Mánudagur 26.04.2010 - 22:37 - FB ummæli ()

Að byrja á vitlausum enda

man-som-hatar-kvinnor-affisch2Sum mál er erfiðara að tala um en önnur.  Kynferðisglæpir eru því miður allt of algengir í okkar þjóðfélagi, ekki síst kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Tölur á Íslandi ná aðeins til um 10-20% allra barna og þá frekar stúlkna en drengja. Ofbeldið er greinilega svínslegt í allri sinni ómynd og nær ógerningur er að átta sig á umfangi sálarkvala sem öll þessi börn mega líða. Mörg barnanna eru sköðuð fyrir lífstíð og sjálfsmynd þeirra verður aldrei söm. Í helgarútgáfu Fréttablaðsins um helgina er aðeins gerð grein fyrir þessum vandamálum og þá meira sem viðkemur sterkara kyninu sem svo er nefnt. Íslensku tölurnar sem hafa verið birtar segja að 10% drengja verði fyrir kynferðislegri misnotkun af einhverju tagi. Ólíkt konum sem beina sálarkvölum sínum inn á við síðar á ævinni, meðal annars með sállíkamlegum einkennum, að þá eru karlarnir lokaðri og beina angist sinni og kvíða meira út á við í formi skapofsakasta og árásargini hverskonar. Margir þeirra geta aldrei tjáð sig og sagt frá reynslu sinni og kjósa oft frekar að taka eigið líf að lokum. Eins hefur oft verið bent á þann fjölda manna og kvenna sem leiðist út í óreglu með víni og öðrum sterkari vímugjöfum til að deyfa sálina. Sem jafnvel aldrei koma fram með líklegustu skýringuna á óheillabrautinni. Um er að ræða eitt stærsta og alvarlegasta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar, hvorki meira né minna. Í Kvennaathvarfið og til Stígamóta sækja þúsundir kvenna ár hvert. Vandmálið er þannig gríðarlegt, mun stærra og alvarlegra en sem hlýst af umferðarslysum og sennilega líkamlegum sjúkdómum samanlagt.

Oft hefur líka verið sagt að ekkert leyndarmál sé stærra meðal þjóða en feluleikurinn á bak við kynferðisofbeldi. Aldrei er jafn oft horft undan og er þá mikið sagt, t.d. eftir að Rannsóknarskýrsla Alþingis kom út og sýndi að víða mætti stinga á ýmsum kýlum í þjóðfélaginu. Griðastaðir eru fáir og jafnvel kirkjan hefur brugðist því sálargæsluhlutverki sem hún á að sinna. Lögin eru engu að síður afdráttarlaus. Allur vafi á að vera barninu í vil. Traustið á þjónustu hins opinbera vantar hins vegar, í og með vegna þess sem þar hefur fengið að viðgangast með undanskotum á málum um árabil, tvíræðum dómum og lagaflækjum sem mögum er ofviða að ganga í gegnum. Heilbrigðiskerfið hefur líka brugðist, í og með vegna þess að við leitum ekki svara við óspurðum spurningum svo sem þegar fólk streymir til okkar með sín sállíkamlegu einkenni eða óskýrðan kvíða og jafnvel þunglyndi.

Til að þessi mál séu rædd þarf góðan tíma og meira traust sem heilbrigðiskerfið ætti auðvitað að bjóða upp á meðal annars í heilsugæslunni. En því miður eins og á mörgum öðrum stöðum í heilbrigðiskerfinu, að þá ræður hausatalning meira en gæði þjónustunnar sem veitt er. En hvernig í ósköpunum getur þetta allt viðgengist í því menningarþjóðfélagi sem við eigum að tilheyra? Hvaða  þroska vantar í þjóðarsálina? Hefur hún sjálf verið beitt einhverskonar kúgun sem kemur síðan niður á næstu kynslóð, okkur og börnunum okkar? Sennilega eru margir þættir í okkar menningu sem eru meðvirkandi á vandann. Stærstu þættirnir í dag hafa samt líklega verið afneitun samfélagsins á umfangi vandans sem nú grillir vel íog vöntun á eðlilegri umfjöllun á kynferðismálum almennt.

Kirkjuleg sefjun hefur heldur ekki reynst sérstaklega vel gegnum aldirnar svo skýringanna þarf þá sennilega líka að leita lengra aftur. Siðfræðin, félagsfræðin og sálfræðin ásamt kynfræðinni sem fræðigrein ættu hins vegar að hjálpa okkur að taka á þessum málum. Börn gera það sem fyrir þeim er haft. Þannig er uppeldið. Fullorðnir móta alltaf kynslóðina á eftir. Hvað kynferðisofbeldi varðar, að þá þarf ástandið samt síst hafa verið mikið skárra hér á árum áður. Sennilega bara betur falið.

