Fimmtudagur 29.07.2010 - 08:57 - FB ummæli ()

í mýrinni

Ein besta sakamálasaga sem komið hefur út á Íslandi og sem reyndar hefur verið gefin út víða erlendis er án efa Mýrin eftir Arnald Indriðason. Kvikmyndin (Jar city) sem var gerð eftir bókinni er ekki síður frábær og drungalegar senur sem gerðust í Reykjavík við undirsöng angurværa söngradda Lögreglukórsins líða manni seint úr minni. Í dag vöðum við mýrina í höfuðborginni í öðrum skilningi, ýmist í ökkla eða eyra svo eftir er tekið víða langt út fyrir landsteinanna og sem efni er í annan reifara. Umræða um lyfjamálin í dag er gleggsta dæmið þar sem við ofnotum eða misnotum lyf eins og Ritalin, Lyrica og sýklalyfin eða höfum jafnvel alls ekki aðgang að ýmsum nauðsynlegum og sjálfsögðum lyfjum þegar við þurfum mest á þeim að halda vegna þess að þau fást ekki lengur og eru of ódýr. Það sem skýtur skökku við hér á landi samaborið við umræðuna um lyfjamál í þróunarlöndunum er að oftast eru það ódýrustu lyfin sem ekki fást á Íslandi, öfugt við þróunarlöndin.

Heilbrigðiskerfið er líka ýmist ofnotað á ýmsum stöðum eða ákveðin grunnþjónusta fæst ekki. Starfsemi heilsugæslunnar hefur verið hálf lömuð í sumar en nóg framboð er á sérfræðiþjónustu og vaktþjónustu sem er margfalt dýrari og meiri en þekkist í nágranalöndunum. Nú er jafnvel svo komið að ekki er lengur hægt að fara eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um lyfjanotkun sem miða við allt annað starfsumhverfi en heilbrigðisstarfsmönnum er boðið upp á, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Og þeir sem allra mest þurfa á grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, ekki sést bráðri þjónustu á daginn, verða að bíða eða fá hana ekki eins og t.d. langveikir og gamalmenni.

Eins og allt annað er oft erfitt að vita hvað er satt og hvað er logið. Umræðan í þjóðfélaginu öllu er með slíkum eindæmum að maður veit oft ekki hverju maður á að trúa. Það er í raun sama hvar komið er niður og ábyrga fjölmiðlaumræðu vantar ekki síst hjá ríkisfjölmiðlunum. Umræða um einkavæðinguna er oft snúið á haus og siðlaust er orðið löglegt áður en maður veit af. Dómstólar eru kvaddir til til að úrskurða um mál sem hingað til hefðu átt að höfða til almennrar skynssemi í upphafi eins og nýkveðinn Salómonsdómur í gengistryggðu lánamálunum ber glöggt með sér. Sanngirnina vantar og harkan og vægðarleysið allsráðandi. Allt eru þetta teikn um stjórnleysi og það sem alvarlegast er, skort á eðlilegri dómgreind í þjóðfélaginu. Verst er að horfa upp á klíkuskapinn tengt stjórnmálunum. Maður hefði haldið að sá tími væri liðinn og á meðan missum við frá okkur hæfasta fólkið til mikilvægustu starfanna.

Landið okkar sem kallað hefur verið land elds og ísa ber nafn með rentu þessa daganna. Spurningin er hins vegar sú hvort við brennum eða frjósum að lokum. Sem stendur sökkvum við hins vegar dýpra og dýpra í mýrina á sjálfu höfuðborgarsvæðinu. Ef við kunnum ekki að fara með forræðið verðum við að leita aðstoðar. Rauðu ljósin blikka víða eins og gerði fyrir hrun og allir litu undan. Lyfjamálin og slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustunni blikka ekkert síður en t.d. vandi heimilanna. Og mörg önnur mikilvæg mál brenna á okkur þessa góðu sumardaga þótt morguninn sé drungarlegur og þegar annars allir ættu að vera í góðu skapi og hlakka til helgarinnar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn