Hvað eftir annað á síðustu misserum hafa sjúklingar lent í því að ekki fáist algeng nauðsynleg lyf sem hafa verið lengi á markaði. Þetta gerist yfirleitt án fyrirvara og oft er gripið í tómt þegar sjúklingur kemur og ætlar að leysa út lyfseðil í apótekinu. Oft er um að ræða lyf sem engin önnur lyf geta leyst af hólmi með góðu móti. Hverjar eru líklegustu skýringarnar og af hverju hefur þessi vandi verið að aukast svona mikið á sl. árum? Er það virkilega svo að hagnaðarvon í lyfjasölunni skiptir þarna höfuð máli? Söluhagnaður er oft minni af „gömlum og góðum“ lyfjum sem innflytjendur leggja oft lítinn kostnað í að liggja með á lager. Í sumum tilvikum hefur framleiðslu lyfjanna verið hætt tímabundið þar sem meiri gróði er í framleiðslu dýrari lyfja. Þetta á bæði við um lyf sem eru framleidd hér á landi og erlendis. Af þeim lyfjum sem ekki hafa fengist má meðal annars nefna nauðsynleg augnlyf, t.d. sem notuð eru eftir augnslys (hefur vantað sl.mánuði), nauðsynleg sýklalyf (nokkur vantar í dag), hjarta og blóðþrýstingslyf, bólgulyf, húðlyf og hormónalyf.
Kvartanir hafa borist Landlækni vegna ástandsins og varað hefur verið við hugsanlegum alvarlegum afleiðingum. Ábyrgðinni er vísað á Lyfjastofnun, framleiðendur og lyfjainnflytjendur. Getur verið að þessum aðilum sé ekki treystandi að tryggja að nauðsynleg lyf fáist ekki bara stundum heldur alltaf? Getur verið að betra sé að taka upp ríkisinnflutning á lyfjum og stofna aftur Lyfjaverslun Ríkisins til að sjá um innkaup og dreifingu nauðsynlegra lyfja í landinu?