Það er alveg ljóst að við Íslendingar vorum ílla lesnir í viðskiptafræðum og siðfræðinni og ætlum okkur um of úti í hinum stóra heimi. Eftirlitsstofnanir brugðust og almenningur nennti ekki að hugsa. Allt þetta kemur fram í „svörtu“ rannsóknarskýrslu Alþingis um íslenska efnahagsundrið og hrunið sem lögð var fram í dag. Sennilega hefur eitthvað vantað á grunnfræðin og siðfræðikennsluna hjá landanum sl. áratugi. Ýmsar góðar dæmisögur rifjast nú upp frá barnæsku (nánast gleymdar) en væri gott að rifja upp á þessum tímamótum í Íslandsögunni. Græðgi var hvöt sem aldrei talin vísa á neitt gott. „Sá aflar sem rær“ eða „þú uppskerð eins og þú sáir“ voru góðir íslenskir málshættir sem rétt væri að taka upp á nýtt. Það er aldrei of seint að byrja nýtt líf á „Nýja Íslandi“ en spurningin er bara, hvar á að byrja? Ég sting upp á að þjóðin öll byrji á því að rifja upp og lesi söguna af Litlu gulu hænunni og íhugi boðskapinn sem sú saga flutti og reyndar fleiri sögur í samnefndu lestrarhefti. Síðan væri ágætt að lesa Grímsævintýrin öll. Í endurupptökunni í framtíðinni (ef við fáum séns) tökum við þetta svo með trompi og stæl.