Ljótar sögur af barnaníðingum á barnaheimilum og dvalarstöðum fyrir börn, jafnvel sem minna máttu sín og voru varnarlaus frá því um miðja síðustu öld, segja sína sögu. Breiðavíkurdrengirnir ásamt mörgum öðrum sögðu þá sögu. En þá var kultúrinn annar og einfaldari en við þekkjum í dag segja sumir eða hvað? Varla mátti sjást í berbrjósta konu opinberlega eða í fjölmiðlum. Slíkt var kallað klám. Svo og nánast allar erótískar myndasögur. Blað var síðan brotið í menningarsögu okkar þegar ákveðnar myndir sem sýndu saklausar samfarir voru sýndar í bíó í gamansömum stíl (rúmstokksmyndirnar góðu). Síðan gerðist ekkert í nokkra áratugi eða þar til internetið kom. Sumt sem þar er að finna má eflaust kalla kynfræðslu, flest ekki. Þar eru ýmsir vefir sem notfæra sér hvatvísi manna og oft um leið mannlega eymd, mannsal og kynlífsþrælkun. Margir eru sammála að sú mynd gefur unglingum bjagaða mynd af eðlilegu sambandi karls og konu. Á sama tíma reyna yfirvöld að sýna siðgæðið sitt í verki með því að banna alfarið nektardans í lokuðum klúbbum fyrir fullorðið fólk. Og enþá má ekki sýna berbrjósta konu opinberlega og kynfræðslan er engin í grunn- eða framhaldsskólum landsins.  Ef til vill fær kynfræðslan samt smá séns í samfélagsfræðslunni og því sem kallað er lífsleikni, svona eins og var fyrir tæplega 50 árum þegar ein blaðsíða í heilsufræði fyrir grunnskóla (bls 82) var látin nægja (stundum sleppt). Ofbeldismyndir hverskonar eru þó leyfðar í kvikmyndhúsunum sem aldrei fyrr og taumlaust ofbeldi er gjarnan sýnt í sjónvarpinu með takmörkuðum aldurshöftum. Tölvuleikir koma þarna líka til og svo undrast menn ofbeldið í miðbænum um helgar.

Það skýtur óneytanlega skökku við að sjá auglýsingar nánast daglega að undanförnu þar sem lítil og að því er virðist saklaus börn fara með orðræðu sem fær mann til að roðna af blygðun. Að börnin séu látin koma fyrirvaralaust fram í sjónvarpi allra landsmanna að tala um að enginn megi leika sér af tippinu sínu eða pjöllunni sinni er eins og upphafið að sögu sem er ljót, óskiljanleg og fáránleg. Hún vekur upp fleiri spurningar og vangaveltur en hún getur svarað. Ég hef einnig spurt mig hvernig ung börnin geti skilið þessa auglýsingu. Samtökin Blátt áfram hafa vissulega vakið athygli á vandamálinu og sinna þessum málum örugglega af heilindum. Aðferðafræðin að ná athygli út í þjóðfélagið með auglýsingunum nú er hins vegar misráðin, yfirgengileg og síst til þess fallin að leysa vandann. Vandamálið er miklu umfangsmeira en svo að við getum höfðað beint til blygðunarkenndar og sakleysi barnanna. Við megum passa okkur að fara aldrei úr öskunni í eldinn. En vissulega má kveikja varðelda.

Umræðan um kynferðismál þarf vissulega að vera uppi á borðum. Og þörf er á almennri og reglulegri umfjöllun um kynferðismál i fjölmiðlum, eins og reyndar öll óleyst og stór samfélagsvandamál. En þau gerast að vísu ekki öllu stærri. Sýna það sem sýna má og kenna það í skólunum sem allir þurf að læra. Hvernig umgengst maður hitt kynið? Hvað er erótík? Hver er munurinn á því og klámi? Hvernig endist erótíkin og ást manns og konu út lífið? Hverjar eru grunnhvatir mannsins? Hvað er talið efla kynheilbrigði? Mörgum af þessum spurningum hefur Jóna Ingibjörg Jónsdóttir hjúkrunar-og kynfræðingur og sérfræðingur í klinískri kynfræði (NACS) reynt að svara í nýútgefinni bók sinni; Kynlíf-heilbrigði ást og erótík. Kynfræðingar eru þó hvergi ráðnir innan heilbrigðiskerfisins. Læknanemar og félag þeirra, Ástráður, hefur  reynt að halda uppi fræðslu um kynferðismál og forvarnir gegn kynsjúkdómum í sjálfboðavinnu. Umræðan á opinberum vettvangi litast hins vegar oft af hræsni og aðgerðarleysi. Heilbrigðisyfirvöld og stjórnsýslan öll þarf að taka upp hispurslausa umræðu um þessi mál og reyna að skilgreina rætur vandans sem felst í menningu okkar og uppeldi. Skilgreina þarf betur muninn á erótík og klámi gagnvert lögum. Stórelfa þar kynfræðslu í skólum. Heilbrigðisyfirvöld þurfa að bjóða upp á kynslífsráðgjöf eins og aðra heilbrigðisþjónustu. Boð, bönn og auglýsingar sem bjóða fyrst og fremst upp á að misbjóða blygðurkenndinni, leysa engan vanda. Þarna er byrjað á vitlausum enda.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn