Í gærkvöldi fylgdist ég með gamalli margverðlaunaðri Hollywood mynd frá 1961, Morgunverður á Tiffany’s, Breakfast at Tiffany’s. Í besta artriðinu, í sjálfu partýinu, þar sem allir voru kominir í gott stuð og ég líka bilaði útsendingin sem svo oft áður hjá RÚV. Fyrst myndin, svo hljóðið og siðast textinn. Myndin hafði reyndar rúllað góðan tíma áður en útsendingarstjórinn vaknaði. AFSAKIÐ HLÉ. Stemmningin var farin þegar allt komst í lag eftir ca. 10 mín. Þá velti ég fyrir mér af hverju þetta gerist aldrei á hinum stöðvunum. Algengast er þó að mistök séu gerð í beinni útsendingu eins og t.d. í fréttatímunum. Vitlaus frétt eða tal eða texta vantar.
Reyndar var stórt hlé á fréttatengdu efni í sumar. Sennilega heilir 3 mánuðir. AFSAKIÐ HLÉ. Og það á sjálfri ríkisfréttastöðinni sem ég borga tæplega 18.000 kr á ári til og konan mín og dóttir sem býr heima annað eins. Og það fáa sem ég sækist eftir að horfa á er einmitt fréttir og fréttatengt efni.
Ég ætlaði samt ekki að æsa mig mikið yfir þessu því auðvitað verðum við að hafa einn ríkisfjölmiðil sem ég reyndar er farin að setja spurningu við hvort ekki nægir að hafa sem útvarpsstöð með möguleika á langbylgjuútsendingu. En það sem rak mig til að taka þetta efni upp á blogginu er önnur firring og hroki í þjóðfélaginu sem kennd er við þá sem allt þykjast vita í pólítíkinni og vilja ráða öllu og ég var rækilega minntur á í morgun með skammaræðu til allra bloggara. Sá hinn sami virðist ekki þola opinbera umræðu í netheimum og þá gagnrýni sem þar kemur fram sem dæmin sanna endurtekið að svo mikil þörf er á að sé til staðar í endurreisninni í okkar litla en litríka klíkuþjóðfélagi. Söguna þekkja allir. Það virðist vera í þeirra þágu að takmörkun á málfrelsi í óritskoðuðum fjölmiðli sé sem mest til að þeir haldi sjó.
Í morgun birti Tryggvi Þór Herbertsson blogg hér á Eyjunni sem hann kallar, Góða fólkið. Þar hæðist hann að þeim sem voga sér að koma fram með sínar eigin skoðanir í pólitíkinni og sem gagnrýna menn og málefni, að hans mati ómálefnalega. Góða fólkið nefnir hann bloggara sem hafi „óeðlilegan aðgang“ að fjölmiðlafrelsi til að koma þessum skoðunum sínum á framfæri í bloggfærslum. Það sem ég vildi sagt hafa um þetta er að sumir eru kóngar í föllnu ríki án þess að gera sér grein fyrir staðreyndunum og lifa í gamalli mýtu flokkræðis. Vá sé þeim sem voga sér að hafa aðrar skoðanir en þeir. Allir vita líka að Mogginn hleypir aðeins ákveðnum skoðunum að, með einum eða öðrum hætti. Sumar fréttir birtast aldrei eins og nýleg dæmi sanna t.d. um gagnrýnina sem átt hefur sér stað í lyfjamálum og lyfsölu. Þessum fjölmiðli og ákveðnum mönnum hugnast best þögnin í ákveðnum sérhagsmunamálum en sem skipta þjóðina miklu máli og þurfa ekki að afsaka sig sem þó RÚV gerir þegar beinar útsendingar eiga í hlut og þögnin er alsráðandi.
Þökk sé bloggheimum að einhver umræða á sér stað í mikilvægum þjóðfélagsmálum og a.m.k. þakka ég fyrir mig og þær upplýsingar sem ég hef fengið til að glöggva mig þar aðeins á stöðu mála. Ég vil líka taka fram að ég er ekki einn af þessum vinsælum bloggurum og góða fólki sem Tryggvi nefnir enda fæ ég sjaldan athugasemdir og hef ekki séð ástæðu til að loka fyrir þær á blogginu mínu.