Miðvikudagur 22.4.2009 - 12:00 - 16 ummæli

Ekki gera ekki neitt

Kannanir segja að margir ætli að skila auðu á laugardaginn – og auðvitað er það afstaða í sjálfu sér, svona einsog að sýna puttann. En þegar það er búið gerist ekkert meira. Sá sem skilar auðu ákveður að láta aðra ákveða. Hann gerir ekki neitt.

Ýmsir segjast líka ætla að kjósa Borgaraheyfinguna eða Ástþór – nú eða hinn fallandi Frjálslynda flokk. Enn er líklegast að ekkert þessara framboða nái inn manni – og þótt eitthvert þeirra kæmist yfir 5% og færi á þing með 2, 3 eða 4 hefði slíkur þingflokkur lítil áhrif. Þessi kjósendur eru ekki að gera neitt.

Flokkar sem bjóða töfralausnir, 20% eða 50%, evru bakdyramegin eða nei-umsókn, þeir leysa ekki vandann sem fólk er í núna – og bjóða enga sýn til framtíðar. Sá sem kýs Framsókn er ekki að kjósa neitt – og sá sem kýs Sjálfstæðisflokk er að kjósa meira af því sama. Og sá sem kýs VG tekur enga afstöðu í meginmáli kosninganna, um ESB og evru.

Þetta er einsog í rukkaraauglýsingunni: Ekki gera ekki neitt. Sá sem gerir það þarf alltaf að borga meira seinna.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 21.4.2009 - 12:00 - 16 ummæli

Evra og ESB – hvert vilja hinir?

Það er skrýtið eftir viðburði vetrarins en svona er það: Þessar kosningar markast af því að einn flokkur leggur fram skýra leið út úr vandanum. Það er ekki gefið að okkur heppnist hún – en ekkert framboð hefur lagt fram aðra betri og sumir láta sér nægja eintóm töfrabrögð.

Þetta er umsókn um aðild að Evrópusambandinu með evruna að helsta keppikefli – og í samningaviðræðunum yrði efst á dagskrá hvernig krónan kemst sem fyrst í skjól evrunnar þannig að traust aukist á gjaldmiðlinum og hagkerfinu.

Umsóknin er grundvöllur þeirrar stefnu um vinnu og velferð sem Samfylkingin hefur líka lagt fram – því það bara verður engin vinna og engin velferð ef Ísland lendir í öðru áfalli – fer aftur á hausinn, einsog Benedikt Jóhannesson hjá Heimi hefur skrifað um í bestu grein kosningabaráttunnar (http://heimur.is/heimur/Search/news/Default.asp?ew_0_a_id=322873).

Aðild að Evrópusambandinu er mikið skref fyrir fámenna þjóð sem vill halda fast um sjálfstæði sitt. Munum samt að við erum nú þegar aðilar að ESB uppá 70–80% – höfum þó engin formleg áhrif – og munum líka að innan sambandsins una hag sínum margar stoltar þjóðir sem teljast smáar á heimsvísu: Danir, Svíar, Finnar, Írar … Allar líkur benda til að við getum samið okkur til óbreyttra raunverulegra yfirráða á gjörvöllum fiskimiðum okkar. Allar auðlindir okkar haldast í íslenskum höndum – ef við raunverulega viljum. Landbúnaðurinn verður erfitt samningsmál – en þar getum við líka náð viðunandi samningum ef að líkum lætur miðað við samninga Svía og Finna – þótt tollvernd verði létt af rándýru „íslensku“ kjúklinga- og svínakjöti.

Stóra málið er auðvitað evran. Strax og ríkisstjórnin sendir af stað póstkortið um að við viljum semja breytist afstaðan til íslensku krónunnar. Hún verður ekki lengur efniviður í næstu eða þarnæstu áramótabrennu heldur vita menn hér og heima að hún breytist að lokum í evrur, og verður innan skamms varin með vikmörkum í samflotskerfi við gjaldmiðil Evrópusambandsins.

