Þriðjudagur 27.07.2010 - 13:30 - FB ummæli ()

Ábyrgir og góðir viðskiptahættir lyfjafyrirtækja

Enn og aftur erum við minnt á óeðlilegan lyfjaskort í landinu á ódýrum lyfjum sem framleiðendur annað hvort hætta framleiðslu á tímabundið til að koma dýrari lyfjum á markað eða einfaldlega vegna þess að framleiðslan skilar ekki nógu miklum arði. Skipir engu máli hvort lyfin teljist nauðsynleg á markaði eða ekki. Lyf í öllum lyfjaflokkum hafa þannig dottið út af markaði hér á landi á sl. misserum og oft engin önnur sambærileg fengist í staðin. Þetta á m.a. við um sýklalyf, hjartalyf, bólgueyðandi lyf, hormonalyf og augn- og eyrnalyf. Sum nauðsynleg lyf fást reyndar á undanþágu ef enginn vill hafa markaðsleyfið lengur t.d. augnsmyrslið Klóramphnicol sem er nauðsynlegt eftir öll augnslys, stór og smá að mati augnlækna. Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir skrifar í dag grein um efnið í Féttablaðið undir heitinu Sinadráttur og gróðafíkn. Áður hef ég bloggað um svipað efni hér á blogginu mínu m.a. í desember sl. http://blog.eyjan.is/vilhjalmurari/2009/12/10/lyfjaskorturinn-i-landinu/ og sem ég hef reyndar minnst á aftur síðar í öðrum bloggfærslum.

Mikill skjálfti var kominn í lyfjaframleiðendur erlendis gagnvart íslenska markaðnum í vor. Haft var eftir framkvæmdastjóra lyfjarisans Roche að íslenski örmarkaðurinn væri það lítill að hann skipti fyrirtækið ekki máli og það íhugaði að hætta sölu lyfja til landsins vegna óstöðugs lyfjaverðs á algengustu lyfjum. Sama hljóð kom frá framkvæmdastjóra Frumtaka, samtaka framleiðenda íslenskra frumlyfja vegna hugsanlegra nýskráninga á  lyfjum hér á landi og sem benti á að stjórnvöld hér á landi væru ekki tilbúin til að borga sambærilegt verð og fengist fyrir lyfin á hinum Norðurlöndunum.

Vandamálið í hnotskurn í dag er engu að síður að innflytjendur og framleiðendur hafa ekki tryggt að nauðsynleg lyf séu til á markaði hverju sinni og því síður sem þau eru ódýrari. Augljóst er að hagnaðarsjónarmið eru ofar þörfinni sem er látin víkja ef því er að skipta. Lyfjastofnun Íslands hefur lítið látið þessi mál til sín taka og treyst á markaðslögmálin, þrátt fyrir ábendingar meðal annars frá Landlæknisembættinu um alvarlega stöðu mála.  Stungið hefur því verið upp á að ríkið sjálft annist innflutning beint og milliliðalaust og endurveki þannig upp Lyfjaverslun Ríkisins. Um atvinnuskapandi atvinnurekstur gæti verið að ræða auk framleiðslu eins og tíðkaðist áður. Aðal atriðið er auðvitað að nauðsynleg lyf séu til á öllum tímum, ekki síst þau sem eldri eru og ódýrari. Nauðsynleg lyf á markaði er hluti af góðu heilbrigðiskerfi en reynslan af lyfjamarkaðnum nú vekur upp spurningar um traust á einkavæðingu og markaðsvæðingu þess kerfis.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn