylkingin fram þá kröfu að niðurstaða kosninganna um ESB-umsókn yrði virt, og sett á stefnuskrá stjórnarflokkanna að sækja um aðild. VG féllst á þetta með því skilyrði að flokkurinn hefði fullt frelsi til að halda við sína afstöðu í málinu og leggjast gegn aðild að samningum loknum.*)
Þetta var þroskuð og ábyrg afstaða hjá flokknum. Hann hélt við sína meiningu en féllst á vilja meirihlutans. Og þetta var líka það eina skynsamlega í stöðunni.
Hvað annað? Fyrir okkur Samfylkingarmenn valt stjórnarmyndunin á þessu máli. Hefði VG látið stranda á aðildarumsókninni kom tvennt til greina: Að Samfylkingin hefði reynt að mynda stjórn um aðildarumsóknina með Framsókn og Borgarahreyfingunni einsog hún hét þá. Sem hefði verið ómöguleg og líklega ómyndanleg stjórn af mörgum ástæðum öðrum.
Eða þá að VG reyndi myndun stjórnar gegn ESB með Sjálfstæðisflokknum, sem reyndar var jafnklofinn þá og nú í málinu, og þriðja flokki, annaðhvort Framsókn (39/63) eða Borgarahreyfingunni (34/63). Báðir kostirnir út í hött fyrir VG – og algerlega fáránlegt framhald af hruni, búsáhaldabyltingu og kosningaúrslitum.
En kannski lögðu geislabaugsmenn þetta einmitt til á sínum tíma? Hvað sagði Atli?
VG tók rétta ákvörðun, stjórnin var mynduð og aðildarumsókn samþykkt á alþingi 16. júlí um sumarið með 33 atkvæðum gegn 28. Þá brá svo við að sex af níu Framsóknarmönnum voru hlaupnir í andstöðu við málið sem þeir studdu fyrir kosningar, og þrír af fjórum Hreyfingarþingmönnum. Sá hringlandi var hinsvegar ekki VG að kenna – og ef einhverstaðar er viðeigandi að tala um brigð við kosningafyrirheit, þá er það í námunda við þetta fólk.
Hvað menn athugi vel á Akureyri um helgina.
—
* ESB-kaflinn úr samstarfsyfirlýsingunni 10. maí 2009:
Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.