Þunglyndi og kvíði fullorðinna hefur einnig verið mikið til umræðu eins og hjá börnum, ekki síst síðustu misseri tengt fjárhagsáhyggjum hverskonar. Oft er um að ræða tvær hliðar af sama vandamáli og þá stundum kallað kvíðaþunglyndi. Aðrir geta verið með afmarkaðri kvíðavandamál, t.d. fælni.
Fyrir utan þjóðfélagsleg úrræði sem nú er loks að glytta í hefur læknisfræðin upp á ýmislegt að bjóða. Tengt fjárhagsáhyggjum eingöngu koma lyf auðvitað síður að gagni. Ráðast þarf að rót vandans og gefa viðkomandi og jafnvel fjölskyldu stuðning og ráð. Áður hefur verið fjallað um hugræna atferlismeðferð (Cognitive and Behavioral Therapies) blogginu mínu sem eru þær aðferðir sem geðlæknisfræðin ásamt íhugun eða gjörhygli (mindfulness) leggur hvað mest upp úr samhliðahliða stuðningsviðtölum við lækna, sálfræðinga, félagsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga. Jafnvel stuðningur vina og vandamanna getur skipt sköpum. Aðal atriðið er að enginn þurfi að vera einn.
Velferðarþjóðfélagið verður að taka á þessum málum og allir í vanda eiga að eiga sér einhverja bandmenn. Þunglyndi hefur hingað til talið leggjast á allt að 20% manna á einhverju tímabili á lífsævinni. Lyf við þunglyndi (antidepressants) getur verið góður kostur þegar þunglyndi og oft kvíði áður hefur verið langvarandi eða ef einkennin eru alvarleg. Lyfjanotkun við þunglyndi er meira hér á landi en í nágranalöndunum og hefur svo verið um langt skeið. Heldur dregur þó saman með löndunum en margir hafa viljað meina að Íslendingar hafi verið á undan öðrum þjóðum að notfæra sér lyfin og er það vel. Á sl. ári hefur verð lækkað mikið á algengustu og ódýrustu þunglyndislyfjunum og eins hluti sjúklings sem ætti ekki að þurfa vera neinum ofviða. Á þeim tíma sem viðkomandi er á meðferð gefst oft betra ráðrúm til að byrja á að takast á við þunglyndið, en eitt af algengustu einkennum þunglyndis er einmitt framtaksleysi og vanmáttarkennd sem verður til að ógerðir hlutir hlaðast upp og virðast óyfirstíganlegir. Jafnvel að leita eftir hjálp er mörgum erfið skref, sérstaklega karlmönnum. Verstu afleiðingarnar eru síðan sjálfsvígin.
RÚV sýndi nýlega frábæra kandadíska mynd undir heitinu „With and Without You“ sem ég skora á Sjónvarpið að sýna aftur því mjög góð fræðsla kom þar fram um einkenni þunglyndis karla, m.a. í viðtölum við geðlækna og sálfræðinga svo og vini og vandamenn. Aðalatrið er að koma í veg fyrir slíka harmleiki og skilja sjúkdóminn betur sem að baki liggur. Sjúklingurinn er oft sokkin niður í djúpan vítahring og þarf mikla hjálp til að rífa sig upp. Þarna geta lyfin og stuðningur hjálpað og unnið gegn einkennunum eða þar til sjúklingurinn er farinn að vinna meira í sínum málum. Þá er hann líklegri til að fá varanlegri lækningu með sálfræðimeðferð til að byggja sig upp sálarlega og/eða með íhugun eða gjörhygli til að dýpka skilning á sjálfum sér og skapa meiri sálarró. Sumir eru þó móti lyfjunum og vilja meina að þau komi að takmörkuðu gagni en hinir eru miklu fleiri sem telja að þessi meðferð gagnist ágætlega, sérstaklega tímabundið fyrstu mánuðina/árið og aukaverkanir eru ekki miklar eða alvarlegar. Enginn sjúklingur með viðvarandi þunglyndi eða mikinn kvíða á að þurfa að fara á mis við að líða aðeins betur og það vel til að geta unnið betur í sínum, málum með hjálp annarra og varnalegri aðferða síðar.