Það er satt að segja undarleg staða að Samfylkingin skuli vera eina framboðið sem segir þetta skýrt. Sjálfstæðisflokkurinn meldar pass til að forðast klofning. VG segir nei (en hvíslar svo kannski, kannski, kannski). Frjálslyndir segja nei (aldrei, aldrei, aldrei). Og Framsókn, sem lengi hefur þó gert sér grein fyrir kostum aðildar og evru, velur sér enn einu sinni töfralausnirnar umfram ábyrga afstöðu.

Hvert vilja þeir?

Eða hvert vilja þeir? Hver er framtíðarsýn Sjálfstæðisflokksins og svo framvegis án evru og Evrópusambandsaðildar? Hefur einhver heyrt um það talað?

Staðan er einfaldlega þessi: Bara Samfylkingin er með sitt á hreinu. Auðvitað er Samfylkingin ekki upphaf og endir allrar pólitíkur. Það er rétt: Hún stóð sig alls ekki nógu vel í stjórninni með Sjálfstæðisflokknum, og það er líka rétt: Meðal forystumanna í Samfylkingunni eru því miður beggja handa járn í umhverfismálum. Hún er með góðu og illu breiður flokkur fólks sem er ólíkrar skoðunar um margt en hefur samt sameinast um grunngildi jafnaðarstefnunnar. Og kosið sér að formanni Jóhönnu Sigurðardóttur, sem nýtur óskoraðs álits almennings sem réttsýnn, heiðarlegur og duglegur stjórnmálamaður.

Núna skiptir mestu máli – og er kannski það eina sem skiptir máli – að þessi flokkur er með færa leið úr vandanum. Þessvegna er mikilvægt að Samfylkingin og Jóhanna fái mikið fylgi á laugardaginn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 20.4.2009 - 11:33 - 14 ummæli

Tímar töfraformúlunnar

Einmitt núna – nokkrum dögum fyrir kosningar – í mesta hallæri síðari tíma – eru komnir tímar töfraformúlunnar í íslenskri pólitík.

Og sumir fá pening  til að eyða …

Framsóknarflokkurinn reið auðvitað á vaðið – sjálfur galdrakarlaflokkurinn – með tuttugu prósentin sín. Nú er búið að setja þau upp í myndasögu sem er svo flókin að enginn skilur neitt í neinu – og það var auðvitað ætlunin því töfrabrögð væru lítils virði ef áhorfendur föttuðu alltaf hvernig töframaðurinn fer að.

Ég skil til dæmis aldrei hver á að borga – en eitt skildi ég samt loksins í myndasögunni: Þeir sem fá 20%-niðurfellingu og hafa ekkert við hana að gera – þeirra hlutverk er að gera hinum í samfélaginu mikinn greiða – með því að fara út í búð og kaupa sér fyrir allan peninginn. Þannig eignast þeir fleiri hluti og hagkerfið kemst af stað aftur og allir eru alsælir. Einfalt!

Ekkert vont hjá tannlækninum

Svo er Bjarni Ben líka kominn með töfrasprota: Við tölum við AGS og þeir redda okkur evru! Svona er það einfalt, og svo borar tannlæknirinn ekkert – það þarf allsekki að ganga í Evrópusambandið!

Hrekkjusvín í Fréttablaðinu eru að vísu að rifja upp að einmitt sami Bjarni hafi sagt í síðasta mánuði að hann telji að „í gjaldmiðilsmálum sé enginn valkostur við krónuna jafn sterkur og evran með ESB-aðild. Ég vil að við göngum hreint til verks í þessum málum og gerum upp á milli valkosta á næstu árum, en séum ekki að leika marga biðleiki.“ – En þetta var í mars! Laaaangt síðan. Og þá var ég ekki orðinn formaður …

Sjáiði ekki veisluna?

Þriðja töfraformúlan þessa daga er svo framin á samsýningu ýmissa stjórnmálamanna og -flokka: Helguvík! Tvö-, þrjú-, fimmþúsund störf! Og kostar ekkert. Eftir að þingið samþykkti fjárfestingarsamninginn eru jakkaklæddir bankamenn komnir af stað upp í flugvélarnar með 400 milljarða í leðurgljáandi stresstöskum: Sjáiði ekki veisluna? 

Við eigum að vísu eftir að redda allri orkunni á Reykjanesskaga og Hellisheiði, línur, losunarheimildir, umhverfismat og sitthvað smáræði – og svo eru víst til talsverðar birgðir af ódýru áli í Kína og víðar. Það hlýtur að seljast einhverntímann. Og Helguvík kemur í veg fyrir sólarkísil og gagnaver – en var það ekki bara hálfgert plat hvorteð var? 

2 + 2 = 4

Og við sem héldum að kosningarnar snerust um framtíðina – um endurreisn atvinnulífsins, sjávarútveg, nýsköpun, sprota, menningarfyrirtæki … – og um hag heimilanna, hvernig á að rétta hjálparhönd þeim sem verst eru staddir – meðal annars til að þeir noti sitt vit og hugkvæmni til að skapa störf.

Tja – við verðum bara að seiglast áfram gegnum töfrabrögðin og treysta því að fólk hugsi sjálft og leggi saman tvo og tvo: Vinna, velferð, evra og ESB, störf sem henta nýjum tímum án þess að skemma náttúruna, siðbót í landinu og umbætur í stjórnkerfinu.

Að tveir plús tveir eru Jóhanna.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 17.4.2009 - 10:12 - 14 ummæli

Sjálfstæðisflokkurinn sigrar þjóðina

Formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir sigri í stjórnarskrármálinu. Sá sigur fékkst ekki fram með afli atkvæða – því eftir sem áður er öflugur meirihluti á alþingi að baki tillögunum um stjórnarskrárbreytingar. Sigurinn varð heldur ekki þannig til að almenningur snerist á sveif með minnihluta á þingi og kæmi þannig vitinu fyrir meirhlutann – einsog gerðist til dæmis í vatnalagadeilunni, og með nokkrum hætti í fjölmiðlamálinu. Sigur sinn vann fráfarandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksmanna með því að hóta endalausu málþófi – að nota breyttar þingskaparreglur, sem þeir sjálfir stóðu fremstir í að lagfæra á þinginu 2007–2008, í einskonar eilífðarvél, perpetuum mobile, einsog vísindamenn dreymdi um á fyrri öldum:, þannig að þingið stöðvaðist aldrei þangað til nýjar kosningar ryddu öllu úr vegi.

Aðal-sigurvegarinn er auðvitað Björn Bjarnason: Hann lauk þingferli sínum með yfirlýsingum um að hann mundi tala eins oft og hann þyrfti til að stöðva stjórnarskrárbreytingarnar. Björn var staðráðinn í að koma með fundarskapaklækjum í veg fyrir að meirihlutavilji næði fram á þinginu. Þetta er athyglisvert. Ég hef staðið í langvinnum umræðum á þingi, og í RÚV-málinu hafði ég á hendi forustuhlutverk fyrir hönd þáverandi stjórnarandstöðu. Svona yfirlýsing kom aldrei úr mínum munni – þvert á móti lýsti ég því yfir að meirihlutinn réði, afgeiðsla málsins færi eftir því hvað hann teldi það mikilvægt. Og þá taldi meirihlutinn málið svo mikilvægt að það varð að lokum að lögum (því miður einsog nú er komið í ljós!). En þá voru gömlu þingsköpin í gildi – þar gat minnihluti vissulega þæft málin, en þó í kappi við líkamsþrek, raddkraft og þvagblöðru, og átti engan möguleika á hinu nýja perpetuum mobile Björns Bjarnasonar.

En hvaða sigur hafa Björn, Bjarni, Þorgerður Katrín, Árni Johnsen og aðrir málþófskappar unnið í raun og veru? Þeir hafa – í bili – komið í veg fyrir að þjóðin réði beint breytingum á stjórnarskrá. Þeir hafa komið í veg fyrir stjórnarskrárákvæði um þjóðareign auðlinda. Þeir hafa komið í veg fyrir þjóðarfrumkvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Og þeir hafa komið í veg fyrir að þjóðin kysi sér sérstakt stjórnlagaþing. Þetta hafa þeir gert til að verja ríkjandi kerfi, ríkjandi völd, ríkjandi sérhagsmuni – gegn almannahagsmunum, gegn auknum rétti þjóðarinnar utan þingsala og utan Valhallar.

Sjálfstæðismenn hafa vissulega unnið sigur – sigur á þjóðinni.

En sá sem slíkan sigur vinnur þarf að vera var um sig. Þjóðin lætur ekki Sjálfstæðisflokkinn segja sér fyrir verkum. Ekki lengur. Vonandi aldrei meir.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.4.2009 - 19:06 - 7 ummæli

Trúnaður Kjartans: Við flokkinn

Kjartan Gunnarsson er ekki hættur í pólitík – og auðvitað er spennandi að fylgjast með honum særa fram andstæðinga sína (og Davíðs?) innan FLokksins út af styrkjamálunum.

Athyglisvert er hinsvegar þetta: Kjartan segist í viðtali við fréttastofu Útvarps vera í aðstöðu til að kynna sér hvernig Landsbankastyrkinn bar að. Hann viti nú hverjir komu að málinu af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Kjartan vill ekki skýra frá þessu í fjölmiðlum (= við almenning) en segist þegar hafa sagt forystumönnum Sjálfstæðisflokksins hverjir voru að verki.

Fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans hefur sumsé notfært sér þá stöðu sína til að finna styrkbeiðendurna. Þótt Landsbanki Kjartans sé nú á framfæri almennings (okkar og nokkurra næstu kynslóða!) vill hann ekki skýra opinberlega frá vitneskju sinni. Fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans er nefnilega líka fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og trúnað sýnir hann bara flokknum – ekki almenningi.

Ég þekki Kjartan Gunnarsson frá því í gamla daga og veit að þar fer hæfileikamaður, og prinsippmaður á sinn hátt. En hann er líka einn hinna innvígðu í launhelgum Valhallar. Fastur í veröld sem vonandi var.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.4.2009 - 22:30 - 16 ummæli

Tortola eða Valhöll?

Undanfarið hafa menn litast um vondaufir eftir nýjum uppsrettum fjár í lánsfjár- og gjaldeyriskreppunni: Stóriðja? Hvalveiðar? Skaðabætur frá hinum hræðilegu Bretum?

Loksins er málið leyst! Sjálfstæðisflokkurnn bara endurgreiðir styrkina frá gjaldþrota útrásarvíkingum, Baugum og Bjöggum. 30 milljónir í gærkvöldi, 25 milljónir í dag — og bráðum fer landið að rísa. Við þurfum ekkert að renna öfundaraugum til hins ljúfa lífs á Tortola — peningarnir eru allir uppi í Valhöll.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 6.4.2009 - 17:29 - 5 ummæli

Hani, krummi, hundur, svín

Já, það er satt hjá Birgi Ármannssyni. Ég er sekur. Hinn 16. nóvember árið 2004 söng ég „Hani, krummi, hundur, svín“ í ræðustól alþingis.

Birgir opinberaði þetta óttalega leyndarmál í umræðu á þinginu í dag um fundarstjórn forseta. Forseta kom það kannski ekki mikið við, en þar með upplýstist að fleiri þingmenn en Árni Johnsen hefðu sungið í ræðustólnum.

Öfugt við Mister Johnsen var minn söngur ekki hluti af neinskonar málþófi heldur framlag til umræðu um nýjan þjóðsöng sem tveir varamenn Sjálfstæðisflokksins hófu, þau Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Ingvarsson. Þetta var rætt í rólegheitum undir kvöld á fimmtudegi minnir mig, og mitt framlag var reyndar fullkomlega málefnalegt þanniglagað – að þjóðsöngur þyrfti helst að vera sönghæfur en þegar menn voru á alþjóðasamkomu að syngja þjóðsöngva sína hefði landi okkar eitt sinn lent í vandræðum með Guðsvorslansinn og leyst úr þeim með þjóðlegum hætti:

Hani, krummi, hundur, svín,
hestur, mús, tittlingur,
galar, krunkar, geltir, hrín
gneggjar, tístir, syngur.

Nú, þegar þetta er upplýst og játning liggur fyrir – mætti þá ef til vill fara að hætta að tefja afgreiðslu frumvarps sem meirihluti þingsins og meirihluti almennings styðja um þjóðareign á auðlindunum, stjórnlagaþing og þjóðaratkvæðagreiðslur?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 5.4.2009 - 14:57 - 12 ummæli

Hvað nú, Þorgerður Katrín?

Álit annars minnihluta menntamálanefndar í þingmáli 406 hefur ekki hlotið verðskuldaða athygli. Þar mæla  Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkarðsdóttir móti því að fleiri fái nú starfslaun úr sjóðum fyrir listamannalaun, og telja slíka ráðstöfun óskiljanlega í ljósi kreppu og fjárlagahalla. Þó er aðeins um að ræða svolitla leiðréttingu við heildarúthlutun sem hefur verið eins síðan hún var negld niður með lögum árið 1996.

Það skiptir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins heldur engu máli að einmitt núna kemur samfélaginu einkar vel að heldur fleiri fáist við listsköpun því aðrir fá undireins störf þeirra sem njóta aukamánaðanna — fyrir utan að liststarf skapar mörg ,,afleidd störf“ — miklu fleiri til langtíma litið en álversdjobbin svo tekið sé nærtækt dæmi.

Ég er reyndar ekki sáttur heldur við lagafrumvarp menntamálaráðherra um fleiri listamannalaun, hefði viljað sirka tvöfalda heildartímann, og hækka líka launin sjálf. Tel að fé sé jafnvel og betur varið til þess en í ýmislegt átak þessa daga vegna atvinnuleysis. Í grein sem ég skrifaði í Moggann um þetta í mars var líka rakið að sérstaka fjárveitingu til listamannalauna nú í kreppunni mætti binda því skilyrði að listamennirnir störfuðu að hluta með fólki án atvinnu. Það mundi gagnast hvorumtveggju og ekki síður samfélaginu í heild.

Afturhaldsemi íhaldsins í þessu máli kemur svosem ekkert á óvart — ekki heldur þeim sem höfðu talið þau Ragnheiði og Einar tiltölulega þokkaleg eintök af þeirri tegund. Það vekur hinsvegar furðu að flokkurinn skuli koma svona illa í bakið á hinum nýendurkjörna varaformanni sínum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra. Hún undirbjó nefnilega þessa svolitlu fjölgun listamannalauna undir lok sinnar tíðar í ráðuneyti menningarmála, og ég skildi ekki betur en hún styddi frumvarpið af ráðum og dáð þegar það barst í tal milli okkar í byrjun febrúar.

En kannski hefur auglýsingastofan hans Bjarna Ben ákveðið eitthvað annað í millitíðinni?

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.4.2009 - 09:04 - 2 ummæli

Eru þeir búnir að tapa strax?

Það er undarlegt að fylgjast með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í villtasta málþófi Íslandssögunnar. Það felst í því að þæfa allt önnur mál en þeir eru raunverulega á móti, og finna ótrúlegustu umræðuefni og athugasemdir út af frumvörpum og tillögum sem þeir eru í raun og veru sammála. Hlýtur til dæmis að vera nokkuð furðulegt fyrir kvikmyndafólk að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins hylla Árna Johnsen fyrir ræður sínar um hækkun endurgreiðsluhlutfallsins og gildi listarinnar.

Og hvað er það sem þeir hamast svona gegn í miðri efnahagskreppunni? Bara eitt: Þær breytingar á stjórnarskránni sem staðfesta þjóðareign á helstu auðlindum þjóðarinnar, þar á meðal fiskinum í sjónum. Og sannarlega er þetta mikilvægt mál, og rammpólitískt. Sjálfstæðisflokkurinn vill að ákveðinn forréttindahópur eignist endanlega auðlindir sjávar önnur stjórnmálaöfl telja þjóðina vera eigandann, þótt þar hafi menn vissulega ekki ennþá náð saman um aðferðir.

