Einmitt núna – nokkrum dögum fyrir kosningar – í mesta hallæri síðari tíma – eru komnir tímar töfraformúlunnar í íslenskri pólitík.
Og sumir fá pening til að eyða …
Framsóknarflokkurinn reið auðvitað á vaðið – sjálfur galdrakarlaflokkurinn – með tuttugu prósentin sín. Nú er búið að setja þau upp í myndasögu sem er svo flókin að enginn skilur neitt í neinu – og það var auðvitað ætlunin því töfrabrögð væru lítils virði ef áhorfendur föttuðu alltaf hvernig töframaðurinn fer að.
Ég skil til dæmis aldrei hver á að borga – en eitt skildi ég samt loksins í myndasögunni: Þeir sem fá 20%-niðurfellingu og hafa ekkert við hana að gera – þeirra hlutverk er að gera hinum í samfélaginu mikinn greiða – með því að fara út í búð og kaupa sér fyrir allan peninginn. Þannig eignast þeir fleiri hluti og hagkerfið kemst af stað aftur og allir eru alsælir. Einfalt!
Ekkert vont hjá tannlækninum
Svo er Bjarni Ben líka kominn með töfrasprota: Við tölum við AGS og þeir redda okkur evru! Svona er það einfalt, og svo borar tannlæknirinn ekkert – það þarf allsekki að ganga í Evrópusambandið!
Hrekkjusvín í Fréttablaðinu eru að vísu að rifja upp að einmitt sami Bjarni hafi sagt í síðasta mánuði að hann telji að „í gjaldmiðilsmálum sé enginn valkostur við krónuna jafn sterkur og evran með ESB-aðild. Ég vil að við göngum hreint til verks í þessum málum og gerum upp á milli valkosta á næstu árum, en séum ekki að leika marga biðleiki.“ – En þetta var í mars! Laaaangt síðan. Og þá var ég ekki orðinn formaður …
Sjáiði ekki veisluna?
Þriðja töfraformúlan þessa daga er svo framin á samsýningu ýmissa stjórnmálamanna og -flokka: Helguvík! Tvö-, þrjú-, fimmþúsund störf! Og kostar ekkert. Eftir að þingið samþykkti fjárfestingarsamninginn eru jakkaklæddir bankamenn komnir af stað upp í flugvélarnar með 400 milljarða í leðurgljáandi stresstöskum: Sjáiði ekki veisluna?
Við eigum að vísu eftir að redda allri orkunni á Reykjanesskaga og Hellisheiði, línur, losunarheimildir, umhverfismat og sitthvað smáræði – og svo eru víst til talsverðar birgðir af ódýru áli í Kína og víðar. Það hlýtur að seljast einhverntímann. Og Helguvík kemur í veg fyrir sólarkísil og gagnaver – en var það ekki bara hálfgert plat hvorteð var?
2 + 2 = 4
Og við sem héldum að kosningarnar snerust um framtíðina – um endurreisn atvinnulífsins, sjávarútveg, nýsköpun, sprota, menningarfyrirtæki … – og um hag heimilanna, hvernig á að rétta hjálparhönd þeim sem verst eru staddir – meðal annars til að þeir noti sitt vit og hugkvæmni til að skapa störf.
Tja – við verðum bara að seiglast áfram gegnum töfrabrögðin og treysta því að fólk hugsi sjálft og leggi saman tvo og tvo: Vinna, velferð, evra og ESB, störf sem henta nýjum tímum án þess að skemma náttúruna, siðbót í landinu og umbætur í stjórnkerfinu.
Að tveir plús tveir eru Jóhanna.