Að baki er svo andstaða íhaldsins við ESB-aðild, vegna þess að þeir vita að það er erfitt að ganga þar inn meðan þetta mál er uppí loft.

Einkennilegt er samt að þetta hátterni Bjarna Ben, Toggu og Árna Johnsens á alþingi virðist sýna að þau séu strax búin að tapa kosningunum. Ennþá er þetta nefnilega þannig að það þarf nýtt þing til að staðfesta stjórnarskrárbreytingu, og þessvegna er hægt að kjósa um breytingarnar í kosningunum í mánaðarlok, ef Sjálfstæðisflokkurinn vill.

En í þann slag þora þeir ekki.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.3.2009 - 13:00 - 6 ummæli

Jamm

Jamm. Ég fór í þetta prófkjör með mín málefni, mínar aðferðir og minn stíl og þótt niðurstaðan hafi ekki verið eftir væntingum verður eftirleikurinn að vera í samræmi við þetta: Á mínum forsendum eða enginn. My Way.

Jóhanna vann góðan sigur í Reykjavíkurprófkjörinu og það er sjálfsagt að óska henni og öðrum sem vel gekk þess að árangur þeirra verði þeim, þjóðinni og flokknum til hamingju, sérstaklega árangur nýja fólksins, Sigríðar Ingibjargar, Skúla og Valgerðar.

Mér fannst allan tímann vera hálfgerður óraunveruleikablær yfir þessu prófkjörsstappi í kreppunni miðri, og hef sjálfsagt ekki staðið mig nógu vel í því sem þarf að standa sig vel í til að vera kosinn í prófkjöri. Ég hef verið á þinginu sem varamaður þennan tíma og reynt að standa mig þar líka. Það hefur sennilega ekki verið skynsamlegt, en það er bara minn stíll og engum öðrum um að kenna. Takk samt þið öll sem studduð mig, ég veit að slíkum stuðningi fylgir sú ábyrgð að nota hann til góðra verka.

Jamm.

Í sporum Ellerts? var spurt í SMS-i í gærkvöld þegar úrslitin lágu fyrir, og væntanlega átt við 5. sæti norður. Kannski, og út af fyrir sig er það heiður fyrir mig að standa í sporum þeirrar glæstu æskuhetju minnar af Melavellinum. Vonandi bara maður skori þá! En þetta er ekki bindandi kosning, og má vera að aðrir hafi meiri áhuga á 5. norður en ég.

Annars var þessi prófkjörstíð með köflum ágæt skemmtun, einkum karlakvöldið. Ég saknaði þess þó að kandidatarnir hefðu tækifæri til að tala saman fyrir framan kjósendur, jafnvel takast á. Sumir þeirra töluðu ekki hátt um afstöðu sína til atburða haustsins eða ríkisstjórnarinnar með Sjálfstæðisflokknum – og aðrir virðast komnir á þing til að gera þar það sem stjórnlagaþingið átti að annast! Það er svo eiginlega soldið fyndið í öllu kallinu eftir endurnýjun og annarri hugmyndafræði að hinir eiginlegu nýjungamenn og endurnýjunar í þessu prófkjöri voru einna helst jafnaldri minn Pétur Tyrfingsson og öldungurinn Jón Baldvin Hannibalsson – og fékk hvorugur verðugan stuðning.

Í stóra samhenginu skiptir þetta auðvitað ekki máli. Þar er það vinstristjórnin sem þarf að vinna kosningarnar og ráðast í verkin, og til þess eru S-listarnir tveir í Reykjavík nú tilbúnir.

Nokkra næstu daga verður yðar einlægur fjarri þeim vettvangi og bloggar ekki heldur gengur á skíðum í Noregi með gömlum félaga sem þar býr, Snævari Guðjónssyni, bróður Árna Péturs og Kjartans. Í ofanverðum Gubbrandsdal. Þetta er gamall draumur hjá okkur Snævari og löngu ákveðið einmitt núna þessa útmánuði, hvað sem kreppum líður, prófkjörum, landsfundum og kosningum. Hviss, hviss

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur